Skip to main content
14. janúar 2016

Andlát Guðjón Reynisson

GudjonReynissonMinningarorð um Guðjón Reynisson 
Heiðursfélagi Ský 

Fæddur 21. nóvember 1927 
Dáinn 26. desember 2015


Höfundar: Haukur Oddsson, Pálína Kristinsdóttir, Bergþóra Karen Ketilsdóttir.

Beinn í baki, frá augun, hvers manns hugljúfi.

Þannig minnumst við Guðjóns Reynissonar, fyrrverandi forstöðumanns tölvudeildar Iðnaðarbanka Íslands hf. til margra ára.

Guðjón var fæddur milli stríða og var af þeirri kynslóð sem innleiddi þær mestu tæknibreytingar sem fram hafa farið í íslensku atvinnulífi. Kynslóð sem tók þátt í fyrstum skrefum tölvuvæðingar Íslands frá byrjun sjöunda áratugs síðustu aldar. Kynslóð sem kynnti sér nýjustu tækni í tölvumálum þess tíma og voru brautryðjendur í breyttum vinnuháttum þjóðarinnar.

Guðjón var stýrimaður að mennt og var sjómaður og stýrimaður, bæði á togurum og fraktskipum í þó nokkur ár, áður en hann gerðist landkrabbi og tók að vinna við tölvur. Geta má sér til að á þeim tíma hafi menntun í Sjómannaskóla Íslands og stýrimennska á skipum verið með þeim hætti að hún hafi verið góð undirstaða fyrir þá sem tileinka vildu sér tölvutækni og rafreikna.

IBM 1401, sem fyrst kom út árið 1959, er goðsögn í íslenskri tölvuþróun. Guðjón var einn þeirra manna sem sendir voru til IBM í Noregi til náms í IBM 1401. Þá hafði hann hafið störf hjá Skýrsluvélum Ríkisins og Reykjavíkurborgar, Skýrr. Hann segir skemmtilega frá því sjálfur að þegar hann fór til Noregs þá spurði hann kennarann hvort nemendurnir myndu ekki koma aftur að ári til að tileinka sér það sem þá væri nýjast af nálinni og fékk þau svör að IBM 1401 væri toppurinn og lengra væri ekki náð. Annað hefur komið á daginn.

Guðjón starfaði í bankakerfinu í tugi ára og stýrði tölvudeild Iðnaðarbankans um langa hríð eða frá árinu 1970. Tölvur voru mjög dýrar á þessum tíma og var varla á færi eins banka að kaupa tölvu og því var farið út í það að sameina krafta sína í því að fjárfesta í tölvu og sameinuðust um kaupin Iðnaðarbankinn, Útvegsbankinn og Almennar Tryggingar hf.  Keypt var IBM System 3 Model 10 tölva sem var 16K og stækkuð síðan í 24K 5410 Processor, ásamt 4 diskum, hver 2,4 MB að stærð.  Til að fá frekar upp í kostnaðinn voru stigakerfin o.fl. keyrð fyrir Lífeyrissjóð Byggingamanna, Lífeyrisstjóð Múrara og fleiri.  

Guðjón var mjög töluglöggur, átti auðvelt með að lesa Hex kóða, kunni bókhald inn að innstu rótum. Hann kunni skil á og skildi út í hörgul hvernig bankakerfið virkaði. Hann þekkti uppgjörin, jöfnunina,  greiðslukerfið og allt skipulagið. Hann lagði mikinn metnað í að kenna starfsmönnum sínum virðingu fyrir verkefnunum. Að kynna sér viðfangsefnið hverju sinni og setja sig inn í þau störf og þau verkefni sem leysa átti með tölvutækni. Hann fór sjálfur í útibúin og vann með starfsmönnum þeirra til að kynna sér hvernig störfin væru og finna í kjölfarið nýjar lausnir. Iðnaðarbankinn var brautryðjandi í tölvuvæðingu bankanna og Guðjón var bakhjarl í innleiðingu hennar innan bankans. Iðnaðarbankinn var fyrsti bankinn á Íslandi til að innleiða beinlínuvæðingu gjaldkerakerfa og nokkrum árum síðar varð bankinn fyrstur, hér á landi, til að innleiða, með aðstoð IBM á Íslandi, svo kallaða ,,tölvubanka“, sem í daglegu tali í dag eru kallaðir hraðbankar. Kostnaður við hvert tæki, uppkomið og tengt, samsvaraði verði Volvo fólksbifreiðar og það þótti á þeim tíma töluverð fjárfesting fyrir banka á Íslandi.

Sem stjórnandi var Guðjón umhyggjusamur og hvetjandi. Hann var mentor starfsmanna sinna og félagi, sýndi þeim virðingu og vináttu.  Hann var ungur í anda og átti auðvelt með að umgangast aðra. Hann lagði áherslu á að starfsmenn þekktu aðferðir í reikningi og hefðu skilning á stærðfræðinni, en notuðu ekki bara reiknivélar til að reikna. Honum var mikið í mun að starfsmenn fengju góða menntun og kennslu í nýjum verkefnum og við innleiðingu þeirra.

Guðjón tók mikinn þátt í þróun upplýsingakerfa bankanna og lagði ríka áherslu á menntun og símenntun, ekki aðeins eigin starfsmanna heldur líka allra starfsmanna Iðnaðarbankans og bankakerfisins í heild. Hann tók virkan þátt í Sambandi íslenskra bankamanna, sat í fræðslunefnd bankanna, var stjórnar- og stjórnarformaður í Skýrslutæknifélaginu til margra ára, sat í Tölvunefnd og Staðlaráði, sat í samstarfsnefnd Reiknistofu bankanna og svona mætti lengi telja. Alls staðar lagði Guðjón sig fram um að efla sitt umhverfi og horfa fram á veginn. Hann var mikill stuðningsmaður Skýrslutæknifélagsins og sá svo um að allir hans starfsmenn væru skráðir félagsmenn í Skýrslutæknifélaginu. Hann var ætið örlátur á þekkingu sína og ófá skiptin voru þau sem hann tók á móti skipulögðum heimsóknum erlendra bankamanna sem og innlendra faghópa, sem vildu kynna sér notkun tölvutækninnar í Iðnaðarbankanum og íslenska bankakerfinu.

 Þegar líða tók á starfsævi Guðjóns og hann hafði tekið þátt í tveim byltingum innan tölvutækninnar, annars vegar tölvuvæðingarinnar sjálfrar og síðan beinlínuvæðingarinnar þá blasti þriðja byltingin við, þ.e. innkoma PC tölva og netvæðingar. Á þessum vegamótum bar Guðjóni gæfa til að hafa ráðið til sín ungt, hæfileikaríkt og vel menntað starfsfólk sem hann hafði enn frekar mótað og alið. Úr varð að Haukur Oddsson tók við starfi Guðjóns og leiddi Iðnaðarbankann áfram í forystu tæknilausna bankans. Hann naut dyggrar aðstoðar Guðjóns fyrstu árin áður en Guðjón sölsaði um og tók að sér að endurskipuleggja verkefni Lífeyrisdeildar Iðnaðarbankans. Þar nýttist vel hversu töluglöggur hann var og  hæfileikar hans til greiningar verkefna, svo eftir var tekið.

Margs er að minnast að lokum langrar ævi. Mest er þakklætið fyrir að hafa kynnst og unnið með svo hæfileikaríkum, heilsteyptum og góðum manni sem Guðjón var og er í huga okkar allra. Fótgönguliði og leiðtogi. Kennari og nemandi. Allt í senn.

Guðjón var gerður að heiðursfélaga í Ský þann 14.febrúar 1992.

Vottum Laufeyju, eftirlifandi eiginkonu Guðjóns og fjölskyldu hans allri okkar dýpstu samúð og kveðjum hann með vinsemd og virðingu.

Haukur Oddsson, Pálína Kristinsdóttir, Bergþóra Karen Ketilsdóttir.

Skoðað: 2216 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála