Skip to main content
6. febrúar 2014

Börn og tölvur

Tölvuvæðing er allsráðandi í samfélaginu nú til dags og hefur skólakerfið verið tölvuvætt hægt og rólega í takt við það. Í fyrstu var tölvukennslu einungis beint að unglingum en hefur færst til yngri stiga á undanförnum árum og eru nú einnig flestir leikskólar farnir að nýta sér tölvur í þroskaverkefnum barna. Sumum þykir þetta jákvæð og góð þróun á meðan aðrir eru þvert á móti þessu. En hvaða áhrif getur tölvunotkun haft á þroska barna?

Samtökin Alliance for childhood eru samtök sem berjast fyrir og vilja stuðla að venjum  fyrir heilbrigðum þroska barna. Þessi samtök gáfu út skýrslu sem snýr að tölvunotkun barna og samkvæmt henni er hreinlega skaðandi fyrir þroska barna að hefja tölvunotkun á of ungum aldri (Cordes, Miller, og Alliance for Childhood, 2000) Í skýrslunni er rætt að foreldrar séu of uppteknir að því að börn þurfi að ná góðum tökum á tölvunotkun strax við leikskólaaldur. Þeir eru með það í huga að tölvur séu framtíðin og að það sé nauðsynlegt fyrir börnin að vera með góð tök á tölvum til að eiga bjarta framtíð. En í skýrslunni er talað um það að tölvur ýti of mikið á börn að þroskast og að í raun neyðir þau til að þroskast of hratt. Með þessu séum við að stytta barnæsku barna, hefta ímyndunarafl þeirra og ala á þeim eiginleikum barna sem ekki er ætlað að þroskast fyrr en síðar meir ; rök- og óhlutbundinni hugsun. Þeim þykir of mikil áhersla á einn þátt í þroska barna en lítið tillit tekið til annar þátta eins tilfinningaþroska, hreyfiþroska og líkamlegu heilbrigði (Cordes o.fl., 2000). En rannsóknir hafa sýnt að tölvu notkun getur ýtt undir offitu, ekki einungis vegna minni hreyfingar heldur einnig vegna aukinnar orku inntöku (Yi, Yin, Chang, og Xiao, 2012).

Börn sem eru mikið við tölvur sofa líka verr, eru lengur að sofna, eru með verra yrt minni (Dworak, 2007), koma verr út í lestri og eru með minni orðaforða (Hofferth og Moon, 2012). Mikil tölvunotkun hefur ekki einungis áhrif á hugræna getu og líkamlega heilsu heldur getur einnig haft áhrif á andlega heilsu barna. Rannsókn sem var framkvæmd af Rannsóknir og greining (2012) skoðaði m.a áhrif af notkun á rafskjám á andlega heilsu barna á aldrinum 10-12 ára. Niðurstöður sýndu að því meiri tíma sem börnin höfðu eytt fyrir framan rafskjá því meiri neikvæð áhrif hafði það á þeirra andlegu heilsu. Þetta átti sérstaklega við þá sem voru lengur en 4 tíma á dag í tölvunni (Yang, Helgason, Sigfusdottir, og Kristjansson, 2012). En þó eru ekki allir sammála því að hægt sé að flokka alla notkun á rafskjám saman. Rökstuðningur fyrir því er sá að tölvunotkun sé gagnvirkt ferli en að t.d sjónvarpsáhorf sé óvirkt ferli (Sweetser, Johnson, Ozdowska, og Wyeth, 2012). Rannsókn Wang og Perry (2006) styður þetta viðhorf en niðurstöður sýndu fram á það að notkun tölvuleikja jók hin ýmsu efnaskipta og lífeðlisfræðileg ferli hjá börnum, þrátt fyrir að enginn hreyfing ætti sér stað nema notkun á fjarstýringunni. Þetta átti sér ekki stað við sjónvarpsáhorf (Wang og Perry, 2006). Þó ber að nefna að aukningin var ekki það mikil að tölvuleikjanotkun geti komið í stað venjulegrar hreyfingar.  

En tölvunotkun er ekki alslæm og getur hún einnig haft ýmislegt jákvætt í för með sér. Ef börn nota tölvur í réttum tilgangi og réttu umhverfi getur það haft jákvæð áhrif á óhlutbundna hugsun þeirra, skipulagningu, orðaforða, samhæfingu á milli sjónar og hreyfingar og viðbragðshæfni (Klein, Nir-Gal, og Darom, 2000). Börn hafa líka sýnt fram á betri frammistöðu í prófum og verkefnalausnum ef þau nota tölvur við lærdóminn (Hofferth og Moon, 2012). Til að ná þeim árangri er mikilvægt að fá virka aðstoð og leiðbeiningar frá foreldrum eða kennurum (Klein, Nir-Gal, og Darom, 2000).

Eitt af því sem hefur komið til tals varðandi tölvunotkun barna er félagsfærni og félagsþroski þeirra. En samkvæmt rannsókn I-Chen Hsu og Geist (2012) kjósa börn yfirleitt að leika sér í tölvum saman frekar heldur en gera það einsömul. Í rannsókn þeirra var fylgst með samskiptum barna í tölvuleikjanotkun. Börnin sýndu í raun ekki hegðun sem er frábrugðin annarri hegðun í leikjum barna. Þau unnu saman, hvöttu hvort annað, rifust, hjálpuðust að og leystu félagsleg og tölvutengd vandamál saman. Börnin sýndu mestu ánægjuna af tölvuleikjanotkuninni ef þau fengu félagsskap og minnstu ef þau þurftu að vera ein. Þannig að leika sér í tölvunni er ekki ólíkt venjulegum leik hjá börnum, samskiptin virðast vera þau sömu (I-Chen Hsu og Geist, 2012).  Þar að auki hafa fundist jákvæð tengsl á milli tölvunotkunar og félagsfærni og félagsþroska (Yang o.fl., 2012).

Ef tölvunotkun er hófleg þá eyða flest börn sem eiga tölvur inn á heimilum sínum ekki minni tíma í athafnasemi eins og að lesa, íþróttir eða leika sér úti miðað við þá sem hafa ekki aðgang að tölvu heima hjá sér. Þetta breytist þó ef tölvunotkunin fer fram yfir 8 klukkustundir eða lengur á dag. Þá er þetta farið að bitna á annarri virkni og hækkar einnig BMI stuðull á meðal þessara barna (Attewell, Suazo-Garcia, og Battle, 2003).

Einnig hefur verið sýnt fram á að tölvunotkun getur verið hjálpleg sem hluti af meðferð fyrir börn sem eru í lyfjameðferð gegn krabbameini, börn sem eru í sálfræði meðferð, börn sem eiga við tilfinninga og hegðunar vanda að stríða og börn sem eiga við heilsufarsvandamál að stríða (Griffiths, e.d.).

Það má því segja að tölvunotkun geti vissulega haft neikvæða fylgikvilla í för með sér en ef tölvur eru notaðar á réttan og hóflegan hátt geta þær einnig auðgað nám barna. Tölvur geta haft mikið af jákvæðum hugrænum þáttum í för með sér og aðstoðað börn sem eiga við hinn ýmsa vanda að stríða. Því á orðatiltækið allt er gott í hófi líklegast vel við þegar kemur að tölvunotkun barna.

Höfundur: Kristrún Ólöf Sigurðardóttir, nemandi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík

 
Skoðað: 3638 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála