Skip to main content
11. maí 2023

Notkun Sýndarveruleika við kennslu í grunnskólum landsins

Kristbjörg Eggertsdóttir

Kristbjörg EggertsdóttirSýndarveruleiki er notaður víða í heiminum og má helst nefna Flugherma. Flughermar hafa verið notaðir við þjálfun flugmanna frá 7. Áratug 20. aldar. Í dag eru Icelandair með 3 slíka herma í Hafnarfirði og eru þeir af gerðinni Boeing 757-200 FFS, Boeing 767-300 ER FFS og 737-8 Max FFS (Ólafur Páll Jónsson, 2005). Þessir hermar líkja eftir Cockpit-i flugvélatýpunnar sem gerir þetta svo raunverulegt og flott kennslu umhverfi. Flugmenn Icelandair þurfa að fljúga í þessum hermum tvisvar sinnum á ári og fer fram úttekt í þessum hermum. Þessir hermar hjá félaginu eru í notkun nánast allan sólahringinn og koma flugmenn annarstaðar úr heiminum í þjálfun hingað. Í svona hermum er hægt að æfa erfið flug og erfiðar aðstæður sem flugmenn lenda vonandi aldrei í.

Sýndarveruleiki er ekki aðeins notaður í þjálfun flugmanna heldur hefur þessi tækni þróast og „er nú meðal annars notuð í tölvuleikjum til að gefa notandanum þá hugmynd að hann sé staddur í allt öðrum heimi en hann er í raun staddur í“ (Ólafur Páll Jónsson, 2005 ). Notkun þessarar tækni getur verið skemmtileg fyrir bæði börn og fullorðna og að nýta sýndarveruleikann við kennslu getur bæði verið skemmtilegt og aukið áhuga nemenda á námsefninu sjálfu.

Mig langar að tala um sýndarveruleika í kennslustofum hjá grunnskólabörnum. Sýndarveruleiki getur verið rosalega spennandi viðbót við námsefni skólanna og getur sýndarveruleiki gert námsefni sem er minna spennandi enn þá skemmtilegra fyrir börnin. Það getur oft verið hálf þurrt að horfa á glæru kynningar frá kennurum en með því að bæta við sýndarveruleikanum þá er hægt að sjá mun á því hvernig áhuginn á efninu jókst.

Það var gerð íhlutunarrannsókn til meta hvort sýndarveruleika miðað námsefni hafi áhrif á nám og viðhorf nemenda miðað við hefðbundið námsefni. Þessi rannsókn fór fram árið 2021 í samvinnu við Matís, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og sex grunnskóla í Reykjavík og Kópavogi. Það var sett saman nýtt kennsluefni með áherslu á heilsusamlegt mataræði, þetta verkefni gekk undir nafninu „Tómataverkefnið“. Skólum var skipt í 3 hópa, einn hópurinn fékk glærur með kennsluáætluninni, annar hópurinn fékk glærur og vídeó sem var sýnt uppi á skjá og sá þriðji fékk glærur og sýndarveruleikagleraugu. „Niðurstöður íhlutunarinnar benda til þess að notkun sýndarveruleika í kennslu gæti aukið áhuga á matvælum og stuðlað að breytingum á viðhorfi barna til hollara og heilbrigðara mataræðis“ (Þóra Valsdóttir, 2021). Það var mikil ánægja með kennsluefnið en voru kennarar sem notuðu sýndarveruleikagleraugun áhugasamastir.

Það væri hægt að nýta sýndarveruleikann á svo marga vegu í skólakerfinu og væru til dæmis „ferðir“ á tunglið ótrúlega skemmtilegar fyrir börn eða jafnvel að skoða fleiri plánetur og sýna börnum hversu langt er í raun og veru á milli þeirra með hjálp sýndarveruleikans. Ég man sjálf eftir því þegar grunnskóla kennari minn var að sýna okkur hversu stór heimurinn er og notaðist við blað og setti punkt á blaðið og sagði þetta vera vetrarbrautina okkar og að heimurinn sé endalaust stór og hann endaði ekki eins og blaðið, en þetta blað endaði þannig mér fannst það bara ekki passa. Ég var lengi að hugsa um blaðið og hvernig það endaði en ekki heimurinn og fannst það alltaf hálf skrítið. Með hjálp sýndarveruleikagleraugna væri hægt að veita börnum mun dýpri skilning á heiminum öllum og hversu magnaður hann er.

Sjórinn okkar er ógna stór og margt sem er ennþá óskoðað. Sjórinn er þess vegna frábær staður til þess að leyfa börnum að kanna með sýndarveruleika gleraugum. Börn fá að sjá öll þessu fallegu dýr sem þar eru og hvernig þau ferðast um hafið og allan fallega sjávargróðurinn sem leynist á hafsbotninum. Það er ótal margt fallegt neðansjávar og væri gaman að skoða það með svona tækni. Það er svo annað sem er hægt að nýta sem kennslu í sjónum en það er hvernig umgengni okkar manna hefur áhrif á sjóinn og hvernig allt þetta rusl eftir okkur safnast upp þar. Það væri hægt að sýna frá hvernig áhrif það gæti haft á dýrin og sjávargróðurinn.

Börn læra oft best í gegnum leik og með því að bæta við sýndarveruleika í námsefni grunnskólana gæti það haft jákvæð áhrif á skilning þeirra á námsefninu og gert það töluvert meira spennandi. Auðvitað eru notaðar allskonar aðferðir við kennslu, leikir, myndir, heimildarmyndir og farið í vettvangsferðir að skoða hina ýmsu staði þá gefur sýndarveruleikinn kennurum tækifæri á að sýna nemendum sínum staði sem annars væri ekki hægt að heimsækja. Skoða aðrar plánetur, sjóinn og jafnvel forna tíma. Hversu skemmtilegt væri það fyrir börnin að fá að skoða Ísland fyrir 200 árum til dæmis? Það væri gaman að sjá viðbrögð þeirra eftir að hafa „heimsótt“ gömul torfhús.

Höfundur: Kristbjörg Eggertsdóttir nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá:

Ólafur Páll Jónsson. (2005, 7. janúar). Hvað er sýndarveruleiki? Vísindavefurinn. Sótt af: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4703

Þóra Valsdóttir. (2021). Sýndarveruleiki í kennslu. Matís. Sótt af: https://matis.is/matis_projects/syndarveruleiki-i-kennslu/

Skoðað: 275 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála