Skip to main content
7. júní 2012

Lögreglan og samfélagsmiðlar

Mynd1

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarin misseri verið að prófa sig áfram með notkun samfélagsmiðla í tengslum við störf lögreglunnar. Þetta verkefni hefur vakið mikla athygli, bæði hér heima og erlendis, og viðtökurnar verið afar góðar og jákvæðar. Nefna má að þetta verkefni fékk sérstaka viðurkenningu á síðasta ári þegar nýsköpunarverðlaun í opinberum rekstri voru veitt í fyrsta skipti. Í þessari stuttu grein verður leitast við að svara því hvers vegna lögreglan fór út í þetta verkefni og hver sé helsti ávinningur lögreglunnar af notkun þessara miðla.

Af hverju?

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók til starfa 1. janúar 2007. Frá upphafi hefur verið unnið að því meginmarkiði að auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dvelja á höfuðborgarsvæðinu m.a. með því að leggja áherslu á sýnileika lögreglunnar, forvarnarstarf í samvinnu við lykilaðila á því sviði, hverfa- og grenndarlöggæslu og skilvirka miðlun upplýsinga. Þegar samfélagsmiðlar á borð við Facebook og Twitter voru komnir í almenna notkun kviknaði sú hugmynd að hægt væri að nota þá með beinum eða óbeinum hætti í starfsemi lögreglunnar. Í fyrsta lagi var það mat okkar að með virkri þátttöku á samfélagsmiðlum væri unnt að auka sýnileika lögreglunnar, í öðru lagi gætu þessir miðlar komið að góðum notum í forvarnastarfi og jafnvel við rannsóknir sakamála, í þriðja lagi væri unnt að auka og efla upplýsingamiðlun, án þess að þurfa að treysta á hina hefðbundnu fjölmiðla og í fjórða lagi væri unnt að auka aðgengi almennings að lögreglu. Með þessi fjögur atriði í huga var ákveðið að láta slag standa og síður lögreglunnar á Facebook og Twitter voru opnaðar síðla árs 2010.

Mynd2

Hver er ávinningurinn?

Síður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Facebook og Twitter fengu frábærar viðtökur strax í upphafi og hefur notkun þeirra aukist jafnt og þétt. Þegar þetta er skrifað snemma sumars árið 2012 fylgjast hátt í tuttugu þúsund með uppfærslum á Facebook síðu embættisins og fjölmargir taka í viku hverri virkan þátt í umræðum á síðunni með einum eða öðrum hætti. Dreifing á efni síðunnar er því mjög mikil. Fyrir vikið er lögreglan sýnileg á þessum vettvang og virkur þátttakandi í umræðum sem þar skapast.

En aukinn sýnileiki er ekki það eina sem gengið hefur eftir. Ljóst er að hægt er að nota samfélagsmiðlana með ýmsum hætti, þar á meðal í forvarnaskyni með því að dreifa upplýsingum, viðvörunum, leiðbeiningum og öðru slíku, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir slys, afbrot og aðrar ófarir. Lögreglan hefur einnig nýtt sér þessa miðla til þess að óska eftir aðstoð almennings, til dæmis við að hafa upp á týndum einstaklingum, eigendum þýfis og jafnvel eftirlýstum brotamönnum. Öll þessi notkun hefur gefið góða raun. Velta má því upp hvort notkun samfélagsmiðla bæti miklu við það sem hinir hefðbundnu fjölmiðlar gera á þessu sviði. Það er mitt mat að viðbótin sé nokkur, einkum í ljósi þess að með samfélagsmiðlum eiga sér stað bein, milliliðalaus og jafnframt gagnvirk samskipti milli almennings og lögreglu. Þar fyrir utan þá nýta sér margir samfélagsmiðla beint til fréttaöflunar og því aukast líkur á því að aðstoðarbeiðnir rati hraðar en ella til þeirra sem aðstoð geta veitt við leit að týndum einstaklingum, við rannsóknir mála o.fl.

Þriðja atriðið sem horft var til var aukin upplýsingamiðlun. Lögreglan hefur í gegnum tíðina beitt ýmsum leiðum til að miðla fréttum og upplýsingum af störfum sínum og þá einkum með aðstoð fjölmiðla. Þeir hafa hins vegar sína eigin og óháðu ritstjórnarstefnu og oftar en ekki er fréttamat þeirra einhliða og fyrirsjáanlegt. Þannig fá fréttir af neikvæðri þróun mála mun meiri athygli af þeirra hálfu heldur en fréttir af því þegar hlutirnir þróast með jákvæðum hætti. Af viðbrögðum við fréttum og tilkynningum lögreglu í gegnum samfélagsmiðla má merkja að jákvæðar fréttir frá lögreglu af verkefnum hennar eða þróun mála vekja mun meiri athygli og fá þ.a.l. mun meiri dreifingu en aðrar fréttir. Þessu til viðbótar er mikilvægt að hafa í huga að fjölmiðlaumhverfið tekur örum breytingum um þessar mundir. Vægi vefmiðla verður sífellt meira auk þess sem einstaklingar leika í mörgum tilvikum lykilhlutverk þegar kemur að miðlun upplýsinga um stóra viðburði, ekki síst þegar þeir eiga sér stað, og þá einkum í gegnum samfélagsmiðla. Því er mikilvægt fyrir lögregluna að vera vel heima á því sviði og geta þegar nauðsyn krefur tekið þátt í umræðum, aflað og miðlað upplýsinga um stöðu og þróun mála fljótt og vel í gegnum þessa miðla.

Fjórða atriðið sem virk þátttaka á samfélagsmiðlum hefur skilað lögreglunni er aukið aðgengi almennings að lögreglu. Í gegnum þessa miðla gefst fólki kostur á að vera í beinum og milliliðalausum tengslum við lögregluna, hægt er að nota þessa miðla til að setja fram spurningar, koma á framfæri ábendingum, athugasemdum, gagnrýni, hrósi, þökkum og öllu öðru því sem fólk hefur áhuga á. Lögreglunni gefst jafnframt tækifæri til að svara öllum þessum atriðum, hvort heldur sem er neikvæðri gagnrýni eða jákvæðum athugasemdum og öllu þar á milli. Með þessu móti er lögreglan í enn nánari tengslum við almenning en áður, gagnrýni, ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar af okkur til að geta bætt okkar störf enn frekar og þakkir, hrós og kveðjur eru jákvæð hvatning sem er okkur eins og öðrum mikilvæg og vel þegin.Mynd3

Og hver er svo niðurstaðan?

Það er mat mitt að þá jákvæðu reynslu sem lögreglan hefur upplifað með virkri notkun samfélagsmiðla sé hægt að yfirfæra á alla aðra opinbera starfsemi sem og aðra starfsemi. Nokkur atriði eru mikilvæg í því sambandi, þar á meðal að samskipti á þessum miðlum séu ekki of stofnanaleg enda er hver og einn einstaklingur inni á þessum miðlum á eigin forsendum og gerir kröfur um samskipti á jafningja grundvelli. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að þessi samskipti eru í grunninn gagnvirk; til þess að fá þau jákvæðu atriði út úr þessu sem lögreglan hefur upplifað er það lykilatriði að opið sé fyrir athugasemdir og önnur viðbrögð og því sé öllu svarað eins og kostur er. Í þessari gagnvirkni felst að stórum hluta það viðbótargildi sem felst í samfélagsmiðlunum og tryggir betur en flest annað áhuga fólks á því að fylgjast með því sem í gangi er og tryggð við miðilinn. Þá er í samskiptum á þessum vettvangi eins og öðrum mikilvægt að koma fram af kurteisi og bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Loks er ekkert að því að krydda þetta allt saman með smá húmor – og þá er eins og alltaf best að hafa húmor fyrir sjálfum sér.

Samfélagsmiðlar hafa skapað nýja möguleika fyrir lögregluna til að sinna störfum sínum og ný tækifæri til þess að ná betur en áður þeim markmiðum sem að er stefnt. Þess vegna er notkun samfélagsmiðla mikilvæg fyrir lögregluna.

Stefan Eiriksson - logreglustjarna

www.facebook.com/logreglan
www.twitter.com/logreglan
www.twitter.com/logreglustjori
www.youtube.com/logreglanLRH

Höfundur Stefán Eiríksson, lögreglustjóri

Skoðað: 8839 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála