Skip to main content
22. október 2020

Veskið í símann

AndreaHver kannast ekki við það að gleyma veskinu sínu heima og jafnvel týna kortum, miðum og inneignarnótum? Bráðum verður það úr sögunni þar sem allt innihald gamla góða veskisins er hægt að útfæra sem stafræna passa. Stafrænir passar eru miklu umhverfisvænni því þeir koma í stað útgáfu fjölda plastkorta og pappírsmiða sem annars enda í umhverfinu.

Stafrænir passar geta til dæmis verið meðlimakort, samgöngumiðar, klippikort, aðgöngumiðar, afláttarmiðar, gjafakort og aðgangskort fyrir hurða- eða hliðaopnanir svo eitthvað sé nefnt. Margir þekkja þessa stafrænu passa í gegnum veskis-öpp, eins og Apple Wallet eða Google Pay. Hér á landi eru veskis-öpp nýjung þó þau hafi verið notuð erlendis um tíma, notendur kannast helst við að geta greitt með korti í gegnum snjallsíma. Fyrir Apple notendur er hægt að gera það í Apple Wallet en fyrir Android notendur þarf sérstakt greiðslu-app, t.d banka-app.

Í sumar gáfu Smart Solutions, Stafrænt Ísland og Ríkislögreglustjóri út stafræn ökuskírteini á alþjóðlegum stöðum Apple sem hægt er að geyma í veskis-appi. Á fyrstu 3 dögunum eftir útgáfu stafræna ökuskírteinisins sóttu rúmlega 45 þúsund Íslendingar það. Ísland varð þá annað landið í heiminum á eftir Noregi að gefa út stafrænt ökuskírteini, en Norðmenn fóru aðra leið en Ísland og smíðuðu sérstakt app sem geymir stafræna ökuskírteinið.
Markaðurinn fyrir veskis-öpp er ört vaxandi og ennþá í mótun, samt er áætlaður vöxtur hans hafi verið 40% frá 2017-2022 og þar að auki áætlað að veltan sé 5 milljörðum dollara fyrir árið 2022. Stór þáttur í hröðum vexti markaðarins er aukin snjallsíma notkun um allan heim [2].

Í dag er staða alþjóðlegrar þekkingar á veskis-öppum og stafrænum pössum langt komin innan tæknirisanna og brautryðjendanna Apple, Google og Samsung. Apple Pay var kynnt til leiks af Apple árið 2014 en var ekki aðgengilegt íslenskum greiðslukortum fyrr en í maí 2019. Þann 19. september 2012 gaf Apple út Apple Wallet, sem geymir stafræna passa eða PKPass skrár sem fara eftir alþjóðlegum stöðlum Apple. Allir passar þurfa að fara eftir þeim staðli til að hægt sé að birta þá í veskisappi Apple.

Fyrsta reynsla af stafrænum pössum skapaðist hjá flugfélögunum í formi stafrænna brottfararspjalda sem passa inní Apple Wallet. Hins vegar þá jókst reynsla Íslendinga á veskis-öppum við komu Apple Pay til landsins, en það voru Valitor og bankarnir sem komu því í kring. Í dag fara 5% af greiðslum heimsins í gegnum Apple Pay og er áætlað að hlutfallið verði komið í 10% allra greiðsla fyrir 2025 [1].

Google Pay sameinaði Android Pay og Google Wallet undir Google Pay og var það gefið út í september 2017. Google Pay er veski-sapp fyrir Android notendur, en Android hefur einnig verið að þróa stafræna passa sem passa inn í Google Pay og er farið eftir svipuðum stöðlum og Apple. Ekki er vitað hvenær eða hvort Google Pay komi til landsins en eflaust margir sem bíða spenntir eftir því.

Veskis-öpp geta sparað ríkinu, sveitarfélögum og fyrirtækjum í atvinnulífinu stórar upphæðir með beinum hætti vegna tæknilegrar hagræðingar. Öll þjónusta og upplýsingar verða þá aðgengilegar á stafrænu formi beint í snjallsíma sem sparar einnig töluverðan tíma.

Það kostar umtalsvert minna að gefa út stafræna passa borið saman við að hanna, þróa, dreifa og viðhalda sömu virkni með eigin appi. Fyrir utan að það er töluvert notendavænna að þurfa ekki að vera með mörg öpp fyrir mismunandi fyrirtæki og þjónustu og þar að auki þarf notandinn ekki að breyta sinni kauphegðun. Fyrirtæki sem eru þegar með eigin öpp geta einnig samhliða því nýtt sér þá virkni sem er ekki til staðar í appinu en er til staðar í veskis-öppum án þess að eyða miklum tíma og pening í að endurhanna þá virkni fyrir appið sitt.

Helstu áskoranir stafrænnar væðingar skírteina og korta er annars vegar gagnaöryggi en það spilar stórt hlutverk á markaði snjallveskja og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að huga að því að allar upplýsingar notenda séu öruggar. Hins vegar að breytingar taka tíma og því þarf að gera ráð fyrir aðlögunartíma í að breyta neytendavenjum almennings.

Í sífellt aukinni stafrænni þróun kallar fólk sífellt eftir meiri hraða, aðgengi að upplýsingum og snjallari lausnum. Þetta er nýr vettvangur fyrir fyrirtæki að þjónusta viðskiptavini sína með því að nýta sér stafræna passa og veskis-öpp.

Höfundur: Andrea Skúladóttir, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá

 [1]  John Detrixhe. (2020). Quartz. Sótt 15. febrúar ár af https://qz.com/1799912/apple-payon-pace-to-account-for-10-percent-of-global-card-transactions//

[2] Market Research Future. (2020) " Mobile Wallet Market Research Report - Global Forecast to 2022

Skoðað: 1722 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála