Skip to main content
9. desember 2021

Ökuskírteini í símann

GudrunHver kannast ekki við það að gleyma ökuskírteininu heima og þurfa að snúa við til þess að geta haft það meðferðis við akstur? Ég á það til að vera mjög gleymin og áður en stafræn ökuskírteini komu í símann þá var ég alltaf með ökuskírteinið mitt í bílnum svo ég myndi ekki gleyma því heima eða í veskinu mínu. Þessi nýja tækni gerir okkur kleift að vera með ökuskírteinið okkar hvert sem við förum, hvort sem það er þegar við erum að keyra eða jafnvel ef að við ætlum í vínbúðina eða á skemmtistaði. Flestir fara ekki út úr húsi án þess að hafa símann í hendi svo að við getum alltaf verið með skírteinið. 

Þann 1.júlí 2020 gátu Íslendingar sem höfðu ökuréttindi sótt um og fengið stafræn ökuskírteini í símann. Hægt er að nálgast ökuskírteinin á Island.is. Stafræna ökuskírteinið gildir aðeins innanlands til að byrja með þar sem þau uppfylla ekki kröfur Evróputilskipunar og hægt er að nota það til þess að staðfesta ökuleyfi fyrir lögreglu. Rúmlega 45 þúsund Íslendingar sóttu um stafrænt ökuskírteini á fyrstu þremur dögunum eftir útgáfu þeirra hér á landi. Gömlu góðu kortaveskin eru að hverfa þar sem snjallsíminn er að taka við. Nú til dags er fólk að notast við stafræn veski sem eru í snjallsímum þar sem hægt er að nálgast öll þín kort sem þú notar og birtast þau eins og venjuleg kort með tveimur hliðum.

Þetta bleika prentaða ökuskírteini hefur verið staðall í áratugi á Íslandi, en það hefur ekki bara verið sönnun þess að þú getur ekið heldur sem skilríki til að staðfesta aldur þinn og sýna mynd af þér. Nýja stafræna ökuskírteinið lítur alveg eins út og gamla prentaða ökuskírteinið. Það er bleikt á litinn með mynd af þér og öllum þeim upplýsingum sem sýna fram á ökuréttindi þín. Fólk þarf að vera með svokallaða veskis-app áður en sótt er um ökuskírteinið, en veskis-appið er yfirleitt innbyggt í Iphone og einnig er hægt að ná í appið í Andriod símum. Að hafa ökuskírteinið í símanum er mun umhverfisvænna en að gefa hverjum og einum einstakling í landinu sem hefur ökuréttindi plastkort. Hins vegar verða plastskírteinin áfram gefin út og eru þau ennþá í fullu gildi.

Norðurlöndin eru mjög framarlega þegar kemur að stafrænni þróun en Noregur gerði nýja stafræna ökuskírteinisforritið sitt aðgengilegt 1. október 2019 og Ísland fylgdi fast á eftir. Danmörk setti ökuskírteinis-appið sitt fyrst á markað í nóvember 2020, en ökuskírteinið var fyrsta skilríkið til þess að verða stafrænt þar í landi.

Helstu áskoranir við að gefa út stafrænt ökuskírteini voru að það varð að vera í samræmi við lög og reglur í hverju landi fyrir sig. Einnig var kannað tæknileg hagkvæmni og var það fyrst bæði þróað og prófað til að tryggja að viðeigandi öryggisreglur væru innleiddar fyrir háþróað stafrænt öryggi og einnig samhliða þægilegri notendaupplifun.

Gerðar eru grundvallar lykilkröfur fyrir notkun ökuskírteinis í farsíma. Ökuskírteinið þarf að vera aðgengilegt bæði á netinu og utan nets. En hægt er að opna veski-sappið í símanum þínum hvenær sem er hvort sem þú ert nettengdur eða ekki. Þetta er nauðsynlegt ef að fólk er ekki með net en þarf að nálgast og nota kortin sín.

Ef aðili glatar farsíma sínum er hægt að slökkva samtímis á farsímaleyfi. Það eru þó nokkrar áskoranir sem stafræn ökuskírteini standa frammi fyrir en annars vegar spilar gagnaöryggi stórt hlutverk, en það þarf að huga að allar upplýsingar notenda séu öruggar. Öryggi þarf að vera til staðar fyrst og fremst til að vernda trúnað og friðhelgi notendagagna og mælingar á notendaupplýsingum mega ekki eiga sér stað. Alveg eins og með öll stafræn gögn er lykilatriði að fylgja persónuverndarlögum og ekki má selja gögn notenda.

Þar sem tæknin er sífellt að breytast og stafræn þróun verður meiri með hverjum degi þá leitast fólk eftir meiri hraða á bæði snjallari lausnum og aðgengi á upplýsingum. Heimurinn er að breytast og þróast hratt og mikið af viðskiptum sem fólk stundar eru nú gerðar á stafrænu sniði.

Það er svo margt sem er hægt að gera með snjallsímanum, hverjum datt það í hug að þegar fyrsti Iphoninn kom út að eftir nokkur ár væri hægt að borga með símanum. Fólk þarf ekki debetkort né ökuskírteini lengur, núna er hægt að hafa þetta allt á sama stað í símanum sem fer með þér hvert sem er yfir daginn. Þetta eru algjörar framfarir í tækniheiminum og einnig mikil þægindi fyrir fólk.

Höfundur: Guðrún Thelma Matthíasdóttir, nemandi við Háskólann í Reykjavík.

Heimildaskrá

Andrea Skúladóttir. (e.d.). Veskið í símann. Ský. Sótt 30. september 2021, af https://www.sky.is/index.php/toelvumal/item/2325-veskidh-i-simann

Digital driver’s license - your ID in your smartphone (2021, 7. apríl). Thalesgroup. Sótt 29. september 2021, af https://www.thalesgroup.com/en/markets/digital-identity-andsecurity/government/driving-licence/digital-driver-license

Lance Whitney. (2015, 21. mars). The driver's license of the future is coming to your smartphone. Cnet. Sótt 25. september 2021, af https://www.cnet.com/news/your-future-drivers-license-could-go-digital/

Rúnar Snær Reynisson. (2020, 29. júní). Hægt að fá stafræn ökuskírteini síðar í vikunni. RÚV. Sótt 29. september 2021, af https://www.ruv.is/frett/2020/06/29/haegt-ad-fa-stafraen-okuskirteini-sidar-i-vikunni

Urður Örlygsdóttir. (2020, 1. júlí). Hægt að fá ökuskírteinið í símann. Fréttablaðið. Sótt 29. september 2021, af https://www.frettabladid.is/frettir/haegt-ad-fa-okuskirteinid-i-simann/

Skoðað: 786 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála