Skip to main content
20. september 2012

Hvað er aðgengi?

johanna

Vefaðgengi (e. web accessibility) felur í sér að vefir séu aðgengilegir öllum – líka fólki með sérþarfir.

Þegar vefur er búinn til með ákveðna þætti í huga hafa allir notendur jafnan aðgang að upplýsingunum sem á honum eru sem og þeirri virkni sem í boði er. Aðgengi byggir á því að vefir séu hannaðir og búnir til samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, en að stöðlunum stendur alþjóðlegur samstarfhópur: W3C Web Accessibility Initiative  - http://www.w3.org/WAI/ Þá er ekki síður mikilvægt að það að huga að aðgengi gagnast öllum... líka ófötluðum notendum!

Hvaða hópar eru þetta – og hvers vegna?

Eins og kemur fram hér að ofan er aðgengilegur vefur betri vefur fyrir alla. Engu að síður eru ákveðnir hópar með ákveðnar sérþarfir sem horft er til í þessu samhengi. Sumir notast við hjálpartæki í tölvunni en aðrir ekki. Hér á eftir eru þeir helstu nefndir:

 • Blindir:  Nota skjálesara til að skoða vefi. Hér er mikilvægt að ekkert trufli skjálesarana og að bæði kóði og efni sé sett fram með réttum hætti og í samræmi við staðla.
 • Sjónskertir:  Sjá illa smáan texta. Litir þurfa að vera skarpir t.d. svart á hvítu en ekki ljósblátt á bláum grunni. Margir notast jafnvel við skjástækkara (sambærilegt tól og skjálesarinn, sett upp á tölvu viðkomandi).
 • Heyrnalausir: Ótextað margmiðlunarefni (myndskeið, hljóðskrár, beinar útsendingar) er ekki aðgengilegt heyrnarlausum. Eins búa sumir við skertan málskilning.
 • Flogaveikir:  Efni á hreyfingu getur verið erfitt fyrir flogaveika. Myndir á skjám mega því ekki blikka hratt eða vera á of mikilli ferð.
 • Hreyfihamlaðir:  Nota oft á tíðum ekki mús.  Hægt þarf að vera að nota TAB lykilinn til að ferðast um á öllum vefnum þ.e. ekki bara mús.
 • Notendur með skertan skilning/námsörðugleika: Mál má ekki vera flókið né tyrfið (til dæmis sérfræðiheiti og skammstafanir) og efni þarf að vera vel upp sett og skýrt.
 • Lesblindir notendur:  Eiga oft erfitt með að lesa texta, en margt getur hjálpað til að auðvelda þeim það, s.s. ekki nota mikið af skáletruðum texta, texta í hástöfum og serif- fonta.  Nota gott línubil og ekki mikinn textaflaum. Gott er að brjóta texta upp með ýmsum hætti s.s. fyrirsögnum, upptalningu (bullets) o.s.frv.

En hverju ber að huga að?

Í rauninni er alls ekki flókið mál að gera vef aðgengilegan. Segja má að aðgengismálin séu tvíþætt ; annars vegar fjalla þau um bakendann eða kóðann og kerfið á bak við vefinn en hins vegar snúa þau að daglegri umsýslu og hvernig efninu er komið til skila á vefnum.  Það er nefnilega heilmikið sem við sem ekki erum forritarar eða með djúpa tækniþekkingu getum gert til að vefir séu aðgengilegir. Ef við temjum okkur ákveðið verklag þá kemur þetta af sjálfu sér.

Mikilvægustu atriðin

 • Að ALT texti sé á myndum (blindir, notendur með skertan skilning).
 • Að töflur séu rétt merktar (blindir).
 • Að stílsíður (CSS) séu notaðar og að töflur og myndir séu ekki notaðar til að stjórna útliti (blindir og sjónskertir).
 • Að hægt sé að stækka letur/breyta bakgrunnslitum og litum á letri (blindir, sjónskertir og lesblindir).
 • Að allt mál sé eins skýrt og einfalt og mögulegt er (allir notendur, sérstaklega þó lesblindir, heyrnarlausir, notendur með skertan skilning, blindir og fleiri).
 • Að vefurinn virki þó að Javascript virkni sé tekin af (10% notenda hafa ekki Javascript á sínum vélum, getur virkað illa með skjálesara).
 • Að hljóðskrár hafi sambærilega textaskrá (heyrnarlausir, heyrnaskertir, aðrir notendur með skertan málskilning).
 • Að myndskeið séu textuð eða með yfirskrift (caption) eða að handrit á textaformi fylgi.
 • Að hægt sé að ferðast um vefinn með TAB lyklinum þ.e. að mús sé ekki nauðsynleg (hreyfihamlaðir, blindir).
 • Að myndir hreyfist ekki hratt yfir skjáinn og/eða blikki (flogaveikir).
 • Að fyrirsagnir (headings eigindið) séu rétt skilgreindar í kóðanum (blindir).
 • Að endurgjöf og skilaboð til notandans séu skýr og leiðbeinandi (t.d. þegar form eru fyllt út og villuskilaboð).

Við skulum ekki gleyma því að

 • Aðgengilegri vefur er nánast án undantekninga notendavænni vefur
 • Aðgengilegur vefur skilar inn meiri tekjum til lengri tíma
 • Auðveldara að nálgast upplýsingar um vöru og þjónustu
 • Aðgengilegur vefur vekur jákvætt umtal og umfjöllun
 • Aðgengilegur vefur skilar vefnum ávallt hærra í leitarvélum

10-15% notenda eru fatlaðir, margir þeirra vilja notfæra sér þjónustu á netinu en geta það ekki.

Jóhanna Símonardóttir, Sjá ehf | óháð ráðgjöf

Skoðað: 6502 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála