Skip to main content
14. febrúar 2019

Reglur um auglýsingar á samfélagsmiðlum

liljaÍ nútíma samfélagi eru allar upplýsingar aðgengilegar á örskotsstundu. Nánast allir eiga snjallsíma og fartölvu og jafnvel spjaldtölvu líka. Við erum uppi á tíma þar sem fáir grípa með sér dagblaðið lengur áður en þeir setjast við heilagar athafnir enda er síminn alltaf til staðar og allar heimsins fréttir berast okkur beint í hann. Þegar dagblaðið kemur loksins inn um lúguna hjá okkur erum við búin að sjá allar heitustu fréttirnar fyrir löngu síðan á skjánum hjá okkur.

Vinsælustu samfélagsmiðlarnir eru Facebook, Youtube, Instagram og Snapchat.  Mikill fjöldi fólks notar þessi forrit daglega og svo dæmi sé tekið hefur Facebook forritið hvorki meira né minna en rúmlega 2.2 milljarða virkra notenda á mánuði (Dreamgrow, 2018).

Þessir fjórir miðlar eiga það sameiginlegt að þú getur skapað þér ímynd og leyft fylgendum þínum að fylgjast með þér, í gegnum stöðuuppfærslur, ljósmyndir eða myndbandsupptökur. Fjöldi notenda hefur vaxið gríðarlega á stuttum tíma og eftir því hafa fyrirtæki og markaðsfólk tekið og nýtt sér. En hvaða reglur gilda um auglýsingar á slíkum vettvangi?

Notkun áhrifavalda við markaðssetningu á vörum eða þjónustu er ekki ný af nálinni. Í fjölda ára hafa fyrirtæki nýtt sér fótboltamenn, leikara og aðra fræga einstaklinga til þess að auglýsa fyrir sig vörur. Sem dæmi má nefna samstarf Dwayne „the rock“ Johnson við vörumerkið Under Armour.

Það sem hefur hins vegar breyst er að nú getur í raun hver sem er sem er orðið vinsæll eða þekktur í gegnum miðla eins og Snapchat og Instagram. Ef þú ert skemmtileg og áhugaverð persóna eða ert að gera hluti sem gætu gagnast öðrum, þá ertu í góðri stöðu til þess að safna að þér fylgjendum.  Fólk sem nýtur trausts stórs fylgjendahóps er gjarnan kallað áhrifavaldar þar sem það getur auðveldlega haft mikil áhrif á þann hóp sem fylgist með því. Til að mynda gengið í ákveðnum fatnaði eða notað ákveðnar vörur á samfélagsmiðlum sem síðan seljast vel hjá fylgjendahópnum. Fyrirtæki hafa undanfarin ár réttilega séð tækifæri á þessum vettvangi.  Kosturinn við slíkt samstarf er að markaðsefnið er í raun efni sem fólk horfir á sjálfviljugt og þykir áhugavert, ólíkt til að mynda sjónvarpsauglýsingum sem margir flokka sem truflun eða áreiti í línulegri dagskrá. Áhrifavaldar fá oft greitt fyrir að auglýsa vörur í peningum eða vöruúttektum. Þetta getur hentað litlum fyrirtækjum vel, sem eru ný á markaði og hafa jafnvel lítið markaðsfé á milli handanna.

En hvenær flokkast umfjöllun áhrifavalda raunverulega sem auglýsing? Inná vefsíðu neytendastofu segir :„ Þegar tilkynningu er miðlað gegn endurgjaldi og hún felur í sér kynningu á ímynd, vöru eða þjónustu þá er hún auglýsing. Mikið af því efni sem birtist í fjölmiðlum, bloggum og öðrum samfélagsmiðlum teljast því auglýsingar samkvæmt lögum  m eftirlit m e ð við skipta háttum og markaðssetningu nr. 57/2005.„ (Neytendastofa, 2018.).

En hvernig eiga fylgjendur þeirra að þekkja muninn á auglýsingu eða daglegu lífi, er pizzan sem Jón sótti hjá Dominos auglýsing eða kvöldmatur? Margir átta sig ekki á því að um auglýsingu er að ræða þegar umfjöllun á vöru eða þjónustu er sýnd á samfélagsmiðlum enda geta þær verið duldar. Því hefur neytendastofa sett reglur sem eiga að tryggja rétt neytenda til þess að bera kennsl á auglýsingar.

Svo dæmi sé tekið; hafi áhrifavaldur undirritað samning um samstarf við pizzastað þá þarf að merkja hvert innlegg um pizzastaðinn sem auglýsingu.  „ Samkvæmt 6. gr. laga um eftirlit m ð við skipta háttum og markaðssetningu nr. 57/2005 skulu auglýsingar þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða. Skulu þær skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla. Þá mega auglýsingar og aðrar viðskiptaaðferðir ekki vera ósanngjarnar gagnvart keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra. Samkvæmt 11. tölulið reglugerðar um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir nr. 160/2009 er óheimilt að nota ritstjórnarefni úr miðlum til að auglýsa vöru þegar söluaðilinn borgar fyrir auglýsinguna og lætur þetta ekki koma fram í auglýsingunni á myndum eða með hljóði sem neytandinn getur auðveldlega borið kennsl á.“ (Neytendastofa. 2018.).

Oft eru áhorfendur eða fylgjendur mjög ungir, þar sem aldurstakmark til skráningar á flesta þessa samfélagsmiðla er aðeins 12 ára. Það getur reynst erfitt fyrir slíka notendur að átta sig á því hvort umfjallanir fyrirmynda sinna séu sjálfsprottnar eða aðeins hluti af vinnu fyrir þóknun. Samkvæmt lögum þarf að koma skýrt fram hvort um slík umfjöllun sé auglýsing.

„Í sjöundu grein laganna segir að í auglýsingum verði að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga og áhrifa á þau. Sé umfjöllun beint að þessum markhópi verða fjölmiðlar og bloggarar að sýna aukna aðgæslu. Bein hvatning til barna um að kaupa auglýsta vöru eða telja foreldra þeirra eða aðra fullorðna á að kaupa auglýsta vöru handa þeim er alltaf óheimil og telst til óréttmætra viðskiptahátta.“ (Neytendastofa, 2018.).

Íslenskir áhrifavaldar hafa í kjölfar hertra reglugerða gripið til þess ráðs að merkja auglýsingarnar sínar með myllumerkjunum #ad eða #samstarf. Eins og áður sagði eru duldar auglýsingar ólögmætar og þarf því að taka það skýrt fram þegar um er að ræða greidda umfjöllun. En eru einhverjar afleiðingar fyrir einstaklinga eða fyrirtæki ef þessar reglur eru brotnar?

Neytendastofa getur gripið til aðgerða við brot á þessum reglum, með bæði sektum og  banni á auglýsingar fyrirtækja eða einstaklinga. Einstaklingar og fyrirtæki geta sætt sektum. Til þess að koma í veg fyrir að verða fyrir slíku eru margar af stærstu samfélagsmiðlastjörnum landsins komnar með umboðsmenn sem hafa milligöngu um hvaða vörur þau eigi að auglýsa sem henta sinni persónu. Einnig eru auglýsingastofur farnar að bjóða uppá þá þjónustu að sjá alfarið um samfélagsmiðla fyrir fyrirtæki.

Höfundur Lilja Bjarnadóttir

Heimildaskrá

Priit Kallas. (2018. 2.ágúst). Top 15 most popular social networking sites and apps. Sótt 14. september 2018 af https://www.dreamgrow.com/top-15-most-popular-social-networking-sites/

Neytendastofa. (e.d.). Duldar auglýsingar. Sótt 15. september 2018 af https://www.neytendastofa.is/fyrirtaeki/orettmaetir-vidskiptahaettir/duldar-auglysingar/

Neytendastofa. (e.d.). Duldar auglýsingar.Sótt 15. september 2018 af https://www.neytendastofa.is/fyrirtaeki/orettmaetir-vidskiptahaettir/duldar-auglysingar/

Neytendastofa. (e.d.). Leiðbeiningar um auðþekkjanlegar auglýsingar.Sótt 16. september 2018 af

https://www.neytendastofa.is/log-og-reglur/log-og-reglur/

Skoðað: 2029 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála