Skip to main content
25. janúar 2018

Áhrif samfélagsmiðla og hlutverk foreldra

thSamfélagsmiðlar eins og Facebook, Twitter, Instagram og Snapchat er frábær vettvangur fyrir ungmenni og einstaklinga til að tjá skoðanir sínar, hafa samskipti við vini og ættingja eða tengjast einstaklingum sem deila sömu áhugamálum. Samfélagsmiðlar eru sífellt að verða vinsælli en tæplega tveir milljarðar mannkyns notar samfélagsmiðla reglulega (Meshi, Tamir og Heekeren, 2015).

Samkvæmt rannsókn Meshi, Tamir og Heekeren (2015) eru tvær megin ástæður fyrir vinsældum samfélagsmiðla, þær eru að einstaklingar líta á samfélagsmiðla sem tækifæri til að hafa samskipti við aðra auk þess að gefa tækifæri til að stjórna því hvernig viðhorf annarra sé til þeirra.

Samfélagsmiðlar eru orðnir það vinsælir í Bandaríkjunum að þeir eru orðnir algengasta leiðin í félagslegum samskiptum hjá unglingum (McBride, 2011). Notkun samfélagsmiðla á Íslandi er einnig mikil en samkvæmt rannsókn sem Gallup gerði árið 2015, kom fram að 89% Íslendinga nota Facebook, 46% Íslendinga nota Snapchat, 31% Íslendinga nota Instagram og 16% Íslendinga nota Twitter („89 prósent Íslendinga nota Facebook“, 2015).

Stór hluti af samskiptum ungmenna í dag eiga sér stað í gegnum netið, og þá sérstaklega á samfélagsmiðlum. Aukin notkun samfélagsmiðla hefur leitt til neteineltis sem lýsir sér þannig að einstaklingur eða einstaklingar reyna vísvitandi að særa annan einstakling í gegnum interneti. Neteinelti getur haft fjölmargar birtingarmyndir, til dæmis hafa verið stofnaðir haturshópar á Facebook sem beinast þá að tilteknum einstakling, myndir birtar sem eru særandi fyrir einstaklinginn,niðrandi myndum deilt á netinu eða á tiltekinn hóp og einnig eru dæmi um að einstaklingum sé eytt út úr hóp eða hópsamræðum (Hood og Duffy, 2017). Vitað er að það skiptir ungt fólk miklu máli að njóta álits innan jafningjahópsins og að fá félagslegt samþykki frá jafningjahópnum og hefur í tengslum við það myndast umræða um líðan ungmenna á tækniöld (e. digital age) (Koutamanis, Vossen og Valkenburg, 2015).

Meðal þess sem Facebook býður upp á er að senda og fá vinabeiðnir og að líka við myndir eða pósta sem aðrir hafa sett inn. Við það að fá „like“ eða vinabeiðni á Facebook er líklegt að örvun myndist á ákveðnum svæðum í heila einstaklings sem lætur einstaklinga vilja vera áfram á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum þar sem möguleiki er á því að fá jákvæð viðbrögð frá samfélaginu (Meshi o.fl., 2015). Rannsókn Anthony Burrow og Nicolette Rainone (2017) sýndi fram á að þeir einstaklingar sem fá fleiri „like“ á myndina eða póstinn sem hann eða hún setti á vegginn sinn finna í meira mæli fyrir auknu sjálfstrausti heldur en þeir einstaklingar sem fá færri „like“.

Ein stærsta samantektin á notkun samfélagsmiðla og áhrif þess á sjálfsmynd ungmenna var gerð af Best, Manktelow og Taylor (2014) þar sem tekið var saman og rýnt í 43 rannsóknir sem fjölluðu um þetta viðfangsefni. Niðurstöður í þessum 43 rannsóknum voru margvíslegar og sýndu bæði jákvæð og neikvæð áhrif á líðan ungmenna. Jákvæð áhrif samfélagsmiðla voru meðal annars aukið sjálfstraust, aukin félagsfærni, aukinn félagslegur stuðningur og auðveldara aðgengi til þess að tjá skoðanir sínar og tilfinningar. Neikvæð áhrif samfélagsmiðla geta meðal annars verið félagsleg einangrun, þunglyndi og auðveldara aðgengi að neteinelti (Best o.fl., 2014). Fundist hefur fylgni milli þess að vera mikið á Facebook og þunglyndi, rannsókn með 100 þátttakendum sýndi fram á að þeir sem væru á Facebook hefðu tilhneigingu til þess að bera sig saman við aðra sem jók þunglyndiseinkennin

Til þess að draga úr líkum á því að samfélagsmiðlar hafi neikvæð áhrif á sjálfsmynd ungmenna eru nokkrar leiðir færar fyrir foreldra. Það eitt að tala við ungmennið um einelti, vinsældir, þunglyndi, félagskvíða og kynþroska getur haft mikil áhrif, einnig er mikilvægt fyrir foreldra að vita hvað ungmennið er að gera á netinu og hvaða samskipti eiga sér þar stað, án þess þó að njósna um netferðir ungmennisins. Frekar á að ræða saman í rólegheitum og mynda traust þar sem ungmennið hefur rétt á og getur hagnast á því að hafa smá næði (e. privacy) (Miller, 2011).

Samfélagsmiðlar eru komnir til að vera og eiga líklega eftir að verða enn stærri hluti af lífi fólks á komandi árum. Fólk þarf að vera vakandi fyrir því hvað sett er á internetið, um leið og það er sett á netið þá er það komið til að vera. Eins og hér hefur verið bent á þá er margt jákvætt sem hlotist getur af samfélagsmiðlum, til að mynda getur fólk búið til „gervi aðgang“ til að fá svör við spurningum sem mikilvægt er að fá svar við en viðkomandi hefur ekki kjark í að spyrja sína nánustu. Einnig er margt neikvætt og þá ekki síst neteineltið. Það er ekki langt síðan samfélagsmiðlar urðu svona vinsælir, því er mikilvægt að fræða alla, bæði foreldra og ungmenni um hættur samfélagsmiðla og internetsins í heild.

Mikilvægt er að foreldrar séu í góðu sambandi við börnin sín og geti rætt við þau um hættur samfélagsmiðla. Einstaklingar verða að muna að orð geta sært og þá skiptir ekki máli hvort viðkomandi segir orðin í persónu eða með skilaboðum á Facebook eða öðrum samfélagsmiðlum. Þegar fólk sendir myndir sín á milli í gegnum Snapchat verður einstaklingurinn að passa sig á því að móttakandinn sé einhver sem hann eða hún treystir fyrir viðeigandi mynd þar sem að auðvelt er að taka skjáskot og láta myndina í dreifingu og um leið og það gerist er myndin eða myndbandið komið til að vera.

Höfundur Þorgeir Dalmar Ragnarsson nemandi við Háskólann í Reykjavík

heimildir:

89 prósent Íslendinga nota Facebook. (2015, 29. maí). DV . Sótt 13. september 2017 af http://www.dv.is/frettir/2015/5/30/89-prosent- islendinga-nota-facebook/
Best, P., Manktelow, R. og Taylor, B. (2014). Online communication, social media and adolescent wellbeing: A systematic narrative review. Children and Youth Services Review , 41 , 27–36. doi:10.1016/j.childyouth.2014.03.001
Burrow, A. L. og Rainone, N. (2017). How many likes did I get?: Purpose moderates links between positive social media feedback and self- esteem. Journal of Experimental Social Psychology , 69 (Supplement C), 232–236. doi:10.1016/j.jesp.2016.09.005
Hood, M. og Duffy, A. L. (2017). Understanding the relationship between cyber-victimisation and cyber-bullying on Social Network Sites: The role of moderating factors. Personality and Individual Differences . doi:10.1016/j.paid.2017.04.004
Koutamanis, M., Vossen, H. G. M. og Valkenburg, P. M. (2015). Adolescents’ comments in social media: Why do adolescents receive negative feedback and who is most at risk? Computers in Human Behavior , 53 (Supplement C), 486–494. doi:10.1016/j.chb.2015.07.016
McBride, D. L. (2011). Risks and Benefits of Social Media for Children and Adolescents. Journal of Pediatric Nursing , 26 (5), 498–499. doi:10.1016/j.pedn.2011.05.001
Meshi, D., Tamir, D. I. og Heekeren, H. R. (2015). The Emerging Neuroscience of Social Media. Trends in Cognitive Sciences , 19 (12), 771–782. doi:10.1016/j.tics.2015.09.004
Miller, M. C. (2011). [Commentary on] Safe use of social media: Guidance for parents. Harvard Mental Health Letter , 27 (12), 8–8. Annotations

Skoðað: 2934 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála