Skip to main content
19. október 2019

Tæknin tekur á glæpum

beggiTæknin hefur ekki látið neina kima samfélagsins ósnerta og spilar mikilvægt hlutverk í lífi hvers og eins í dag. Glæpir hafa tekið breytingum með tilkomu tækninnar og eru oft af allt öðrum toga en glæpir voru fyrir tilkomu netsins. Það segir sig því sjálft að lögreglan og þeir sem berjast gegn glæpum daglega þurfa að aðlagast breyttum tíma og beita nýjum aðferðum til að hafa hendur í hári glæpamanna. Lögregluembætti víðs vegar um heiminn hafa látið þróa hugbúnað til að takast á við ógnir sem steðja að samfélögum ásamt því að aðlaga tækni sem aðrir nota til að hjálpa sér við lögreglustörf. Þar sem bæði glæpamenn og lögreglan geta nýtt sér tæknina sem hefur orðið til er mikilvægt fyrir lögregluna að elta nýjustu strauma og vera einu skrefi á undan þeim sem eru að reyna að fremja glæpina. Þó er það svo að lögregluembætti séu mis langt komin þegar kemur að því að nýta sér tæknina.

Lögreglan nýtir almenna tækni

Þegar talað er um tækni sem lögreglan notast við hugsa eflaust margir um eitthvað sem þeir hafa séð í myndum og almenningur komist ekki í snertingu við. Mikið af tækninni sem lögregluembætti nota kannast fólk þó við eins og til að mynda dróna. Drónar eru notaðir í alls konar tilgangi og má þar nefna aðstæður sem ekki eru taldar álitlegar fyrir manneskjur að nálgast. Hægt er að láta drónana kanna sprengjur og dularfullar pakkningar án þess að lögreglumenn setji sig í lífshættu. Þeir geta einnig verið nýttir til að ná myndum af stóru svæði og þannig hjálpað lögreglunni að fylgjast með einhverju ákveðnu svæði, en það er til að mynda þekkt í heiminum að drónar séu notaðir þegar um er að ræða skotárasir og lögreglan þarf að fá betri mynd af aðstæðum.

Samfélagsmiðlar eru svo annað tól sem lögregluembætti nota í auknum mæli. Með þeim getur lögregla lýst eftir manneskju eða tekið við mikilvægum vísbendingum frá fólki sem hefur orðið vart við eitthvað grunsamlegt. Einnig notar lögreglan samfélagsmiðla til að auka gegnsæi og traust almennings á þeirra störfum. Margar lögreglusíður á Facebook sýna brot úr störfum lögreglunnar en dæmi um það er Facebook síða Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu. Þar má finna efni allt frá gríni til tilkynninga um eftirlýst fólk.

Annað sem spilar mikilvægt hlutverk hjá lögregluembættum er GPS tæknin. Flestir kannast við að hafa verið í bíl þar sem GPS er notað og sumir geta ekki lifað án þess í umferðinni. Það sama á við um lögregluna en tæknin hjálpar henni að finna öruggustu og hröðustu leiðina að útkalli, sem sparar mikinn tíma og fyrirhöfn. Það er ótrúlegt að hugsa sér hvernig þetta fór fram fyrir tíma GPS en það reynist oft mjög erfitt, án hjálpar, að rata á einhvern tiltekinn stað. Burt séð frá því að GPS hjálpi lögreglunni að finna staðsetningar, er þetta einnig tækni sem er nýtt til gagnaöflunar fyrir lögregluembætti. Með þessum gögnum er oft hægt að finna mjög nytsamlegar upplýsingar, eins og aukningu á glæpatíðni á einhverju tilteknu svæði eða fjölgun slysa. Þannig verður til gott tækifæri að vakta þessa staði betur og með því koma í veg fyrir hugsanleg áföll í framtíðinni.

Nýsmíði hjá lögregluembættum

Lögregluembætti víðsvegar um heim stunda einnig nýsmíði en gott dæmi um lögregluembætti sem leggur mikið upp úr hugbúnaði er NYPD (New York Police Department). Í samvinnu við Microsoft bjó embættið til kerfi sem er kallað DAS (Domain Awareness System). Kerfið gerir lögreglunni kleift að fylgjast með þúsundum af eftirlitsmyndavélum, ásamt því að skanna númeraplötur á bílum og fylgjast með hryðjuverkaógnum. Kerfið er gríðarlega umfangsmikið og er virkt alla daga ársins. Öllum myndbrotum af fólki er þó eytt eftir 30 daga nema einhverjir rannsóknarhagsmunir eru til staðar. Tæknin var fyrst og fremst hugsuð sem mótsvar við hryðjuverkaógn en hefur núna þróast út í að vera almennt öryggisnet fyrir hvers kyns glæpum. Kerfið hefur hlotið mikið lof og margar borgir hafa viljað aðlagað það að sínum þörfum. Þetta er líka talið hafa aukinn sparnað í för með sér fyrir New York borg. Þó hefur þetta kerfi einnig mátt þola gagnrýni fólks sem hefur áhyggjur af persónufrelsi og vöktun.

Lögregluembætti eru líka farin að vinna með tækni sem myndgreinir fólk og ber myndir saman við myndi  sem til eru í gagnagrunni af fólk sem lögreglan hefur haft afskipti af. Þssi tækni getur gert lögreglunni kleift að hafa uppi á afbrotamönnum. Eitt slíkt dæmi er frá Kína, en þar tókst lögreglunni að hafa uppi á manni sem var grunaður um efnahagsbrot. Það merkilega var að þeim tókst að nýta myndgreiningartækni á 60 þúsund manna tónleikum til að hafa uppi á manninum. Eðlilega brá honum í brún þegar hann var að skemmta sér og lögreglan mætti og handtók hann. Kína er með virkt myndavélakerfi sem er gríðarlega umfangsmikið og mikið af myndavélunum er með andlitsgreiningartækni.

Að lokum má nefna tækni sem mörg lögregluembætti nota og kallast ALPR (Automated License Plate Readers). Tæknin sér um að skanna númeraplötur á sjálfvirkan hátt. Þessar myndavélar eru oft staðsettar á þjóðvegum eða á þakinu á lögreglubílum og skanna allar númeraplötur sem sjást og skrásetja hvenær og hvar myndin var tekin. Myndirnar eru svo sendar á miðlægan stað fyrir lögregluna að vinna úr. Þessi tækni hefur margsinnis hjálpað við að koma upp um alls kyns þjófnað og gert lögreglunni kleift að hreyfa sig hratt og grípa inn í aðstæður.

Höfundur: Guðberg Sumarliðason, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir:

“Social Media Has Become a Critical Part of Law Enforcement | National Police Foundation.” Accessed September 19, 2019. https://www.policefoundation.org/social-media-has-become-a-critical-part-of-law-enforcement/.

Roufa, Timothy. “Learn How Today’s Technology Will Transform Tomorrow’s Police.” The Balance Careers. Accessed September 19, 2019. https://www.thebalancecareers.com/technologies-that-are-changing-the-way-police-do-business-974549.

Náðu glæpamanni með andlitsgreiningartækni.” Accessed September 19, 2019. https://www.mbl.is/frettir/taekni/2018/04/13/nadu_glaepamanni_med_andlitsgreiningartaekni/

“Police Drones / UAVs for Law Enforcement.” Accessed September 19, 2019. https://www.dronefly.com/police-drone-infographic.

“Automated License Plate Readers (ALPRs).” Electronic Frontier Foundation, August 28, 2017. https://www.eff.org/pages/automated-license-plate-readers-alpr.

Skoðað: 975 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála