Skip to main content
6. janúar 2022

Samskiptamiðlar, upplýsingalæsi og lýðræði

sara 2019 mpm myndHugtakið upplýsingalæsi hefur verið mér sérlega hugleikið síðan í mars á þessu ári þegar Fjölmiðlanefnd, skipuð af menntamálaráðherra, auglýsti lausa stöðu verkefnisstjóra til að vinna og miðla stefnu um upplýsingalæsi fyrir landið allt. Óskað var eftir háskólaprófi og einhver þekking á stefnumótun og upplýsingalæsi talinn kostur. Mér svelgdist á við lesturinn enda hef ég starfað í upplýsingalæsisbransanum frá útskrift í upplýsingafræði árið 2008 og stýri nú öðru háskólabókasafninu á mínum ferli þar sem starfsemin hverfist öll um þetta hugtak, upplýsingalæsi. Upplýsingalæsi er samofið hugmyndinni um gagnrýna hugsun og hvílir á kröfu um rekjanleika og áreiðanleika upplýsinga sem má svo tengja hugmyndinni um lýðræði. Lýðræðið þolir enga leynd.

Árið 1996 birtist í þessu tímariti, Tölvumál , fyrsta greinin á íslensku sem fjallaði um uppýsingalæsi, mikilvægi gagnrýnnar hugsunar og samhengi hugtaksins við menntun. Aðalnámsskrár grunn- og framhaldsskóla hafa síðan þetta var fjallað um mikilvægi upplýsingalæsis og sett það á dagskrá menntunnar barna. Háskólabókasöfn hérlendis sem erlendis hafa lengi kennt upplýsingalæsi en hætturnar eru margar og oft rándýrar sem þarf að varast í rannsóknarvinnu og birtingu fræða- og vísindagreina. Upplýsingalandslagið, eins og lýðræðið, leynir nefnilega stundum á sér þrátt fyrir og kannski vegna þeirra kerfa og tækni sem við notum.

Tæknin bakvið tjöldin
Árið 1996 voru engir snjallsímar á almennum markaði (1999) og Facebook (2004), Twitter (2006) og Instagram (2010) voru eins órafjarri okkur og hugast gat. Sú upplýsingaofgnótt sem við kvörtuðum yfir í þá daga var ekkert í líkingu við það sem koma skyldi með Youtube (2005), Netflix (2007) eða TikTok (2016).

Í dag sendum við ógrynni upplýsinga á milli okkar daglega –bara með símanum. Áminningar í öppum, rafræn hnipp og auðkenningar eru orðin eins hversdagsleg og ristað brauð fyrir flest okkar. Til að halda okkur félagslega virkum er nefnilega undirliggjandi en áberandi samfélagslega krafa um að kunna að fara með upplýsingar. Ef við höfum ekki aðgengi að upplýsingum og kunnum ekki að fara með þær getum við nefnilega orðið undir í samfélaginu.

En ofgnótt upplýsinganna er ekkert að minnka –nema síður sé. Internetið, hugbúnaður og samfélagsmiðlar hafa tekið sér meira pláss í lífi okkar með hverju árinu og eflaust lokum við mörg öðru auguna og smellum bara á [Samþykkja skilmála] án þess að hugsa okkur tvisar um. Hver hefur líka tíma til að lesa skilmála í öllu þessu upplýsingaflóði? En við ættum að vita betur. Árið sem vakti okkur öll af værum internetsvefni var árið 2016. Það var í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum sem við sáum bakvið tjöldin og áttuðum okkur á þeim upplýsingaóskapnaði sem hafði afl til að stjórna lífi okkar án þess að við hefðum einu sinni hugmynd um það. Við höfum ekki verið söm síðan.

Vantraust á upplýsingar hefur síðan farið vaxandi og er kannski í samræmi við tæknilegar framfarir þeirra sem nýta sér þær til að svindla á öðrum en hvötin til að svindla á öðrum hlýtur að vera eins gömul og mannfólkið sjálft. En það sem áður taldist einföld afþreying eða saklaus samskipti yfir síma hefur síðan 2016 knúið okkur í meira mæli til að horfast í augu við hvernig við búum upplýsingar til og hver okkar hafa hagsmuni af að eiga við þær í annarlegum tilgangi. Afleiðingar forsetakosninganna voru enda aðför að sjálfri hugmyndinni um lýðræði.

En er lýðræðið fyrir alla?
Eðli málsins samkvæmt hafa upplýsingar óumflýjanlega verið hluti þeirra valdakerfa sem fólk hefur búið við vítt og breitt um heiminn. Samkvæmt þrálátri hefð hafa fjársterkir og valdamiklir karlar iðulega haldið um stjórnartauma samfélaga og því stjórnað bæði upplýsingagerðinni og upplýsingaflæðinu – oftar en ekki sér í hag.
Gott dæmi um slíkt er Grikkland til forna, gjarnan kallað vagga lýðræðisins. Fyrir um fimm þúsund árum ákváðu einmitt fjárhagslega sjálfstæðir karlar þar að veita sjálfum sér kosningarétt til svokallaðs fulltrúalýðræðis. Konur og aðrir sem ekki var hægt að skilgreina sem fjárhagslega sjálfstæða karla fengu ekki kosningarétt.
Konur hafa þurft að bíða lengi eftir sama rétti en þær fengu fyrst kosningarétt á 20. öldinni, konur í Lichtenstein fengu réttinn t.d. árið 1984 og konur í Saudi Arabíu árið 2015.

Skert aðgengi að upplýsingum má sjá bæði í kosningakerfum og grunnhugmyndum manna um lýðræði en einnig í því hvernig konur og aðrar manneskjur sem skilgreina sig utan tvíkynjakerfisins hafa verið félagslega, lagalega og efnahagslega undirskipuð af karllægum kerfum þvert á öll samfélög, tegundir stjórnarhátta og trúarbrögð. Að hafa ekki kosningarétt og vita að aðrir stjórna lífi þínu án þess að þú getir haft áhrif á það er merki um að upplýsingagerðin og -flæðið er ekki lýðræðislegt og því síður sanngjarnt.

Karllæg kerfi og skortur á lýðræði
Saga stöðugleika hinna karllægra gilda er orðin allt of löng og því kannski ekkert skrýtið að risavaxnir miðlar í eigu valdamikilla karla sjái sér hag í að halda áfram að eiga við upplýsingagerðina og upplýsingaflæðið á rafrænum miðlum – rétt eins og þeir hafa áður gert með allskyns miðlum og góðum árangri.

Í dag er það nefnilega svo, að karlar halda enn þéttingsfast um upplýsingagerðina og upplýsingaflæðið. Jafnvel þótt við sjáum það ekkert alltaf svo vel.
Valdið sem er erfiðara að sjá og gagnrýna umlykur líf okkar daglega á samskiptamiðlum þar sem fordómar fylgja iðulega með í stafrænni þróun og sjálfvirknivæðingu sem ætlað er að gera líf okkar skemmtilegra, fyrirhafnarminna og þægilegra. En að baki þessari sjálfvirknivæðingu stafrænnar þróunar liggja hættur sem stærðfræðingurinn og forritarinn Cathy O‘Neil afhjúpar í metsölubókinni Weapons of Math Destruction (2016) þar sem hún segir frá eigin rannsóknum og annarra og varar jafnframt við því hvernig upplýsingar geta afbakast þegar karlar hafa skipunarvald yfir þeim.

Karlar eru í meirihluta forritara sem stýra verkefnum og hanna þá algoryþma sem við stólum á í stafrænu hversdagslífi okkar en bókin rekur ótal dæmi um hvernig karllægir fordómar og forréttindablinda karla ferðast með þeim algoryþmum sem þeir hanna inn í ólíklegustu hluta lífs okkar eins og starfsframmistöðumat og aðgengi að þjónustu.
Frægt er dæmið um Siri sem vísaði veginn möglunarlaust í næstu byssusjoppu í Bandaríkjunum en ef notandinn vildi finna heilsugæslustöð þar sem hægt var að fara í fóstureyðingu var slíka heilsugæslustöð hvergi að finna.

Upplýsingalæsi fyrir alla
Ef sjónarhorn fjárhagslega sjálfstæðra karla er það sem hefur skilgreint lýðræðið undanfarin árþúsund þá bíða okkar alvarlegar spurningar ef sjónarhorn karla sem skortir upplýsingalæsi verður látið ráða hönnun algoryþma sem hafa áhrif á daglegt líf hundruða milljóna.

Eins og lesa má í Tölvumálum frá 1996 og aðalnámskrám frá svipuðum tíma er ljóst að bókasöfn hafa löngum sinnt þeirri ábyrgð að kenna upplýsingalæsi þvert á helstu skólastig. Ef fjármagni væri veitt hlutfallslega í jafn miklu magni til þeirra eins og Fjölmiðlanefndar væru þau verkefni kannski meira áberandi þótt deila megi um hvort áberandi sé endilega meiri vísbending á gæði. Stefna um upplýsingalæsi á þó með réttu heima í meðförum upplýsingafræðinga sem starfa á bókasöfnum og þekkja efnið.
Notum bókasöfn, stafræn eða á staðnum, og lærum upplýsingalæsi.

Höfundur: Sara Stef. Hildardóttir Upplýsingafræðingur

Tilvísanir:
Kristín Björgvinsdóttir. (1996). Tölvuvædd upplýsingasöfnun á skólasöfnum. Tölvumál, 31(4). https://timarit.is/page/2363722?iabr=on#page/n29/mode/2up.

O'Neil, C. (2016). Weapons of Math Destruction: How Big Data Increases Inequality and Threatens Democracy. Crown Publishers.

Skoðað: 522 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála