Skip to main content
6. desember 2018

Vilja uppræta staðalímyndir í UT

Ada newAda

Ada, hagsmunafélag kvenna í upplýsingatækni við Háskóla Íslands var stofnað þann 11. september síðastliðinn og er þetta í fyrsta sinn sem slíkt félag hefur verið starfrækt fyrir konur í upplýsingatæknitengdu námi í skólanum. Nafn félagsins er dregið af stærðfræðingnum Ada Lovelace sem skrifaði það sem kalla má fyrsta forritið og er því oft sögð vera fyrsti forritarinn.

 

Markmið félagsins er að búa til vettvang fyrir konur í upplýsingatækni innan skólans og þannig styrkja stöðu þeirra. Þetta vill félagið gera með því að skapa öruggt umhverfi fyrir konur í náminu til þess að mynda tengsl, deila reynslu og styðja við bakið á hvor annarri. Ásamt því að styðja við núverandi nemendur vill Ada einnig reyna að ná til og fræða tilvonandi nemendur og stuðla að sýnileika kvenfyrirmynda innan upplýsingatæknigeirans.

Félagið telur mjög mikilvægt auka aðsókn kvenna í námið sem og að minnka brottfall þeirra úr náminu, en þess má geta að árið 2017 voru konur 28% af skráðum nemendum í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði en árið 2018 eru þær 25% af nýnemum innan þessara faga.

Þessum markmiðum hyggst Ada ná með því að kynna starfsemi sína á fjölbreyttan hátt ásamt því að halda viðburði, bæði fyrir félagskonur sínar sem og opna viðburði. Dæmi um innri viðburði Ada eru lærdómskvöld þar sem félagskonur geta lært saman og hjálpast að við verkefni, en slíkur stuðningur getur verið nauðsynlegur til að komast í gegnum námið. Einnig hefur Ada staðið fyrir fyrirtækjaheimsóknum sem eru í svipuðum sniðum og vísindaferðir nemendafélaganna. Áherslan er þó meira á það að kynnast starfsemi fyrirtækisins á áþreifanlegri hátt, með því að fá til dæmis að vita hvað hinn almenni forritari eða tæknimaður í fyrirtækinu gerir á sínum vinnudegi í stað fyrirlesturs um fyrirtækið almennt. Þannig geta félagskonur fengið að kynnast því sem framtíð þeirra ber mögulega í skauti sér.

Opnir viðburðir Ada eru ætlaðir öllum bæði innan sem utan upplýsingatækni samfélagsins. Tilgangur þeirra er að fræða og stofna til umræðu um stöðu kvenna í upplýsingatækni, en það er mikilvægur liður í því að uppræta staðalímyndir um þá sem starfa í geiranum. Allir opnir viðburðir Ada verða auglýstir á facebook síðu félagsins.

Þegar litið er til framtíðar dreymir Ada um að á einhverjum tímapunkti verði ekki lengur þörf fyrir félagið. Þá verði staðalímyndir upprættar, störf kvenna metin til jafns á við störf karla og aðsókn þeirra í námið jafnmikil.

Allir nemendur á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands geta tekið þátt í starfi Ada þó svo að flestar félagskonur séu nemendur í tölvunarfræði eða hugbúnaðarverkfræði. Innri viðburðir félagsins eru ætlaðir konum í náminu.

Skoðað: 1518 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála