Skip to main content
9. september 2021

Hugmyndir um tæknina frá 1990-2000

Jason 2Í gögnum frá 1990-2000 má finna margar lýsingar á því hvaða hugmyndir voru um þróun tækninnar í framtíðinni. Hér ætlum við að skoða nokkrar af þessum hugmyndum og hver staðan er í dag, hafa hugmyndir ræst og hver hefur þróunin verið um leið og við lítum aðeins til framtíðar.

Í tímaritinu Tölvumál frá mars 1996 er grein sem heitir Framtíðarsýn Pósts og síma (Þór Jes Þórisson, 1996) og þar er fjallað um þráðlaus tölvufjarskipti með GSM. Á þessum tíma var GSM kerfið í hröðum vexti og fjöldi fólks að kynnast þessu kerfi en það sem skipti mestu mái á þessum tíma var gagnaflutningurinn og hraði hans. Það var verið að prófa allt að 9.600b/s gagnaflutning og á þeim tíma var það stórt skref. Fólk vildi líka fá flottasta og besta GSM kerfið og því fóru GSM fyrirtæki að vaxa hratt og reyna bjóða upp á besta farsímann fyrir viðskiptavini sína. Þetta er frábrugðið tækninni í dag þar sem að 4G, 5G, ljósleiðari og fleiri leiðir til þess flytja gögn eru margfalt hraðar heldur en var hægt að hugsa sér á þessum tíma. Í dag er auðvelt að komast upp í 10mb/s á flestum heimilum á íslandi í dag.

Það má segja að frá upphafi GSM og til dagsins í dag hefur orðið mikil breyting á daglegu lífi flestra einstaklinga sem rekja má til farsímanotkunar. Flestir einstaklingar i dag nota töluvert af tíma sínum á hverjum degi í símanum sínum og margir myndu eflaust fá fráhvörf ef síminn týndist. Sífellt stærri hópur notar símann sinn til þess að auðkenna sig á vinnustað, við notkun á opinberri þjónustu og til þess að greiða fyrir vörur og þjónustu. Þessi hópur getur því ekki verið án farsíma í svo mikið sem einn dag sem er mikil breyting frá því að fyrstu farsímarnir litu dagsins ljós. Í raun má segja að áhrifin séu svo mikil að samskipti, hegðun og tjáning samfélagsins er orðin allt önnur en hún var. Þessi þróun hefur sínar jákvæðu og neikvæðu hliðar eins og flestar breytingar. Sem dæmi má nefna að fyrir flesta foreldra er það mikið öryggi að vita af því að börn þeirra séu með síma og alltaf hægt að ná í þau. Hið neikvæða er hins vegar að börnin hafa nú tæki þar sem þau geta komist í óæskilegt efni, ókunnugir aðilar hafa nú möguleika á að hafa samband án þess að foreldrar viti af því og ótal fleiri ókostir sem hægt er að telja til.

Ef við förum síðan til 1999 þá kemur fram í tímaritinu Tölvumál grein um GSM posa, þá er GSM kerfið betur þróað og búið að gefa út GSM posavél sem gat tekið á móti greiðslukortum. Nú þurfti ekki að vera með posa sem tengist símalínu heldur var notað GSM tengingar sem tengjast beint við greiðslukortafyrirtækin. Þetta var stórt skref fyrir mörg fyrirtæki sem voru að senda vörur og þurfti ekki lengur að vera með posann tengdan við rafmagn og venjulega símalínu. Hér kemur aftur fram hvernig GSM var talið vera framtíðin fyrir þráðlausan gagnaflutning. Eins og við vitum í dag þá hefur þessi tækni gjörbreyst og internetið notað í nánast allt í dag. Posar, tölvur og jafnvel símar notast við internet tengingar í dag fyrir flest allan gagnaflutning. (Elvar Guðjónsson, 1999).

Um 1998 er internetið stór markaður fyrir fyrirtæki að koma sér á, þarna var dreifilyklatæknin mikilvæg. Á þessum tíma voru ekki endilega mörg fyrirtæki komin með viðskiptin á internetið en það átti eftir að breytast. Með þessari dreifilyklatækni gerði það fyrirtækjum og notendum kleift á að stunda örugg viðskipti sín á milli. Enn í dag er þessi tækni notuð þar sem dulkóðaður dreifilykill sendist á milli móttakandans og sendandans. Einnig má minnast á að á þessum tíma var töluvert meira óöryggi hjá fyrirtækjum við viðskipti á internetinu þar sem að fólk gerði sér litla sem enga grein fyrir hversu erfitt/auðvelt það væri að komast í viðkvæm gögn. Það átti eftir að sýna sig að öryggi á internetinu var ekki svo mikið og átti mörg fyrirtæki eftir að brenna sig á því á þessum tíma (Sigurður Ingi Grétarsson, 1998) og jafnvel enn.

Við sjáum að ennþá daginn í dag er dreifilyklatæknin notuð, þetta er helsta tæknin fyrir örugg viðskipti á netinu. Þessi tækni hefur þróast í gegnum árin og verið gerð ennþá öruggari en hún var. Það eru flest öll fyrirtæki komin með viðskiptin sín yfir á internetið og eru með vefverslanir og annað slíkt og því eru þau alltaf að nota dreifilyklatæknina í dag.

Þróun heimilia

Í þættinum 1989: Tomorrow’s World: Hom)e of the future (sjá https://www.facebook.com/watch/?v=2397586137034573) er fjallað um að tæknin taki of mikið pláss í heimilum þar sem á þessum tíma voru sjónvörp stór og fyrirferðamikil, símar voru enn tengdir með snúrum og tölvur voru tvöfalt stærri heldur en þær eru í dag. Í myndbandinu þá spá þeir því að tæknin verður tölvuvert fyrirferða minni og jafnvel það lítil að fólk hættir að taka eftir henni, ljós kvikni af sjálfum sér eftir því í hvaða herbergi þú ert í og heimilið lærir hversu bjart þú vilt hafa umhverfið. Þeir minnast einnig á að þú getir stjórnað heimilinu með orðum eins og t.d. að segja upphátt hvaða lag þú viljir hlusta á o.s.frv. Það sem er áhugavert er að þeir spá því að hlutir sem að þurfa vera tengdir með snúrum t.d. símar og sjónvörp verða enn tengdir en ekki í gegnum innstungur heldur verða þeir tengdir með einskonar segul sem þú getur sett á vegginn hvar sem er. Gluggar eiga líka að spila stórann þátt á heimilum þar sem að þeir spá því að það verði hægt að dekkja og lýsa upp glugga eins og þú viljir, sama hvernig lýsing er úti eða einskonar gardínur sem að hægt er að stjórna með fjarstýringu. Síðast þá spá þeir því að mengun verði orðið stærra vandamál árið 2020 og að það verði komin tækni til þess að minnka kolefnismengun við upphitun húsa (Campbell, 2020).

Það er margt sem að þeir spá rétt fyrir um eins og t.d. raddstýringu sem að hefur komist inn á mörg heimili í dag með tækni eins og “Google home” og “Alexa”. Í greininni minnast þeir líka á hvernig ljós munu virka árið 2020 og munu þau algjörlega vera sjálfstýrð eftir í hvaða herbergi fólk er í, þetta er að sumu leyti satt en tæknin er ekki orðin það þróuð að ljósin geta verið algjörlega sjálfstýrð, það þarf enn í dag að stýra ljósi með flipum eða í sumum tilfellum með raddstýringu. Gluggar eru ekki jafn þróaðir og þeir vilja meina að þeir verða í þessari grein, þeir vilja meina að gluggar geta virkað eins og skjáir þar sem þú getur hækkað og lækkað birtinguna sem kemur í gegnum gluggann. Þessi tækni er ekki orðin uppistaða í heimilum í dag en þessi tækni gæti mögulega orðið notuð meira í framtíðinni. Mengun kemur ekki jafn mikið frá heimilum í dag eins og það gerði í fortíðinni, þar sem mörg tæki í húsum gáfu frá sér mengun t.d. freon í ísskápum og asfalt í hús. Mikið af þessum efnum eru minna notuð í dag og er passað vel upp á að hús séu gerð úr efnum sem hafa ekki slæm áhrif á umhverfið og heilsu fólks. En förgun heimilistækja er enn mikið vandamál vegna mengunar sem þau valda.

Auknar lífslíkur

Árið 1999 var því spáð að lífslíkur mannsins myndu vera yfir 100 ára með tækni sem gæti hjálpað við að greina sjúkdóma hraðar, eins og t.d. skartgripir, úr, fatnaður sem að gætu hjálpað til við að greina hraðann hjartslátt, blóðþrýsting og aðrar greiningar. Ray Kurzweil taldi að þessi tækni gæti svo verið tengd við sjúkrahús og myndi þá auka hraða fyrstu viðbragðsaðila. Ray Kurzweil sá þetta sem jákvæðan hlut en hann varaði einnig við að með svona tækni væri hægt að nota til þess að fylgjast með almenningi betur og minntist hann sérstaklega á að sjónvarpið gæti fylgst með þér. Ray Kurzweil sagði að allt sem þú gerðir yrði vistað á gagnagrunn einhverstaðar sem gæti svo verið notaður til þess að hafa áhrif á pólitískar kosningar (Hauck, e.d.).

Ray Kurzweil hafði rétt fyrir sér með tækni sem tengist heilsu og eru til mörg tæki nú í dag sem fylgjast með heilsunni t.d. smartúr og heilsuforrit í farsímanum. Hann fór samt sem áður fram úr sér með að segja að þessi tækni myndi auka líftíma fólks en þó ekki, gífurlegar framfari hafa orðið t.d. í skurðlækningum með aðstoð tækninnar, fjarlækningum og líftæknilyf sem hafa aukið lífslíkur þó að við séum ekki komin upp í 100 ár fyrir flesta.

Gjaldmiðlar 1990

Milton Friedman sá tækifæri fyrir gjaldmiðla sem voru aðeins til á internetinu eða öðru nafni “cryptocurrency”. Hann sá fyrir að þessi gjaldmiðill væri aðaldrifkraftur til þess að minnka áhrif sem að ríkið hefur á daglegt líf. Hann taldi að ríkið hefur of mikil völd og sá fyrir að “cryptocurrency” myndi minnka þessi völd (Zhu, 2020). Í dag er þetta ein vinsælasta leiðin til að fjárfesta í, það mætti segja að það hafi ræst úr “cryptocurrency” því það er erfiðara fyrir ríkið að skattleggja þennan gjaldmiðil og því er hann mjög vinsæll gjaldmiðill meðal fólks.

Framtíðarsýn

Eins og við höfum rakið þá oft verið að ofmeta möguleika tæknilegrar þróunar. Í dag er umræða um að eftir 20 ár munu tæknin aðallega snúast að gervigreind og því spáð að gervigreind muni taka yfir mörg störf t.d. flutninga á bílum, gjaldkera og störf í verksmiðjum. Margir ganga svo langt að gervigreind muni á einhverjum tímapunkti fá meðvitund og munu rísa gegn mannkyninu.

Það er óhægt að segja að gervigreind muni verða þróaðri á næstu 20 árum en okkur þykir ólíklegt að þessi hún eigi eftir að hafa jafn mikil áhrif á líf mannkynsins eins og oft er spáð. Gervigreind mun líklega nýtast í að vinna störf sem maðurinn gat aðeins unnið hér áður fyrr en með því fækkar ekki bara störfum því að fleiri störf myndast um leið. Með hverju árinu verður mannkynið meira menntað og erfiðisvinna verður minna og minna eftirsótt og æskilegt og jafnvel nauðsynlegt að tæknin taki hana yfir.

Tölvur nú til dags er að fara nálgast þann punkt að ekki er hægt að ná meiri frammistöðu þar sem að það er takmarkað hversu hratt við getum flutt upplýsingar á milli staða og í dags eru tölvur að nálgast ljóshraða. Nú er verið að þróa nýjar tölvur sem að notast við nafnið “quantum computing” eða skammtafræði, þar sem hægt er að notast við meira en bara 1 og 0. Þessi tækni gæti haft gríðarlega áhrif á mannkynið þar sem hægt verður að reikna hluti margfalt hraðar heldur en við getum gert í dag.

Margir spá því að svokallað “Artificial Organ” sé að nálgast nútímann þar sem hægt verður að skipta út gölluðu eða hreinlega ónýtu líffæri með gervi líffærum sem að myndi virka nákvæmlega eins. Þetta gæti haft gríðarleg áhrif á læknisfræðilegt og lífslengd þar sem verður hægt að lækna krabbamein og fleiri sjúkdóma sem er erfitt að eiga við í dag.

Tæknin fyrir framtíðina getur svo sannarlega verið spennandi en einnig verðum við líka að gera okkur grein fyrir áhrifum sem þetta gæti haft á okkar samfélag. Persónuvernd er að vera minni með hverjum deginum og hægt er að finna nánast allt um okkur á internetinu. Við þurfum að passa að tæknin sé notuð á ábyrgan hátt til góðs fyrir okkur öll.

Höfundar:  Jason Guðnason og Garðar Þór Pétursson nemendur í Háskólanum í Reykjavík

Heimildaskrá

A. Zhu. (2020). Looking at past predictions made about 2020: Is the world ending? Do

cars fly on their own now? Time to discuss how past predictions hold up to the

present day. Study Breaks. https://studybreaks.com/thoughts/2020-predictions/

Campbell, M. (2020). News clip from 1989 shows what experts thought future home

would be like in 2020. Euronews. https://www.euronews.com/green/2020/02/06/news-clip-from-1989-shows-what-e

xperts-thought-future-homes-would-be-like-in-2020

Elvar Guðjónsson. (1999). GSM posar fáanlegir. Tölvumál, 24(1), 14-15.

Hauck, G. (e.d.). 20 predictions for 2020: Here's what people said would happen by this

year. USA Today. https://eu.usatoday.com/story/news/nation/2019/12/22/2020-predictions-decade

-ago-self-driving-cars-mars-voting/2594825001/

Sigurður Ingi Grétarsson. (1998). Öryggi í rafrænum viðskiptum. Tölvumál, 23(4), 33.

Þór Jes Þórisson. (1996). Framtíðarsýn pósts og síma. Tölvumál, 21(1), 28-29.

Skoðað: 882 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála