Skip to main content
13. apríl 2014

Ipad og börn með sérþarfir

Á síðustu árum hefur það færst í aukana að skólar og sérfræðingar eru byrjaðir að vinna með Ipad spjaldtölvur í kennslu sinni. Finnst mér það frábær þróun þar sem að spjaldtölvur eru frábært kennslutæki þrátt fyrir að Ipadinn hafi ekki verið hannaður með það í huga að vera kennslutæki. Börn allt niður í tveggja ára gömul eru farin að kunna á spjaldtölvur, sem er bara frábært að mínu mati þar sem fínhreyfingar þeirra örvast við notkunina þar sem að fingurnir eru eingöngu notaðir. Til eru mörg þúsund kennsluforrit fyrir Ipad sem eru hönnuð með það markmið að efla hugrænan þroska barna, efla skynfærin og þjálfa fínhreyfingar þeirra. Ég vona að framvindan verði sú að það verði komnar spjaldtölvur í sem flesta leik- og grunnskóla á næstu árum. Ég veit til þess að það eru nú þegar nokkrir leik-og grunnskólar komnir með spjaldtölvur. Ég tel að spjaldtölvur hafi frábær áhrif á börn, að hann efli þau í leik og starfi og hafi góð örvandi áhrif á skynfæri þeirra.  

Frá því að Ipad spjaldtölvan kom á markaðinn þann 3 apríl 2010  hefur aukist að kennarar jafnt sem foreldrar barna með fötlun og sérþarfir, nýti sér kosti og þægindi Ipad í kennslu og leik. Ipad er lítil og þunn spjaldtölvan sem er auðveld og þægileg í notkun. Hún hefur þá kosti fram yfir venjulega heimilistölvu að hún er létt, meðfærileg og er með snertiskjá. Ipadinn er einkar þægilegur fyrir einstaklinga sem eru með sérþarfir og þá sérstaklega fyrir einstaklinga með hreyfihömlun því hann getur verið staðsettur á marga vegu hvort sem það er sitjandi, liggjandi eða í hinum ýmsu stellingum. Einnig eru til ýmiskonar aukahlutir sem auðvelda einstaklingum að láta Ipadinn standa einan og sér á borði eða láta hann liggja í sérstakri stöðu.

Með hjálp Ipad geta blind börn þýtt skrifuð orð yfir í lesin orð með einungis einni fingrahreyfingu, nemendur með lesblindu eða aðra lestrar erfiðleika geta klárað verkefni eingöngu með því að nota röddina, og nemendur með einhverfu geta notað Ipadinn til að tjá tilfinningar sínar og hugsanir með hjálp sérstakra forrita. Til eru ótal forrit sem aðstoða sjónskerta einstaklinga við að lesa og læra. Sem dæmi um má nefna forrit sem heitir Text Grabber. Það virkar þannig að einstaklingurinn tekur mynd af skrifuðum orðum og þá les forritið orðið upphátt. Sem dæmi um kosti Ipadsins eru innbyggða myndavélin og hljóðneminn, en bæði eru notuð til að hjálpa sjónskertum einstaklingum eða einstaklingum sem eiga erfitt með lestur (Ronayne, 2013).

Á síðustu árum hefur það færst í aukana að skólar, leikskólar og sérkennarar nýti sér spjaldtölvur í kennslu sinni. Til eru ótal mörg forrit, eða “öpp” eins og þau eru kölluð, sem eru notuð fyrir kennslu og hreyfifærni. Flest eru þau litrík, með skemmtilegum hljóðum og myndum sem gerir öppin mun meira spennandi fyrir krakka. Það hefur sýnt sig að Ipad hentar vel fyrir börn með einhverfu, en forritin hafa örvandi áhrif á þau, þá sérstaklega forrit sem kenna þeim að skrifa (svo sem Doddle Buddy og Little Writer).

Á undanförnum árum hefur það verið erfitt fyrir sérfræðinga að kenna börnum með einhverfu að skrifa þar sem barninu skortir örvun og áhuga. App Store í Ipad hefur að geyma mörg þúsund öpp sem eru hönnuð fyrir einstaklinga með sérþarfir, og eru þessi öpp flokkuð undir sérkennslu í App store. Apple fyrirtækið tilkynnti í byrjun ársins 2013 að það eru yfir 20 þúsund kennslu öpp í boði í App Store sem eru hönnuð fyrir Ipad. Snertiskjárinn á spjaldtölvunni hefur þá kosti fram yfir venjulega borðtölvu sem er með lyklaborð og mús, að það er hægt að draga, klikka á, hrista, teikna og margt fleira með einungis léttum fingrahreyfingum („5 Ways the iPad Helps Children with Disabilities“, e.d.). Með því að nota einungis fingurnar eykur það fínhreyfingar hjá börnum. Sem dæmi um app sem er hannað til að æfa fínhreyfingar barna er forritið Dexteria. Dextería inniheldur þrjá æfingaleiki sem ganga út að það að æfa fínhreyfingar með því að tvísmella, klípa með fingrunum og skrifa. Börn með sérþarfir og einhverskonar líkamlega fötlun hafa oft skertan félags- og leikþroska og þar af leiðandi er mikilvægt að þau fái aukna örvun á því sviði. Ipad spjaldtölvan hefur þá kosti að hún örvar málþroska og ímyndunarafl og hún styrkir sérstaklega fínhreyfingar barna. Hún býður upp á mikla möguleika til að eflu getu og þroska fatlaðra barna („Spjaldtölvur og börn með sérþarfir“, e.d.).

Á síðustu þremur árum hefur verslunin iStore gefið 25 Ipad spjaldtölvur til barna sem glíma við hreyfihömlun. Er þetta gert í samstarfi við iBörn sem er styrktarsjóður barna með hreyfihömlun. Sigurður Þór Helgason kom með hugmyndina að iBörnum eftir að hann fékk fyrirspurn frá föður barns með taugahrörnunarsjúkdóm um hvort Ipad spjaldtölva gæti ekki nýst dóttur hans („Vísir - Hreyfihömluð börn fá spjaldtölvur“, e.d.). Mér finnst þetta glæsilegt framtak hjá iBörnum og iStore og vildi ég að fleiri raftækjabúðir og fyrirtæki tækju sér þau til fyrirmyndar.

Höfundur: Gunnur Stefánsdóttir, nemandi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá
5 Ways the iPad Helps Children with Disabilities. (e.d.). Mommy Tech Bytes. Sótt 14. október 2013 af http://www.mommytechbytes.com/2013/03/26/5-ways-the-ipad-helps-children-with-disabilities/
Kathleen Ronayne. (2013). iPads bring students with disabilities new ways to participate, excel in education. Concord Monitor. Sótt 14. október 2013 af http://www.concordmonitor.com/news/8040411-95/ipads-bring-students-with-disabilities-new-ways-to-participate-excel-in-education
Spjaldtölvur og börn með sérþarfir. (e.d.). Sótt 14. október 2013 af http://www.sky.is/index.php/item/1645-spjaldt%C3%B6lvur-og-b%C3%B6rn-me%C3%B0-s%C3%A9r%C3%BEarfir
Vísir - Hreyfihömluð börn fá spjaldtölvur. (e.d.). visir.is. Sótt 14. október 2013 af http://www.visir.is/hreyfihomlud-born-fa-spjaldtolvur/article/2013709119999

 
Skoðað: 114 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála