Skip to main content
30. ágúst 2012

Að hanna app?

helgipjetur  - viðtal við Helga Pjetur Jóhannsson

Stokkur Software ehf. er ungt hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í lausnum fyrir snjallsíma og hefur t.d. gert app fyrir bensíndælur, bílastæði og póstsendingar. Til að forvitnast meira um þessa starfsemi spjölluðum við stuttlega við Helga Pjetur Jóhannsson, einn eigenda Stokks og vefhönnuð hjá fyrirtækinu.
Fyrsta spurning til hans er hvernig þetta fyrirtæki hafi komið til, hver var hvatinn að stofnun þess?

Félagar mínir, Vernharður R. Sigurðsson og Hreinn Gústavsson, hugbúnaðarsnillingar, stofnuðu Leggja þjónustuna árið 2007 og höfðu rekið hana sem hliðarverkefni í einhver 3 ár þegar þeir spurðu mig hvort ég gæti hannað app fyrir þjónustuna. Þetta var í lok árs 2010 og á þeim tíma vorum við allir að vinna fyrir farsímafyrirtækið Nova. Ég sló til og ákvað að reyna fyrir mér í app-hönnun í fyrsta skiptið, en vefurinn hafði verið mín helsta sérgrein á þeim tíma. Leggja appið kom síðan út í byrjun árs 2011 fyrir bæði Android og iPhone snjallsíma. Okkur þremur fannst vinnslan við gerð appsins gríðarlega skemmtileg og samstarfið gekk einstaklega vel. Appið sjálft hafði einnig mjög góð áhrif á viðskiptavinahóp Leggja sem jókst um 20-30% á mjög skömmum tíma. Það þurfti því engan sérfræðing til að segja okkur það að þarna lágu tækifæri sem við hreinlega ákváðum að stökkva á. Við sögðum allir upp á sama tíma og stukkum í djúpu laugina og sjáum ekki eftir því. Rúmu ári seinna erum við að reka fyrirtæki með 8 starfsmönnum og höfum sett 12 "öpp" í loftið.

Hver er þinn bakgrunnur?
Bakgrunnur minn er gríðarlega breiður. Efir að ég lauk námi í Verzlunarskólanum árið 2003 tók ég þátt í stofnun Tónlist.is vefsíðunnar. Síðan hef ég unnið við ýmis störf, s.s. tónlistarútgáfu, viðburðarstjórnun og ýmis markaðsmál.

Hefur þú alltaf haft áhuga á tölvum og vefhönnun?
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tölvum og þegar internetið var opnað almenningi vaknaði mikill áhugi á heimasíðugerð og ýmsu fikti tengt netmálum. Ég byrjaði mjög snemma að fikra mig áfram í Photoshop en ekki að neinni alvöru fyrr en löngu seinna. Í rauninni má segja að ég hafi ekki gerst vefhönnuður fyrr en 2009 þegar ég hannaði Nova.is - fyrstu alvöru heimasíðuna mína síðan fylgdu fjölmargar síður í kjölfarið og fullt af farsímaforritum (öppum).

Hvaðan sækir þú innblástur í hönnunina þína?
Ég fylgist í raun bara mjög vel með straumum og stefnum í hönnun, hvort sem það er fyrir vef eða öpp. Hönnun á þessu sviði er í rauninni bara eins og fötin, þetta kemur í tískubylgjum, eitt árið er í tísku að nota mikið af skuggum og rúnuðum hornum, það næsta er málið að vera minimal og með beinar línur.

Hvað er það skemmtilegasta við hönnunarferlið?
Hjá mér skiptir notendaviðmót gríðarlega miklu máli. Það að notandinn komist klakklaust í gegnum lausnina sem verið er að smíða á einfaldan og auðskildan hátt er mitt helsta markmið. Það er alveg sama hversu falleg hönnun er á lausninni, flottir litir, leturtýpur, hnappar eða bakgrunnur, þá skiptir notendaviðmótið alltaf mestu máli. Þetta finnst mér skemmtilegast, pælingar á notendaviðmóti.

Er hægt að tala um persónulegan stíl?
Já, klárlega. Það eru margir mjög færir vefhönnuðir hér á landi sem hafa sinn persónulega stíl, ber þar helst að nefna, Arnar Ólafs, Gumma Sig, Alla Metal, Jonna Gerlach og Jónu Dögg, allir með sinn eigin stíl.

Hvernig séðu þig þróast í starfi?
Ég sé sjálfan mig halda áfram að hanna og þá sérstaklega öpp. Mig langar hins vegar líka að læra meira og hef augastað á MBA námi sem vonandi getur þá nýst mér áfram í fyrirtækjarekstri.

Hvað er á döfinni hjá Stokki, hvernig lítur framtíðin út hjá fyrirtækinu?
Við erum á fullu að þróa, bæði öpp sem Stokkur á og rekur og öpp fyrir ýmis fyrirtæki. Við erum t.d. að vinna í næstu útgáfu af Be Iceland ferðamanna-appinu okkar sem gekk virkilega vel í sumar á sínu fyrsta ári. Þar erum við að bæta við fullt af skemmtilegu efni og fríska aðeins uppá útlitið. Síðan erum við með 5 - 6 önnur verkefni í gangi fyrir ýmis fyrirtæki, bæði uppfærslur og ný forrit.

Okkar framtíðarsýn fyrir fyrirtækið er að vera bæði með hefðbundinn hugbúnaðarhúsa-rekstur þar sem við bjóðum uppá app-lausnir fyrir fyrirtæki og hins vegar okkar eigin vörur eins og Be Iceland, Leggja ofl. þar sem við erum með söluteymi og sér rekstur fyrir þær vörur. Og sem betur fer virðist þetta allt saman vera að ganga mjög vel enn sem komið er.

Að lokum, hvernig heldur þú að Liverpool muni ganga í vetur?
Ég hef trú á þetta tímabil muni fara vel fyrir Liverpool og félagið nái loksins að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni aftur. Ég hef mikla trú á þessum nýja þjálfara og þeim leikmönnum sem hann hefur fengið til félagsins til þessa.

Skoðað: 7010 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála