Skip to main content
8. nóvember 2021

Æ hvar vorum við aftur að horfa á þetta ?

ByrndisStaða og framtíð streymisveitna á Íslandi

Frá einu svarthvítu túbusjónvarpi á heimili með sýningar tvo daga vikunnar yfir í óteljandi valmöguleika á tækjum og úrvali af sjónvarpsefni, á hverjum einasta degi, allan tíma sólahringsins.  

Á hvað eigum við að horfa í kvöld ?  Hver kannast ekki við það að vera sestur uppí sófa og týnast svo í endalausu úrvali sjónvarpsþátta og kvikmynda? Ofan á allt úrvalið bætist svo við flækjustigið að finna efnið hjá mismunandi streymisveitum og öllum öppunum þeirra. Kvöldið líður og poppið klárast þegar maður hefur loksins tekið ákvörðun um hvað skal horfa á.

Sjónvarpsáhorf hefur þróast hratt frá algjöru línulegu áhorfi yfir í gagnvirkt hlaðborð þar sem úrval efnis hefur aldrei verið meira og fjölbreyttara. Við erum hætt að stilla myndbandstækið okkar á upptöku, við skiptum ekki lengur yfir á plúsinn þar sem línulegri dagskrá var seinkað um klukkustund heldur förum bara á tímaflakkið eða í einhverja af þeim fjölmörgum efnisveitum sem eru í boði í dag og horfum á það sem okkur langar, þegar okkur langar.

Það eru ekki nema rétt tæp 10 ár síðan Netflix fór að verða efnisveita heimila og við notendur breyttum hegðunarmynstri okkar úr því að bíða eftir næsta þætti frá viku til viku yfir í það að stýra því algjörlega sjálf hvenær við horfum. Þar af leiðandi höfum við útrýmt þeirri spennu að bíða eftir næsta þætti og hámhorfum í staðinn á heilu seríurnar langt fram á nótt. Í kjölfar þessara breytinga minnkaði ólöglegt niðurhal umtalsvert og fljótlega fylgdi  íslenski markaðurinn eftir. Árið 2014 opnaði Síminn fyrstu íslensku streymisveituna, Skjár þættir sem nú heitir Sjónvarp Símans Premium.  Þar hefur íslensk framleiðsla verið mikilvægur þáttur í því að halda í við erlendu efnisveiturnar og aðrar innlendar veitur, samkeppnin er mikil en íslenskt efni er mikilvægt aðgreiningartól þar sem íslensk heimili elska einfaldlega vandað íslenskt efni.

Heimur efnisveitna er á ógnarhraða og samkeppnin hefur aukist til muna síðustu ár nú þegar framleiðendur sjónvarpsefnis hafa sjálf ákveðið að vera með sínar eigin efnisveitur. Stóru risarnir, Disney, HBO og  Paramount, hafa nú flestir dregið efni sitt út úr samningum við þriðja aðila og keppast nú við að smala efni sínu saman og fá notendur til að velja sína efnisveitu.  Á sama tíma hafa þeir flækt líf okkar áhorfenda, og aftur færist vöxtur í ólöglegt niðurhal. Nú þegar við þurfum enn fleiri áskriftir að enn fleiri streymisveitum er raunveruleiki sjónvarpsefnis komin í sama far og hann var fyrir margt löngu síðan í Bandaríkjunum þegar kapalfyrirtækin réðu lögum og lofum. Neytendur þurfa því í auknum mæli að velja með veskinu en kannanir sýna að heimili eru almennt ekki með fleiri en þrjár virkar áskriftir í einu á heimilinu.  Og þannig færast áskriftir oft til á milli streymisveitna allt eftir því hvað áhorfandinn vill horfa á í það skiptið.

En er það best fyrir neytendur að efnið sé svo dreift? Eða væri betra að efnið væri aðgengilegt á færri veitum eins og við þekkjum t.d. með tónlistina á Spotify og Apple Music? Mögulega munu stóru tæknifyrirtækin leysa þetta með hugbúnaði, að Google TV og Apple TV viti hvaða áskriftir við höfum og geti þannig leitað og mælt með efni sem hentar okkur út frá þeim áskriftum sem til staðar eru. Og mögulega sýnt okkur efni sem okkur er ekki aðgengilegt en við gætum haft áhuga á og selt okkur áskrift með einum smelli.

Vísir að slíkri lausn er sannarlega til staðar, Google virðast hafa komist lengra en Apple á þessum nótum en þetta fyrirkomulag treystir að fullu á að allir vilji spila með. Netflix sem dæmi er fyrir utan lausn Apple að samþætta streymisveitur í eitt viðmót enda Apple með sína eigin efnisveitu og þar með beinn samkeppnisaðili Netflix en á sama tíma er Netflix innvinklað í Google TV með talsvert betri hætti enda Google ekki eigandi streymisveitu sem framleiðir efni í samkeppni við Netflix.

En stóru streymisveiturnar geta lítið kvartað. Disney náði t.d. markmiðum sínum um að ná 90 milljón áskrifendum á aðeins 14 mánuðum, þremur árum á undan áætlun, Netflix sem dæmi voru níu ár að ná slíkum fjölda. Sem sýnir enn og aftur að gott afþreyingarefni skilar alltaf sínu. Netflix hóf sína vegferð með því að bjóða upp á eldra efni, sem var margt aðgengilegt á öðrum veitum en hóf síðar að framleiða eigin efni með frábærum árangri.

Disney aftur á móti átti fullar gullkistur af fjölbreyttu efni fyrir alla aldurshópa og mikið af því efni hafði ekki verið í boði annars staðar í einhvern tíma. Með því að galopna efnisúrval sitt og framleiða efni úr heimi Star Wars og Marvel sem bæði eru í eigu Disney var leiðin frekar greið.

Apple hefur svo verið í annarri vegferð, að kaupa ekki eldra efni heldur aðeins búa til nýtt efni sniðið að þeirra þörfum. Þau hafa svo gefið fríáskriftir að Apple+ streymisveitunni sinni með seldum Apple tækjum og lítið hugsað um áskrifendafjölda og meðaltekjur af hverjum viðskiptavini enda fyrirtækið svo vel sett í sinni kjarnastarfsemi, að selja tölvur og snjalltæki að tap á streymisveitunni þeirra skiptir þau litlu sem engu.

Á „litla“ Íslandi er aðgengi að streymisveitum annað en víða annarsstaðar. Markaðurinn hér er örsmár í stóra samhengi hlutanna og erlendum stórfyrirtækjum liggur lítið á að opna á aðgengi að sínum streymisveitum hér. Oft er arðbærra fyrir þau að selja efnið sitt til íslenskra efnisveitna frekar en að treysta á áskriftartekjur frá nokkrum þúsundum heimila á Íslandi og þurfa sjálf að standa undir markaðskostnaði. Sem útskýrir að hluta verðbil íslenskra efnisveitna við þær erlendu, stærðarhagvæmnin er önnur og samningsstaða innlendra efnisveitna er lítil sem engin við erlend stórfyrirtæki.

Hvernig heimur streymisveitna þróast næstu ár verður erfitt að segja til um. Við viljum öll styðja við íslenska framleiðslu, íslenska tungu og að börnin okkar alist upp við talsett barnaefni. Það er skylda íslenskra efnisveitna skv. lögum að texta efni, lög sem ná sem dæmi ekki yfir erlendar streymisveitur. Það er því mikilvægt að alltaf verði íslenskar efnisveitur í boði, með fjölbreyttu íslensku efni sem endurspeglar tíðarandann í það skiptið, skemmtir og fræðir börnin okkar og gefur okkur tækifæri til að hlæja uppi í sófa eftir dagsins önn.

En allt fer í hringi, þannig hafa Netflix verið í prófunum í Frakklandi á línulegri sjónvarpsstöð sem sýnir efni Netflix. Kannski endum við í raunveruleika þar sem ekkert sjónvarp er í boði á fimmtudögum, og að við bíðum í hverri viku eftir nýjasta þættinum af því sem við elskum að horfa á í það skiptið. En kannski ekki.

Höfundur: Bryndís Þóra Þórðardóttir, vörustjóri Sjónvarp Símans

Skoðað: 1010 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála