Skip to main content
29. apríl 2021

Velferðartæknismiðja Reykjavíkurborgar

SigthrudurVelferðartæknismiðja Reykjavíkurborgar tók til starfa árið 2018, með það að markmiði að nýta velferðartækni til að auðvelda fólki að búa á eigin heimili við betri lífsgæði, þrátt fyrir öldrun, fötlun eða veikindi og gera því jafnframt kleift að vera virkari vera þátttakendur í samfélaginu óháð aðstæðum. Á tímum Covid-19 reynir á þessa tækni sem aldrei fyrr og Tölvumál tóku Sigþrúði Guðnadóttur, verkefnastjóra velferðartæknismiðjunnar, tali til að kynnast betur þeirri þróun sem orðið hefur hjá smiðjunni.

"Mikið af þessari tækni hefur verið prófuð erlendis", segir Sigþrúður, "og áskorunin felst í því hvernig við nýtum tæknina í starfsumhverfinu. Við verðum t.d. að styrkja og breyta innviðum þannig að tækninni sé bætt við án þess að það hafi neikvæð áhrif á þjónustuna. Hlutverk velferðartæknismiðjunnar er í rauninni að tryggja að sérhæfð velferðar- og hjúkrunarþjónusta haldi áfram að þróast í takt við hraða tækniþróun. Þetta gerum við m.a. með því að framkvæma prófanir við raunaðstæður, skoða ferlið í samræmi við þarfir notandans, starfsfólksins og úrræði sem við höfum innan borgarinnar eins og t.d. upplýsingatæknideild borgarinnar og fjármögnun. Ef skipulag og innviðir borgarinnar styðja ekki við tæknina, þá getur starfsfólkið á velferðarsviði ekki nýtt sér hana í starfi. Tæknin á að styðja við þeirra sérþekkingu og fólk þarf að finna að það sé tilgangur með tækninni, annars getum við bara gleymt þessu.“

Hvað hefur verið að bætast við með tilkomu Covid-19?

Velferðartæknismiðjan hefur síðustu mánuði lagt megin áherslu á skjáheimsóknir í heimaþjónustu en velferðarsviðið hóf að leggja áherslu á tæknimálin þremur árum fyrr. „Við vorum búin að vinna ákveðna undirbúningsvinnu varðandi skjáheimsóknir áður en Covid-19 ástandið hófst og það var hægt að kýla verkefnið í gang. Við gerðum það kannski á meiri hraða en við hefðum gert annars, en vönduðum okkur eftir besta megni.  Skjáheimsóknir hafa nýst sérstaklega vel á þessum erfiðu tímum, en það eru ákveðnir einstaklingar í áhættuhóp sem vilja ekki eða geta ekki fengið hefðbundið innlit.  Í slíkum tilfellum, þar sem við viljum auka samskipti en draga úr umgangi inn á heimilið, höfum við útvegað íbúum spjaldtölvur.“

„Við höfum verið að prófa íslenska hugbúnaðinn Memaxi og er þá spjaldtölvu komið fyrir inn á heimili þjónustuþega. Þær eru settar upp í KIOSK mode þannig að aðeins er hægt að notað þær til skjáheimsókna og ekkert annað. Starfsmaður félagslegrar heimaþjónustu og/eða heimahjúkrunar Reykjavíkurborgar hefur samband við viðkomandi í gegnum kerfið og notandinn þarf aðeins að ýta á einn takka til að hefja skjásamtalið. Þessi lausn hefur reynst okkur mjög vel, sérstaklega fyrir eldra fólk með litla sem enga tölvukunnáttu. Fyrir þennan hóp notenda er það algjört lykilatriði að tæknin sé einföld því annars getum við ekki tryggt örugga þjónustu.  Að auki höfum við, auðvitað með leyfi þjónustuþega, gefið aðstandendum aðgang að kerfinu með rafrænum skilríkjum. Þannig geta ástvinir hringt inn myndsamtal í sama skjá og heimaþjónustan notar við sín myndsamtöl. Það eru margir ótrúlega ánægðir með þessa viðbót og við höfum séð mikið af auknum samskiptum aðstandanda við eldri ástvini. Við erum enn í prófunarfasa, en stefnum að því að skjáheimsóknir verði sjálfsagður hluti af þjónustuframboði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar innan skamms tíma.“

„Ef við ræðum skjáheimsóknir aðeins út frá tæknilegum forsendum,  þá erum við e.t.v. ekki að innleiða neina hátækni í stærra samhengi tækniþróunar í heiminum. En þetta er virkilega mikilvægt viðbót við þjónustu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og krefst töluverðrar breytingar í því hvernig við veitum þjónustuna. Við höfum séð dæmi þess að skjáheimsóknir séu einu samskipti fólks sem hefur lítið sem ekkert tengslanet. Þú getur rétt ímyndað þér muninn á því að fá skjáheimsókn eða símtal. Þannig að þessi þróun skiptir gríðarlegu máli.„

Hvaða aðrar tæknilausnir hefur borgin verið að bjóða upp á?

„Velferðartæknismiðjan hefur prófað ýmsar velferðartæknilausnir í þjónustunni. Þar má t.d. nefna skolsalerni á hjúkrunarheimili, sem sýndi fram á töluverða lægri tíðni þvagfærasýkinga hjá eldra fólki og sparnað í rekstarvörum á hjúkrunarheimilinu. Í fyrra prófuðum við sérstakan stól sem gengur fyrir rafmagni og auðveldar starfsfólki við að reisa fólk upp aftur sem hefur fallið í gólfið. Þessi stóll er núna í notkun í Norðurbrún. Það er margt spennandi varðandi ýmsar snjalllausnir og eitt slíkt verkefni eru prófanir á notkun snjallraflása á heimilum íbúa sem fá heimaþjónustu. Með lausninni geta starfsmenn opnað dyrnar inn til fólks með appi, en íbúi og aðstandendur nota ennþá venjulegan lykil. Þessi tækni gerir það að verkum að íbúar þurfa ekki að láta af hendi lykla þegar þjónusta hefst, en mikið magn lykla eru í umferð af fjölmörgum heimilum í þjónustu velferðarsviðs.“

„Upplýsingastjórnun og samskiptakerfi hafa verið áberandi hjá okkur og í samhengi má nefna að við erum að prófa notkun Kara Connect hjá barnavernd Reykjavíkur. Verkefnin eru misstór og komin mislangt, núna erum við t.d. að undirbúa útboð á upplýsingastjórnunarkerfi í heimaþjónustu, en það er gert í kjölfar prófanna á hugbúnaðarkerfinu CareOn í félagslegri heimaþjónustu. Þetta eru allt saman verkefni sem hafa sýnt góðan árangur, burt séð frá virkni einstakra lausna þá lærum  við líka mjög mikið varðandi þróun þjónustunnar.“

Hvað tækni sjáið þið fyrir ykkur að væri hægt að innleiða til viðbótar?

„Í framtíðinni viljum við bæta við sjálfvirkum og snjöllum lausnum, svo sem lyfjaróbótum og sjálfvirkum heilsufarsmælingum. Lyfjaróbótarnir virka þannig að tveggja vikna lyfjaskammti er komið fyrir í tækinu og það stillt þannig að réttur skammtur lyfja komi úr því á ákveðnum tíma dags. Þessi tækni hefur reynst vel erlendis til þess að draga úr mistökum við lyfjainntöku. Töluverður hluti innlita starfsmanna heimaþjónustu snýst um að aðstoða fólk við inntöku lyfja. Reynsla nágrannalanda okkar hefur hins vegar gefið til kynna að fjöldi fólks myndi frekar kjósa sjálfstæðara líf en að fá starfsmann sem aðstoðar inn á heimilinu. Ef lyfin eru ekki tekin á réttum tíma lætur róbótinn starfstöð borgarinnar vita sem bregst við með viðeigandi hætti, en að öðru leiti er ekki komið inn á heimilið.“

„Covid-19 hefur auðvitað haft áhrif á ýmsar prófanir, t.d. stóð til að fara í prófanir á notkun sýndarveruleikabúnaðar (VR), m.a. í þágu heilabilaðra. Það er rosalega mikil þróun í notkun sýndarveruleika í velferðar- og hjúkrunarmálum.  Með honum er t.d. hægt að auka öryggistilfinningu fólks með ákveðnum VR myndböndum og jafnvel hægt að veita fólki tækifæri til að komast á staði sem það hafði ekki trúað að það kæmist á aftur. Við höfum tekið þá ákvörðun að ferðast ekki með búnaðinn milli fólks um þessar mundir vegna smithættu, en hlökkum til að komast aftur af stað með þessar prófanir sem fyrst.“

„Við erum sem sagt bara rétt að byrja í þessari þróun og gerum það með því markmiði að geta tekið á móti meiri upplýsingum með sjálfvirkari hætti, eins og t.d. heilsufarsupplýsingum á borð við blóðsykursmælingar, blóðþrýsting og þyngd. Að sjálfsögðu verður alltaf fullt af fólki sem þarf á persónulegri þjónustu á að halda, en þarna skapast rými fyrir þau sem geta og kjósa að gera þetta sjálf og um leið aukinn tími fyrir starfsfólk til að sinna þeim sem þurfa á innlitum að halda.

„Hátæknilausnir sem ganga út á sjálfsvöktun passa alls ekki fyrir alla en það eru alltaf fleiri og fleiri tækniþjálfaðir einstaklingar að bætast í raðir eldri borgara og á viljum við vera tilbúin með þjónustu sem nýtist þeim. Við erum ekki komin með þessar hátæknilausnir í prófanir, en allar ákvarðanir, nýir ferlar og framtíðarsýn okkar miðast að því að velferðarsvið Reykjavíkurborgar geti boðið upp á sem fjölbreyttast þjónustuframboð í náinni framtíð.“

Skoðað: 601 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála