Skip to main content
5. mars 2020

Samfélagsmiðlar: böl eða blessun? Áhrif samfélagsmiðla á unglings stúlkur

myndNotkun og umfang samfélagsmiðla hefur aukist til muna síðastliðin ár og spila þeir orðið stóran hluta af daglegu lífi ungra einstaklinga sem og þeim eldri. Það gefur auga leið að samfélagmiðlar eiga orðið mikinn þátt í mótun sjálfsmyndar unglinga í dag. Misjafnar skoðanir um málefnið hafa litið dagsins ljós, bæði jákvæðar og neikvæðar, enn verður þó að segjast að neikvæðu raddirnar hafa verið áberandi. Í þessari grein verður fjallað um áhrif samfélagsmiðla á unglings stúlkur.

Samfélagsmiðlar

Þeir samfélagsmiðlar sem eru hvað vinsælastir á Íslandi í dag eru: Instagram, Snapchat, Twitter og Facebook. Á öllum þessum miðlum getur notandinn búið til aðgang þar sem hann ræður hvort aðgangurinn sé opinn almenningi eða einungis þeim sem notandinn samþykkir. Þeir eiga það allir sameiginlegt að hægt er að eiga samskipti við aðra einstaklinga óháð staðsetningu þeirra í heiminum og má segja að hver samfélagsmiðill hafi sinn tilgang, hvort sem það er að deila myndum, myndskeiðum eða vangaveltum um daginn og veginn.

Áhrif samfélagsmiðla á andlega líðan

Unglingsárin eiga eins og áður sagði mikinn þátt í að móta einstaklinginn og er því einstaklega viðkvæmur aldur. Samkvæmt rannsókninni Ungt fólk frá árinu 2018 má sjá að kvíða- og þunglyndiseinkenni hafa stigmagnast á árunum 1997-2018 hjá krökkum í 8.-10.bekk grunnskóla, þá sérstaklega frá árinu 2009. Það sem athyglisvert er að unglingsstúlkur sína mun meiri einkenni enn strákar, að sama skapi eyða þær jafnframt meiri tíma á samfélagsmiðlum enn þeir (Rannsókn og greining, 2018). Hvers vegna er það?

Getur það verið að stöðugur samanburður við glansmyndir jafnaldra sinna hafi þessi áhrif? Fleiri rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að stúlkur eru mun líklegri til þess að upplifa líkamsímynd sína á neikvæðan hátt heldur enn strákar. Efni sem sett er á samfélagsmiðla þar sem mikið fer fyrir innihaldi tengt þyngdartapi og mat getur haft skaðleg áhrif á líkamsímynd stúlkna. Slíkt efni getur jafnvel leitt til öfgakenndra leiða til þess að reyna að ná svipuðum árangri fram sem á endanum getur leitt til átröskunar sjúkdóma. Samkvæmt rannsókn voru Kanadískar stelpur, sem eyddu meira enn 2 klst. á dag á samfélagsmiðlinum Facebook, mun líklegri til þess að upplifa óánægju með líkamsþyngd, finnast þær vera í yfirþyngd og reyna að létta sig frekar enn þær sem eyddu engum eða mjög litlum tíma á miðlinum (Dumas og Desroches, 2019).

Staðalímyndir

Sjálfstraust ungra stúlkna hefur farið dvínandi með komu samfélagsmiðla og má sjá marktækan mun á sjálfstrausti og andlegum einkennum á borð við þunglyndi og kvíða (Rannsókn og greining, 2018). Glansmyndir eru áberandi á samfélagsmiðlum, enn þar birtast ungum stelpum stöðugt myndir af grannvöxnum, fallega máluðum og vel klæddum jafnöldrum sínum. Það sem ekki sést á myndinni er það að mikill tími hefur farið í það að velja ,,réttu myndina” og margar, ef ekki flestar þessara mynda hafa verið lagfærðar. Til þess eru til mörg forrit sem hjálpa til við það. Þessi forrit gera notandanum kleyft að breyta andlits- og líkamsbyggingu, fjarlægja bólur, bauga og svona mætti lengi telja. Það er því nokkuð ljóst að þessar myndir gefa ekki rétta mynd af einstaklingnum sem setur myndina inn enn staðreyndin er sú að við þessa glansmynd eru ungar stúlkur að bera sig saman við. Það gefur auga leið að stöðugur samanburður við óraunhæfar glansmyndir, sem segja í raun ekki nema hálfa söguna, getur haft kvíðavaldandi áhrif ásamt því að sjálfsmyndin veikist fyrir vikið.

Like: ánægja eða vanlíðan?

Helsti tilgangur samfélagsmiðla er að deila þar efni, hvort sem það eru myndir eða eitthvað annað og þar með fá viðbrögð frá þeim sem fylgja aðgangi notandans. Viðbrögð geta verið á ýmsum formum, til að mynda er hægt að deila efninu áfram, skrifa athugasemdir og líka við eða ,,læka” myndirnar sem einstaklingurinn setur inn. Rannsóknir hafa sýnt fram á að það hversu mörg læk einstaklingar fá á efnið sitt getur haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra. Þegar einstaklingar fá mikil jákvæð viðbrögð, eða með öðrum orðum mörg læk, á það að auka sjálfstraustið þar sem endurgjöfin táknar viðurkenningu frá öðrum (Burrow og Rainone, 2017). Að sama skapi ef einstaklingur fær ekki þau viðbrögð sem hann bjóst við getur það haft slæm áhrif á sjálfsmyndina og jafnvel leitt til þess að hann ákveður að eyða út myndinni þar sem hún fékk ekki nógu mörg læk.

Samfélagsmiðillinn Instagram tók nýverið upp á því að prófa að fela fjölda læka fyrir fylgjendum aðganga í Ástralíu og fleiri löndum. Tilgangurinn með því er að fólk einbeiti sér að því að deila efni með vinum og vandamönnum og sé minna spá í þeim fjölda læka sem það fær á myndirnar sínar. Sá sem á aðganginn getur enn séð fjölda læka en þeir sem honum fylgja sjá ekki hversu mörg læk myndin fékk. Eigendur Instagram vonast til að þessi breyting minnki pressuna sem notendur virðast finna fyrir áður enn þeir ákveða að deila mynd og verður spennandi að sjá langtíma áhrif þessarar breytingar.

Áhrifavaldar

Áhrifavaldar hafa verið mikið í umræðunni upp á síðkastið, bæði sem jákvæð umræða og neikvæð. En þegar talað erum um áhrifavalda þá er yfirleitt talað um þá sem einstaklinga og fyrirmyndir sem eru vel sýnilegir á samfélagsmiðlum. Auðvelt er fyrir unglingsstúlkur að detta í þá gryfju að bera sig saman við það sem þær sjá á netinu. Glansmyndirnar sem fyrirmyndirnar setja inn eru ekki að sýna allan sannleikann eins og talað er um hér á undan.

Nú hefur verið mikil vitundarvakning í sambandi við þetta viðfangsefni. Margir áhrifavaldar eru byrjaðir að sýna meira frá hversdagsleikanum og tala meira um andlega líðan. Selena Gomez er gott dæmi um áhrifavald sem hefur sagt sína skoðun um málefnið á samfélagsmiðlinum Instagram. Hún var á sínum tíma með flesta fylgjendur á Instagram en eyddi síðan öllum að óvörum samfélagsmiðlinum vegna andlegrar heilsu sinnar. Selena sagði að henni þætti ekki þess virði að hætta andlegri heilsu sinni fyrir Instagram, þar sem mikið af notendum væru að koma með neikvæðar og niðrandi athugasemdir sem hún var byrjuð að taka mjög nærri sér. Það er því nokkuð ljóst að hvort sem þú ert unglingsstúlka á Íslandi eða heimsfræg söngkona út í heimi þá eru samfélagsmiðlar að hafa gífurleg áhrif á þig.

Neteinelti

Með tilkomu internetsins og auknu aðgengi að samfélagsmiðlum hefur nýtt form af einelti litið dagsins ljós. Neteinelti fer fram á hinum ýmsu samfélagsmiðlum og er aðgangur að þolandanum mjög greiður. Særandi orð og niðurlægingar í garð þolanda er einfaldlega hægt að senda í gegnum snjallforrit og erfitt er fyrir þolandann fá frið fyrir slíku áreiti. Sá sem ákveður að skrifa niðrandi athugasemdir í garð annarra þarf aðeins að hafa aðgang að því snjallforriti þar sem eineltið fer fram og þá getur hann skrifað allt það sem honum listir, allan sólarhringinn. Mjög auðveldlega er hægt að fela nafn sitt svo erfitt er að vita hver á í hlut. Það gefur því auga leið að áreitið er stanslaust en ekki staðbundið líkt og ef það ætti sér einungis stað á skólatíma. Einelti getur leitt til gríðarlegrar vanlíðan, kvíða og þunglyndis hjá þolendum og haft mikil áhrif á mótun sjálfsmyndar unglinga. Því er mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir neteineltið en það virðist vera þrautinni þyngra að koma í veg fyrir slíkt. Erfitt getur reynst fyrir foreldra og forráðamenn að komast að neteineltinu þar sem það getur verið mjög falið og oftar en ekki erfitt að eiga við.

Að lokum

Það er nokkuð ljóst að samfélagsmiðlar geta haft neikvæð áhrif á ungar stúlkur þó svo að það sé í sjálfu sér ekki hægt að alhæfa neitt um það. Aukinn kvíði hjá ungu fólki í nútíma samfélagi er verulegt áhyggjuefni og þarf að bregðast við þessu vandamáli á einn hátt eða annan og hlúa vel að unga fólkinu okkar. Kynslóð ungs fólks í dag er að takast á við vandamál sem fyrri kynslóðir þurftu ekki að glíma við og er að mati greinarhöfunda ekkert nema eðlilegt að það taki tíma að aðlagast og læra lifa með þeim miklu tækniframförum sem hafa orðið.

Aftur á móti er tæknin og allt sem henni fylgir komin til að vera og verðum við sem samfélag að aðlagast henni jafn hratt og hún breytist því henni á aðeins eftir að fleyta hraðar fram. Tækninni fylgir meira jákvætt enn neikvætt, svo mikið er víst, þó svo að þessi grein sýni meira fram á hinar neikvæðu hliðar. Mikil vitundarvakning hefur orðið um neikvæð áhrif samfélagsmiðla á sjálfsmynd ungra stúlkna að undanförnu og vonandi verður það til þess að draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem rædd voru hér að ofan. Það er okkar ósk að í nákominni framtíð noti ungar stúlkur samfélagsmiðla til þess að bæta og styrkja sjálfs- og líkamsímynd sína og njóti líðandi stundar frekar enn að hafa áhyggjur af hlutum sem í stóra samhenginu skipta eftir allt saman litlu sem engu máli.

Höfundar: Berglind Ólafsdóttir og Linda Lárusdóttir 

Heimildaskrá

Burrow, A.L. og Rainone, N. (2017). How many likes did I get?: Purpose moderates links between positive social media feedback and self-esteem. Journal of Experimental Social Psychology , 69 (1): 232-236. doi: https://doi.org/10.1016/j.jesp.2016.09.005

Dumas, A. og Desroches, S. (2019). Women´s Use of Social Media: What Is the Evidence About Their Impact on Weight Management and Body Image?. Current Obesity Reports, 8 (1): 18-32. doi: 10.1007/s13679-019-0324-4

Rannsókn og greining. (2018). Skýrsla ICSRA um: Ungt fólk 2018 Lýðheilsa ungs fólks í Reykjavík, Niðurstöður rannsóknar meðal nemenda í 8., 9. og 10. bekk árið 2018. Sótt 19.09.2019 af https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/reykjavik_heild_loka.pdf

Skoðað: 3789 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála