Skip to main content
17. maí 2012

Er hugsun okkar að breytast með notkun Internetsins

Ég er af þeirri kynslóð fólks sem fór í gegnum skólakerfið alveg fram að háskólagöngu þar sem tölvur komu lítt eða ekki við sögu. Fingrasetning á lyklaborði var kennd á námskeiðum sem hétu Vélritun 101 eða eitthvað álíka þar sem hávaðinn í tímum hefur ekki verið minni en á meðal þungarokkstónleikum.

Aðferðir við rannsóknarvinnu voru einnig töluvert ólíkari en í dag. Það þýddi setu á bókasöfnum þar sem viðað var sér efni úr bókum og tímaritum. Efnisyfirlit voru skönnuð línulega og svo voru greinar og valdir kaflar lesnir frá A-Ö til að vera nú viss um að missa ekki af góðum heimildum til að nota í viðkomandi ritgerðir eða verkefni. Vinnan og efnisöflunin var nokkuð skipulögð, línuleg og krafðist í góðs minnis. Afraksturinn varð síðan að slá inn á ritvélina og vanda til verka því tippex skilaði manni aðeins ákveðið langt við að þurrka út mistök sem voru gerð í innslætti.

Þótt flest okkar séu því marki brennd að muna aðeins hluta þess sem við lesum og lærum skipti máli að þekkja meginatriðin og að muna hvaðan upplýsingarnar voru fengnar til að geta nálgast þær aftur. Í raun var þess krafist að fólk væri með e.k. „mental filing cabinet“ þar sem hægt væri að kalla fram efnisyfirlit yfir hvar upplýsingarnar lágu. Anders Fogh Rasmussen fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur notaði hugtakið „paratviden“ eða vitneskju sem nemendur þyrftu að hafa á takteinum án þess að þurfa að leita hana uppi. Þetta var árið 2003 þegar hr. Rasmussen var að halda ræðu um ástand menntunarmála í Danmörku (sem honum virtist telja ábótavant). Hann vildi sem sagt auka vægi takteina vitneskju í menntun.

En er það endilega svo að slíkt sé raunhæft eins og heimurinn er að þróast í dag? Hvernig við nálgumst upplýsingar hefur í eðli sínu gjörbreyst frá því sem var fyrir 10 – 20 árum. Í stað þess að reyna að leggja hluti á minnið er stærstur hluti vitneskju aflað eftir leit á Internetinu þar sem niðurstöður eru birtar eftir vægi og samsvörunar við leitarstrengi sem við sláum inn. Gæði niðurstaðna ræðst af því hversu góð við erum að leita og kemur þá í hugan skilgreiningin „hunter-gatherer“ á manneskjum. Leikni í að nota leitarvélar fer því að ráða árangri veiðiferðarinnar.

Eitt sem hafa ber i huga hér er að þekking mannskynsins alls tvöfaldast á ca 18 mánuðum (ekki óhugsandi að þetta hafi líka breyst) og það er orðið erfiðara að fylgjast með því sem er að gerast og vera vel að sér á sem flestum sviðum (hafa „paratviden“). Samt gerir þessi öra þekkingaraukning það að verkum að vissa okkar fyrir því að einhver tiltekin þekking á orsakasamhengi eða skilgreining á hegðun og virkni hlutanna hlýtur að fara minnkandi og nauðsyn þess að fá staðfestingu á að það sem maður taldi vera staðreyndir séu það í raun enn. Upplýsingar er ennfremur hægt að nálgast á mun markvissari hátt og hægt er að safna saman upplysingum og raða saman í heildstæða þekkingu mjög hratt og örugglega svo úr verði heildstæð vitneskja. Gæði þeirra upplýsinga og þekkingar sem nálgast er á Internetinu og geta fólks til að greina hvaða er „rétt“ og hvað er „rangt“ verður enn mikilvægari í þessu samhengi. Það er t.d. nokkuð áhyggjuefni að sérstaklega ungt fólk með tiltölulega litla lfísreynslu á erfitt með að greina á milli misvísandi upplýsinga sem auðvelt er að nálgast. Eitthvað sem hljómar sennilega en er samt afbökun á sannleikanum en þetta er nokkuð sem er efni í sérgrein.

Þessi hæfileiki að safna saman mörgum upplýsingabútum krefst ákveðinnar menntunar og þekkingar sem hjálpar okkur að vinna hratt og örugglega með þekkingar- og upplýsingabrot (e. „fragments“) sem hlýtur að gera þær kröfur til okkar að hugsanagangur okkar sé meira fljótandi og fær um að skjótast snöggt í hinar ólíku áttir til að sækja gögn sem undirbyggja það sem við erum að hugsa eða tala um, raða saman kubbunum, og mynda heildstæða niðurstöðu í lokin. Gott dæmi um þessháttar hegðun myndi vera upphafsatriði myndarinnar „The Social Network“ þar sem stofnandi Facebook Mark Zuckerberg heldur uppi samræðum við samnemenda sinn á mörgum mismunandi sviðum en nær alltaf að halda þræði (nokkuð sem samnemenda hans gengur ekki eins vel með). Þetta er í mínum huga gott dæmi um breytingu á heilastarfsemi sem gerir þennan hæfileika mögulegan og ég man ekki til að hafa séð mörg dæmi um fyrr á árum.

Að leggja hluti á minnið og hvaðan hvaðan upplýsingar koma er því í raun orðið marklaust. Ef haft er í huga hversu hratt sameiginleg þekking mannkynsins eykst þá er óhætt að segja að þessi þróun á bara eftir að halda áfram og í áttir sem er ekki auðvelt að sjá fyrir eins og er.
Gerðar hafa verið rannsóknir á að hvernig heilastarfsemi breytist við læsi. Svæði í heila, svokallað Corpus Callosum sem tengir saman heilahvelin verður þykkara hjá þeim sem eru læsir en hjá þeim sem eru það ekki.
 
Figure 1: Corpus Callosum - tengir saman heilahvelin tvö
mynd1

Önnur athyglisverð niðurstaða sem fundin hefur verið með því að læsa einstaklinga og þá sem eru ekki læsir að að það svæði heilans sem er ábyrgt fyrir greiningu á myndum og sjónrænu áreiti úr umhverfinu vann hægar í fullorðnu fólki sem hafði lært að lesa sem fullorðið fólk ef borið saman við einstaklinga sem höfðu lært að lesa sem börn.
 
Figure 2: Staðsetning Occipital Lobe
mynd2

Það sem rannsóknir hafa sýnt er að lestrar- og skriftarkunnátta breyta starfsemi heilans á mörgum sviðum, svo sem myndrænni greiningu, rökfærslu, hvenig minningar eru sóttar svo eitthvað sé nefnt. Ef hugsað er til þess hvernig lestrarhæfileikar geta breytt samsetningu og starfsemi heilans þá er hægt að gera sér í hugarlund að 10 tímar á dag fyrir framan skjá geta einnig breytt starfsemi heilans á jafn róttækan hátt og lestrarkunnátta gerir en ekki er á þessari stundu hægt að slá því föstu hver sú þróun yrði. Ein af örsökum þess er að nú eru fyrstu kynslóðir svokallaðra “digital natives” eru fyrst að ná fullorðinsárum svo að engar vísindalegar rannsóknir liggja fyrir um hvort og þá hver breyting á heilastarfsemi verður við þessar miklu breytingar á hvernig við nálgumst upplýsingar, vinnum með upplýsingar og stundum samskipti hvort við annað. Þetta gildir jafnt um leik og starf því einn þáttur af þessum breytingum sem eru að eiga sér stað er sífellt óskýrari skil milli vinnu og félagslífs. Þegar hægt verður að rannsaka breytingar á heilanum og starfsemi hans sem afleiðing af þessum breytingum verður spennandi að sjá hverjar þær breytingar verða og hvaða nýja möguleika þær breytingar veita mannmyninu öllu í framþróun þess sem tegundar.

Höfundur reyndi að vinna greinina með eingöngu “paratviden” að vopni en varð að játa sig sigraðan og "bing-a" nöfn heilasvæða sem og nafn stofnanda Facebook.

Höfundur:Harrý Óskarsson
harry 

Skoðað: 6125 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála