Skip to main content
13. september 2012

Tölvuský – hvað er það og fyrir hvern?

HelgiBjorgvinsson

Tölvuský hafa verið mikið í umræðunni undanfarin misseri, jafnvel svo sumum finnst nóg um. Ýmsir hafa bent á að tölvuský séu ekki alveg ný af nálinni, þau hafi verið til í áraraðir undir öðrum nöfnum, vo sem ASP (Application Service Provider), kerfisveita og SaaS ásamt fleirum. Vissulega er einhver sannleikur í þessu og víst er að sumirþjónustuaðilar hafa gerst sekir um það sem kallað hefur verið „cloudwashing“, það er að kalla eldri þjónustur „ský" í markaðslegum tilgangi.

En staðreyndin er sú að veruleg nýbreytni er af tölvuskýjum. Sú nýbreytni felst meðal annara í aukinni sjálfvirkni, sveigjanleika og skalanleika tölvuskýja. Jafnvel má ganga svo langt að kalla tölvuskýsvæðinguna byltingu á þann hátt að skýin gera litlum fyrirtækjum kleift að spila á leikvelli stóru strákanna .Í dag getur hver sem er, gegn lágu mánaðarlegu gjaldi, fengið aðgang að fullkomnu netþjónaumhverfi eða hugbúnaðarkerfi sem jafnast á við það besta sem þekkist hjá alþjóðlegum stórfyrirtækjum.

Aukin afköst og áreiðanleiki gagnasambanda er lykilþáttur í uppgangi tölvuskýja, en einnig eru sýndarvæðing netþjónaumhverfa (e. virtualization) undanfarinna ára og vel skilgreind forritaskil (e. Application Programming Interface, API) meðal þeirra þátta sem hafa lagt grunninn að vexti þeirra.

Skýin skilgreind

En hvað er þá tölvuský nákvæmlega? Nokkurs misskilnings gætir í umræðunni um tölvuský og sýnir svo glöggt að ekki er vanþörf á að skerpa á skilgreiningu tölvuskýja. Sú skilgreining er til, og var gefin út af National Institute of Standards and Technology (NIST), í september 2011 (NIST heyrir undir US Department of Commerce. Skilgreiningin sem um ræðir heitir „The NIST Definition of Cloud Computing“ og er skráð hjá NIST sem „Special Publication 800-145“). Skilgreining NIST sem rúmast á aðeins þrem blaðsíðum, er vel framsett og auðskilin og hefur unnið sér sess sem viðurkennd skilgreining á tölvuskýji.

Skilgreiningin NIST skiptist í þrjú megin atriði: hún lýsir fimm nauðsynlegum einkennum tölvuskýja (essential characteristics), þremur þjónustutegundum (service models) og fjórum rekstrarútfærslum (deployment models).

Samkvæmt skilgreiningunni eru fimm nauðsynleg einkenni tölvuskýja eftirfarandi:

 1. Sjálfsafgreiðsla. Notandi getur sjálfur afgreitt sig um auknar eða minnkaðar auðlindir í skýinu, t.d. örgjörvaafl, minni, diska, sæti í póst- eða CRM kerfi o.s.frv.
 2. Víðtækur netaðgangur. Kerfið er aðgengilegt yfir hefðbundnar netsamskiptaleiðir og fyrir margvísleg tæki, svo sem snjallsíma, spjaldtölvur, einkatölvur, mismunandi stýrikerfi og vafra.
 3. Samnýting auðlinda. Margir notendur deila sömu auðlindum (þekkt sem „multi-tenant“ högun).
 4. Auðveld skölun. Notandi getur aukið og minnkað auðlindanotkun eftir þörfum á fljótlegan og oft á tíðum sjálfvirkan hátt.
 5. Þjónustumælingar. Bæði þjónustuveitandi og þegi þjónustunnar hafa aðgang að þjónustumælingum, svo sem notkun á diskum, minni, örgjörva, upplýsingum um afköst, fjölda notenda o.s.frv.

Þrjár þjónustutegundir tölvuskýja eru:

 1. Hugbúnaðarveita (Software as a Service, SaaS): Hugbúnaðarlausnir eru gerðar aðgengilegar yfir netið. Þjónustur eru gerðar aðgengilegar eftir einni eða fleiri leiðum, til að mynda í gegnum vafra, snjallsíma, app eða forritaskil (API). Dæmi um SaaS tölvuský eru Facebook, Gmail og Office 365.
 2. Platform as a Service (PaaS). Notendur geta notað PaaS ský til að þróa og setja upp hugbúnaðarlausnir án þess að þurfa að hafa áhyggjur af undirliggjandi kerfum, s.s. vélbúnaði eða stýrikerfi þar sem þessir þættir eru reknir af PaaS þjónustuveitandanum. Dæmi um PaaS ský eru Windows Azure, Google App Engine, Sales Force Heroku og VMware Cloud Foundry.
 3. Innviðir sem þjónusta (Infrastructure as a Service): Notendur fá aðgang að netþjónum, diskaplássi, eldveggjum o.s.frv. Vélbúnaðurinn er sýndarvæddur þannig að notendur eru að fá aðgang að sýndarnetþjónum, ekki hefðbundnu járni. Notandinn er ábyrgur fyrir rekstri stýrikerfis og hugbúnaðar sem keyðrur er á stýrikerfinu, þjónustuaðili sér um rekstur innviðanna eing og sýndarþjóna og þess vélbúnaðar sem þeir keyra á. Dæmi um IaaS ský eru Amazon, Rackspace, GreenQloud, x.is og tölvuský Nýherja.

Loks er í skilgreiningu NIST fjallað um fjórar rekstrarútfærslur tölvuskýja:

 1. Einkaský (Private Cloud) eru ætluð til notkunar fyrir eitt fyrirtæki. Skýið getur verið hýst og rekið af sérhæfðum þjónustuaðila eða af fyrirtækinu sjálfu sem er notandi tölvuskýsins.
 2. Samfélagsský (Community Cloud) eru sett upp fyrir tilstuðlan af hópi fyrirtækja eða stofnana sem hafa svipaðra hagsmuna að gæta. Dæmi um slíkt gætu verið ríkisstofnanir sem sameina krafta sína til að byggja ský sem mætir þeirra sameiginlegu þörfum.
 3. Almennt ský (Public Cloud) er best þekkta rekstrarútfærslan. Almennt ský er opið öllum sem vilja nýta auðlindir þess. Í þennan flokk falla ský þjónustuaðila á borð við Amazon, Windows Azure, Facebook, GreenQloud, x.is og Nýherja.
 4. Blönduð ský (Hybrid Cloud) eru samtengd ský, sem geta deilt auðlindum en eru í eigu aðskilinna eiganda. Til að blönduð ský virki þarf uppbygging þeirra skýja sem á að tengja saman að uppfylla sambærilega staðla. Dæmi um slíkt er tölvuský Nýherja sem gerir fyrirtækjum kleift að tengja innanhúss VMware umhverfi sín við ský Nýherja og flytja vinnslu á milli,en þá byggja einkaský viðskiptavinar og almennt ský þjónustuaðila bæði á VMware, GreenQloud er annað dæmi sem býður tengingu við Amazon en GreenQloud byggir á CloudStack tækni, sem vinnur með Amazon.

Hver er markaðurinn fyrir tölvuský

Markaðsrannsóknafyrirtækið Edge Strategies vann könnun fyrir Microsoft á markaðnum fyrir tölvuský meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja (2012 Microsoft/Edge Strategies SMB Cloud Adoption Study). Könnunin náði til 3000 fyrirtækja um allan heim með 2 – 250 starfsmenn. Þar kemur m.a. fram að 30% fyrirtækjanna borga fyrir tölvuskýsþjónustur í dag og að 48% gera ráð fyrir að borga fyrir tölvuskýþjónustur á næstu 2 – 3 árum, en það þýðir 60% aukning á tímabilinu.

Ávinningurinn sem þessi fyrirtæki eru að sækjast eftir með notkun á tölvuskýjum er m.a. lækkun kostnaðar (54%), aukin framleiðni (47%), aukinn sveigjanleiki (40%), aukin nýsköpun (33%) og aukinn viðbragðsflýtir (27%).Meðal þess sem þessi fyrirtæki eru, eða ætla sér, að nota tölvuský fyrir er tölvupóst, afritun, gagnageymslur, starfsmannakerfi og fjárhagkerfi.

Könnun Microsoft og Edge Strategies endurspeglar kannanir fleiri leiðandi aðila á borð við IDC og Gartner, en þessar kannanirundirstrika þá miklu áherslu sem flest stærstu UT fyrirtæki heims leggja á uppbyggingu skýjalausna sinna. Mikill vöxtur er fyrirsjáanlegur í notkun tölvuskýja á komandi árum.

Tækifæri og ógnir fyrir íslensk tæknifyrirtæki.

Þær miklu breytingar sem fylgja tölvuskýjum hafa bæði ógnir og tækifæri í för með sér fyrir íslensk hugbúnaðar- og rekstrarþjónustufyrirtæki. Heimurinn minnkar með tilkomu skýjanna, auðvelt er að ná í þjónustu úr skýinu og sú þjónusta getur komið hvaðanæva úr heiminum sem er.

Samkeppni um viðskipti íslenskra aðila kemur því í sívaxandi mæli frá erlendum tölvuskýjum.Til að bregðast við þessari samkeppni hljóta íslenskir þjónustuaðilar að kappkosta að þjónusta þeirra og lausnir séu sambærileg í verði og gæðum við það sem best gerist erlendis. Um leið og við mætum erlendri samkeppni á þennan hátt, þá opnum við um leið á það sem hlýtur að vera einn mest spennandi þáttur tölvuskýja frá sjónarhóli íslenskra tölvufyrirtækja – útflutning UT lausna. Um leið og við keppum við erlenda aðila á íslenskri grundu, leggjum við grunninn að því að geta keppt við þá erlendis líka.

En tækifæri íslenskra þjónustufyrirtækja eru ekki bundin við hugsanlegan útflutning þjónustu. Það eru líka mikil tækifæri í innflutningi tölvuskýja. Nú þegar eru íslenskir þjónustuaðilar farnir að bjóða þjónustu, aðlaganir og ráðgjöf við Google Apps, Microsoft Office 365 og fleiri kerfi og má telja víst að við sjáum sífellt fleiri dæmi um slíkt á komandi misserum.

Ávinningur notenda

Mikill og margvíslegur ávinningur er af notkun tölvuskýja. Sem dæmi má nefna að ekki er nauðsynlegt að ráðast í stór og oft á tíðum áhættusöm fjárfestingarverkefni til að fá aðgang að fullkomnustu tölvukerfum – minnstu fyrirtækjum er gert kleift að nýta kerfi sem áður voru aðeins á færi stærstu fyrirtækja að setja upp og reka.

Með aukinni sjálfvirkni og sjálfsafgreiðslumöguleikum er notendum gert kleift að sjá sjálfir um rekstrarþætti sem áður voru í höndum tölvudeilda fyrirtækja eða þjónustuaðila – þannig er klipptur út milliliður í þjónustuveitingu og viðbragðsflýtir og þjónustustig eykst fyrir bragðið.

Fyrirtæki sem þegar eru með sýndarvædd netþjónaumhverfi geta tengt umhverfi sín við tölvuský þjónustuaðila og myndað þannig blönduð (hybrid) ský. Þannig geta fyrirtæki komið sér upp neyðarumhverfi til að taka við af eigin uppsetningu ef til alvarlegra rekstraráfalla kemur og þar sem aðeins er greitt fyrir notkun verða slíkar uppsetningar á færi mun fleiri fyrirtækja en áður.

Notendur geta leigt sér lítil umhverfi í skýinu sem stækka svo eftir þörfum. Jafnvel er hægt að stækka til að tryggja næg afköst á meðan á markaðsátaki stendur, til að prófa ný kerfi og minnka svo aftur. Slíkur sveigjanleiki getur haft mikið hagræði í för með sér þar sem algengt er að tölvuský séu seld út í klukkutíma einingum í stað mánaða eða jafnvel lengri tímabila eins og tíðkast í eldri rekstrarformum.

Spennandi framtíð

Tölvuský eru tiltölulega ný af nálinni og markaðurinn er rétt að slíta barnsskónum. Skýin bjóða bæði notendum og þjónustuaðilum fjölbreytta og spennandi möguleika eins og lýst hefur verið hér að ofan. Þróun tölvuskýja er rétt að byrja og miklar framfarir munu verða á komandi misserum og árum þar sem sífellt fleiri þjónustur verða stöðugt aðgengilegri fyrir einstaklinga og fyrirtæki stór og smá. Það verður skemmtilegt að taka þátt í þeirri þróun og spennandi að sjá hvert hún mun leiða okkur.

Helgi Björgvinsson, lausnarráðgjafi

Skoðað: 9573 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála