Skip to main content
24. ágúst 2023

Vendinám (flipped learning)

Tara Sif Þrastardóttir

Tara Sif ÞrastardóttirLífið er gjöf en hvernig við spilum úr því snýst að einhverju leiti um spilin sem við fáum á hendi. Með þessu á ég við að við stöndum því miður ekki öll jafnfætis á öllum sviðum lífsins og það á meðal annars við möguleika okkar til menntunar. Það getur auðvitað verið margt sem spilar þar inn í eins og aðstæður einstaklinga en ekki síður menntakerfið sjálft.

Við þekkjum flest hina hefðbundu leið sem hefur verið við lýði við kennslu síðustu áratugi. Þar er kennslustofa, kennari sem flytur fyrirlestur/kennslu og nemendur sem sitja við borð, hlusta og reyna að ná utan um efnið með ýmsum leiðum. Sumum finnst gott og hafa tök á því að glósa það sem kennarinn er að segja í rauntíma en aðrir kjósa frekar að hlusta. Þetta er góð og gild leið sem hentar sumum en staðreyndin er sú að þessi leið til menntunar hentar ekki öllum og löngu kominn tími til þess að bregðast við einstaklingsmun þegar kemur að menntun.

Á 21 öldinni búum við svo vel að því að tækninni hefur fleytt mikið fram og tæknin er ein leið sem við getum stuðst við til að mæta einstaklingsmun nemenda. Í þessari grein mun ég fjalla sérstaklega um eina leið til menntunar sem kallast vendinám (flipped learning) en það er leið sem reiðir sig meðal annars á mátt tækninnar.

Hvað er vendinám (flipped learning)?
Samkvæmt minni bestu vitund er menntastofnunin Keilir brautryðjandi í kennslu vendináms á Íslandi. Samkvæmt heimasíðu þeirra er vendinám sem er líka stundum kallað spegluð kennsla í raun aðferð þar sem hinni hefðbundnu kennslu er snúið við (Keilir.net, e.d.). Með öðrum orðum eru fyrirlestar kennaranna teknir upp og þeir settir á netið og nemendur hlusta á þá áður en þeir mæta í skólastofuna. Með þessum hætti er hægt að nýta kennslustundirnar í skólanum í að spyrja kennarana frekar út í efnið og fá hjálp við það sem þeim þótti óskýrt í fyrirlestrinum. Einnig er kennslustundin notuð í allskonar verkefnavinnu þar sem nemendum er skipt í hópa og vinna að úrlausnum saman með aðstoð kennara á staðnum (Keilir.net, e.d.).

Lage, Platt og Treglia voru með þeim fyrstu til að koma fram með námstækni sem líkist vendinámi (Lage o.fl., 2000). Námstæknin sem þeir komu fram með kallast öfug kennsla (e. the inverted classroom) en þar var hugmyndin að snúa kennslunni við eins og gert er í vendinámi. Rökin þeirra fyrir þessum breyttu kennsluháttum tengdist jafnrétti í námi, það er að segja með þessum hætti vildu þeir reyna að mæta þörfum allra nemenda með ólíkri námstækni. Niðurstöður þeirra bentu til þess að nemendur væru almennt ánægðir með þessa nýju námstækni og virkir í kennslustundum.

Jonathan Bergmann og Aaron Sams eru brautryðjendur á sviði vendináms eins og við þekkjum það í dag (Sigríður Dröfn Jónsdóttir, 2016). Þeir vildu meina að þegar nemendur hlusta á fyrirlestrana heima, fyrir kennslustundirnar verði gæði kennslustundanna betri því þá gætu kennararnir einbeitt sér meira að nemendunum. Þessu er ég mjög sammála verandi með reynslu af vendinámi. Það munar heilmiklu á gæði kennslustundanna þegar nemendur hafa aðgang að kennurunum alla kennslustundina í staðin fyrir kannski nokkrar mínútur í lok tímans eftir fyrirlesturinn.

Kostir og gallar vendináms (flipped learning)
Helsti kostur vendináms er að mínu mati að þessi tegund að námi stuðlar að jafnrétti í námi fyrir alla. Það er allavega verið að gera sitt besta til að reyna að ná til allra nemenda með þessum hætti. Því eins og ég kom inn á hér að ofan er mikill einstaklingsmunur á nemendum og það sem hentar einum nemenda hentar ekki endilega þeim næsta. Þegar um ræðir staðnám er átt við að þá fari kennslan alfarið fram á staðnum og í fjarnámi fer hún oftast alfarið fram á netinu. Í vendinámi er ekki verið að hætta alfarið kennslustundum heldur er þessu tvennu blandað saman það er að segja fjarnámi og staðnámi. Það er að mínu mati besta leiðin til menntunar og gæti hentað fleirum heldur hin hefðbundna kennsla sem við þekkjum flest. Með þessum hætti er haldið í það gamla en þó með aðeins breyttu sniði og máttur tækninnar einnig nýttur. Annað sem ég tel vera mikinn kost er sá valmöguleiki að nemendur geta hlustað eins oft og þeir þurfa á hvern fyrirlestur fyrir sig. Eins og ég kom inn á hér að ofan hentar það alls ekki öllum að sitja fyrirlestur, hlusta og taka glósur. Margir nemendur þurfa meiri stuðning til þess að ná utan um námsefnið og með því að geta hlustað, stoppað, glósað og hlustað aftur eru meiri líkur á að þeim takist að læra það sem fyrir þá er lagt.

Hugsið ykkur hvað þetta er frábær leið til þess að læra sem dæmi stærðfræði. Við höfum ábyggilega flest lent í því að stranda á einhverju heimadæmi sem veldur þá því að við hættum og gefumst upp. Með því að hafa öll dæmin tekin upp geta nemendur einfaldlega horft eins oft og þeir þurfa og mun minni líkur á því að þeir strandi og gefist upp. Ef svo vill til að þeim takist samt ekki að ná tökum á einhverju dæmi þá er næsta kennslustund á staðnum laus í að spyrja kennarann út í það því kennslustundin er einmitt nýtt í að hjálpa nemendum. Þannig frá mínum bæjardyrum séð er vendinám eitthvað sem ætti að henta öllum.

Ég á erfitt með að finna ókosti við vendinám en til þess að það nýtist sem best er auðvitað mikilvægt að nemendur komi undirbúnir í kennslustundirnar svo hægt sé að nýta þær sem best. Það verða auðvitað alltaf einhverjir sem gætu átt erfitt með að fylgja alltaf planinu en það á í raun við um allt nám. Hvort sem um ræðir, staðnám, fjarnám eða vendinám. Að mínu mati eru kostir vendináms svo miklir að ég eiginlega skil ekki hvers vegna það er ekki lögð meiri áhersla á að innleiða það í allt skólakerfið. Þetta er risastórt jafnréttismál og mín ósk að í náinni framtíð verði þessi frábæra leið í boði fyrir alla.

Höfundur: Tara Sif Þrastardóttir, nemi við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá
Keilir. (e.d.). Vendinám. Sótt af https://www.keilir.net/is/namid/kennsluhaettir/vendinam

Lage, M. J., Platt, G. J., & Treglia, M. (2000). Inverting the classroom: A gateway to creating an inclusive learning environment. The Journal of Economic Education, 31(1), 30–43. https://doi.org/10.1080/00220480009596759

Sigríður Dröfn Jónsdóttir. (2016). Vendinám. Hvað er það og hvernig er hægt að byrja. Opnun vendinámstorgs á Menntamiðju. https://skemman.is/bitstream/1946/26216/1/lokaritger%c3%b0.pdf

Skoðað: 969 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála