Skip to main content
24. febrúar 2022

Bókagerð í stafrænum heimi

Heidar mynd 2Viðtal við Heiðar Inga Svansson

Margsinnis hefur verið spáð fyrir um dauða bókarinnar, að samkeppni frá útvarpi, sjónvarpi, bíómyndum, internetinu og öllum hinum miðlunum ráði niðurlögum hennar. En alltaf seiglast hún áfram og aðlagar sig að breyttum tímum. Síðustu árin er það einkum raf- og hljóðbókavæðingin sem talin er ógna hefðbundinni pappírsútgáfu. Tölvumál gengu á fund Heiðars Inga Svanssonar, formanns Félags íslenskra bókaútgefenda og framkvæmdastjóra IÐNÚ bókaútgáfu, til að fræðast um stöðu bókarinnar á Íslandi. Við byrjuðum á því að spyrja Heiðar hvernig hann leiddist út í bókaútgáfu.

Ég var nánast fæddur inn í þetta. Fósturfaðir minn Björn Eiríksson var bókaútgefandi hjá Skjaldborg og ég byrjaði að vinna þar með skóla þegar ég var unglingur og rak svo fyrirtækið með honum í nokkur ár. Ég hef nú gert tilraunir til þess að gera eitthvað annað, en einhverra hluta vegna enda ég alltaf aftur í þessu. Ég hef gert flest í bókaútgáfu, annað en að skrifa bækurnar.

Hvenær manstu fyrst eftir því að rafræn útgáfa hafi verið til umræðu í bransanum sem raunverulegur valkostur við prentútgáfu?

Ég minnist þess fyrst að hafa velt þessu fyrir mér þegar CD-ROM bækurnar komu fram á sjónarsviðið, það var þá kallað multimedia. Ég held að þetta hafi verið sirka 1995. Þetta voru diskar þar sem þú gast tengt saman myndir og texta og það var jafnvel hægt að fletta upp í textanum, svo þeir hentuðu ágætlega fyrir alfræðiorðabækur og þess háttar. Svo voru gerðar pappírsútgáfur sem diskar fylgdu með.

Gallinn var hins vegar sá að plássið á diskunum var takmarkað og upplausnin á myndunum því léleg. Mér er sérstaklega minnisstætt eitt atvik þessu tengt. Ég var viðriðinn útgáfu bókarinnar Einkalíf plantna eftir David Attenborough árið 1995 og við fengum höfundinn til Íslands af þessu tilefni. Ég hafði mikið verið að pæla í þessari multimediu og spurði David hvort hann hefði íhugað að nota hana í sinni útgáfu. Hann svaraði: „Þegar það verður nóg pláss á diskunum til að geyma myndefni í nógu góðum gæðum, mun ég hugleiða þetta. Annars er þetta bara algjört drasl.“

En ég man að á þessum tíma var talað um að þeir sem ekki færu út í multimediu færu beint á hausinn! Því reyndist svo vera öfugt farið. Skömmu síðar kom Internetið og gerði multimediuna úrelta. Margir sem höfðu fjárfest í þessu töpuðu miklum peningum.

Veistu hver markaðshlutdeild rafrænna bóka er þessi misserin? Fer hún vaxandi?

Markaðshlutdeildin er ekki mæld, en ég held hún fari stækkandi. Útgefendur hafa verið duglegir að gefa út rafrænar útgáfur af nýjustu bókunum sínum og það er tölvuvert af rafbókum hjá Storytel. Rafbækur hafa þó náð miklu betri fótfestu í löndunum í kringum okkur en hér á Íslandi.

Hvers vegna heldurðu að það sé?

Ég held að útgefendur hér hafi lengi vel ekki séð ástæðu til að fara þessa leið. Við vorum með góðan og gjöfulan markað með prentaðar bækur, m.a. kiljur, og þennan sérstaka jólabókamarkað. Þess vegna þróaðist bókaútgáfan hér á landi ekki alveg í takt við nágrannalöndin. Fáir tóku skrefið, því að tekjumódelið sem var við lýði virkaði.

Svo man ég að mikið var rætt um afritunarvarnir. Fyrsta stig rafbókavæðingar í námsbókaútgáfu í Danmörku voru PDF skjöl með vatnsmerki og þeim var náttúrulega hægt að dreifa og deila. Hér voru rafbækur fyrst seldar á appi með Adobe-öryggisvörn sem var ekki notendavænt og úrvalið var heldur ekki mjög mikið.

Hvers konar efni heldur þú að henti best fyrir rafbækur? Frekar kennsluefni en skáldsögur?

Ég held að þetta sé mjög einstaklingsbundið. Margir nota skjálesara vegna plássleysis og lesa þá hvers kyns efni á þeim, skáldsögur alveg eins og hvað annað. Ég les sjálfur helst hand- og fræðibækur, kaupi þær gjarnan á Amazon eða Storytel og les þær svo á appi í síma. En ég veit ekkert með vissu því ég hef ekki séð neinar rannsóknir á því nákvæmlega hver neysluhegðunin er.

Að hvaða leyti er rafbókaútgáfa ólík pappírsútgáfu og hvernig hafið þið hjá IÐNÚ nálgast hana?

Vandinn við rafbækur sem námsbækur er að gefa vörunni aukið virði, það er ekki nóg að selja bara PDF af prentuðu bókinni. Rafbókavæðing á námsefni byrjaði víða í löndunum í kringum okkur með einföldum PDF- eða EPUB-skjölum, en fljótlega var farið að bæta gagnvirkni við skjölin.

Fyrsti hugbúnaðurinn sem ég sá kom frá indversku fyrirtæki sem hét Hurex. Sá hugbúnaður keyrði á PDF skjölum af prentuðum bókum, svo að skjalið var í grunninn statískt. En svo var smíðað ofan á það, þú gast tengt textann við vídjó, skýringamyndir og annað gagnvirkt efni.

Síðan hafa allskonar lausnir komið til sögunnar. Sumar prentaðar námsbækur eru t.d. líka gefnar út sem EPUB-skjal. Ýmsar bækur sem eru kenndar í háskólum hér á landi og eru á ensku geturðu keypt bæði sem prentaða bók og rafbók, og þar er oft boðið upp á einhverja gagnvirkni, glósur og þess háttar.

Við hér hjá Iðnú höfum í samstarfi við Forlagið verið að gefa út svokallaðar vefbækur. Munurinn á rafbók og vefbók er sá að rafbókin er yfirleitt statískt skjal sem þú hleður niður og geymir í lesara eða appi, meðan vefbókin er hýst á netinu og þannig meira eins og vefsíða sem hægt er að bæta og breyta.

Vefbókahugbúnaðurinn sem við notum er danskur. Við kaupum aðgang að honum frá námsbókaútgáfunni Systeme, dótturfyrirtæki Gyldendal í Danmörku. Þau smíðuðu þennan hugbúnað sjálf í open-source vefumsjónarkerfi sem heitir Typo3. Svo er hugbúnaðurinn tengdur ýmsum öðrum kerfum, t.d. spurningakerfinu Quiz og námskerfinu Moodle. Við kaupum sem sagt leyfi til að nota hugbúnaðinn á Íslandi en setjum bækurnar upp sjálf innanhúss og seljum áskrift að þeim. Allt notendaviðmót hefur verið þýtt á íslensku og þar að auki höfum við tengt íslenskan talgervil við kerfið.

Þetta er í raun námstæknihugbúnaður. Kennarar geta sent okkur ábendingar um villur og nemendur sömuleiðis. Námsefnið er í stöðugri þróun, sem er það sem skólakerfið hefur verið að kalla eftir. Prentaðar námsbækur geta hæglega orðið úreltar á næstu árum, m.a. vegna þess hversu auðvelt er aðlaga og uppfæra vefbækurnar. Það er ekki endilega mikill munur á því að lesa á pappír og í tölvu og þess vegna skiptir gagnvirknin miklu máli. Meginatriðið er að vefbókin er í stöðugri þróun, ólíkt pappírsútgáfunni.

Svo mætti nefna aðra gerð útgáfu sem við höfum prófað. Við gáfum nýlega út bók á pappírsformi, en inni í bókinni eru QR-kóðar sem vísa á ítarefni á vefsíðu, m.a. myndbönd með nánari útskýringum. Prentaða bókin er í þessu tilfelli bara helmingurinn af vörunni sem að þú kaupir.

Hvað varð til þess að þið fóruð að prófa ykkur áfram með rafbækur?

Við fórum út í þetta vegna þess að þessi hefðbundna pappírsútgáfa hafði verið í sjálfheldu í mörg ár. Viðskiptamódelið gekk ekki upp. Sala á notuðum skiptibókum hafði yfirtekið þennan markað á framhaldsskólastiginu og þau viðskipti skila engum virðisauka til þeirra sem bjuggu bókina til. Tekjur minnkuðu því á hverju ári. Með vefbókinni skilar virðisaukinn sér til þeirra sem að búa bókina til, því að nemendur kaupa tímabundna áskrift að bókinni, frekar en að kaupa notaða bók á skiptibókamarkaði.

Við höfum líka reynt að fá stjórnvöld til að móta stefnu í rafrænni útgáfu, sem er hvorki til fyrir grunnskóla eða framhaldsskóla. Ég held að við séum eina Norðurlandið þar sem þessu hefur ekki verið sinnt. Stjórnvöld ættu að setja ramma utan um þessa útgáfu og nýsköpunarstyrkir myndu hjálpa mikið til.

En hvað hafa prentaðar bækur fram yfir rafbækur?

Vefbókarformið hentar auðvitað ólíkum gerðum bóka misvel. Ég veit t.d. af því að stærðfræðikennarar í Danmörku hafa kvartað undan því að nýtt stærðfræðiefni sé fyrst og fremst stafrænt, en þeir telja að þetta efni væri betra á prentaðri bók. Kannski er það íhaldssemi hjá þeim, en kannski hentar stafræna formið einfaldlega síður fyrir stærðfræði.

Rannsóknir hafa líka sýnt að lesskilningur nemenda reynist lakari þegar þeir lesa af skjá en þegar þeir lesa á pappír. Nemendur virðast ná betur inntaki efnisins ef þeir lesa prentaðan texta. Ef ég man rétt voru tvær aðalbreytur í þessu. Annars vegar truflunin sem lesendur verða fyrir á skjánum, tilkynningar sem dreifa athyglinni. Hins vegar það að nemendur virðast ofmeta hversu vel þeir skilja efnið eftir lestur á skjá. Þegar þeir eru prófaðir reynist lesskilningurinn minni en þeir höfðu ímyndað sér.

Svo hafa fræðimenn kafað djúpt í það hvernig sé best að setja upp vefbók annars vegar og pappírsbók hins vegar til að hámarka lesskilning.

Hver eru helstu vandamálin kringum þessa stafrænu umgjörð vefbókaútgáfunnar?

Það er kannski helst að hugbúnaðurinn er keyptur og kannski svolítið dýr. Danska útgáfan sem bjó til hugbúnaðinn sem við notum gerði það m.a. til þess að halda virðisaukanum hjá sér, því að þau vilja ekki að einhver af stóru tæknirisunum taki af þeim þennan hagnað.

Ég man að Apple-samsteypan var á sínum tíma mikill brautryðjandi í gerð rafbóka. Eitt af fyrstu kerfunum sem ég sá sem var ætlað í rafbókagerð var frá Apple og var mjög einfalt og þægilegt í notkun. En staðreyndin var auðvitað sú að þú gast eingöngu selt bókina gegnum AppStore og þá tók Apple náttúrulega 30% í sölulaun. En ég held að þetta eigi eftir að þróast, að það muni koma fram ódýrari og notendavænni hugbúnaður, sérstaklega varðandi uppsetningu og vinnslu í bakendanum.

Svo má líka nefna að útgáfur hér á landi hafa verið tregar til að selja rafbækur inn á almenningsbókasöfn, þar hafa orðið nokkuð snörp orðaskipti. Þarna skiptir viðskiptamódelið máli, en útgefendur óttast að verulega aukið framboð rafbóka hjá almenningsbókasöfnum, sem myndu standa notendum til boða nánast endurgjaldslaust, gæti haft veruleg áhrif á núverandi tekjumódel þeirra.

Hvernig er hljóðið í bókaútgefendum þegar kemur að hljóðbókum?

Það er örugglega misjafnt en þetta er bara alþjóðleg þróun, vöxtur hljóðbókaútgáfu er mjög mikill víðast hvar í heiminum. Ég hef séð tölur sem sýna að heimsmarkaður hljóðbóka hefur vaxið um einhver 20% á hverju ári undanfarin ár. Hér á landi gerðist þetta aftur á móti mjög hratt.

Hljóðbókabyltingunni var reyndar spáð fyrr en hún raunverulega varð. Ég man eftir því að fyrir kannski 12-13 árum voru hljóðbækur mikið til umræðu, m.a. úti í Evrópu. Ég fór á bókasýningu í Frankfurt þar sem fyrirtæki, aðallega frá Indlandi, voru að bjóða til sölu minniskubba sem innihéldu eina hljóðbók hver. Þú keyptir hvern kubb eins og þú værir að kaupa eintak af bók. En það var náttúrulega ekki fyrr en streymið kom til sögunnar, sem raunverulegur kippur kom í sölu hljóðbóka.

Þessi vöxtur í hljóðbókaútgáfunni var byrjaður hér á landi fyrir COVID, en ég held að faraldurinn hafi margfaldað hann, flýtt fyrir þessari miklu útbreiðslu og fjölgun áskrifenda. Þetta er m.a. vegna þess að kiljuútgáfan minnkaði á sama tíma vegna takmarkaðar sölu í bókabúðum. Svo veit maður ekkert hvenær þetta nær hámarki. Hljóðbókaútgáfa er í mikilli samkeppni við aðra afþreyingu á borð við hlaðvörp, Spotify og jafnvel Netflix.

Ýmsir telja líka að hljóðbókavæðingin stækki markaðinn. Að þetta séu ekki bara lesendur að skipta úr pappírsformi yfir á hljóðbókaform, heldur fylgi nýir lesendur með. Og hljóðbækur geta líka vakið áhuga fólks á að lesa prentaðar bækur. Sumir nota þetta allt. Ég les bæði á pappír og skjá og við hjónin ferðumst ekki um landið án þess að hafa nokkrar góðar hljóðbækur til reiðu.

Við skulum enda þetta á klassískri spurningu: Eiga prentaðar bækur sér framtíð eða verður þetta allt smám saman rafrænt?

Prentinu hefur ótal oft verið spáð dauða. Ég held ekki að það deyi frekar en vínyllinn, þó að enginn viti fyrir víst hvernig pappírsútgáfu reiðir af.

Það getur verið að pappírsútgáfan aðlagi sig að breyttum tímum, auki t.d. áherslu á gæði. Pappírinn er ákveðið form sem býður upp á aðra möguleika en stafrænu formin, t.d. hvað varðar áferð og umbrot. Kannski förum við aftur að hugsa um bækur sem prentgripi, en ekki bara um að lækka kostnað, kaupa ódýari pappír og finna hagkvæmar leiðir. En það er ljóst að pappírsútgáfan hefur orðið fyrir varanlegum breytingum.

Upplifun fólks af pappír og prenti spilar líka inn í þetta. Námsbækur hér á landi eru enn að miklu leyti gefnar út á pappír. Þú ferð ekki í gegnum skólakerfið hér án þess að hafa lesið prentaðar bækur, hvort sem þú lest þér til afþreyingar á pappír eða ekki. Flestir hafa líka tengsl við prentið gegnum foreldra sína sem eiga ennþá prentaðar bækur. Ég get ekki rýnt inn í hug komandi kynslóða og ímyndað mér hvað tengsl þær munu hafa við pappírinn, en einmitt núna eru engin fyrirsjáanleg endalok á prentútgáfu.

Og svo gæti þessi þróun að einhverju leyti gengið til baka. Eitthvað af því sem er núna stafrænt gæti farið aftur á pappírsform.

Skoðað: 109 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála