Skip to main content
14. desember 2020

Hvaða framtíðarmöguleika býður tæknin upp á fyrir einstaklinga með hreyfihamlanir?

maríaÉg kynnti mér nýjar og spennandi tækninýjungar við undirbúning á þessari grein og sá að það virtist vera heilt haf af mögulegum umfjöllunarefnum. Tæknin í dag virðist þróast á svo miklum hraða að erfitt er að halda í við allar þær nýjungar sem koma fram á degi hverjum. Það sem stóð sérstaklega upp úr að mínu mati eru svokallaðar heilavélar sem nú eru í þróun til að gefa fólki með lömun hreyfigetu sína á ný. Þetta er ekki ný tækni en árið 2000 tókst rannsóknarteymi frá Duke University og University of Pittsburgh að þróa kerfi sem las heilabylgjur frá apa þegar hann hreyfði hendurnar sínar og nota þær upplýsingar til að stjórna stoðtækjahandlegg. Fimm árum seinna var þessum rafskautum (e. electrodes) komið fyrir í manneskju og tókst henni að hreyfa músabendil (e. coursor) á tölvuskjá og einnig að opna og loka stoðtækjahandlegg (Lewis, 2014).

Notkun heilavéla getur verið margvísleg, hún getur sjórnað gerviútlimum, tölvum og stoðgrindum (e. exoskeleton) en hún getur einnig notað raförvun til að stjórna lömuðum útlimum líkamans. Þessum rafskautum er komið fyrir í heilanum þar sem þeir nema rafboð heilans sem berast þar á milli þegar þú ætlar að stjórna hreyfingu á útlimum eins og til dæmis þegar þú tekur skref. Þá sendir heilinn þinn skilaboð til fótanna sem meðtaka skilaboðin og framkvæma hreyfingu. Fyrir marga einstaklinga sem hafa lent í mænuskaða og lamast berast þessi boð ekki til fótanna lengur. Heilinn man ennþá hvaða skilaboð á að senda til þess að hreyfa fæturnar og manneskja með hreyfihömlun getur ímyndað sér að hún sé að taka skref og því að senda þessi skilaboð til útlima. Skilaboðin komast ekki til skila vegna tengslarofa sem orðið hafa í mænunni.

Þar koma þessir spennandi rafskautar inn í myndina. Þeir lesa þessi boð heilans og ná að framfleyta skilaboðunum í næsta rafskaut sem væri þá staðsettur í fætinum og skipar honum að hreyfa sig. Þetta er tækni sem sýnt hefur verið fram á að virki þó svo að hún sé ekki langt komin. Hreyfigeta þeirra einstaklinga sem hafa farið í klínískar rannsóknir og fengið þessa rafskauta fá mjög takmarkaða hreyfigetu til baka og þurfa enn mikla aðstoð í sínu daglega lífi. Það er ástæða fyrir því að þessi tækni sé ekki lengra komin, það þarf að fara mjög varlega með innsetningu þessara rafskauta í heilann þar sem þeir eru jú úr málmi og of mikið magn af málmi getur haft skaðleg áhrif á heilann. Við takmörkun fjölda þessara rafskauta takmarkast geta þeirra og munu þeir með tímanum skemmast og hætta að virka (Banino, 2020).

Elon Musk tilkynnti í september 2020 nýja þróun á heilavélum sem notast við míkró smáa þræði í stað málmplatna sem áður voru notaðar. Fyrirtækið hans, Neuralink, hefur unnið að þessari þróun undanfarin ár. Þessi nýja útfærsla á rafskautum notar marga míkró smáa þræði sem tengjast þeim svæðum heilans sem stjórna hreyfingu. Þessir þræðir nema boðin og senda skilaboðin áfram til ígræðslunnar sem er stjórnkerfi míkró þráðanna, ígræðslan er ekki lengur staðsett í heilanum og er endurhlaðanleg í gegnum þráðlausa hleðslu. Með því að notast við míkró þræði í stað málmplatna
minnkar það magn af málmi í heilanum og dregur úr hættuni sem því fylgir. Þetta leysir mörg vandamál sem heilavélar hafa skapað hér áður. Þessi nýja tækni frá Neuralink er enn á byrjenda stigi en markmið fyritækisins er að gefa hreyfihömluðum einstaklingum stjórn á tölvum og jafnvel stjórn á líkama sínum aftur. Fyrirtækið vonast einnig til þess að ná með þessari heilavél að laga alls kyns andlega sjúkdóma eins og þunglyndi, kvíða og fíkn (Balasubramanian, 2020).

Það sem mér þykir svo magnað við þessa tækni er að við erum nú að þróa tölvur sem geta bókstaflega lesið hugann okkar. Ég verð bæði spennt en einnig hrædd við að hugsa um alla möguleikana sem þessi tækni mun bjóða upp á í framtíðinni. Þessi spennandi tækni sem nú er verið að þróa í þeim tilgangi að gefa hreyfihömluðum einstaklingum sjálfstæði sitt aftur býður upp á bjartar horfur. Ef við erum rétt byrjuð að þróa tækni sem getur lesið heilaboð sem segja líkamshlutum að hreyfa sig hvers konar fleiri heilaboð getum við lesið og hvað getum við gert við þær upplýsingar? Til lengri tíma litið mun þessi tækni bjóða upp á spennandi möguleika eins og að stjórna vélunum í kringum okkur með huganum. Við gætum kveikt á sjónvarpinu, slökkt ljósin og jafnvel sett þvottavélina af stað. Allt með því einungis að hugsa um það. En hversu langt mun það ganga? Munu samskipti fara fram á þessum máta í framtíðinni að fólk sendi einungis hugskeyti til hvors annars? Þetta eru skemmtilegar vangaveltur og verður spennandi að sjá hver þróuninn í þessum geira verður í framtíðinni. Elon hefur tilkynnt að langtíma markmið hans með þróun sinni á heilavélum er að sameina mannsheilann algjörlega við tölvur og gæti mannkynið þá lifað að eilífu inn í tölvum. Miðað við hversu stutt á leið við erum komin finnst mér það ekki vera óraunhæft markmið þar sem tæknin getur nú þegar lesið huga okkar.

Höfundur:  María Mjöll Hrafnsdóttir, nemandi í Háskólanum í Reykjavík

Heimildarskrá

Rob Banino (2020, 20. maí) 20 new technology trends we will see in the 2020s. Science Focus.https://www.sciencefocus.com/future-technology/new-technology-trends-2020s/Sai

Balasubramanian, J.D. (2020, 21. september) Elon Musk’s Neuralink Is Attempting To Make Brain-Machine Interfaces To Help Individuals With Paralysis. Forbes. https://www.forbes.com/sites/saibala/2020/09/21/elon-musks-neuralink-is-attempting--to-make-brain-machine-interfaces-to-help-individuals-with-paralysis/#2236bfc365a6

Tanya Lewis (2014, 9. október) Bionic Technology Offers Hope for Paralyzed. Live Science.https://www.livescience.com/48227-paralysis-tech-christopher-reeve.html

Skoðað: 684 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála