Skip to main content
28. ágúst 2020

Fjarskipti á hamfaratímum

myndÞað er ekki bara COVID sem getur haft margvísleg áhrif á lífði í landinu, slæmt veður með sterkum vindi, snjókomu, ísingu og seltu getur sett strik í reikninginn eins og gerðist nokkru sinnum síðasta vetur. Hér verða teknir saman punktar úr fjarráðstefnu Ský 26. ágúst, Fjarskipti á hamfaratímum, þar sem fjallað var um þann vanda sem upp kom í fjarskiptum síðasta vetur og hvernig hefur verið brugðist við. Elmar Freyr Torfason frá Mílu stýrði fundinum með sóma, sem stjórn faghóps Ský um fjarskipti skipulagði.

 Fyrsta erindið nefndist Neyðar- og öryggisfjarskipti í hættuástandi sem Magnús Hauksson, rekstrarstjóri neyðarlínunnar, 112, hélt. Innhringingum í 112 fjölgar þegar verður versnar sem kallar á fleiri á vakt og er áberandi að nær allir nota farsíma til að hafa samband og því skiptir farsímakerfið miklu máli fyrir öryggi almennings. Neyðarlínan rekur Bjargir, sem heldur utan um alla viðbragðsaðila sem eru flestir boðaðir með SMS og er því treyst á farsímakerfið sem þarf að virka. Váboð til íbúa eru einnig send út í gegnum Neyðarlínuna í kerfinu Kóðanum (The Code) í farsíma og treyst á að farsímakerfið virki.

Tetrakerfið hefur verið í umsjá 112 frá 2005 og notað af viðbragðsaðilum sem öryggiskerfi og auðvitað þurfa allir þættir kerfisins að virka. Í desemberveðrinu 2019 bilaði ekkert hjá Tetra en langvarandi rafmagnaleysið tók á og var reynt að nota færanlegar rafstöðvar þar sem það var hægt. En einhver truflum varð á Tetra sendunum (30 af 200) eftir 24 tíma rafmangsleysi. Í febrúarveðrinu 2020 urðu 18 sendar fyrir truflunum og skemmdir á þrem sendum og einu loftneti. 

Magnús ræddi svo um úrbæturnar sem ráðist var í, varaaflstöðvar voru settar upp á 35 staði, fleiri tenglar settir upp fyrir færanlega stöðvar, rafstöðvar stækkaðar, bætt var við stoðveitum (rafgeymum) og fleiri staðir voru ljósleiðavæddir (10).

En þá má spyrja: Hvar ber ábyrgð? Hver ber kostnað? Ríkið brást við og tók þátt í kostnaði við að laga búnað á 80 stöðum í sumar. Neyðarlínan heldur utan um verkefnið en fjarskiptafélög taka þátt. Verið er að tryggja samband með varaafli þannig að farsími, Tetra, vaktstöð siglinga og útvarp virki fyrir alla á landinu sama hvernig viðrar.

Næst kom Halldór Guðmundsson frá Mílu með erindið Undirlag fjarskipta og öryggi þess. Hann byrjaði á að rifja upp erindi sitt Fjarskiptaþjónusta framtíðarinnar þarf traustan grunn fyrir 4 árum en það vakti enga sérstaka athygli á þeim tíma því allir töldu sitt vera í góðu lagi. En var það rétt? Nei, það reyndis ekki svo. Það urðu truflanir í óveðrinu síðasta vetur því fjarskiptaþjónusta er háð rafmagni. Fæstir eru með nægilegt aukarafmang fyrir langvarandi rafmangsleysi og er það sérstaklega bagalegt fyrir margskonar starfsemi en einnig fyrir heimili. Óveðrin í vetur leiddu í ljós hvað þjóðfélagið er háð rafmangi til að geta nýtt sér fjarskiptaþjónustu.

Eftir á er alltaf auðvelt að spyrja; Af hverju, af hverju ekki, hefði ekki átt að o.s.frv.

Margir veikleikar komu í ljós í vetur, sumir þekktir en ekki allir. Styrkja þarf rafkerfið með varaafli og meta rofþol. Samstarf þarf milli almannavarna, fjarskipta- og orkufyrirtækja og annarra aðila sem bæði byggja upp kerfið og nýta það. Í vetur var samvinnan góð og virkaði vel, það lögðust allir á eitt til að bjarga og bæta.

Gerð var áætlun um að bæta vararafstöðva um allt land, en sérstakleg fyrir norðan. En við hvað á að miða þegar ákveðið er hvar á að auka búnað? Ekki er búið að tryggja alfarið reksturinn þó vararafstöð sé komin á staðinn, það þarf t.d. aðgang að eldsneyti. Margt annað þarf að bæta, jafnvel annars staðar á landinu og einnig innviði kerfisins. Nú á að nýta farsímakerfi sem öryggistæki til að senda skilboð til almennings í náttúruvá, en er búið að skilgreina farsímakerfi sem öryggistæki fyrir almenning og hver ber ábyrgð á rekstrinum?

Halldór ræddi um skýjalausnir og þar skiptir örugg tenging miklu máli bæði innanlands og við önnur lönd þar sem skýin eru staðsett og varaleiðir þurfa að vera til staðar.  Viðgerð á sæstreng tekur vikur, ekki klukkutíma og þeir koma allir nema einn að landi á suðvesturhorninu, á virku eldfjallasvæði. Hvað gerist ef þeir rofna?

Við erum mjög háð fjarskiptum og það virðist vera að aukast. Allt þarf að virka alltaf. En það er ekki raunveruleikinn. Margt hægt að gera, margt einfalt, til að bæta stöðuna en allt kostar. Mun það borga sig fyrir fjarskiptafyrirtækin að kosta úrbætur, þau fá engar auk greiðslur frá notendum við það að auka öryggið. Hver vill borga? Hver á að borga? Hver ber ábyrgð?

Í lokin nefndi Halldór COVID faraldurinn og hvernig öll heimavinna og -nám sem landsmenn þurftu allt í einu að tileinka sér í mars byggir á tryggum fjarskiptum. Margt fleira má telja upp eins og gagnver og viðskipti. Að lokum vitna ég í orð hans: Á að vera samkeppni um öryggi almennings eða er samvinna fjarskiptafyrirtækja kannski betri leið?

Helga Jóhannsdóttir frá Rarik var síðust í pontu með fyrirlesturinn Rafmagn skiptir s.s. máli í nútíma samfélagi. Hún byrjaði að benda á að eftir því sem við erum háðar rafmangi því minna hugsum við um það, það er bara sjálfsagt að hafa rafmagn. Umræðan jókst við óveðrið í vetur þegar fólk og fyrirtæki fengu ekki rafmagn, jafnvel í langan tíma.

Unnið hefur verið að því lengi að koma öllu flutningskerfinu í jörð og stefnt að klára það á næsta áratug en í dag er 65% þess komið í jörð. Það kom vel í ljós í vetur að línur í jörð draga mikið úr skemmdum vegna veðurs því eins og allir vita þá eru það brotnir staurar sem valda mikilli truflun. Rarik er auðvitað með varaflsvélar en þróunin verður líklega að þær verði færanlegri.

Fyrirtækið undirbjó sig vel undir óveðrið í desember, sett var upp neyðarstjórn sem vann til 22. desember. En það var margt sem gaf sig vegna vinds, ísingar og seltu og urðu miklar og alvarlega skemmdir á flutningskerfinu. Slæm færð og veður gerði viðgerðarflokkum erfitt með að athafna sig.  Um 140 staurar brotnuðu, um 30 slár gáfu sig og línur slitnuðu. Góð samvinna var við Landsnet við bilanarakningu og viðbrögð við þeim. Truflunin kostaði um 260 miljónir. Síðan kom slæmt veður aftur 7.-10. jan. og aftur 14. febrúar og þá urðu truflanir en mun minna álag en í desember og síðan varð rafmangsleysi í mars og apríl vegna veðurs, eins og áður er það vindur, ísing, snjór og selta sem veldur skaða.

Rarik er háð fjarskiptum eins og aðrir, háð því að kerfið sé í lagi því bilun í því tefur viðgerðir þar sem ekki er hægt að fjarstýra lagfæringum. Rarik notar bæði Teter og farsímakerfið en ef ekkert virkar þá þarf að keyra á milli staða til að laga. Þetta gekk að mestu vel, en þó ekki alltaf. Alvarlegast var samband við Hrútatungu, það tók 8 stundir að komast á staðinn sem tekur venjulega um 30 mín. Í Fljótunum virkaði Tetra kerfið ekki, en þar var netsamband svo hægt var að nota tölvupóst.

Gott samstarf við fjarskiptafyrirtæki skiptir miklu máli og auðveldar viðbrögð og tryggir öryggi. Það sýndi sig í vondum veðrum síðasta vetur. Í vor fór síðan mikil vinna í að undirbúa framkvæmdir ársins, bætt var við verkefnum til að bregðast við veðrum og reynt að undirbúa sig vel fyrir næsta vetur og næstu veður.

Ásrún Matthíasdóttir tók þessa punkta saman eftir að hafa hlustað á fyrirlestrana og byggjast þeir á skilningi hennar á efninu.

Skoðað: 780 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála