Skip to main content
08. október 2012

Hamfarir í Tækni- og verfræðideild Háskólans í Reykjavík (HR)

amÍ annað sinn er runnin upp Hamfaravika í HR þar sem nemendur á fyrsta ári í tæknifræði og verkfræði vinna í 6-8 manna hópum að ákveðnu verkefni undir leiðsögn kennara. Mikil leynd hvílir yfir verkefninu og vita hvorki nemendur né kennarar hvert það er fyrr en á mánudagsmorgni. Síðan  er unnið af ákefð í verkefninu fram á miðvikudag þegar kynningar fara fram á lausnum nemendahópa og lokahátíð er haldin. Áhersla er á að leggja verkefnið þannig upp að það sé unnið í rauntíma – enda hamfarir.

Meginmarkmiðið er að kynna nemendum betur það sérsvið sem þau hafa valið sér innan tækni- og verkfræði, efla samstarf nemenda og þjálfa þá í sjálfstæðum vinnubrögðum. Lögð er áhersla á að verkefnið sé raunhæft, og um leið bæði skemmtilegt og krefjandi, og sett fram í söguformi þar sem upplýsingar koma smám saman fram, lítið í upphafi sem getur skapað ringulreið, en síðan nánari leiðbeiningar til að koma vinnunni af stað og beina henni á rétta braut. Þannig er reynt að líkja eftir raunverulegum verkefnum í fyrirtækjum þar sem  verkefni eru alls ekki alltaf vel skilgreind eða lýst á greinagóðan hátt eins og nemendur eru vanir að sé gert innan veggja skólanna.

Mynd1 hamfarir

Í fyrra, þegar nemendur höfðu hlustað á fyrirlestra um hópvinnu, liðsheild og verkefnastjórnun, kom fréttatilkynning frá fréttastofu tækni- og verkfræðideildar kl 9:30 þar sem tilkynnt var að eldgos hefði hafist á Hengilssvæðinu síðastliðna nótt samkvæmt mælum Veðurstofunnar. Nánari lýsingar fylgdu síðan með reglulegum og ítarlegum tilkynningum frá stjórnstöð þar sem mismunandi hópum var úthlutað mismunandi verkefnum. Gera þurfti áætlanir um rýmingu, huga að heilsu íbúa, meta áhrif gossins á orkudreifingu, tryggja öryggi íbúa á svæðinu og sjá til þess að upplýsingar kæmust til almennings. Tilkynningar héldu áfram að berast, nemendur unnu af krafti, leiðbeinendur fylgdust með og ræddu við nemendur um framgang verksins. Á miðvikudegi kynntu þreyttir en kátir nemendur sínar lausnir.

Mikil ánægja var með hamfaravikuna í fyrra og segir þessi umsögn nemanda allt sem segja þarf:

Ótrúlega skemmtilegt námskeið, sem félagar mínir úr öðrum háskólum dauðöfunduðu mig af að taka þátt í. Ég lærði mikið af því, sérstaklega hvernig það er að vinna með öðrum verkfræðingum í hóp.

Þegar þetta er skrifað er hamfaravikan að hefjast í annað sinn, nemendur hafa fengið tilkynningu í formi sjónvarpsfréttar um að svo virðist sem hryðjuverkamenn hafi dreift stökkbreyttu afbrigði af bólusótt (e. smallpox) víða um heim. Komið hafa upp staðfest tilfelli í nokkrum stórborgum, þar með talið New York, Berlín, London, París, Tokyo, Shanghai, Rio de Janeiro, Sydney og Istanbul. Þetta stökkbreytta afbrigði virðist ónæmt fyrir hefðbundinni bólusetningu og því erum við varnarlaus gegn veirunni. Brugðist er við með því að loka landinu í 3 mánuði hið minnsta, skipta því upp í lokuð svæði og hvetja alla til að halda sig heima. Sökum þess að þetta er mjög krefjandi verk, flókið og þarf að bregðast strax við, þá hafa sóttvarnalæknir og yfirvöld ákveðið að fá verk- og tæknifræðinga til að vinna með sér varðandi bæði fyrstu viðbrögð og áætlanir til lengri tíma.  

Nemendur hópast saman á sínum vinnustöðvum, reyna að reyna að átta sig á aðstæðum og setja sig inn í verkefnið, velta fyrir sér möguleikum og bíða eftir frekari fréttum af ástandinu. Það er margt sem þarf að huga að, heildarrekstur þjóðfélagsins, stofnana og fyrirtækja er undir, skoða þarf samgöngur, sóttvarnir og tryggja öryggi þegnanna. Gera þarf áætlanir um útbreiðslu, kanna sjálfbærni landsins í næstu 3 - 12 mánuðir og skipuleggja skammtanir t.d. á orku, mat og lyfjum. Ekki síst þarf að tryggja að upplýsingar, tilkynningar og fréttir komist til skila.

Framundan eru því spennandi dagar fyrir nemendur í tækni- og verkfræði við HR og verður gaman að sjá lausnir þeirra á miðvikudag.

Ásrún Matthíasdóttir, lektor við HR

Skoðað: 5983 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála