Skip to main content
28. febrúar 2019

Áhrif gervigreindar á störf í framtíðinni

JohannÞegar fólk heyrir orðið gervigreind hugsa margir um einhverskonar ofurklár vélmenni í fjarlægri framtíð sem munu á endanum taka yfir heiminn. Gervigreind leynist hinsvegar allt í kringum okkur í dag og hefur meiri áhrif á okkar daglega líf en margan grunar. Tæki eins og Alexa frá Amazon nota flókin reiknirit til að læra hegðun fólks.

Margar spurningar vakna þegar um framtíð gervigreindar er rætt. Þá einna helst hver áhrifin á atvinnulífið munu koma til með að vera. Það er mjög erfitt að spá nákvæmlega fram í tímann en eitt er víst að gervigreind mun hafa víðtæk áhrif á heiminn og sjálfvirkni verður mun meira áberandi en áður fyrr. Þetta er þó alls ekki í fyrsta skiptið í sögunni sem fólk lýsir yfir áhyggjum vegna tækniframfara. Vefarar voru stétt sem höfðu miklar áhyggjur af því að gufuvélin myndi eyðileggja starfsferil þeirra. Þeir gengu jafnvel svo langt að eyðileggja vélar í massavís í mótmælaskyni. Þegar tölvur byrjuðu svo að birtast á skrifstofum sagði þáverandi forseti Bandaríkjanna, John. F. Kennedy að ein stærsta áskorun sjöunda áratugarins væri að halda fólki á atvinnumarkaðinum þar sem sjálfvirkni væri að koma í stað fólks. Á hinn bóginn hefur sagan sýnt að miklar tækniframfarir og sjálfvirkni véla hefur í raun skapað fleiri störf heldur en fjarlægt. Svo vefararnir séu aftur nefndir þá breyttist hlutverk þeirra eftir að vélar tóku yfir framleiðsluna. Í stað þess að þeir ófu sjálfir þá höfðu þeir umsjón með vélunum og sáu til þess að allt gengi smurt fyrir sig. Sem gerði það að verkum að magnið sem þeir gátu framleitt margfaldaðist og stéttin fjórfaldaðist. Hraðbankar eru annað dæmi um þetta, en þeir tóku mörg af hversdagsverkum gjaldkera sem olli því að gjaldkerum fækkaði töluvert. En á móti þá lækkaði kostnaður við að halda uppi útibúum og mun fleiri útibú spruttu upp á sama tíma þannig að starfsmönnum í raun fjölgaði [1].

Það er þó til fjöldi manna sem halda því fram að í þetta skiptið verði hlutunum öðruvísi háttað og er margt sem styður þá kenningu. T.d tóku skiptin úr landbúnaði yfir í iðnað marga áratugi en að innleiða hugbúnað í tekur töluvert styttri tíma. Eiginlega allar starfstéttir í dag notast við tölvur en áður voru margar stéttir sem fundu ekki fyrir áhrifum sjálfvirkni véla. Þar að auki er ekkert öruggt að fortíðin sé góður spámaður um framtíðina. Því gæti reynst hættulegt að sofna á verðinum og halda að allt muni reddast. 

Það verður líka að taka með í reikninginn hvers eðlis störfin eru sem gætu myndast. Störf sem munu krefjast menntunar mun fjölga þar sem hugbúnaðurinn mun ennþá þurfa viðhald og umsjón. Líklega munu störfum sem krefjast minni menntunar hinsvegar fækka. Sem þýðir að þeir sem sinna þeim störfum í dag gætu þurft meiri menntun og af öðrum toga heldur en þau hafa í dag.  Kaldur raunveruleiki þar sem margir eru atvinnulausir vegna skorts á hæfni gæti orðið að veruleika [2]. 

Það er hinsvegar hægt að undirbúa sig fyrir aukna sjálfvirkni í atvinnulífinu. En það er þó vandmeðfarið. Betri menntun fyrir bókara þýðir lítið, þar sem allt bendir til þess að sú starfstétt verði ekki til í framtíðinni. Raunvísindi verða eftirsóttustu greinarnar en það þurfa þó ekki allir að vera forritarar. Tæknilæsi mun reynast mjög mikilvægt og þurfa starfsmenn að geta skilið hvað fer fram í hugbúnaðinum. Samskiptahæfileikar og að eiga auðvelt með að vinna í hóp mun nýtast mjög vel ásamt því að búa yfir sköpunargáfum. Fyrirtæki munu einnig leggja áherslu á gagnrýna hugsun og hæfileikann til að leysa vandamál á skilvirkan hátt.

Það er þörf á því að endurskipuleggja menntakerfið til þess að geta undirbúið starfskraft framtíðarinnar á sem bestan hátt. Ýta þarf undir áhuga á greinar sem munu nýtast sem best í framtíðinni og kenna heiminn eins og hann mun verða en ekki eins og hann var. Raungreinar verða lykillinn ásamt því að kenna frjóa og gagnrýna hugsun. Leggja þarf áherslu á að lærdómur hættir ekki með útskrift úr skóla enda er heimurinn síbreytilegur og tækninýjungar eru sífellt að skjótast fram á sjónarsviðið.

Það er líklegt að bilið milli fátækra og ríkra mun aukast til muna. Metnaðarfullt og gáfað fólk mun verða ríkara en nokkru fyrr og fjöldi atvinnulausra mun aukast. Það er vandamál sem yfirvöld munu þurfa að takast á við. Borgaralaun er hugmynd sem sumir hafa velt fyrir sér en þá fá allir borgarar lágmarksframfærslu frá ríkinu. Einnig væri hægt að takmarka vinnustundir en þannig gætu fleiri starfsmenn unnið í þeim störfum sem til væru fyrir. Sum störf eru líka kannski betur fallin til þess að manneskjur starfi við þau. Þar má helst nefna hjúkrunarstörf sem væru heldur ópersónuleg ef að gervigreindarvélmenni myndu sinna þeim. Aftur á móti er ekkert víst að þessar aðgerðir munu virka sem skyldi en yfirvöld muni þurfa að hafa aukna sjálfvirkni í huga í náinni framtíð [3].

Gervigreind mun skapa fullt af tækifærum fyrir bæði fyrirtæki og einstaklinga og líklega mun mannkynið aðlagast þessum tækniframförum. Störf sem eru hættuleg mönnum munu fækka eða jafnvel hverfa. Velmegun í þróuðum ríkjum mun líka aukast og manneskjan mun öðlast meiri frítíma. Það verður þó nauðsynlegt að grípa til einhverra aðgerða til að sporna við atvinnuleysi þeirra sem ekki eru hátt menntaðir. Mikilvægast verður þó að við sofnum ekki á verðinum og sitjum hjá aðgerðarlaus. 

Höfundur: Jóhann Helgi Gunnarsson

Heimildir:

[1] Michael Morgenstern “Automation and Anxiety, Will smarter machines cause mass unemployment” 25. June. 2018, [Online]. Available: https://www.economist.com/news/special-report/21700758-will-smarter-machines-causemass-unemployment-automation-and-anxiety Accessed: 19. September 2018.

[2] Callum McClelland “The Impact of Artificial Intelligence – Widespread Job Losses” 31. December 2016, [Online]. Available: https://www.iotforall.com/impact-of-artificial-intelligence-job-losses/ Accessed: 19. September 2018.

[3] Gerlind Wisskirchen o.fl “Artificial Intelligence and Robotics and Their Impact on the Workplace” IBA Global Employment Institute, April 2017

Skoðað: 1412 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála