Skip to main content
11. febrúar 2021

Snjalltækni: Ávinningur einstaklingsins og samfélagsins - hvað ber að varast?

Sigga JonasdottirNú til dags er auðvelt að fara í næstu raftækjaverslun (jú eða bara á Internetið) og fjárfesta í snjallúri. Þessi úr spanna breiðan verð- og gæðaskala og því er á færi margra að kaupa þau og hefur notkun snjallúra aukist gífurlega síðustu árin. Til að mynda hefur sala þeirra á bandarískum markaði tvöfaldast á fimm árum og því er spáð að 245 milljón eintök seljist á heimsvísu í ár. Meðal þekktustu merkja má nefna Apple Watch, Garmin, Fitbit og Samsung. Snjallúrin mæla ákveðna þætti hjá notandanum, til að mynda líkamshita, hjartslátt, svefn og skrefafjölda. Tækin tengjast oftast símum og þeim fylgir app sem greinir gögnin.

Óumdeilanlega fær notandinn með þessu móti betri og óhlutdrægari yfirsýn yfir eigin líkamsstarfsemi og hegðun en hann fengi með tilfinningunni einni saman. Mannskepnan er ekki sérlega fær í að yfirfæra atferli sitt á mælanlegar einingar og rannsóknir byggðar á slíkum gögnum litast oftar en ekki af kerfisbundinni hlutdrægni. Til dæmis hafa rannsóknir sýnt að skynjuð þreyta eftir nætursvefn hefur áhrif á það hversu lengi fólk telur sig hafa sofið; þau sem vakna úthvíld telja sig hafa sofið lengur en þau hafa í raun gert.

Hagur neytandans af notkun snjallúra er margvíslegur en þar má helst nefna að þau auðvelda eftirfylgni með heilsumiðaðri hegðun. Rannsóknir hafa til dæmis sýnt að hópur eldra fólks jók hreyfingu eftir 12-14 vikna notkun snjallúra og að einstaklingar í ofþyngd, sem voru skikkaðir til að ganga 10,000 skref á dag, léttust, minnkuðu líkamsfitu og upplifðu minni kvíða, þreytu og skapsveiflur [1-3]. Niðurstöður annarra rannsókna af svipuðum toga eru þó ekki einsleitar og áhrif snjallúra á heilsu notenda reynast ýmist blönduð (jákvæð og neikvæð) eða fyrst og fremst neikvæð [4, 5] í þessum rannsóknum. Það ber þó að hafa í huga að úrtökin eru fámenn (10-40 þátttakendur) og rannsóknirnar ekki margar, auk þess sem það væri talsvert áhugaverðara að skoða áhrifin í stærra samhengi - en slíkar rannsóknir eru sannarlega á færi fyrirtækja á borð við Apple og Samsung, sem eru stórtæk bæði í sölu á snjallsímum og -úrum.

Gögnin sem snjallúrin safna eru á stærðargráðu sem aldrei hefur sést áður og endurspegla hegðun fjölbreytts notendahóps, en í því felast tækifæri til að efla til muna rannsóknir á hegðunar- og heilsumynstri manneskjunnar. Þetta krefst þó samstarfs stórra tæknifyrirtækja og akademíunnar, sem hljómar kannski ekki vænlegt til árangurs, en þó finnast dæmi um gæfuríkt samstarf sem kveikir vonarneista!

Apple hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á nýjungum á sviði „heilsutækninnar“. Fyrirtækið hefur til dæmis fjárfest í smáum og efnilegum sprotafyrirtækjum innan þess geira og lagt mikla áherslu á þetta svið í eigin tækniþróun. Apple hefur t.d. veitt rannsóknarteymum frá Stanford og Harvard aðgang að gögnum um hjartslátt um 500.000 einstaklinga og rannsóknir þeirra á gáttatifi hafa borið mikinn árangur. Í dag sendir Apple Watch notendum viðvörun ef hjartslátturinn er ískyggilega óreglulegur eða lágur og sendir einnig tilkynningu til notandans ef hann hefur verið í kyrrsetu lengi og hvetur til hreyfingar. Markmiðið er jú að stuðla að heilsusamlegra líferni notandans, en einnig að geta spáð fyrir og greint frávik frá eðlilegri líkamsstarfssemi til að koma í veg fyrir áföll áður en skaðinn er skeður. Apple hefur fært út kvíarnar og starfar nú með fleiri háskólum og rannsakar einnig heilsu kvenna og heyrn með notkun gagna úr snjallúrum.

Sjálf er ég doktorsnemi við Tækniháskólann í Danmörku (DTU) og hluti af teymi sem rannsakar hegðunarmynstur fólks í samstarfi við tæknifyrirtæki með hjálp stærðarinnar gagnasetts. Ég rannsaka svefn 70.000 einstaklinga frá allt að 100 löndum, þar sem hver einstaklingur hefur lagt að minnst kosti átta mælingar á nætursvefni til gagnasettsins. Það sem er einstakt við þetta svefngagnasett (og önnur sambærileg) eru óhlutdrægar endurteknar mælingar í náttúrlegu umhverfi einstaklingsins. Flestar næturmælingarnar eru landmerktar (e. Geotag), einstaklingurinn hefur skráð hvar hann svaf, en það gerir okkur kleift að tengja gögnin við umhverfisþætti og skoða hvort svefn sé breytilegur milli þéttbýlis og dreifbýlis, hver áhrif árstíðarsveiflna og breytinga á dagsbirtu séu, að kanna menningarlega margbreytni svefnmynstra og ótal margt fleira á skala og af stærðargráðu sem ekki hefur sést áður. Hver einstaklingur hefur lagt til gagnasettsins margar næturmælingar og það gerir okkur kleift að nálgast greiningar með öðrum hætti en vaninn er – sem dæmi þá rannsaka ég lengd nætursvefns sem hegðun sem sveiflast í kringum jafnvægispunkt og þróa aðferð til að að meta hvort einstaklingur sé heilt yfir að sofa meira eða minna en hann hefur þörf fyrir. Tækifærin eru óteljandi og spennandi að sjá hver þróunin verður á næstu árum. Fitbit hefur til dæmis veitt nokkrum rannsóknarteymum aðgang að sínum gögnum og það sama á við um Nokia.

Þetta er þó ekki alfarið jákvæð þróun, því yfir þessu góða aðgengi persónulegra gagna hímir dökkt ský sem skyggir á friðhelgi einstaklingsins. Þessi gögn eru gífurlega viðkvæm og óútreiknanlegt hver leikslok yrðu ef þau kæmust í hendur óprúttinna aðila. Ég tel ólíklegt að einhver hefði getað spáð fyrir um áhrif samfélagsmiðla og streymisveita fyrir 10 árum, sem í dag dreifa falsfréttum og mynda bergmálshella. Við þurfum að staldra við og spyrja hvort ávinningurinn af notkun snjallúra og -tækja sé þess virði fyrir einstaklinginn og samfélagið. Persónulega tel ég svo vera en málið er engu að síður flókið. Við sem neytendur verðum að veita því athygli hverjir safna gögnum um okkur og við verðum sem samfélag að byggja sterkara lagaumhverfi í kringum það hvað fyrirtæki og stofnanir mega og mega ekki gera með viðkvæmar persónuupplýsingar. Það vantar meira gegnsæi og netnotendur þurfa að fá meiri stjórn yfir því hvaða gögnum er safnað um þá. Við könnumst öll við smáa letrið sem kemur upp þegar við hlöðum inn nýju appi eða búum til aðgang að nýrri netþjónustu. Í stað þess konar skilmála mætti einfaldlega birta notendum gátlista þar sem þeir gætu sjálfir ákveðið hvað mætti og mætti ekki gera við gögnin þeirra.

Blessunarlega hefur Evrópa stigið skref fram á við með innleiðingu GDPR reglugerðarinnar. Hún er ekki gallalaus en rétta viðleitnin er þó til staðar og vonandi verður meiri tíma og fjármagni varið í betrumbætur á henni. Það er erfitt að vera bjartsýn árið 2020 en ég leyfi mér að trúa því að grunn gagnaréttindi og friðhelgi einstaklings verði varin með kjafti og klóm á næstu árum á vettvangi evrópskra stjórnmála.

Höfundur: Sigga Svala Jónasdóttir, doktorsnemi í stórgagnagreiningu við við DTU

 Heimildir

[1] https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/27903490/

[2] https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/17152246/

[3] https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/27556393/

[4] https://www.thelancet.com/journals/landia/article/PIIS2213-8587(16)30284-4/fulltext

[5] https://jamanetwork.com/journals/jama/fullarticle/2553448

Skoðað: 370 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála