Skip to main content
30. janúar 2014

Tölvutækni og heilabilun

margretOft getur tölvutæknin nýst vel í námi og leik, en ekki síður getur tölvutæknin nýst til að aðstoða þá sem stríða við heilabilun eða aðra minnistengda sjúkdóma, sem gera fólki erfitt fyrir að lifa sjálfstæðu lífi. Undanfarin áratug hefur verið vaxandi áhugi hjá heilbrigðisgeiranum og hugbúnaðarsérfræðingum að þróa tækni sem getur aðstoðað fólk með skerta minnishæfileika eða aðra fötlun til að lifa sjálfstæðu lífi.  Fólk sem þjáist af heilabilun eins og t.d. alzheimer þarf oft mikla aðstoð við daglegt líf. Það þarf að skipuleggja dagana og mánuðina eins og t.d. læknisheimsóknir, sjúkraþjálfun, æfingar og daglegar athafnir sem þarf að framkvæma  og minna svo viðkomandi á allt saman reglulega svo ekkert gleymist.  

Oftar en ekki lendir þessi aðstoð á aðstandendum sem búa nærri hinum veika. Veiki aðilinn upplifir meira og meira óöryggi og vanlíðan eftir því sem getan til að hafa stjórn á daglegu lífi minnkar. Oftar en ekki þarf fólk svo að fara inn á hjúkrunarstofnun mun fyrr en það sjálft hefði kosið.  

Hér getur tölvutæknin komið til aðstoðar eins og sýnt hefur sig við þróun og notkun á íslenska kerfinu Memaxi [1]. Memaxi er ekki gamalt kerfi en hefur frá upphafi verið þróað og hannað með það í huga að geta sem best aðstoðað fólk með minnistengd veikindi, aðstandendur þeirra og ummönnunaraðila við daglegt líf. Kerfið samanstendur af dagatali með snertiskjáviðmóti sem sá veiki hefur uppsett heima hjá sér, vef og farsímavef sem aðstandendur geta tengst.

Kerfið gerir þeim veika og þeim sem koma að ummönnun hans kleyft að setja upp daglega dagskrá fram í tímann.  Veiki aðilinn á auðvelt með að fylgjast með hvaða dagur er og hvað klukkan er og hvað er framundan. Kerfið minnir þann veika á viðburði dagsins eins og læknisheimsóknir, lyfjainntöku o.fl.  Aðstandendur geta skráð hvenær þeir ætla að koma í heimsókn og staðfest svo komu sína í kerfinu.  Kerfið má stilla þannig að það sendi sms á alla ummönnunaraðila þegar einhver viðburður eða heimsókn hefur átt sér stað og notandi staðfestir að svo sé í kerfinu. Einnig er hægt að skrá inn ókomna atburði og láta kerfið minna á þá með sms þegar nær dregur. Það geta margir aðilar tengst einum veikum ðila og fylgst með daglegu lífi hans.  Einnig geta þeir sem búa ekki nálægt hinum veika fylgst með og tekið þátt eins og hægt er í allri ummönnun.  Kerfið notar skype fyrir öll samskipti á milli aðila og er fólk því alltaf í mynd þegar það talar saman.  Samkvæmt notendum Memaxi hefur þessi tækni “að tala saman með skype” minnkað einangrun þess aðila sem þjást af minnistengdum veikindum [2].  

Memaxi kerfið byggist upp á notkun á snertiskjá. Með snertiskjá er oft auðveldara að búa til einfalt og notendavænt viðmót. Í mörgum tilfellum þá eru notendur ekki með mikla tölvukunnáttu, jafnvel enga og það má ekki vera erfitt að læra á svona kerfi fyrir fólk sem þjáist af minnistengdum veikindum. Það má því segja að hér sé tölvutæknin, bæði vélbúnaður og hugbúnaður notað til að aðstoða fólk við að lifa sjálfstæðu lífi eins lengi og það er því unnt.

Það er vaxandi áhugi á meðal hugbúnaðarsérfræðinga og fagfólks sem kemur að ummönnun heilabilaðra einstaklinga á því að þróa hugbúnað og tækni sem getur aðstoðað fólk með daglegt líf. Til þessa hefur ekki verið mikið úrval þegar leitað er að kerfum sem þjóna þessu hlutverki og var það m.a. kveikjan að því að Memaxi kerfið varð til. Með vaxandi fjölda af eldri borgurum í heiminum í dag og vaxandi fjölda af þeim sem þjást af minnistengdum veikindum eins og t.d. Alzheimer þá eykst þörfin fyrir kerfi sem geta komið í staðin fyrir hjúkrunarfólk og ummönnunaraðila [3].   Heilbrigðisgeiri framtíðarinnar mun ekki geta staðið undir því að kosta alla þá ummönnun sem er fyrirsjáanlegt að verði nauðsynleg. Stjórnvöld og heilbrigðisgeirinn verða því að geta boðið upp á lausnir sem gera fólki kleyft að búa heima hjá sér eins lengi og því er unnt.

Health Smart Homes er rannsókn/tilraun sem samanstendur af gervigreindar forriti og tæknibúnaði sem er hannað til að aðstoða eldra fólk með minnistengd vandamál og fatlaða einstaklinga [4].  Kerfið er ekki í almennri notkun í dag en hefur farið í gegnum prófanir. Kerfið kortleggur eðlilegt heimilislíf og notar þá kortlagningu til að skynja breytingar á daglegu heimilislífi og gefa þar með vísbendingar um breytingar á heilsufari viðkomandi og einnig möguleikann á að aðstoða viðkomandi ef eitthvað er ekki eins og það á að vera. Health Smart Homes er byggt upp með innrauðum skynjurum sem er komið fyrir á ýmsum stöðum á heimilinu til að nema staðsetningu íbúa, hurðaskynjara, hita- og rakaskynjara fyrir baðherbergi, hátalara og hljóðnema til að koma skilaboðum á framfæri og nema hljóð. Hlutverk þessara nema er að vakta atferli íbúa og svo er sérstakt forrit notað til að greina atferlismynstur sem er ekki eins og það á að vera. Það sem er átt við með því er að hugbúnaður með hjálp nemana safnar fyrst upplýsingum um „eðlilegt“ heimilislíf.  Ef það fer síðan úr skorðum, t.d. viðkomandi íbúi hefur verð hreyfingarlaus í ákveðin tíma þá lætur kerfið þá aðila sem annast hann vita. Kerfið getur einnig minnt íbúann á að framkvæma ógerða hluti. Einnig eru íbúar með hreyfiskynjara festan við sig til að fylgjast með daglegri hreyfingu.  Kerfið kortleggur og fylgist með sjö atburðum, hreinlæti, klósettferðum, matmálstímum, hvíld, svefn, samskipti við aðra og að viðkomandi sjúklingur klæði sig í og úr. Þetta kerfi hefur til þessa bara verið prófað á ungum einstaklingum í íbúð sem var gerð sérstaklega fyrir þessa tilraun. Í framtíðinni er svo ætlunin að prófa þetta inn á heimilum eldra fólks. Markmiðið er að hanna og búa til kerfi sem hægt er að nota á sem flestum heimilum með sem minnstum breytingum á uppsetningu á milli heimila.
 
Með Health Smart Homes er verið að stíga skrefinu lengra í að aðstoða fólk við daglegt líf með því að þróa gervigreindarkerfi  sem á að koma í staðinn fyrir mannlega ummönnunaraðila.  Hvort þetta verður svo framtíðarlausnin er ómögulegt að segja, en þar sem það er nokkuð ljóst hvað framtíðin ber í skauti sér með auknum fjölda sjúklinga með heilabilun og önnur minnistengd veikindi þá er nokkuð ljóst að eitthvað verður að gera til að mæta þörfinni fyrir umönnun sem mun skapast.

Eins og staðan er í dag á Íslandi þá er ekki mikið um það að heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili séu að nota sérhæfð kerfi til að aðstoða sína skjólstæðinga við daglegt líf, en þó hefur amk. ein stofnun farið að prófa notkun á Memaxi kerfinu og er það Öldrunarheimili Akureyrar [5]. Prófun þeirra er tvíþætt, annarsvegar á að nota Memaxi til að stýra upplýsingaskjá innanhúss á heimilinu og hins vegar verður prófað að nota Memaxi fyrir íbúa sem lifa sjálfstætt.  Það verður gaman að sjá hvert framhaldið verður á því verkefni.

Höfundur: Margrét Harðardóttir, nemandi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík

Heimidlir

[1] Ingunn Ingimarsdóttir (2011). Memaxi, kerfi fyrir alla fjölskylduna [Rafrænt]. Af: http://memaxi.is/media/12342/memaxi_-_faas_article_is.pdf .  [Sótt: 12. október. 2013].
[2]  Thies, William. Bleiler, Laura. 2011 Alzheimer's disease facts and figures.  Alzheimer's & dementia: the journal of the Alzheimer's Association. árg 2011, töl. 7, hefti 2, bls 208-244, Mars 2011, DOI 10.1016/j.jalz.2011.02.004.
[3] Memaxi (2013). Upplýsingar, Umsagnir frá notendum [Rafrænt]. Af: http://memaxi.is/media/12342/memaxi_-_faas_article_is.pdf.  [Sótt: 12. október. 2013].
[4]  Fleury,  A., Vacher,  M., Noury, N. SVM-Based Multimodal Classification of Activities of Daily Living in Health Smart Homes: Sensors, Algorithms, and First Experimental Results. IEEE Transactions on Information Technology in Biomedicine.  Árg. 2010  töl. 14, hefti 2.  bls. 274-283, Mars 2010, DOI 10.1109/TITB.2009.2037317.
[5] Listin að lifa - Sumar 2013. 2013.  LEB, Landssamband eldri borgara, [Rafrænt]. Af: http://leb.is/frettabref/leb2013sumar/#8. [Sótt: 12. Október].
 


 

 
Skoðað: 3177 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála