Skip to main content
21. mars 2019

Ekki láta plata þig í viðskiptum á netinu

Olafur KristjánssonNetverslun er ein af þeim framförum sem fylgt hefur upplýsingatækniþróuninni síðastliðin ár og sú þróun er og mun verða örari á næstu misserum.   Þróunin er að breyta kauphegðun neytenda og stór hluti nútíma heimila nýtir sér viðskipti á netinu vikulega eða oftar. Þá er gott að skoða hina hliðina á teningnum sem snýr að áhættuþættinum.  Í auknum mæli berast fréttir af viðskiptaháttum á netinu þar sem viðskiptavinir eru plataðir, t.d. með því að versla vöru eða þjónustu sem ekki er svo afhent eða innt af hendi.  Algengar skýringar eru að um tafir sé að ræða þangað til að á endanum neytandinn tekur eftir að vefverslunin hefur verið lögð niður og hann stendur uppi með sárt ennið.  

Húsráðin

Til eru nokkur húsráð sem hægt er að hafa í huga í netviðskiptum eins og að kaupa ekki vöru eða þjónustu ef verðið er lygilega lágt eða ef lofað er að viðskiptin geri þig ríkan.  Jafnframt eru til hjálparsíður eins og https://www.scamadviser.com/  sem gefa netverslunum einkunn varðandi heiðarleika í viðskiptum.  Það eina sem þarf að gera er að afrita vefsíðuna sem neytandinn er í vafa um og líma í leitarformið á „scam adviser“. Niðurstöðurnar eru myndrænar og sýna nokkuð ýtarlega hvað það er við vefsíðuna sem möguleg áhætta stafi af.  Mikilvægt er þó að hafa í huga að skori netverslunin ekki alveg 100% í trausti þá er ekki þar með sagt að hún sé slæm en gott er að miða við að forðast síður sem skora 50% eða lægra.

Þekktar netverslanir sem skora lágt

Þekktar netverslanir eins og https://www.aliexpress.com, https://www.ebay.com/  og  https://www.amazon.com skora til að mynda ekki 100% þó svo að við vitum að þessir vefir eru nokkuð öruggir. Þegar undirritaður skoðaði t.d. https://www.aliexpress.com þá fékk vefurinn 84% traust með athugasemd um að mögulega séu ekki allir söluaðilar innan síðunnar nægilega traustir en meldingin var: „Beware - some fake sellers“. Á Scam adviser má einnig finna flokk sem kallast „risk sites“ og þar er að finna lista yfir nýjustu síðurnar sem ekki er ráðlagt að versla við. Netverslun sem ber að varast er t.d. https://shopsmartlystore.com/ og þar má m.a. finna vörur með lygilega lágum verðum og útlit netverslunarinnar lítur nokkuð vel út með einfalt og þægilegt viðmót.  Eina markmið slíkrar netverslunar er að komast yfir kreditkortanúmer hjá grunlausum viðskiptavinum.

Tryggingar

Sumar netverslanir hafa mjög áberandi öryggisvottanir á síðunum hjá sér sem geta verið heimatilbúnar, blekkja neytandann og því ber að varast að treysta slíkum merkingum nema um þekktar vottanir sé um að ræða.  Flestir Íslendingar þekkja Ali Express sem er ein stærsta netverslun í heimi og það sem gerir Ali svona stóra er að þar inni er gríðarlega mikið magn mismunandi söluaðila sem eru að selja úr vöruhúsum Ali Express út um allan heim.  Þar sem eigendur Ali eru meðvitaðir um áhættur sem fylgja mismunandi söluaðilum þá bjóða þeir upp á kaupvernd vara „Buyer Protection“ til þessa að stemma stigu við kaupáhættu neytenda.  Þessi vernd tryggir það að kaupandi sem ekki fær senda vöru eftir skilgreindan tíma er tryggður fyrir því og kaupin verða þá endurgreidd.  Ebay er líka með samskonar kerfi og þar á bæ er það kallað „money back guarantee“.

Lykilatriðið er því að vera meðvituð um þær hættur sem leynast í viðskiptum á netinu, versla hjá þekktum aðilum sem leggja metnað sinn í að stuðla að öryggi viðskipta og nýta þau tól og tæki sem sem í boði eru til að meta áhættuna.

Höfundur: Ólafur Kristjánsson hjá Netkynningu

Skoðað: 103 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála