Skip to main content
15. desember 2022

Eyður - Bransasögur

Mynd 3Þegar ég byrjaði í tölvubransanum voru tölvur óttalegir einstæðingar. Bara tengdar við rafmagn.

Til að geta forritað þurfti nokkrar prentaðar handbækur. Aðal bókin var um forritunarmálið C og náði varla í hundrað blaðsíður. Ég kunni hana eiginlega utan að.

Þá var Unix V6 síðan með "grep" skipuninni 30 línur. Núna er hún 304 línur. Síðan fyrir C þýðandann var 80 línur en er núna 26.423 línur í Linux. Ég er ekki að djóka.

Þegar ég skoða gömlu forritin sem ég skrifaði sé ég hvað þau eru lítil í línufjölda.

Það erfiðasta sem við gerðum þá, var að eiga við "linkaða lista", bendla í C. Þeir voru ruglingslegir á svipaðan hátt og umræður um ættartengsl eru. "Er þessi bendill föðurbróðir systursonar þessa bendils?" Svona pælingar tóku tíma. Núna eru bendlar nánast ekki notaðir því listar og dictionary hafa tekið við.

Harðir diskar voru nýkomnir á markað og það var mikið mál að fá þá í gang. Þeim fylgdi sérstakt spjald sem var fullt af rofum og ef einn rofinn var vitlaust stilltur virkaði diskurinn alls ekki. Áskorunin var svipuð og að opna hjólalás þegar þú hefur gleymt leyninúmerinu.

Það þurfti líka að vita hvernig diskurinn hafði verið forsniðinn, hversu margir sektorar og trakkar voru á honum. Ef þær upplýsingar glötuðust, var diskurinn svo gott sem læstur.

Sömu sögu var að segja af fyrirrennara USB tengisins, sem hét RS232. Það þurfti að stilla sendihraða, stopp bita, parity, og lóða snúruna rétt (ég var alltaf með lóðbolta meðferðis), og svo var líka vesenið með að stilla rofa á spjaldinu fyrir tengið, velja rétt interrupt og DMA. USB virkar bara yfirleitt.

Engir tenglar voru merktir aftan á tölvunni svo lyklaborðstengið og músa[1]tengið gat ruglast saman við prentaratengið. Enn einn hjólalás að opna þar. Það er kaldhæðnislegt að við í upplýsingatækni erum ekki alltaf góð í að miðla upplýsingum.

Allt þetta þurfti að gera til að ræsa tölvu sem gat ekki talað við neinn eða neitt, 80x25 stafir, engin grafík og allt í grænu. Videó, hljóð og internet voru fjarlægir draumar. Samt var þetta svo spennandi, því flestir sáu að þarna voru möguleikar fram undan eins og ókönnuð lönd.

Ég var nánast eins og trúboði þá. Enginn kunni neitt og allir þurftu aðstoð. Mér er minnisstætt þegar ég setti upp kerfi hjá frystihúsi úti á landi. Þegar ég kom aftur til Reykjavíkur var hringt og sagt að kerfið færi ekki í gang. Ég spurði hvort disketturnar væru í drifunum og hvort viðkomandi væri búinn að skrifa "start" og ýta á "enter". "Já og ekkert gerist!".

Skrifaðu DIR og segðu mér hvað kemur á skerminn. "Það kemur eitthvað á ensku, á ég að stafa það?" Já takk. "B-a-d C-o-m-m-a-n-d". Hvað skrifaðir þú? "Ég skrifaði DIR". Viltu lesa það fyrir mig? "Já, það stendur DDDDDDIIIIIRRRRR"...

Þú mátt ekki halda stöfunum niðri! sagði ég. Kerfið fór í gang og ég fékk kassa af blálöngu að launum, hún kom með bílnum suður.

Vinnudagarnir voru viðburðaríkir því ég þurfti að bregða mér af bæ oft á dag, skreppa á pósthús og í banka, heimsækja viðskiptavini með diskettur því þannig fengu menn uppfærslurnar.

Ég er blessunarlega laus við að setja upp harða diska og raðtengi, þessir hlutir bara virka í dag, og ef þeir gera það ekki er því kippt í liðinn af nýrri stétt starfsmanna og það eru ekki forritarar. En.

Önnur vandamál hafa tekið við. Ég sakna þess að skreppa ekki í bæinn. Núna hef ég enga afsökun til að standa á fætur. Ég sit of mikið. Svo er annað:

Þeir sem vildu selja hugbúnað í gamla daga þurftu að gefa út handbók og setja hann á diskettur. Kostnaðurinn við þetta tryggði að fyrirtæki hugsuðu sig tvisvar um áður en þau sendu eitthvað út.

Í dag gæti ég eytt dögum í að fylgjast með því sem er nýtt og uppfært hjá Python og JQuery og RabbitMQ og Kafka og hvað þetta heitir allt saman.

Það er svo ódýrt fyrir framleiðendur að uppfæra en kostnaðurinn lendir á notandanum sem þarf að fylgjast með.

Kannski er það bara ég og minn eitraði kúltúr en mér finnst ég alltaf þurfa að þekkja nýjungar. Þekkir þú Kubernetes og Amazon MapReduce? Það er ekki bara hægt að hafa forritun fyrir vinnu, það þarf að fylgjast vel með. Þessi flaumur hættir ekki. Fyrir nokkrum árum þurftu allir að læra ODBC, RDO, DAO, ADO, OLEDB og ADO.NET.

Þetta eru ekki hugtök úr háskólanámi. Þeir sem eru nýkomnir þaðan verða að vona að atvinnuveitandinn bíði meðan þeir komast á sömu blaðsíðu og hinir.

Nýliðar í faginu hljóta að vera óttaslegnir. Þetta er álag, eins og að fljúga þotu en án þjálfunar og þotunni er breytt í sífellu.

Samt breytist grunnþekkingin ekki mikið. Ég er kominn á þann aldur að ég get sagt eins og prédikarinn:

Það sem hefur verið mun verða og það sem gerst hefur mun enn gerast og ekkert er nýtt undir sólinni.

Nýjasta tækni er tímafrek en hún er mestmegnis endurpökkun á sömu hlutunum. Það fríar okkur ekki frá því að fylgjast með, því innan um er eitthvað sem má alls ekki missa af.

Ég myndi vilja hægja á þessu en vitaskuld er það ekki hægt. Ég er bara dálítið þreyttur núna, það líður hjá.

Skoðað: 302 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála