Skip to main content
8. október 2021

Brautryðjandi konur í tæknigeiranum

SvanhildurAfrek kvenna eiga það til að gleymast í sögubókum og tækni heimurinn er ekkert öðruvísi. Stór afrek þeirra kvenna sem hafa tilheyrt uppbyggingu tækninnar virðast ekki fá sömu viðbrögð og viðurkenningu líkt og karlmenn í sama geira.

Þess vegna langar mig að fjalla um nokkrar konur sem hafa verið brautryðjendur í tæknigeiranum og fengu ekki afrek sín metin fyrr en löngu seinna. Ég tel þessar konur vera miklar fyrirmyndir og þær þurfa að vera meira sýnilegar. Við það að rannsaka efnið komst ég að því að það eru ótal margar konur sem passa við ofangreindar lýsingar en ég ætla þó aðeins að fjalla um fjórar. Þær stórfenglegu konur sem ég ætla að fjalla um eru Ada Lovelace, Grace Hopper, Hedy Lamarr og Margaret Hamilton.

Ada Lovelace (1815-1852)

Ada Lovelace var enskur stærðfræðingur og greifynja sem lifði á árunum 1815 til 1852. Hún var dóttir Byrons lávarðs sem var eitt frægasta skálds rómantíska tímabilsins. Móðir hennar var vel menntuð í raungreinum og hvatti Lovelace til þess að sækja sér þekkingu í þeim efnum. (Nanna Kristjánsdóttir, 2021). Alda

Ada Lovelace skrifaði m.a. viðbætur við grein um ákveðna greiningarvél (e. analytical engine) frá árinu 1843 og eru þessar viðbætur taldar innihalda fyrsta reikniritið (e. algorithm). Alan Turing notaði hugmyndafræði Lovelace til þess að hanna fyrstu tölvuna árið 1940 og þess vegna er Lovelace talin vera fyrsti forritarinn (Nanna Kristjánsdóttir, 2021). Lovelace lést ung úr leghálskrabbameini en minning hennar lifir enn. Forritunarmálið Ada er skýrt í höfuðið á henni og árlega er hennar minnst á svokölluðum degi Lovelace (Nanna Kristjánsdóttir, 2021).

Mér þykir afrek og saga Lovelace sýna að konur eiga svo sannarlega heima í vísinda-og tækni heiminum. Hún var einstök kona að mörgu leyti og mér þykir það drífandi að heyra að fyrsti forritarinn hafi verið kona.

Grace Hopper (1906-1992)

Grace Murray Hopper, informática | Efemérides | Mujeres con cienciaHin bandaríska Grace Hopper var frumkvöðull í tæknigeiranum. Hún var mikil menntakona og fékk doktorsgráðu í stærðfræði árið 1934, þá aðeins 28 ára gömul (Biography, 2014).

Grace Hopper leiddi teymið sem sá um að forrita fyrsta þýðandann (e. compiler). Það leiddi til sköpunar hins vinsæla forritunarmáls COBOL sem er enn víða notað í dag (Biography, 2014).

Hopper var í bandaríska sjóhernum meirihluta ævi sinnar en þar vann hún sig upp í undirflotaforingja (e. rear admiral). Það er stundum talað um að hún hafi skilgreint orðið “aflúsa” (e. debugging) en það var í raun og veru ekki hún sem fann upp hugtakið, hún gerði orðið einfaldlega vinsælla (Biography, 2014).

 Hedy Lamarr (1914-2000)

HedyAusturríska-bandaríska Hedy Lamarr var sérstök að því leyti að hún var bæði undirfríð Hollywood leikkona og snjöll uppfinningakona (Cheslak , 2018).

Lamarr og samstarfsaðili hennar fundu upp á nýju samskiptakerfi (e. communication system) sem átti að hjálpa við að koma tundurskeytum á milli staða í seinni heimsstyrjöldinni. Kerfið notaði svokallað tíðnihopp (e. frequency hopping) á milli útvarpsbylgja (Cheslak , 2018). Kerfið var gert til að koma í veg fyrir hlerun á útvarpsbylgjum og þá gat tundurskeytið komist á leiðarenda og hitt rétt skotmark.

Uppfinningin var lengi hunsuð en var síðan notuð löngu síðar í allt öðrum tilgangi, enda var þessi tækni grunnurinn að fjarskiptatækni nútímans, þ.e. WiFi, GPS og Bluetooth (Cheslak , 2018).

Margaret Hamilton (1936-)

MargretMargaret Hamilton er bandarískur tölvunarfræðingur og kerfisfræðingur. NASA segir hana fyrsta til að skilgreina hugtakið hugbúnaðarverkfræði (e. software engineering).

Hamilton vann við hugbúnaðarþróun á Apollo 11, sem var fyrsta geimskipið til að komast á tunglið með góðum árangri árið 1969 (Britannica , 2018).

Hamilton framkvæmdi ítarlegar prófanir á hugbúnaðinum í geimfarinu og eru þær prófanir taldar hafa leitt til þess að verkefnið heppnaðist vel og að allir komust til baka heilir á húfi (Britannica , 2018).

 

Lokaorð

Þær konur sem ég hef fjallað um eru allar snillingar á sínum sviðum og eiga skilið jafn mikla viðurkenningu og karlmenn hafa fengið fyrir sambærileg afrek. Þessar konur eru stór ástæða þess að mannkynið komst loksins á tunglið, þær hjálpuðu okkur við þróun og uppfinningu þeirrar tækni sem við notum í daglegu lífi. Þeirra saga þarf að vera meira áberandi svo aðrar konur, ungar og aldnar hafi fyrirmyndir í tækniheiminum. Það hefur ekki verið skortur á framúrskarandi konum í raungreinum og iðngreinum, það hefur aðeins vantað sýnileika fyrir afrek þeirra til þessa.

Höfundur: Svanhildur Einarsdóttir nemandi í Háskólanum í Reykjavík

Heimildir:

Nanna Kristjánsdóttir. (2021, 10. september). Hver var Ada Lovelace? https://www.visindavefur.is/svar.php?id=66240

Cheslak, C. (2018, 30. ágúst). Hedy Lamarr. https://www.womenshistory.org/education-resources/biographies/hedy-lamarr

Biography. (2014, 2. apríl). Grace Hopper. https://www.biography.com/scientist/grace-hopper

Britannica. (2018, 30. ágúst). Margaret Hamilton. https://www.britannica.com/biography/Margaret-Hamilton-American-computer-scientist 4

 

Skoðað: 678 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála