Skip to main content

Ágrip af sögu Ský

Upphaf og starfsemi Ský

Stofnun Skýrslutæknifélags Íslands, Ský, árið 1968, markaði ákveðin tímamót. Eins og getið er framar í þessu riti varð félagið til á tíma hraðra samfélagsbreytinga. Skýrslutæknifélagið er félag einstaklinga og starfsmanna fyrirtækja og stofnana á sviði upplýsingatækni. Það er rekið með því markmiði að standa undir rekstri en ekki að skila hagnaði. Það er jafnframt elstu samtök á Íslandi sem starfa á sviði upplýsingatækni og þegar félagið var stofnað höfðu fáir aðgang að þeim örfáu tölvum sem voru til á Íslandi. Á vef Ský segir:

Tilgangur Ský er að miðla þekkingu milli þeirra sem starfa við eða hafa áhuga á upplýsingatækni. Félagið býr yfir gífurlegu tengslaneti og stendur reglulega fyrir fjölbreyttum viðburðum um upplýsingatækni. Ský var stofnað árið 1968 og hefur starf þess sjaldan verið jafnt öflugt og nú.[1]

Ráðstefnur, hópar og útgáfa tímarits

Ráðstefnur, starf faghópa og útgáfa tímaritsins Tölvumála hafa einkennt starfsemi Skýrslutæknifélagsins. Sá hópur sem ef til vill hefur vakið hvað mesta athygli er Tölvuorðanefndin. Hún hefur starfað á vegum félagsins óslitið frá upphafsárinu, 1968. Nefndin hefur staðið fyrir útgáfu Tölvuorðasafns og er þetta er ritað í árslok 2015 eru í því 7700 íslensk heiti og 8500 ensk heiti á rúmlega 6500 hugtökum sem lúta að upplýsingatækni og tölvunotkun. Fjórar útgáfur safnsins hafa komið út eins og fram kemur í kaflanum um Tölvuorðasafnið.[2]

Tímarit Skýrslutæknifélagsins, Tölvumál, hefur komið út samfellt frá árinu 1976 og hefur birt greinar um flest það sem ætla má að veki áhuga fólks á sviði upplýsingatækni. Ritið hefur að geyma ómetanlegan fróðleik um sögu tölvuvæðingar og upplýsingatækni á Íslandi og því engin tilviljun að greinar blaðsins skipa stóran sess í heimildum um þessa sögu. Seinni ár hefur Tölvumál verið gefið út sem vefútgáfa með birtingu nýrrar greinar vikulega auk einnar prentútgáfu á ári.

Upphaf tímaritsins er dálítið áhugavert og ekki víst að ritnefndarmenn hafi gert sér grein fyrir því hvers konar miðill væri í uppsiglingu, en þó má greina ákveðin spádómsorð í lokaorðunum á forsíðu fyrsta tölublaðs tímaritsins: Mjór er mikils vísir.

tolvumal
Hluti forsíðu fyrsta tölublaðs tímaritsins Tölvumál, nóvember 1976.

Heitar umræður

Halldór Kristjánsson var formaður Skýrslutæknifélagsins á árunum 1988–1994 og hefur næstlengsta formennsku félagsins að baki á eftir fyrsta formanninum, Hjörleifi Hjörleifssyni. Halldór kom inn í starf félagsins í kjölfarið á erindi er hann hélt og grein sem hann skrifaði um þau vinnubrögð sem viðgengust við val á tölvubúnaði hjá fyrirtækjum, þar sem ráðgjafarnir höfðu tengsl við ákveðna söluaðila og þáðu allháar prósentur frá þeim ef til sölu á búnaði kom. Um það er nánar fjallað í kafla fyrr í þessu riti.

Í upphafi tíunda áratugarins voru að jafnaði sjö til átta ráðstefnur á vegum Skýrslutæknifélagsins á ári. Um jólaleytið var stærsta ráðstefnan og þá komu seljendur saman og sýndu það nýjasta á upplýsingatæknisviðinu. Tæknin var í mjög örri þróun á þessum tíma og því var einn þáttur þessara ráðstefna að spá fyrir um næstu skrefin inn í framtíðina. Ein framtíðarspá sem Halldór Kristjánsson kom með á þessum tíma (1993­–1994) lýsti nokkuð ítarlega snjallsímum nútímans, með hljóðnema um hálsinn, og þetta bjóst hann við að sjá eftir um það bil tíu ár.[3]

Nýjar áherslur Ský í kjölfar hrunsins

Eftir efnahagshrunið var ekki vitað hver áhrif hrunsins yrðu á starfsemi félagsins. Starfsmenn Ský voru tveir fyrir hrun og um sex til átta ráðstefnur haldnar á ári en þróunin varð sú frá haustinu 2009 að starfsmaður varð einn, ráðstefnur ársins tvær til þrjár en í staðinn var farið að bjóða upp á smærri fundi um ýmis málefni tölvutækni í formi hádegis- eða morgunverðarfunda, örnámskeiða og ráðstefna. Alls eru þetta 25–30 viðburðir á ári. Það gerðist, sem enginn átti von á, að alltaf var fullt á þessum fundum. Hópurinn sem sótti viðburðina var einnig annar en áður hafði verið. Á ráðstefnur sem tóku hálfan eða heilan dag höfðu einkum komið stjórnendur og yfirmenn, en almennir notendur og starfsfólk hug- og vélbúnaðarfyrirtækja fór að sækja hádegisfundina. Þetta var góður valkostur þegar fyrirtækin hættu að hafa tök á að senda starfsmenn sína til útlanda að sækja slíka fundi eða námskeið. Fjöldi þeirra sem sækja þessa viðburði er jafnan mjög mikill og þrátt fyrir að á ýmsu hafi gengið þegar þessir fundir fóru af stað 2009, hrun og eldgos, var ljóst að þörf var fyrir viðburði af þessu tagi. Samhliða þessu fjölgaði umtalsvert á póstlista Ský, úr 2000 manns í 5000.[4]

Vefur Ský og hópastarf

Vefurinn sky.is er andlit félagsins út á við og þar er að finna allar upplýsingar um faghópa og dagskrá viðburða ásamt yfirliti yfir liðna atburði og glærukynningar frá þeim.

Faghópar Ský eru opnir öllum félagsmönnum og má þar nefna (2014) faghópa um upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu, fjarskiptahóp, öryggishóp, hugbúnaðarhóp, fræðslu- og menntahóp, faghóp um vefstjórnun og annan um rafræna opinbera þjónustu auk öldungadeildar, sem hefur séð um varðveislu sögulegra gagna. Auk þessara faghópa eru starfandi ritnefnd og orðanefnd innan félagsins ásamt siðanefnd.“[5]

UTmessan

Stærsti viðburður Ský á hverju ári er upplýsingatæknimessa, UTmessan, stór ráðstefna og sýning fyrir almenning sem var fyrst haldin árið 2011. UTmessan var tilraun til að búa til einn stóran tölvuviðburð þar sem allir kæmu saman, fagfólk og áhugamenn. Vel gekk að fá fyrirtækin til liðs og til að taka þátt í sýningu sem er hluti messunnar auk dagskrárinnar.[6]

Framkvæmdastjóri Ský, Arnheiður Guðmundsdóttir, heldur utan um þennan stóra viðburð eins og aðra á vegum Ský. Er UTmessan var sett á laggirnar varð mælanleg aukning í fjölda nema í tölvunarfræði, sérstaklega kvenna, enda er það einn megintilgangur UTmessunnar að hvetja fólk til að skoða tölvu- og tæknistörf sem framtíðarstarfsvettvang.[7]

Í tímaritinu Tölvumálum 2011 er nánar sagt frá markmiði þessarar nýjungar: „Tilgangur [UTmessunnar] var að vekja athygli á mikilvægi upplýsingatækninnar og áhrif hennar á einstaklinga, fyrirtæki og íslenskt samfélag. Markmiðið með UTmessunni var að sjá marktæka fjölgun nemenda sem velja sér tæknigreinar sem svið í háskólum landsins. Einnig vildum við tengja upplýsingatæknina betur við skólastarf og atvinnulíf og vekja áhuga almennings á upplýsingatækni og mikilvægi hennar á öllum sviðum daglegs lífs.“[8] Þeir sem stóðu að fyrstu UTmessunni auk Ský voru Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Microsoft Íslandi og Samtök iðnaðarins. Þessi viðburður tókst einkar vel og var boðið upp á fimm þemalínur fyrir fagfólk í upplýsingageiranum fyrri daginn og sýning haldin fyrir almenning síðari daginn. Þá voru UT-verðlaunin afhent í annað sinn. Þátttakendur voru á þriðja þúsund og fjölmörg fyrirtæki, félög og stofnanir, stórar og smáar, tóku þátt í viðburðinum.

Árið 2013 voru þátttakendur í UTmessunni orðnir um fimm þúsund og fagráðstefnuna sóttu um sjö hundruð manns.

Það er óhætt að segja að UTmessan hafi stimplað sig inn hjá Íslendingum og lítur út fyrir að viðburðurinn muni vaxa og dafna enn meira á næstu árum. Undirbúningur fyrir UTmessuna 2014 er farinn af stað og er það von okkar að enn fleiri taki þátt í henni en þeirri fyrstu og við getum þannig sýnt Íslendingum hve mikill hugur er í fólki í UT geiranum.[9]

UT- verðlaunin

UT verðlaunin eru heiðursverðlaun sem veitt eru árlega fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Þau voru veitt í fyrsta sinn árið 2010 og eru jafnan veitt á UTmessunni. Tilnefningar til verðlaunanna geta komið frá hverjum sem er en síðan sér valnefnd um að veita verðlaunin. Fjölbreytni hefur einkennt þá sem verðlaunin fá, þar hafa verið þekktir frumkvöðlar í upplýsingatækni á Íslandi, einstaklingar og stofnanir, svo og fulltrúar nýsköpunar. Þetta er mjög í anda þeirrar lýsingar sem er að finna á vef Ský um áherslur við tilnefningar til verðlaunanna:

Hægt er að tilnefna einstakling, fyrirtæki eða verkefni sem hefur skarað framúr á sviði upplýsingatækni, skapað verðmæti og auðgað líf Íslendinga með hagnýtingu á upplýsingatækni. Áhersla er lögð á að framlagið hafi þegar sannað sig með afgerandi hætti.[10]

 

[1] http://www.sky.is/index.php/saga-felagsins-sky. Sótt 2.2.2016.

[2] http://www.sky.is/index.php/saga-felagsins-sky

[3] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 16.9.2015.

[4] Arnheiður Guðmundsdóttir. Viðtal tekið 15.10.2015.

[5] Söguvefur Ský. http://www.sky.is/index.php/saga-felagsins

[6] Arnheiður Guðmundsdóttir. Viðtal tekið 15.10.2015.

[7] Sama heimild.

[8] UTmessan 2011. Tölvumál, 1. tbl. 36. árg. 2011, bls. 18. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/2011_proof_loka.pdf

[9] UTmessan. Tölvumál, 1. tbl. 38. árg., október 2013, bls. 24. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/Tolvumal_2013.pdf. Sótt 15.11.2015.

[10] http://www.sky.is/index.php/ut-verdhlaun-sky