Skip to main content
3. júní 2012

Hvernig fáum við fleiri konur í upplýsingatækni?

Upplýsingatækni og hagvöxtur

Fjöldinn allur er til af rannsóknum sem hafa sýnt fram á þátt upplýsingatækninnar þegar kemur að tækniframförum og afleiddri framleiðiniaukningu.  Almenn niðurstaða þessara rannsókna er að þær þjóðir sem hafa hvað mest stutt við upplýsingatækniiðnað og ýtt undir almenna notkun upplýsingatækni nýta framleiðsluþætti betur, sem þýðir aftur aukna samkeppnishæfni og meiri hagvöxt. Þrátt fyrir þessar niðurstöður hefur ekki verið mikil umræða um upplýsingatækni í þessu samhengi hér á landi hin síðustu ár. Eftir að netbólan sprakk um aldamótin og í ljós kom að væntingar um þróun netverslunar myndu ekki ganga eftir, beindist athygli fólks að öðrum atvinnugreinum. Þróunin var þó síður en svo hætt. Svo eitt dæmi sé nefnt, þá var ein af forsendum framleiðniaukningar í fjármálageiranum hin nýja tækni sem bauð upp á nýjungar eins og netbanka og kaup og sölu á verðbréfum á netinu.  En þegar hér var komið var upplýsingatæknin komin bak við tjöldin og þáttur hennar ekki eins sýnilegur og var þegar netbólan stóð sem hæst. Lítil ásókn stúlkna í tæknigreinar hérlendis.

Svo virðist sem minnkandi umræða um mikilvægi upplýsingatækninnar hafi að einhverju leyti orðið til þess að draga úr áhuga nemenda á að sækja nám í greininni, því eftirspurn eftir menntuðu fólki á þessu sviði er svo sannarlega til staðar. Eins og sést á myndinni hér að neðan, hefur verið stöðug leitni til fjölgunar nemenda á háskólastigi frá árinu 1997 (hægri ás). En þegar tölvunarfræðin er skoðuð sérstaklega má sjá gríðarlegan samdrátt í nemendafjölda frá árinu 2000 (fyrir utan örlitla aukning á fjölda karlmanna síðustu tvö árin, 2009-2010). Þessi skortur á áhuga á upplýsingatækni virðist hafa átt enn frekar við um kvenþjóðina. Á árinu 2001 voru nær 30% nemenda í tölvunarfræði konur en á árinu 2010 voru konur aðeins 12,5% af heildarnemendafjölda. Þetta hlutfall hefur farið nær stöðugt minnkandi og í einstökum árgöngum hefur það farið allt niður í 5%. Til samanburðar var 51% í nemenda í viðskiptafræði kvenkyns á  árinu 2010 og ríflega 62% af heildarfjölda nemenda á háskólastigi.

Ástand og aðgerðir erlendis

Þetta vandamál er ekki einskorðað við Ísland, en samkvæmt nýlegri  rannsókn sem var unnin fyrir European Schoolnet af Agueda Gras-Velazquez, Alexa Joyce and Maïté Debry eru innan við 20% tölvunarfræðinga á Evrópusambandssvæðinu konur. Þessi staðreynd er enn sérkennilegri  í ljósi þess að höfundar telja að um 300.000 tæknimenntaða einstaklinga hafi vantað á þessu svæði árið 2010. Hér á eftir eru taldar upp nokkrar niðurstöður þessarar könnunar:
•    Stúlkur á framhaldsskólastigi eru svipaðar strákum í getu í upplýsingatæknitengdum greinum.
•    Flestar stúlkur höfðu gaman af upplýsingatækni í skóla en það leiddi ekki til að þær kysu nám eða starf í greininni.
•    Kvenkyns fyrirmyndir höfðu mikil áhrif á stúlkur þegar þær völdu áframhaldandi nám/starfsvettvang.
•    Þær fyrirmyndir sem stelpur nefndu voru nær aldrei úr tæknigreinum. Þó voru flestar mæður jákvæðar gagnvart upplýsingatækni.
•    Í þeim löndum sem mæðurnar voru jákvæðastar voru dæturnar líka jákvæðari.
•    Bæði nemendur og fyrirmyndir þeirra telja almennt að tæknigreinar henti karlmönnum betur en konum.
•    Hvorki stúlkur né fyrirmyndir þeirra töldu störf í upplýsingatækni veita þeim tækifæri til að ferðast, hjálpa öðrum né starfa sjálfstætt.

Þegar raunveruleg störf í upplýsingatækni eru skoðuð kemur hins vegar í ljós að mikið misræmi er á milli þeirrar ímyndar sem endurspeglast í síðasta punktinum og þess sem störfin raunverulega bjóða upp á.  Þessi rannsókn gefur til kynna að bæði foreldrar og kennarar hafi litla hugmynd um hvað störf í upplýsingatækni fela í sér og má tengja það við minnkandi umræðu og áhuga eins og nefnt var hér að framan.

Aðgerðir til að fjölga konum í greininni

Til að halda uppi æskilegri þróun á nýtingu upplýsingatækni í hverju landi þarf ákveðið marga menntaða einstaklinga í faginu, eins og kemur fram í ritinu The Business Case for Information Technology and Computing Education sem gefið var út í janúar á þessu ári.  Skortur á tæknimenntuðu fólki getur því leitt til minnkandi framleiðniaukningar og verri samkeppnishæfni landa. Út af lágu hlutfalli kvenna í stéttinni virðist einfaldasta leiðin til að fjölga fólki í upplýsingatækni vera að auka hlut kvenna. Ein leið til að ná því takmarki er að auka umræðu um upplýsingatækni sem fagsvið og þar með sýnileika greinarinnar og vekja athygli á þeim spennandi, fjölbreyttu og skemmtilegu störfum sem hún býður upp á. Önnur leið er að draga fram sýnilegri fyrirmyndir fyrir stúlkur og stunda beina markaðssetningu á greininni gagnvart þeim. Í því samhengi má nefna samtökin Girl Geek Dinners sem hafa það markmið að búa til tengslanet kvenna í upplýsingatækni. Hér á landi nefnast þessi samtök Artic Girl Geek Dinners eða Tæknitátur og fyrir áhugasama má finna þær á Facebook.
Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur verið ráðist til atlögu að skorti kvenna í upplýsingatækni og var fyrsti “Stúlkur í UT”- dagurinn (e. Girls in ICT Day) haldinn 28. apríl síðastliðinn. Markmiðið er að draga fleiri stúlkur að greininni sem að sögn Hamadoun Touré, framkvæmdastjóra ITU (International Telecommunications Union), býður upp á frábær atvinnutækifæri og góð laun. Dagur þessi er afleiðing af samþykkt sem gerð var á forstöðumannaráðstefnu ITU í  Mexíkó í fyrra en ITU hét því að halda á lofti jafnræði kynjanna og stuðla að styrkingu kvenna í greininni með því að hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi í öllum sínum verkefnum og áætlunum. Í kjölfar þessa fundar voru alþjóðleg samtök kvenna í upplýsingatækni  (Global Network of Women in ICT) stofnuð, en þau eiga að hjálpa ríkjum að draga stúlkur og ungar konur að greininni með því að hafa sýnilegar sterkar fyrirmyndir og bjóða upp á leiðsögn (e. mentoring) fyrir stúlkur þegar kemur að vali á framtíðarfagi.
Verkefni þessara stofnana stuðla þó ekki eingöngu að því að bæta stöðu upplýsingatæknigeirans heldur líka að almennu jafnrétti og auknum tækifærum fyrir konur um allan heim til að láta að sér kveða í grein sem er klárlega vaxandi þáttur í allri framþróun og sköpun velferðar. Vonandi tekst einnig að auka veg og vanda upplýsingatækninnar hér á landi með aukinni umfjöllun og fjölgun nemenda, og jafnframt að auka hlut kvenna í greininni. Enda veitir ekki af því að efla þær greinar sem eru líklegastar til að skapa framtíðarhagvöxt fyrir landið okkar.

Höfundur:Þórhildur Hansdóttir Jetzek

Heimildir:

Agueda Gras-Velazquez, Alexa Joyce, Maïté Debry (2009). Women and ICT: Why are girls still not attracted to ICT studies and careers? European Schoolnet. Sótt af http://newsroom.cisco.com/dlls/2009/ekits/Women_ICT_Whitepaper.pdf 12. október 2010.

Information technology skills will boost women’s participation in crucial sector. (28. apríl 2011). UN News Center. Sótt af http://www.un.org/apps/news/story.asp?NewsID=38215&;Cr=technology&Cr1 24. maí 2011.

The Business Case for Information Technology and Computing Education.  (Janúar 2011). BCS Academy of Computing. Sótt af http://academy.bcs.org/upload/pdf/business_case_for_computing_education.pdf  24. maí 2011.

Skoðað: 6190 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála