Skip to main content
7. mars 2019

Verður atvinnuleysi vandamál vegna aukinnar sjálfsafgreiðslu og sjálfvirknivæðingar?

Snæbjörn Ingi IngólfssonÞegar ég skrifa þessa grein í 30.000 feta hæð á leiðinni til Kaupmannahafnar með aðstoð Johnnie frænda og humlaðra frænda hans, verður mér hugsað til ferðlaga hér áður fyrr, hvernig við ferðumst núna og hvernig við munum ferðast í framtíðinni. Hér áður fyrr þegar fólk ferðaðist, komu margar hendur að ferðalaginu frá þeim þjónustuveitendum sem hlut áttu að máli. Pöntun ferðarinnar var í gegnum söluaðila ferðaskrifstofu eða flugfélagsins, með góðum fyrirvara alla jafna, annaðhvort símleiðis eða með viðkomu á söluskrifstofuna. Þegar ferðagögnin voru klár tók oftar en ekki við bið eftir ferðalaginu. Þegar að ferðalaginu kom var farið í bankann og talað við gjaldkera og gjaldeyrir keyptur eða ferðatékkar. Þá var farið á flugvöllinn og þar beið maður í röð við innritunarborðin og spenningurinn óx jafnt og þétt og fólk kynntist þeim sem voru næstir í röðinni og forvitnuðust hvert ferðinni væri heitið. Ef fólk lenti á spjalli við ferðavana einstaklinga gat það fengið „tips and tricks“, varðandi hvað ætti að gera og hvað ekki á áfangastað. Öll þjónusta á flugvellinum var vel mönnuð og gekk vel fyrir sig.

Í dag er það jafnvel skyndihugmynd að skreppa til kóngsins Köbenhavn. Maður fer á netið og kaupir sér miða þar sem hagstæðast er að kaupa hann hverju sinni. Daginn fyrir flug tékkar maður sig inn í símanum eða tölvunni, velur sér sæti og pantar þá þjónustu sem maður óskar eftir í fluginu, allt til að einfalda og flýta fyrir. Enginn spáir í gjaldeyri, annað hvort tekur maður hann á flugvellinum í hraðbanka eða treystir á að greiðslukortin virki á áfangastað. Ef farangur er meðferðis er í mörgum tilfellum hægt að tékka hann inn fyrir fram og þá þarf bara að skila honum af sér á sjálfsafgreiðsluböndum eða innritunarborðum. Maður fer í gegnum vopnaleit sem er hugsanlega eina skiptið í dag sem maður spjallar við einhvern starfsmann þjónustuveitandans. Á þessu stutta ferðalagi mínu sem ég er í þegar þessi orð eru skrifuð, var það raunin. Starfsmaður í vopnaleit var fyrsti einstaklingurinn sem ég hitti vegna þessa ferðalags og eini starfsmaður flugstöðvarinnar sem ég átti í samskiptum við. Ekki einu sinni við brottfararhliðið þurfti að taka upp vegabréf eða sýna brottfararspjald. Það var skannað í „kiosk“  (sjálfsafgreiðsluvél), ein af mörgum á flugvellinum. Út um allt á flugvöllum má sjá margskonar „kioska“ sem gegna mismunandi hlutverkum. Enginn spáir í „tips and tricks“ lengur því maður er búinn að fá allar upplýsingar á Tripadvisor.

Allt snýst þetta um að veita betri og skjótari þjónustu, með minni tilkostnaði. Þetta er ekki eins persónulegt og skemmtilegt og var áður fyrr, rómantíkin við ferðalagið svolítið farin en er maður endilega að leita að því? Það fer að sjálfsögðu eftir eðli ferðlagsins.

Þessi litli samanburður á ferðamáta í dag og áður fyrr og munurinn þar á er eitthvað sem við erum að sjá meira og meira af í þjónustu. Stór hluti þjónustustarfa á eftir að taka stakkaskiptum á næstu árum. Við erum að upplifa stórkostlega umbreytingartíma. Talið er að á næstu 20-30 árum eigum við eftir að sjá meiri tækniframfarir en við höfum séð síðastliðin 200-300 ár. Það er alveg magnað þegar maður hugsar til þess að síðustu 200-300 ár voru ekki minni tækniframfarir en bíllinn, flugvélin, ljósaperan, rafmagnið, síminn, Internetið og fleira. Hvernig í ósköpun má þetta vera? Það sem við erum nefnilega að fara að sjá er að allir þessir þættir sem ég taldi upp voru bara forsmekkurinn að því sem koma skal. Eða bara góðar undirstöður. Tökum bílinn sem dæmi. Hve mikið hefur bíllinn þróast? Bíllinn er bara yfirbyggð hestakerra þar sem settur var mótor í stað hesta, öðrum sætisbekknum snúið við og hann fylltur af þægindum. Bíllinn þarf meira að segja enn ekil. Síðan hafa litlar breytingar orðið. Nú fyrst eru að verða alvöru breytingar á bílnum, rafmagnsbílar eru loksins að ná flugi og með því koma enn frekari framfarir. Undirritaður fór eitt sinn á sýningu á safni í Washington sem var tileinkuð bílnum. Þar var magnað hvað margir framleiðendur voru á fullu upp úr 1900 að þróa rafmagnsbíla, t.d. var fyrsti Porche bíllinn rafmagnsbíll. Hvað varð um þessa þróun? Hvar værum við stödd ef þessi þróun hefði haldið áfram, ef hagsmunaaðilar í olíuframleiðslu hefðu ekki haft svona mikil áhrif? Á einhverjum tímapunkti spáðu menn því að við yrðum farin að gera tilraunir með sjálfkeyrandi bíla í kringum 2025 en við erum á þeim stað í dag og við erum að gera meira en tilraunir. Við erum komin 5-7 ár á undan spám manna. Það er styttra en við gerum okkur í hugarlund í að ekillinn hverfi á braut.

Eins og áður sagði erum við að upplifa stórkostlega tíma. Í því samhengi verður mér hugsað til afa míns og ömmu í Mývatnssveitinni, en árið 1930 stukku þau inn í nútímann á einu ári. Fluttu úr torfbæ í steinhús, með rafmagn og síma. Skömmu síðar kom fyrsta dráttarvélin á bæinn. Ég hef oft hugsað: „mun ég einhvern tíma upplifa svona miklar breytingar?“. Lengi vel hugsaði ég með mér að það væri ekki í kortunum, en ég er ekki viss lengur. Mögulega gerast ekki stökkbreytingar í mínu lífi á einu ári. En ég er viss um að á mínu æviskeiði mun ég upplifa ótrúlegar breytingar.

Talið er að fjórða iðnbyltingin muni hafa áhrif á um 80% starfa í heiminum. Það er ekki lítið. En hvað mun breytast?

Störf munu hverfa, ný störf verða til og önnur störf mun breytast til muna. En er það ekki eitthvað sem er þekkt í sögunni? Hvar eru vekjararnir, íssagararnir, prentararnir og fleiri? Þetta eru dæmi um störf sem eru ekki til í dag, sem voru til fyrir ekki svo löngu síðan.  

Fjórða iðnbyltingin mun snúast um það að tengja saman ferla, tækni og gögn til að auka sjálfvirkni og sjálfsafgreiðslu til muna.

Fyrir fyrirtæki snýst þetta allt um að auka tekjur, lækka kostnað, fækka mistökum, auka þjónustu en ekki endilega bæta, það þarf hver að eiga við sig í hvoru er meiri ávinningur. Hjá neytandanum snýst þetta um að fá hraðari þjónustu, vera óháður föstum opnunartíma og geta afgreitt sig á sínum tíma. Þá eru það einnig væntingar neytenda að fá lægra vöruverð en það er ekki sjálfgefið.

Sjálfvirkni og sjálfsafgreiðsla munu eyða margskonar afgreiðslustörfum á næstu árum. Talið er að t.d.  gjaldkerar banka hverfi, eins búðarkassastörf verslana, sölufólk í ferðaþjónustu og svo mætti lengi telja. Það eru nefnilega handan við hornið magnaðar breytingar.

Í dag notum við fullt af sjálfsafgreiðslulausnum. Hver hefur ekki notað hraðbanka, eða verslað á netinu? Sagt er að hraðbankar séu eitt af fyrstu IoT tækjunum. Hraðbankar eru í stöðugri þróun, einu sinni var bara hægt að taka út pening í hraðbanka, nú er hægt að leggja inn, millifæra, greiða reikning o.fl. Hraðbankar koma í stað gjaldkera. Þegar við kaupum ferðalag á Internetinu erum við að gera störf sölumanns ferðaskrifstofunnar óþörf. Amazon gerir tilraunir með ómannaða verslun. Öll fyrirtæki eru að gera tilraunir með sjálfsafgreiðslu af einhverju tagi.

Svartsýnisraddir hafa talað um að tæknin eigi eftir að gera manninn óþarfan og við eigum bara eftir að sitja með tærnar upp í loft og þiggja borgaralaun. En ég hef sjálfur engar áhyggjur af því. Tæknin skapar líka störf. Sagan segir að tæknin skapi betri og áhugaverðari störf og betur borguð. Við vitum jafnvel ekki hvað komandi kynslóðir mun fást við, því mörg af störfum framtíðar eru ekki enn til.

Mannkynið er að eldast, eldra fólk þarf umönnun og þar verða störf væntanlega áfram en breytt. Það verður enn þörf fyrir kennara en breyttar forsendur verða í störfum. Það er nefnilega alveg magnað að á síðustu 50-60 árum hefur mannkynið tvöfaldast á jörðinni, eitthvað hefur það skapað atvinnu. Mannkynninu mun halda áfram að fjölga sem skapar enn fleiri störf, bæði breytt og ný.

Maðurinn verður því alls ekki óþarfur í framtíðinni, við verðum bara að passa upp á að skapa okkur okkar eigin tækifæri. Þá verður næg vinna fyrir alla.

Ferðalag framtíðarinnar verður vonandi eitthvað á þessa leið: „Beam me up Scottie“!

Höfundur: Snæbjörn Ingi Ingólfsson, viðskiptastjóri hjá Origo

Skoðað: 1503 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála