Skip to main content
28. janúar 2021

Hugtakið heilsulæsi

kjartanSú hæfni að geta afla sér upplýsinga, dregið af þeim ályktanir og tekið í kjölfarið upplýsta ákvörðun, skiptir sköpum fyrir hvern einstakling og fyrir þjóðfélagið í heild. Margir þættir spila þar inn í, en á síðastliðnum árum hefur landsmönnum orðið tíðrætt um lesskilning og fjármálalæsi ungmenna. Ár hvert er svokölluð PISA-könnun lögð fyrir grunnskólanema. Þar er lesskilningur nemenda kannaður sem og læsi þeirra á náttúrufræði og stærðfræði. Niðurstöðurnar gefa hugmynd um stöðu menntakerfisins og eru hafðar til hliðsjónar við stefnubreytingar, auk þess sem þær eru notaðar sem mælikvarði á árangur fyrri menntastefnu.

Á síðustu árum hafa íslensk ungmenni helst úr alþjóðalestinni þegar kemur að lesskilningi, með tilheyrandi umræðu og réttmætum áhyggjum meðal almennings. Á sama tímabili, nánar tiltekið á árunum eftir hrun fjármálakerfisins árið 2008, var lögð mikil áhersla á að bæta fjármálalæsi almennings, í kjölfar óhóflegrar skuldasöfnunar heimila landsins í uppganginum.

Nú glímir heimsbyggðin við Covid-19 faraldurinn, sem hefur haft áhrif á líf milljarða manna og oftar en ekki er vírusinn og faraldsfræði honum tengd til umfjöllunar í fréttum, á kaffistofum og í heimahúsum. Faraldrinum fylgja verulegar breytingar á lífi fólks. Hinn almenni borgari hugsar nú nánast daglega um smitvarnir og faraldsfræði, auk þess sem þekking á sjúkdómsgangi Covid-19 og helstu einkennum smits er útbreidd. Hrunið olli því að fólk varð meðvitað um hugtakið fjármálalæsi og í faraldrinum sem nú geisar er rétt að impra á hugtakinu heilsulæsi.

Af hverju er heilsulæsi mikilvægt?

Heilsulæsi er geta einstaklings til að afla sér upplýsinga, draga af þeim ályktanir og taka svo upplýsta ákvörðun í eigin heilsufarsmálum. Heilsulæsi snýst ekki eingöngu um að skilja „læknamál“, heldur einnig að geta skilið heilbrigðisupplýsingar í réttu samhengi og nýtt þær til að taka réttar ákvarðanir. Rétt eins og fjármálalæsi kemur fólki að góðum notum, t.d. þegar tekið er íbúðarlán eða við innkaup í matvöruverslun, hefur heilsulæsi sömuleiðis hagnýtt gildi í daglegu amstri. Heilsulæsi tengist vali fólks við innkaup í matvörubúð, ákvörðunum um hreyfingu, uppeldi barna, forvörnum, smitvörnum, meðvitund um sjúkdóma innan fjölskyldu, aukaverkunum, frábendingu lífsnauðsynlegra lyfja og áfram mætti lengi telja. Rannsóknir hafa sýnt að heilsulæsi einstaklinga hefur áhrif á meðferðarheldni, sem er einn mikilvægasti þátturinn við meðhöndlun og meðferð sjúkdóma.

Dræmt heilsulæsi getur haft ýmsar neikvæðar afleiðingar. Þar má nefna magabólgu vegna langvarandi inntöku bólgueyðandi gigtarlyfja, hreyfingarleysi einstaklinga sem eru í áhættuhópi fyrir sykursýki 2 eða slitgigt, og vanþekkingu á fjölskyldusögu um blóðtappa þegar hafin er notkun á hormónapillu sem getnaðarvörn. Heilsulæsi skiptir því sköpum fyrir vellíðan og heilsu hvers og eins og samlegðaráhrif af dræmu heilsulæsi þjóðfélagsins koma fram í auknu álagi á heilbrigðiskerfið og auknum útgjöldum til heilbrigðismála.

Heilsulæsi 2020

Í lýðheilsukönnunum frá Bandaríkjunum kemur fram að hjá allt frá þriðjungi og upp að helmingi viðmælenda, telst heilsulæsi vera ábótavant. Upplýsingatækni hefur greitt aðgengi almennings að heilbrigðisupplýsingum og læknavísindum og gert honum kleift að upplýsa sig um eigin heilsu og meðferð þegar við á. Einnig getur ýmis tækjabúnaður veitt fólki upplýsingar um eigin heilsu, t.d. hin svokallaða klæðanlega tækni (e.wearables), sem getur mælt allt frá skrefafjölda og hjartsláttartíðni til kröftugs fráblástursrúmmáls (e. forced expiratory volume).

En þó að tækifærum til að auka heilsulæsi almennings fjölgi, eykst samtímis hættan á upplýsingaflóði (e. information overload), sem getur sett fólk út af laginu. Gagnamagnið veldur ýmsum áskorunum þegar reynt er að gera þær upplýsingar sem klæðanlega tæknin safnar saman auðskiljanlegar og aðgengilegar, með það fyrir augum að hámarka möguleika fólks á að bæta heilsulæsi sitt og taka ábyrgð á eigin heilsu. Heilbrigðistækni kemur þar við sögu og má nefna dæmi um lausnir eins og RetinaRisk, Nox medical, Sidekick health og Rakning C-19, þar sem gögnin eru nýtt í réttu samhengi, svo að einstaklingar njóti góðs af.

Embætti Landlæknis hefur einnig haldið úti Lýðheilsuvísum þar sem hægt er að bera saman landsvæði með tilliti til þátta sem segja til um heilsu og líðan hópa, auk þess sem stofnunin tekur saman tölulegar lýðheilsuupplýsingar sem eru öllum aðgengilegar. Þessi þróun er jákvæð og stuðlar að aukinni þátttöku hins almenna borgara, sem tekur nú sjálfur þátt í að framleiða gögn um eigin heilsu. Gott heilsulæsi er nauðsynlegt til að gögn sem t.a.m. er safnað saman með klæðanlegri tækni, nýtist sem best og hægt sé að hagnýta afleidda tækni sem verður til í kjölfarið. Nú þurfa tæknigeirinn og heilbrigðisgeirinn að sameina krafta sína, taka þátt í þessari hröðu þróun og sigla saman í átt að stafrænni framtíð heilbrigðismála.

Höfundur: Kjartan Þórsson, læknir og frumkvöðull

Skoðað: 801 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála