Skip to main content
24. maí 2012

Sterk heild samfélagsmiðla og vefseturs skapar samkeppnisforskot

Íslendingar hafa tekið samfélagsmiðlum eins og Facebook, YouTube, LinkedIn og Twitter fagnandi. Samkvæmt könnun Hagstofu Íslands árið 2011 notuðu 75,6% Íslendinga samfélagsvef á undanförnum þremur mánuðum. Facebook er væntanlega útbreiddasti samfélagsmiðillinn hér á landi eins og víðar á Vesturlöndum enda hefur Facebook marga styrkleika þegar kemur að rafrænni markaðssetningu:

• Mikil útbreiðsla og notkun
• Það kostar ekkert að setja upp síðu á Facebook
• Það tekur mjög skamman tíma að búa til síðu á Facebook
• Auðvelt að eiga í samskiptum við viðskiptavini á Facebook, hægt er að fá mikil viðbrögð við efni sem sett er á síðu fyrirtækisins og hittir í mark
• Möguleiki á fá viðskiptavini að kynna vörumerki, fyrirtæki, vöru og þjónustu fyrir vinum og kunningjum
• Öflugt auglýsingakerfi á Facebook sem getur verið hagkvæmt í notkun
• Auðvelt að deila myndum, hægt að skrifa bloggfærslur (Notes), deila myndskeiðum o.s.frv.
• Öflugt greiningartól fyrir fyrirtækjasíður (Facebook Insights)
• Hægt að tengja aðra samfélagsmiðla við Facebook, birta þar Twitter færslur, myndskeið frá YouTube o.s.frv.

Aðrir samfélagsmiðlar eins og Twitter, Google+, Pinterest, Linkedin og YouTube geta einnig skipt miklu máli. Hver þessara miðla hefur styrkleika og veikleika. YouTube er næst mest notaða leitarvél heims á eftir Google. Twitter nýtur sífellt meiri vinsælda og býður knappt og skemmtilegt form, Google+ mun líklega í vaxandi mæli styrkja leitarvélabestun þeirra aðila sem nýta þann miðil og vöxtur Pinterest hefur verið ævintýralegur og þá sérstaklega á meðal kvenna. Linkedin er orðinn leiðandi miðill fyrir fagfólk á ýmsum sviðum.

Takmarkanir á samfélagsmiðlum

Samfélagsmiðlarnir hafa líka ýmsa veikleika. Það er nærtækt að taka dæmi af Facebook. Ef ætlunin er að setja einhverja sérvirkni á Facebook síðu þarf að forrita hana sérstaklega og getur það verið kostnaðarsamt. Ekki bætir úr að tiltölulega fáir aðilar hér á landi hafa sérhæft sig í slíkri forritun. Sé fyrirtæki með síðu á Facebook ætti hún að koma fram þegar leitað er að fyrirtækjaheiti á Google en einstakar færslur og annað efni sem er á Facebook koma ekki fram við Google leit. Sama gildir einnig um Twitter. Skilmálar samfélagsmiðla ráða því hvað má og hvað ekki gera þar í markaðs- og kynningarmálum og þeir ráða því hvernig höndlað er með persónuupplýsingar og gögn. Þeir hafa að miklu leyti frjálsar hendur um hvernig þeir breyta þessum skilmálum og breyta þeim raunar oft.

Hvar passar vefurinn inn í þetta allt saman?

Stórvaxandi notkun á samfélagsmiðlum hefur vafalaust fengið marga til að hugsa hvort ekki sé einfaldast að hætta að reka og þróa vefsetur fyrirtækisins eða stofnunarinnar. Hér hafa þegar verið raktar nokkrar ástæður fyrir því að slíkt er í flestum tilfellum óráð. Við þetta má bæta að hefðbundin vefsetur hafa marga styrkleika sem gleymast kannski í þeirri miklu athygli sem samfélagsmiðlar fá nú um stundir því að:

• Þar má bjóða sjálfsafgreiðslu sem getur jafnvel verið klæðskerasaumuð fyrir hvern og einn viðskiptavin og notanda. þetta getur sparað viðskiptakostnað og bætt þjónustu
• Selja má vörur og þjónustu í gegnum vefverslun
• Nýta má vefinn og efni þar til að vera sýnilegur á leitarvélum eins og Google og Bing
• Samþætta má vefinn og efni á honum við samfélagsmiðla
• Nýta má vefmælingar til að mæla eftirfarandi þætti nákvæmlega

o Sölu á vöru og þjónustu
o Virkni og nytsemi sjálfsafgreiðslu
o Lestur, hlustun og áhorf á efni vefsins

Líta ber á vefsetur sem dýrmæta eign fyrirtækisins

Líklega er best að líta á vefsetur fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem miðpunkt í rafrænni markaðssetningu. Vefsetur og lén hvers fyrirtækis er, ólíkt samfélagsmiðlum, óumdeilanlega eign fyrirtækisins. Eitt af mikilvægum markmiðum sölu- og markaðsstarfs er að auka virði þessarar eignar eins og hægt er. Til að þetta markmið náist þurfa vefsetur að hafa eftirfarandi eiginleika:

• Eins aðgengilegt fyrir notendur og hægt er
• Skapi beinhörð verðmæti fyrir rekstur viðkomandi fyrirtækis og skýran ávinning fyrir viðskiptavini og notendur. Þetta má mæla með vefmælingum, sölutölum og mælingum á ánægju notenda.

o Sjálfsafgreiðsla og bein sala eins og við á
o Upplýsingaveita
o Þjónusta og aðstoð við viðskiptavini og aðra notendur

• Vera vel finnanlegt á leitarvélum og samofnir þeim samfélagsvefjum sem skipta viðskiptavini og notendur máli

Áætlunargerð er lykill að árangri

Markaðsfólk og vefstjórar geta nýtt sér ólíka miðla og náð forskoti í samkeppninni með því að búa til sterkt samspil á milli þeirra. Gagnlegt er að framkvæma þessa hluti í þrepum:

• Greina hver viðskiptavinurinn eða notandinn er. Setja sig í spor hans og átta sig á hvaða miðla hann vill nýta og sér og hvaða efni hann er að leita eftir. Mikilvægt er að átta sig á því í þessu samhengi að mismunandi miðlar henta vel fyrir mismunandi tilefni
• Skoða hvernig verið er að þjónusta notendur í dag og hvernig það gangi. Þetta útheimtir m.a. greiningu á notkun vefsins og samfélagsmiðla eins og við á
• Setja niður mælanleg og raunhæf markmið
• Búa til framkvæmdar- og kostnaðaráætlun sem tekur til allra þeirra miðla sem nýta á og til þess efnis sem á að búa til fyrir notendur. Mikilvægt er að hafa sveigjanleika til að geta gripið þau tækifæri sem geta rekið á fjörur manna hratt og vel
• Framkvæmd: búa til efni, móta þjónustu og vöruframboð á Netinu, deila því á samfélagsmiðlum. Setja upp mælingar eins og þurfa þykir
• Seinasta atriðið er svo að fylgja eftir því sem vel gengur og hætta við eða breyta því sem verr gengur.

Að sjálfsögðu þurfa öll fyrirtæki að vega og meta hvað þau ættu að gera til að nýta samfélagsmiðla og vefseturs sem best fyrir starfsemi fyrirtækisins, það sem hentar einum hentar kannski ekki eins vel öðrum. Að finna bestu lausnina og samsetninguna er auðvelt um að tala en kannski erfiðara í að komast!

Höfundur: Jón Heiðar Þorsteinsson

www.linkedin.com/in/jonthorsteinsson

Skoðað: 3282 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála