Skip to main content
17. september 2020

Að hlaða niður, eða ekki hlaða niður,  þarna er efinn

asta gisladottirÞegar internetið var farið að ná almennri fótfestu um aldamótin síðustu stukku fjárfestar til sem vildu reyna að græða á öllum þeim nýjungum sem poppuðu upp. En það ástand varði ekki lengi því peningarnir skiluðu sér ekki til baka og bólan sprakk. Það voru auðvitað margir þættir sem orsökuðu það en einn var sá að fólk var ekki tilbúið að borga fyrir hluti á netinu. Bæði var sú vara sem var í boði ekki það spennandi og svo var fólk fljótt að átta sig á að ef þú þurftir alltaf að borga yrði heildarsumman fljótt ansi stór. Það var líka af nógu að taka og lítið mál að finna eitthvað annað spennandi og ókeypis þegar seilst var í budduna. Notendur voru búnir að borga helling fyrir vélbúnað, hugbúnað og netaðgang bara til að komast inn í sirkusinn og nú átti að rukki í tækin líka!

Aldamótin voru tími spjallborðanna. Þau spruttu upp í kringum allt og um allt og þar hópaðist fólk saman og hafði gaman. Upplýsingaflæðið milli landa og heimsálfa var meira en nokkru sinni áður í sögunni. Skyndilega vorum við að spjalla við fólk sem hafði aðgang að tónlist, sjónvarpsefni og kvikmyndum sem við höfðum ekki. Og af hverju ekki? Af því einhverjir rétthafar vildu ráða öllu? En ef þú smelltir bara á þennan hlekk gastu fengið allt þetta efni og meira til án þess að borga krónu! Þú þurftir að vísu að borga fyrir harða diska, flakkara, geisladiska, nethraða og fleira sem fylgdi slíkri efnissöfnum en þetta var kannski eina leiðin fyrir þig að nálgast nýjustu þættina af Buffy the Vampire Slayer og vel þess virði! Tæknin til að nálgast þetta efni fór langt fram úr hugmyndum rétthafa um ásættanlega hegðun og notendur réðu sér vart fyrir kæti yfir þessu nýja og spennandi landslagi internetsins.

Mannshugurinn á auðvelt með að réttlætingar. Ef þú finnur 1000 króna seðil úti á götu ertu sennilega ekki að svipast um eftir eiganda heldur stingur þú seðlinum í vasann enda næstum vonlaust að finna eigandann. Ef þú sérð einhvern missa 1000 króna seðil er erfiðara að horfa fram hjá slíku og þú pikkar sennilega í viðkomandi og skilar seðlinum. Þannig er auðvelt að horfa fram hjá reglum sem virðast ekki snerta þig á neinn hátt né skilja eftir augljóst fórnarlamb. Og við þær aðstæður blómstruðu jafningjanetin og niðurhal í gegnum þau. SMÁÍS (Samtök myndrétthafa á Íslandi) börðust hatrammri baráttur við þessar síður og tókst að kveða ansi margar niður. En þær spruttu gjarnan upp eins og gorkúlur í einhverri annarri mynd. Frá Napster, Kazaa, LimeWire, eMule, Serv-U að torrent veitunum Istorrent, Deildu og The Pirate Bay. Þegar ein lokaðist færðist flæðið annað. Einhverjir notendur lágu í valnum en fæstir urðu nokkur tíma varir við stríðið nema að því leyti að þeir þurftu stundum að skipta úr efnisveituforritum. Sjónvarpsstöðvar, kvikmyndahús og myndbandaleigur buðu upp á eitthvað að efninu og hægt var að kaupa tónlist á geisladiskunum en kostnaðurinn var hár þegar allt var talið saman og samt var gríðarlegt magn til af efni sem neytandi hafði ekki löglegan aðgang að.

En nú er öldin önnur og þessar síður svipur hjá sjón. Og það var ekki barátta SMÁÍS eða uppgjöf notenda sem olli því. Nei, það var Netflix. Lausnin reyndist sáraeinföld og hún var að gefa fólki það sem það vildi: Ógrynni af efni þegar því hentaði. Gjaldið var minna en einn bíómiði í mánuði og því auðvelt að taka slíka fjárhagsákvörðun (þú þarft að vísu helst að vera með snjall sjónvarp, AppleTV eða álíka græju og alltaf góða nettengingu). Það sama má segja um innkomu Spotify sem gerði endanlega út af við geisladiskinn. Eftir ca. 15 ára aðlögunartíma var fólk tilbúið að borga fyrir efni sem það gat annars fengið ókeypis á netinu. Og getur reyndar ennþá en leiðin að ólöglega efninu í dag er stráð vírusum, auglýsingum og vafasömum skrám. Meðal-Jóninn og Jónan vita ekki lengur hvert skal leita og hafa litla löngun til. Vesenisstuðullinn er orðinn of hár þegar auðveldast er að kveikja bara á Netflix og finna eitthvað skemmtilegt. Nú eða á PrimeVideo, Stöð2 Maraþoni, Sjónvarpi Símans, Viaplay og mörgu öðru. Það er þó ekki þar með sagt að ekki sé lengur farið á svig við lög. Núna blómstra VPN þjónustur sem veita fólki aðgang að efni utan þeirra svæðis. En það þarf að borga fyrir þær líka.

Tæknin hefur svo haldist í hendur við alla þessa þróun. Á tímabili var geymslumagn á hörðum diskum, flökkurum og geisladiskum það sem skipti kaupendur tölvubúnaðar hvað mestu máli en núna er það miklu frekar vinnsluminni og gæði örgjörva sem ræður för. Við þurfum ekki lengur að geyma ógrynni af gögnum til að nýta daglega, við hendum því inn á næsta ský og leggjum frekar áherslu á að tölvurnar okkur geti höndlað mikið streymi. Notkunin hefur breyst og í takt við það þróun tölvubúnaðarins. Viðhorfið hefur að sama skapi breyst. Það sem áður var svo auðvelt að horfa fram hjá af því löngunin eftir afþreyingarefni skákaði öllum hugleiðingum um lagabrot verður erfiðar að hunsa þegar þú ert farin að feta beinu brautina. Þú ert byrjuð að borga löglega fyrir aðgang að efni sem þú fékkst áður ókeypis (gæðin eru líka svo miklu betri og tímasparnaðurinn peninganna viðri) og því fylgir ákveðið stolt sem þú vilt síður missa. Þegar uppi er staðið vill fólk gjarnan fara að lögum og reglum og það er því mikilvægt að þröskuldurinn sem það þarf að stíga yfir til að gera það sé ekki of hár. Við ættum öll að geta unnið saman með því að finna ásættanleg málamiðlun.

Höfundur: Ásta Gísladóttir, bókmenntafræðingur og nemi í tölvunarfræði

Skoðað: 844 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála