Skip to main content
24. mars 2022

Forritunarkennsla til framtíðar

ÁlfhildurForritun er stór hluti af okkar daglega lífi. Hvort sem við erum að senda tölvupósta, taka ljósmynd á snjallsíma, borga með korti eða horfa á streymisveitur þá eru þetta allt athafnir sem krefjast forritunar á einhvern hátt. Talið er að störf framtíðarinnar komi til með að byggja í mun meira mæli á stafrænu læsi og forritunarþekkingu. Samkvæmt World Economic Forum munu allt að 90% evrópskra starfa næsta áratuginn krefjast stafrænnar færni sem næstum helmingur Evrópubúa á aldrinum 16-74 ára búa ekki yfir. Það er því mikilvægt að skólar séu samferða þessari þróun með markvissri forritunarkennslu fyrir nemendur.

Mynd 5Ávinningurinn af forritunarkennslu er mikill. Að þekkja og nota forritunarmál er ákveðið læsi á stafrænni öld. Með aukinni leikni í forritun færast nemendur frá því að vera neytendur tækninnar eða notaðir af henni, yfir í að vera notendur tækninnar og nýta sér hana til sköpunar.

Mynd 3Þegar unnið er með forritun þjálfast bæði rökhugsun og lausnarmiðuð hugsun með öðrum hætti heldur en t.d. með stærðfræði. Nemendur sjá afraksturinn á gagnvirkan hátt um leið og þeir forrita því eitthvað sýnilegt verður til, eitthvað á sér stað á skjánum. Nemendur þjálfast einnig í samvinnu og þolinmæði því það að leita lausna saman og sýna þrautseigju er nauðsynlegt í forritun. Með því að læra forritun geta nemendur gert hugsanir sínar að gagnvirkum raunveruleika og er eina hindrunin í þeirri sköpun eigið ímyndunarafl. Forritun kennir einnig góð vinnubrögð því hugsa þarf leiðina að takmarkinu í litlum skrefum, brjóta vandamálin í minni einingar og finna lausnir á hverri þraut með gagnrýnni hugsun og lausnarhugsun. Forritun góð leið til að læra af mistökum, því leiðir að markmiðinu geta verið margar og það er alls ekki sjálfgefið að allt heppnist í fyrstu tilraun. Þá þarf að greina mistökin, læra af þeim og gera betur. Öll þessi þjálfun gefur nemendum mikilvæga færni til framtíðar.

Mynd 1x

Þeir nemendur sem finna sig síður í bóklegum námsgreinum virðast oft ná góðum tökum á forritun. Þannig getur hún aukið almennan áhuga og sjálfstraust í námi hjá þeim nemendum. Markmiðið með forritunarkennslu er hins vegar ekki að allir verði forritarar, heldur að allir fái tækifæri til að kynnast forritun á sinni grunnskólagöngu og kanna hvort þeirra styrkleikar liggi þar. Í ljósi þess að forritun er stór hluti okkar daglega lífs er nauðsynlegt að nemendur kynnist forritun alveg eins og allir nemendur kynnast heimilisfræði, smíðum, textílmennt og fleiri greinum í grunnskóla. Með fjölbreytileika námsgreina er verið að þjálfa margþætta færni sem nýtist nemendum í þeirra framtíð.

Til þess að forritunarkennsla verði markviss í grunnskólum landsins þarf að gefa henni pláss í Aðalnámsskrá grunnskóla eins og víða hefur nú þegar verið gert í nágrannalöndum okkar. En þangað til er hægt er að samþætta forritun við önnur fög, hvort sem það er stærðfræði, tónlist eða tungumálakennsla og að auki gæti forritun verið áhugavert val í skapandi skilum á verkefnum. Mikil vakning er varðandi forritunarkennslu erlendis og er margt í boði sem hægt er að nýta sér í kennslu, bæði öpp og ýmis tækjabúnaður.Mynd 4

Mynd 2xÞað er sérlega ánægjulegt að sjá að þó nokkrir skólar hérlendis eru þegar farnir af stað með forritunarkennslu fyrir tilstilli áhugasamra kennara og ekki síður vegna styrkveitinga eins og Forritarar framtíðar hafa veitt til grunnskóla. Auka þarf við námsefni og kennsluefni á íslensku auk þess sem kennarar þurfa að fá þjálfun og öryggi til að kenna forritun. Sumir gætu talið það óraunhæft að hinn almenni kennari, sem ekki hefur bakgrunn eða menntun í forritun geti kennt hana í grunnskólum. En með þjálfun, aðgengi að góðu kennsluefni og réttu hugarfari geta allir kennarar kennt fyrstu skrefin í forritun. Það er einfaldlega vegna þess að kennarar eru almennt góðir í að tileinka sér nýja þekkingu og deila henni áfram.

Höfundur: Álfhildur Leifsdóttir, grunnskólakennari við Árskóla á Sauðárkróki

Skoðað: 410 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála