Skip to main content
6. september 2012

Ekki bóla sem springur

bjöllan  Ég er 27 ára gömul sem gefur til kynna að ég ólst ekki upp fyrir framan tölvu. Byrjaði reyndar að nota irkið í unglingadeild, æfði mig í þolinmæði við að skoða ljósmyndir af poppstjörnum samtímans í heimilistölvunni, en hver var nokkrar mínútur að hlaðast niður, og man vel eftir faxtæki foreldra minna. Mér skilst að ástandið, tæknilega séð, sé annað í dag.
Liður í lokaverkefni mínu í meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands var útvarpsþáttaserían Eins og eldur [http://podcast.ruv.is/eins_og_eldur/podcast.xml] sem fjallar um internetnotkun barna og unglinga. Þættirnir voru unnir í samstarfi við RÚV. Ég ræddi við 26 einstaklinga, 13 nemendur í 5. – 10. bekk, foreldra, kennara, frístundaleiðbeinendur og ýmsa sérfræðinga. Þegar talað er um ungu kynslóðina að neðan er vísað í viðmælendur mína nema annað sé tekið fram.

Nafn þáttaraðarinnar

Eins og eldur vísar í eiginleika Internetsins. Hægt er að nota bæði eld og Internetið til góðs og ills. Úr sömu tölvu er hægt að að senda vinum um víða veröld tölvupóst en jafnframt skipuleggja banvænar árásir. Það sem heillar en jafnframt skelfir er hvað Internetið er fyrirbæri í mörgum víddum. Með því er beinlínis hægt að vinna kraftaverk en líka ógeðslegustu voðaverk.

Hlutverk snúast við

Þeir grunnskólanemendur sem ég ræddi við virtust meðvitaðir um að vera hluti af svonefndri „tæknikynslóð“ en mörg þeirra sögðust vera klárari á tæknina en foreldrar sínir. Einn nefndi að hann þyrfti stanslaust að hjálpa foreldri sínu sem „kann ekki neitt á tölvuna“ og annar setti upp Facebook síðu fyrir móður sína. Þeim fannst skrýtið en skemmtilegt að vera í kennarahlutverki gagnvart foreldrunum og sögðu að hlutverkin væru oftast hinsegin. Óumdeilt er að yngsta kynslóð Íslendinga hefur fengið Internetið í vöggugjöf en aðgengi þeirra að nýjustu tækni virðist verulegt og tími til þess að fikra sig áfram rúmur. Sú þekking sem hún býr yfir í bland við mikla aðlögunarhæfni á væntanlega ennþá eftir að koma í ljós enda eru þessir einstaklingar ekki komnir út á vinnumarkað. En böggull fylgir skammrifi í þessu sem öðru þar sem Netið er ekki staður fyrir óharðnaða einstaklinga til þess að prófa sig áfram á. Auk þess hafa fæstir foreldrar tíma eða tök á því að fylgjast með hverjum „smelli“ afkvæma sinna. Þó getur verið afar freistandi, eins og foreldrar sem ég ræddi við lýstu, að nota Netið sem barnapíu.

Af hverju nota þau Netið?

Spenningur, að efla vináttu við aðra á spjallsíðum, vani, lærdómur, tímaeyðsla og afslöppun eru nefndar sem nokkrar ástæður netnotkunar ungu kynslóðarinnar. Athygli vekur að ástæðurnar vísa flestar í skemmtun og/eða afþreyingu. Flótti frá raunveruleika hefur einnig verið nefndur sem ástæða.  Einn ungur viðmælandi nefndi að klukkutímarnir spændust upp þegar Internetið væri annars vegar en margir töluðu um að tæknin væri notuð til þess að viðhalda sambandi við fjölskyldu og vini. Sumir sögðust skoða fyndnar myndir og fréttir. Allir ungu viðmælendurnir eru með eigin síðu á Facebook. Líka þeir sem hafa ekki náð aldri samkvæmt reglum forritsins, sem meina notendum undir 13 ára aðgang. „Ég segi bara að ég sé fæddur 1981,“ sagði 11 ára viðmælandi. Sumir sögðust vera „hooked“ á Facebook og þyrftu helst að kíkja oft þangað á hverjum degi.

Nánast allir töluðu um tíðar heimsóknir á leikjasíður, sem væri eitthvað það skemmtilegasta við tæknina. Það kemur ekki á óvart að unga kynslóðin noti Netið mikið í afþreyingatilgangi enda hefur löngum þótt skemmtilegra að leika sér en læra. Ég held að flestir netverjar þekki það að mörgum reynist erfitt að standast ótal freistingar sem eru beint fyrir framan nefið á okkur, í örfárra „smella“ fjarlægð. Stundum er það skaðlaust, í versta falli grimmur tímaþjófur, en það getur líka valdið okkur eða öðrum tjóni. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir foreldra, uppalendur, fyrirtæki og skólakerfið, hvernig við getum skapað þannig umhverfi og hvata að netnotendur sjái hag sinn í því að sækja meira í rafrænt lýsi og sellerí.

Verstu hliðarnar

Ég spurði krakkana um skuggalegustu hliðar Netsins. Mörg nefndu blekkingareiginleika þess, að erfitt sé að vita hver situr „hinum megin“. Um leið sögðu þau nafnleynd gott tæki til þess að „drulla yfir fólk og segja ömurlega hluti.“ Krakkarnir nefndu að auðvelt væri að búa til Facebook síðu í nafni annars en voru sammála um að slíkt væri oftast gert í gríni og að það væri ekki rétt að villa á sér heimildir. Þó má ekki gleyma kostum nafnleyndar. Í krafti hennar er til dæmis hægt að koma á framfæri nafnlausum ábendingum um viðkvæm málefni.

Mörgum krökkunum finnst verst þegar ókunnugur einstaklingur reynir að hafa samskipti við þau. Einnig að Netið sé tímaþjófur, þar finnist of mikið rafrænt einelti og klám. Sum sögðust þreytt eftir mikla notkun og illt í augunum. Í ljós kom að þau vita bæði hvernig á að komast inn á síður sem þau mega ekki fara inn á og einnig hvernig á að leyna því fyrir forráðamönnum. Einn af verstu göllum Internetsins og vaxandi vandamál meðal ungra drengja er tölvufíkn.  Stór hópur 14 – 18 ára stráka, sem skráðir eru í meðferð á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar (BUGL) glíma við netfíkn. Í alvarlegustu tilfellum eru þeir lagðir inn. Unglingadeildarkennari sem ég ræddi við sagði netfíkn skuggalegustu hlið Netsins. Hann nefndi dæmi um einstaka karlkyns nemendur sem fara heim í 20 mínútna hádegishléi í stríðstölvuleik, sem notendur gleyma sér algjörlega í, í stað þess að verja tímanum á skólalóðinni með samnemendum.

Nauðsyn kennslu

Flestir viðmælendur mínir voru sammála um að upplýsingar, fræðsla og heiðarleg umræða um kosti og galla netsins frá upphafi notkunar væru mikilvæg  mikilvægir þættir til þess að snúa vörn í sókn gegn hættulegustu hliðum tækninnar. Samkvæmt verkefnastjóra SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) byrja íslensk börn mörg hver að nota Netið um fjögurra ára aldur. Ýmislegt úr viðtölum mínum bendir til þess að markvissari kennslu sé þörf. Eins og er sér SAFT aðallega um útgáfu kennsluefnis um Internetið en skólum er í sjálfsvald sett hversu mikið þau nýta það efni í kennslu sína. Unglingadeildarkennari sagðist sjálfur hafa frumkvæði að því að ræða við nemendur sína um góða siði á Netinu en hann væri ekki skyldugur til þess. Starfsmaður félagsmiðstöðvar útskýrði að tölvu- og netþekking unglinga væri miklu meiri en þau öðlast nokkru sinni í skólakerfinu. Jafnframt að unglingar hneyksluðust einatt á því sem þeim hafi verið kennt í tölvutíma, því það hefðu þeir lært fyrir löngu. Einnig var nefnt að skólakerfi Reykjavíkurborgar væri ekki búið undir þau netvædd börn sem nú alast upp. Tölvustofur væru illa búnar og stæðu ekki undir væntingum ungra nemenda.

Bæði frábært og hræðilegt

Eftir vinnslu útvarpsþáttaraðarinnar sem nefnd er að framan auk heimildavinnslu og greinargerðar finnst mér að niðurstöður gætu allt eins verið teknar saman í eina setningu: „Internetið getur bæði verið frábært og hræðilegt, mestu máli skiptir hver notar það og hvernig.“ Óumdeilanlega hefur tæknin opnað ótal möguleika. Þó sýna ótal dæmi um misnotkun á eiginleikum Netsins þeim, sem vilja stuðla að ábyrgri notkun tækninnar, fram á nauðsyn þess að byrgja brunninn og nota tæknina með ákveðnum þætti.

Ekkert í sjónmáli bendir til þess að Internetið sé bóla sem springi og miðað við tækniframfarir síðustu ára má allt eins reikna með því að ný tækni muni sífellt leika stærra hlutverk í lífi okkar. Þó koma daglega upp vandamál tengd Netinu sem má rekja til ótal skuggahliða þess eða óábyrgrar notkunar. Ég tel að til þess að takast á við þessa öru þróun sé það beinlínis skylda okkar að kynna okkur rækilega stöðu mála, fylgjast vel með nýjungum og breytingum sem verða í umhverfi Internetsins og tækni almennt. Með því að ná að einhverju leyti utan um þennan vaxandi hluta af daglegu lífi getum við fyrst gert okkur vonir um að komast í þá stöðu að leyfa styrkleikunum að bæta og auðvelda líf okkar en einnig þekkja hætturnar og forðast þær.

Björg Magnúsdóttir, stjórnmálafræðingur og menningarmiðlari, bjorgmagnus@gmail.com.

Skoðað: 6709 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála