Skip to main content
04. október 2012

Barátta símastýrikerfanna

Atli Stefán Yngvason1Símtækjasala undanfarinna ára endurspeglar þá miklu baráttu sem nú stendur yfir milli ólíkra stýrikerfa fyrir farsíma. Baráttan ógnar tilvist gamalgróinna framleiðenda, sem lengi vel gátu stuðst eingöngu við eigin stýrikerfi í sinni framleiðslu. Símtækjaframleiðendurnir hafa nálgast nýjan veruleika með ólíkum hætti og æði misjöfnum árangri.


Þrátt fyrir miklar breytingar á símtækjamarkaðnum er Symbian, stýrikerfi Nokia, ennþá mest notaða farsímastýrikerfi í heimi. Hlutdeild Symbian hefur hins vegar snarminnkað á stuttum tíma samhliða auknum vinsældum snjallsíma frá ýmsum framleiðendum. Fyrir daga snjallsímans er talið að Symbian stýrikerfi hafi verið í 6 af hverjum 10 farsímum í veröldinni en í dag er hlutdeild þess um 30%. Í fyrsta skipti í 14 ár er Nokia ekki lengur stærsti farsímaframleiðandi heims, því á fyrstu þremur mánuðum ársins tók Samsung fram úr með sinni vinsælu Galaxy vörulínu.

iPhone setti ný viðmið

Upphaf snjallsímabyltingarinnar má rekja til ársins 2007, þegar fyrsta iPhone símtækið frá Apple var sett á markað. Tækið setti ný viðmið í símtækjaþróun og þeir snjallsímar sem fyrir voru á markaðnum féllu í skuggann af nýja tækinu. Í símanum var nýja stýrikerfið iOS, sem Apple hafði hannað frá grunni til að styðja við notkun snertiskjáa. Þarna var kominn sími án takkaborðs með næman og skarpan snertiskjá, góða myndavél, vafra, tölvupóst og þráðlaust net. iPhone varð fyrirmynd annarra símtækja- og stýrikerfaframleiðenda.

Það tók keppinauta Apple nokkurn tíma að bjóða fyrirtækinu birginn. Nú hefur það hins vegar tekist eftir miklar sviptingar á markaðnum á árinu 2011. Android varð vinsælasta snjallsímakerfið með næstum helmings hlutdeild og Microsoft barðist við að koma Windows Phone stýrikerfinu á kortið. iPhone var seldur í yfir 30 milljónum eintaka en Samsung varð söluhæsti snjallsímaframleiðandinn. Á meðan vinsældir Android og iOS héldu áfram að aukast misstu Symbian og Blackberry stýrikerfin spón úr sínum aski.

Þrjú stýrikerfi verða ráðandi

Samkvæmt nýlegri skýrslu frá International Data Corporation (IDC) var árið táknrænt fyrir það sem koma skal. Í skýrslunni er því haldið fram að Android, iOS og Windows Phone verði alráð á snjallsímamarkaðnum en erfiðir tímar séu framundan hjá öðrum. IDC spáir Android helmings hlutdeild en að iOS og Windows Phone skipti restinni að mestu jafnt á milli sín.

Mesta óvissan ríkir þó um síðastnefnda kerfið, en ljóst er að Microsoft ætlar sér stóra hluti þótt hlutdeildin sé lítil enn sem komið er. Reyndar var Windows Mobile vinsælasta snjallsímakerfið í upphafi, en þá var samkeppnin lítil og fáir snjallsímar í umferð. iOS, Blackberry og Android gerðu hins vegar nánast út af við Windows Mobile og Microsoft brást við með því að hanna nýtt stýrikerfi frá grunni, Windows Phone. Sérfræðingar virðast sammála um að nýja kerfið hafi mikla burði til að ná vinsældum, ekki síst vegna samstarfs Microsoft og Nokia sem tilkynnt var á síðasta ári. Nokia var lengi að taka við sér þegar snjallsímabaráttan hófst en vill nú endurheimta leiðandi stöðu sína á símtækjamarkaði með þessu samstarfi. Fyrirtækið mun að líkindum kosta miklu til og náið samstarf við Microsoft verður að teljast líklegt til árangurs. Gríðarlega sterk staða Microsoft á einkatölvumarkaði og í hugbúnaðarlausnum fyrir einstaklinga og fyrirtæki skapar einnig sóknarfæri sem hljóta að ógna keppinautum Microsoft.

blackberry

iphone-3g samsung-tafla Windowsphone7
Blackberry iphone-3g Samsung tafla Windowsphone 7

Heimsyfirráð á fjórum árum

Android stýrikerfið hefur náð ótrúlegri útbreiðslu á örfáum árum. Fyrsta útgáfa kerfisins var kynnt í nóvember 2007 og á aðeins fjórum árum náði Android afgerandi forystu í samkeppni við aðra. Stýrikerfið er þróað af Google, en símtækjaframleiðendur fá afnot af því án greiðslu sem án vafa á stóran þátt í vinsældum Android.

Kerfið er í stöðugri þróun og sífellt er verið að bæta við nýjungum. Litlar kröfur eru gerðar til farsímaframleiðenda og fyrir vikið eru Android símar framleiddir í öllum stærðum, gerðum, verð- og gæðaflokkum. Notendur geta svo hlaðið niður óteljandi forritum í símann sinn gegnum Google Play sem Google rekur og hefur miklar tekjur af. Fyrirtækið ætlar sér augljóslega stóra hluti og árangurinn hjá Android hingað til gefur sannarlega ástæðu til bjartsýni. Fregnir herma að fyrirtækið vinni nú að því að þróa Android fyrir sjónvörp, bifreiðar og fleira, þannig að heimurinn á væntanlega eftir að sjá mun meira af Android en hingað til.

Vörufjölskyldan stækkar

iPhone síminn nýtur fádæma vinsælda í mörgum löndum og hefur selst vel á þeim mörkuðum þar sem hann býðst. Utan þróaðra ríkja er hann hins vegar sjaldgæfur og á heimsvísu er markaðshlutdeild Apple aðeins um 4%. Apple hefur hins vegar hagnast meira en aðrir framleiðendur snjallsíma, bæði vegna gríðarlegra tekna sem fyrirtækið hefur af forritaversluninni App Store og beinna tekna af símtækjasölu og jafnvel hlutdeild í tekjum símafélaga sem samið hafa við Apple um sölu á iPhone.

Því skal einnig haldið til haga að iOS stýrikerfið er einnig notað í iPod Touch og iPad spjaldtölvuna sem er mest selda spjaldtölva í heimi. Þar við bætist að öll iOS-stýrðu tækin virka saman og tengjast öðrum vörum frá Apple; tölvum, gagnaskýi, streymis- og sjónvarpsþjónustu (Apple TV) og mynda nokkurs konar vörufjölskyldu. Ljóst er að Apple ætlar sér að auka hlutdeild sína og tekjur með frekari vöruþróun.

Hvað verður um Blackberry?

Óljóst er hvort einhver einn og þá hver muni sigra stýrikerfastríðið. Í augnablikinu er Android vinsælasta stýrikerfið fyrir snjallsíma, en spennandi er að sjá hvort Apple og Microsoft tekst að breyta því. Öll virðast stýrikerfin vera hluti af stærra samhengi, þar sem markmiðið virðist vera að fá notendur til að kaupa fleiri tæki eða vörur frá sama framleiðandanum.

 

Að sama skapi verður áhugavert að fylgjast með afdrifum Blackberry, sem hefur átt undir högg að sækja en reynir nú að snúa vörn í sókn og skipti nýverið út æðstu stjórnendum sínum. Fyrri tilraunir þeirra til að olnboga sér rými á markaðnum hafa gengið brösuglega og fyrirtækið hefur tapað miklum peningum á PlayBook spjaldtölvunni, sem fékk vægast sagt slæmar viðtökur. Nýlega kom út þróunarútgáfa af Blackberry 10 stýrikerfinu sem er sérstaklega hannað fyrir snertiskjái. Ef vel tekst til gæti það komið þeim aftur á kortið.

Sérfræðingar telja engu að síður of snemmt að afskrifa Blackberry, þótt flestir séu sammála um nauðsyn þess að fyrirtækið breytist. Bent hefur verið á að framtíð Blackberry felist í samstarfi við framleiðendur stóru stýrikerfanna þriggja og fyrirtækið eigi að einbeita sér að framleiðslu símtækja sem byggja á kerfum þeirra. Að sama skapi gætu viðskiptatækifæri falist í app-væðingunni, þar sem Blackberry gæti þróað forrit sem byggði á gömlu, góðu Blackberry hugmyndafræðinni um áreiðanleika og gagnaöryggi og selt í aðra snjallsíma.


Hvað sem verður er ljóst að spennandi tímar eru framundan.

Höfundur Atli Stefán G. Yngvason, vörustjóri hjá Vodafone

Heimildir:
http://www.bloomberg.com/news/2012-04-27/samsung-overtakes-nokia-as-world-s-biggest-phone-vendor.html
http://www.bloomberg.com/news/2011-11-15/global-mobile-phone-sales-and-market-sharesummary-table-.html
http://en.wikipedia.org/wiki/Symbian
https://www.technobuffalo.com/android-grabs-52-5-of-global-mobile-os-market
http://en.wikipedia.org/wiki/Mobile_operating_ system#Market_share
http://en.wikipedia.org/wiki/Usage_share_of_operating_systems

Skoðað: 6466 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála