Skip to main content
7. July 2016

Íslensk vefumsjónarkerfi

SigurjonOlafssonFrá netbólunni í kringum síðustu aldamót hafa verið smíðuð ótal vefumsjónarkerfi á Íslandi og mörg þeirra ekki átt langra lífdaga auðið. Nokkur hafa hins vegar blómstrað og eru í stöðugri þróun. Í umfjöllun á þessum síðum er litið yfir stöðu á fimm grónum íslenskum vefumsjónarkerfum: Dacoda frá Dacoda, Dísill frá Cyan (Skapalóni), Eplica frá Hugsmiðjunni, LiSA frá Advania og Moya frá Stefnu. Tölvumálum lék forvitni á að vita hver staðan væri á þróun þeirra, hvort einhverra nýjunga væri að vænta og fá rök þeirra fyrir því af hverju fyrirtæki eigi að velja þeirra kerfi en ekki opinn hugbúnað (open-source) í vefumsjónarkerfum.

Dacoda CMS

Um kerfið
Dacoda CMS hefur verið í þróun frá árinu 2002 og er í notkun á mörgum af stærstu vefum landsins. Kerfið er einfalt í notkun fyrir hefðbundna notendur en um leið mjög sveigjanlegt og opið sem býður upp á að notendur með þekkingu á forritun geti búið til sérlausnir og haft fullkomna stjórn á útliti og virkni. Dacoda hefur unnið náið með sérfræðingum í leitarvélabestun og fjölda vefstjóra hjá fyrirtækjum og stofnunum. Til að koma til móts við kröfur og þarfir er kerfið í stöðugri þróun og það uppfært reglulega. Til viðbótar við almennt viðhald á vefum er boðið upp á ýmis undirkerfi, t.d.: bókunarkerfi fyrir bílaleigur, hótel, dagsferðir og pakkaferðir, vefverslunarkerfi o.fl.

Mynd 1

Skjáskot af Dacoda CMS

Tæknin
Dacoda CMS byggir á ASP.NET og notar MSSQL gagnagrunn. Einu kröfurnar sem eru gerðar til hýsingar er Windows server og Microsoft SQL server. Hægt er að nota kerfið í öllum helstu vöfrum bæði á Windows og Mac. Engar takmarkanir eru á útliti og umfangi vefja í Dacoda CMS og höfum við útbúið fjölmargar sérlausnir til að tengjast innri kerfum fyrirtækja, svo sem bókunar- og bókhaldskerfum.

Þróun kerfisins

Síðustu misseri hefur verið unnið að því að aðlaga kerfið að nýjustu stöðlum og aðferðum sem eru nýttar á vefnum ásamt því að endurbæta vefverslunarhluta kerfisins sem er gríðarlega öflugt og sveigjanlegt.

Vinna er hafin við alsherjar yfirhalningu á viðmóti á bakenda sem mun bæta upplifun notenda og einfalda vinnslu. Áætlað er að ný útgáfa af vefumsjónarkerfinu verði komin í notkun um mitt ár 2016. Það eru gríðarleg tækifæri framundan og við stefnum á að sækja á bæði innlendan og erlenda markaði. Til framtíðar sjáum við fyrir okkur að opna Dacoda CMS enn frekar og bjóða forriturum upp á að smíða viðbætur og nýta kerfið við uppsetningu á vefum bæði með og án aðkomu Dacoda.

Af hverju ekki open source?
Reynslan sýnir að open-source vefumsjónarkerfi eru almennt veikari fyrir árásum, aðallega vegna útbreiðslu þeirra, viðbóta sem innihalda öryggisveikleika og að kóðinn sé opinn öllum. Þrátt fyrir að ekki sé greitt fyrir open-source vefumsjónarkerfi er ekki víst að kostnaður vegna hönnunar, forritunar, uppsetningar og viðhalds á vef verði lægri því oft er kostnaður vegna vefumsjónarkerfis aðeins brot af heildarkostnaði við vinnslu á nýjum vef.

Dacoda CMS er gríðarlega öflugt, öruggt og sveigjanlegt vefumsjónarkerfi, þjónustað af traustu fyrirtæki sem hefur verið starfandi í yfir 13 ár. Hjá Dacoda starfa færir starfsmenn með góða þekkingu og reynslu á öllu sem við kemur hugbúnaðarþróun, hönnun og hýsingu vefkerfa. Fyrirtæki og stofnanir sem vilja trausta og persónulega þjónustu, sanngjarnt verð og öruggar veflausnir ættu að velja Dacoda CMS.

Dísill CMS

Um kerfið
Disill CMS rekur sögu sína til ársins 2001 með fyrirtækinu NúllEinn (síðar Atóm/NúllEinn) sem þarfnaðist þá kerfis til þess að viðhalda og ritstýra afþreyingarvefnum nulleinn.is.  Fyrsta útgáfa var nokkuð frumstæð en skilaði ætlunarverki sínu með sóma. Fljótlega fór að bera á þörf fyrir fleiri aðila fyrir vefumsjónartól, auk sérþarfa eins og bókunarkerfa sem þá voru innleidd í kerfið. Þegar Atóm/NúllEinn og Skapalón voru sameinuð undir nafni Skapalóns árin 2009-2011 var rekstur kerfisins aðskilinn frá almennri starfsemi Skapalóns og færður undir CYAN ehf sem á og rekur Disill CMS í dag. Frá þeim tíma hefur stefnan breyst verulega og öll áhersla lögð á að einangra virkni kerfisins við vefumsjón/stýringu og nýta utanaðkomandi lausnir og innleiða virkni þeirra við kerfið með módúlum.

Mynd 2

 Skjáskot af Dísill CMS

Tæknin
Disill 5 er skrifaður í ASP.Net C# MVC 4.5 og eru gögn geymd í Microsoft SQL gagnagrunni í gegnum Entity framework. Stór hluti kerfisins er nú byggður á BackboneJS sem notar Web Api til að birta viðmót og gögn í bakendanum. Í framendaforritun er notast við Razor sniðmát (Razor template engine) til að byggja upp HTML5 viðmót. Viðmótið er svo stílað með CSS3 og virkni forrituð með Javascript og er viðmótið aðskilið frá kerfinu sjálfu.


Þróun kerfisins
Núverandi útgáfa kerfisins Disill 5 var endurskrifuð og viðmót endurhannað að öllu leyti á árunum 2013-2014, en vefur Landsvirkjunar (landsvirkjun.is) var fyrsti vefurinn sem keyrði á Disill 5. Þar á eftir var vefur Alvogen (alvogen.com) sem m.a. var valinn fyrirtækjavefur ársins 2014. Samhliða þróun á Disill 5 átti snjallsímabyltingin sér stað og voru þær þarfir sem sú nálgun kallaði á tvinnaðar inn í Disill 5 með góðum árangri.

Ein helsta nýjungin í Disill 5 er drag-and-drop möguleikinn til uppröðunar á efni. Notendur geta á einfaldan og myndrænan máta raðað saman því útliti sem þeir kjósa á hverri síðu fyrir sig, ásamt efnismódúlum á hverri síðu fyrir sig. Með þeirri virkni var í raun hætt að gera mörg sniðmát fyrir síður heldur er einungis eitt sniðmát fyrir hvern vef og á hverri síðu er hægt að raða upp efni og virknismódúlum með nánast óendanlegum möguleikum sem er afar þægilegt í umsýslu, sérstaklega með snjallvefi. Af öðrum viðbótum má nefna tengingu við Shopify vefverslunarkerfið, DK bókhaldskerfið, Dashboard tengingar við Google Analytics og víðari möguleika og tengingar við samfélagsmiðla.

Okkar markmið og stefna er að gera alla notendaupplifun og virkni kerfisins skilvirkari til vefumsýslu og vefstýringar og nýta leiðandi utanaðkomandi lausnir inn í kerfið til afnota fyrir notendur, án nokkurra takmarkana.

Af hverju ekki open source?
Val á kerfi er ekki lykilatriði, heldur þekkingin og þjónustan sem fylgir kerfinu. Að ákveðnu leyti má segja að Disill 5 sé opið kerfi, þar sem kerfið styður að notendur geti skrifað eigin einingar (módúla) við kerfið að vild og nýta margir viðskiptavinir sér það.  Open source kerfin eru misörugg og eins ólík og þau eru mörg. Í raun gerum við lítinn greinarmun á open source og öðrum CMS kerfum. Öll kerfin kalla á viðhald, þekkingu og þjónustu. Það er eitthvað sem við getum tryggt með Disill 5.

Eplica vefumsjónarkerfið

Um kerfið
Fyrsta útgáfa Eplica vefumsjónarkerfisins kom út 2001. Það hefur frá upphafi verið þróað og þjónustað af Hugsmiðjunni og hefur verið í notkun á hundruðum vefsvæða.

 eplica clevercrop tilraun

Skjáskot af Eplica

Tæknin
Eplica byggir á Java og keyrir bæði á Linux og Windows vefþjónum. Mikið er lagt upp úr aðgengismálum og kóðagæðum, enda koma Eplica vefir iðulega vel út úr aðgengisprófunum.

Þróun kerfisins
Sérstaða kerfisins hefur frá fyrstu útgáfu verið að notendur framkvæmi sem mest af helstu aðgerðum vefstjóra á vefnum sjálfum, en ekki í stjórnkerfisgluggum. Þannig vinna notendur alltaf með efnið í réttu samhengi; í því útliti og leturgerð sem vefnum tilheyrir, frekar en að skrifa inn í hlutlausan sprettiglugga og þurfa að vista til að sjá hvernig breytingar koma út. Í útgáfu tvö sem kom út í ársbyrjun 2009 var viðmótið bætt og áhersla lögð á að auðvelda enn meira vinnu við nýskráningu síðna og umsýslu veftrés.

Í ár kom út Eplica 3 og þar hefur allt viðmót fengið yfirhalningu, skjámyndir eru einfaldaðar og gerðar skýrari. Stærsta nýjungin sem notendur verða varir við er mikið bætt umsýsla mynda og skjala. Notendur geta nú notað drag-drop til að bæta myndum inn í kerfið án þess að þurfa að skrá þær sérstaklega. Til að bæta myndbirtingu á snjöllum (skalanlegum) vefjum þróuðum við nýjung sem við köllum CleverCrop og gerir notendum kleift með einum smelli að skilgreina áherslupunkt hverrar myndar. Kerfið býr svo sjálfkrafa til myndir í hlutföllum og stærðum sem henta ólíkum miðlum. Þannig þarf notandi ekki að skera myndir í ólíkum hlutföllum í myndvinnsluforriti fyrir t.d. forsíðuborða handa ólíkum skjástærðum.

Við vinnum stöðugt að endurbótum og reynum að vera vakandi fyrir þörfum okkar viðskiptavina, en meðal stærri fyrirhugaðra breytinga eru betrumbætur á leitarvirkni, bæði varðandi hefðbundna vélarleit og möguleika vefstjóra til að sérsníða leitarniðurstöður að þörfum sinna notenda.

Af hverju ekki open source?
Enn höfum við ekki fundið open-source vefumsjónarkerfi sem býður sömu möguleika í viðmóti efnisvinnslu og Eplica kerfið, þótt sum hver séu að færast nær því sem við byrjuðum með fyrir nærri 15 árum. Að viðmóti Eplica kerfisins frátöldu má samt segja að helsta ástæðan fyrir því að velja Eplica sé sérfræðiþekking Hugsmiðjunnar. Við höfum markvisst haft þá stefnu að einbeita kröftum okkar að því kerfi sem við treystum best og höfum mesta möguleika á að aðlaga, í stað þess að dreifa kröftum okkar við að þjónusta mörg ólík vefumsjónarkerfi.

LiSA vefumsjónarkerfið

Um kerfið
LiSA vefumsjónarkerfið hefur verið í stöðugri þróun frá árinu 1997 og er núverandi kerfi í sjöttu útgáfu. LiSA er þegar í notkun hjá hundruðum stofnana og fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum. LiSA er seld í almennri útgáfu með öllum helstu grunneiningum kerfisins, svo sem ritli, fréttakerfi, listahlut, skoðanakannanir, myndbands afspilunarkerfi, flipakerfi, myndagallerí og aðgangsstýringakerfi. Til viðbótar er mögulegt að kaupa einingar eins og vefverslun, forritunaraðgengi, bókunarkerfi, Sharepoint tengingar og námskeiðakerfi. Möguleiki er að setja upp mörg vefsvæði í sama kerfinu.
 

Mynd 4
Skjáskot af LISA

Tæknin
LiSA byggir á Microsoft rekstrarumhverfi og keyrir á Windows stýrikerfinu, notar IIS og MS SQL gagnagrunn. LiSA vefumsjónarkerfið er afar sveigjanlegt og hefur verið notað við að tengjast öðrum upplýsingakerfum og miðla á innri og ytri vefum. LiSA keyrir í öllum helstu vöfrum.

Bæta má nýrri virkni við kerfið með því að forrita nýjar .NET stýrieiningar eða einingar sem keyra á vefþjóni. LiSA veitir aðgang að tæknilegu viðmóti, API  sem gerir kleift að tengjast LiSU kerfinu í gegnum forritunaraðgengi.

LiSA vefumsjónarkerfið er afar sveigjanlegt og hefur verið notað við samþættingu á kerfum t.a.m. starfsmannakerfi (Focal), skjalavinnslukerfi (MS SharePoint), ActiveDirectory, launakerfi (H-laun), Exchange, Axapta, Navision, DK, tímaskráningakerfi svo eitthvað sé nefnt. LiSA hugbúnaðinn er hægt að hýsa í hefðbundnu Microsoft hýsingarumhverfi. Viðskiptavinir geta því hýst sjálfir eða hjá öllum helstu þjónustuaðilum í vefhýsingu.

Þróun kerfisins
Þar sem LiSA hefur mjög öflugan og kröfuharðan viðskiptavinahóp er mikið lagt í þróun nýjunga. Dæmi um nýjungar eru t.d endurbætt leitarvirkni þar sem flokkun niðurstaðna ásamt beygingarmyndum leitarorða, fullur stuðningur við ASP.NET MVC sem gerir smíði á viðbótum og sérvirkni mun einfaldari en áður og samhæfing við Microsoft Azure skýjalausnina.

Verið er að vinna í endurhönnun á viðmóti kerfisins sem gerir notendum enn auðveldara að viðhalda efni vefsins ásamt þeim gögnum sem liggja þar á bakvið. Ennþá meiri fókus á félagslega (e. Social) virkni, sérstaklega innri vefi fyrirtækja.

Af hverju ekki open source?
Full stjórn er á frumkóða kerfisins ásamt virkni þess, þar sem við búum yfir áratugalangri þekkingu á kerfinu og getum því brugðist hratt við verði rof þar á. Viðbætur og sérvirkni eru í stjórnuðu umhverfi sem hefur takmarkaðan aðgang að auðlindum kerfisins og því erfitt að gera e-ð sem brýtur öryggi kerfisins. Tryggt er að þær einingar sem gerðar eru fyrir kerfið virki áfram í nýrri útgáfu kerfisins og auðvelt sé að uppfæra þær með kerfinu sjálfu. Kerfið er uppsett og stillt af með tilliti til öryggis af sérfræðingum frá okkur auk þess sem gerðar eru reglulega öryggisúttektir af þriðja aðila. Gerðir eru þjónustu- og uppfærslusamningar sem tryggja að hægt sé að kalla til aðila til að þjónusta, veita ráðgjöf eða uppfæra kerfið verði einhver misbrestur á.

Moya vefumsjónarkerfið

Um kerfið
Markmiðið er skýrt; að færa vefstjórum, vefritstjórum og öðrum sem vinna með uppfærslu efnis á vefsvæðinu aðgang að viðhaldi og breytingum á sem þægilegastan en um leið öruggastan hátt. Við leitum eftir því að heyra frá notendum og fylgjumst grannt með því hver þeirra helstu hugðarefni eru og höfum þróað kerfið í meira en áratug í samhengi við þeirra þarfir og óskir. Moya er í dag í notkun á um 1.000 vefsvæðum um 650 fyrirtækja, stofnana og félaga.

Með aðgangi að kerfinu geta notendur sýslað með efni á vefnum án þess að yfirgefa vefinn sjálfan, þar sem „Breyta“ hnappar birtast inni á síðunum hjá innskráðum notendum. Þannig er því mjög takmörkuð þörf fyrir að læra á kerfi (og enn síður að fara í kerfi). Við höfum einfaldleikann og auðvelt aðgengi í fyrirrúmi. Stuðningur við leitarvélarbestun hefur verið þróaður ítarlega með viðskiptavinum á borð við Icelandair Hotels og markaðsstofum landshlutanna og nýtist jafnt fyrir smærri sem umfangsmikla vefi.

Mynd 5

Skjáskot af Moya

Tæknin
Kerfið byggir á PHP með Zend Framework. Þannig nýtir það tilbúnar einingar þess umhverfis og fylgir stöðlum þess til að tryggja hraða, afköst, öryggi og rétt vinnulag, rétt eins og t.d. vefir BBC og BNP Paribas og er hýst í skýinu. Stefna tryggir nauðsynlegar uppfærslur vegna öryggisþátta, en umfangsmeiri uppfærslur í nýrri útgáfur af kerfinu eru gerðar að ósk viðskiptavina og eftir þörfum.

Þróun kerfisins
Við metum allar sérþarfir og okkar nálgun er oftar en ekki að smíða litlar viðbótareiningar til að gera viðhald efnis sem einfaldast. Þannig höfum við smíðað einingar til að halda utan um hótelkeðju Icelandair Hotels, vefrit ÖBÍ, félaga- og endurmenntunareiningu inn á vef Félags löggiltra endurskoðenda og einingu fyrir yfirlit eigna á vef Reita, svo eitthvað sé nefnt. Við nýtum tilbúnar einingar einnig á fjölbreyttan hátt, til dæmis er sama námskeiðaeining í notkun á vefjum Hilton Nordica Spa, Mjölnis og Promennt, hver með sínu útliti og mismunandi áherslum.

Framundan eru nýjungar sem notendur okkar hafa helst kallað eftir. Þar má nefna eflingu myndvinnslu í kerfinu, jafnt skölun og stuðning við bestu mögulegu þjöppun (með eða án gæðatapi), sem og enn bættan stuðning við leitarvélabestun og aðgengi fyrir alla. Meðal nýjunga undanfarin misseri má nefna öfluga vefverslunareiningu, samþættingu við Bókun.is, öfluga einingu fyrir pantanir á veitingastöðum sem var þróuð í samvinnu við Saffran og umbætur í aðgengismálum.

Af hverju ekki open source?
Með eigin kerfi höfum við sniðið viðmótið að þörfum notenda. Við höfum byggt upp örugga, einfalda en jafnframt öfluga lausn fyrir íslenska markaðinn sem þjónar honum afspyrnuvel. Reynsla okkar sýnir að í samanburði við open source lausnir megi þannig halda niðri kostnaði þegar litið er til lengri tíma. Okkar eigin einingar og viðbætur falla snuðrulaust að kerfinu og með slíkt umhverfi er aldrei hætta á að vefmálin lendi í limbói. Við höldum jafnframt þétt utanum alla öryggisþætti, sem léttir vefstjóranum lífið.

Vefumsjónarkerfi er aldrei betra (en stundum verra) en þjónustan sem er veitt samhliða því. Áhersla okkar á öfluga þjónustu og reynslu í yfir áratug hefur leitt til mikillar ánægju þeirra vefstjóra sem hafa valið okkur til samstarfs, umfram t.d. open source kerfi.

Höfundur: Sigurjón Ólafsson, Fúnksjón vefráðgjöf

Skoðað: 3670 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála