Skip to main content
28. september 2023

Börn á samfélagsmiðlum

Sóldís Freyja Vignisdóttir

Sóldis Freyja VignisdóttirÞað er óneitanlega gífurleg aukning á skjánotkun barna. Því fylgir svo aukin notkun þeirra á samfélagsmiðlum. Að mörgu leyti verður það að teljast neikvætt. Börn leika sér minna úti, þau leika sér minna saman og skjáir eru allt í kring. Í kjölfarið er þörf á því að foreldrar og aðrir forráðamenn fylgist betur með skjánotkun barnanna sinna og kenni þeim að nýta þá sem gagnleg tæki á ábyrgan hátt.

Flestir samfélagsmiðlar eru með aldurstakmark og oftar en ekki er það 13 ára aldurinn. Þar á meðal eru samfélagsmiðlarnir Snapchat, Instagram, Facebook, TikTok og BeReal en aldurstakmarkið getur verið breytilegt eftir löndum. Þessar takmarkanir finnst mér nauðsynlegar til þess að sporna gegn því að samfélagsmiðlanotkun barna aukist enn frekar. En ætli það sé í raun og veru hægt að banna samfélagsmiðla fram að ákveðnum aldri? Snapchat er með reglur um aldurstakmark í samræmi við reglur COPPA (Children‘s Online Privacy Protection Act in the U.S.). Ef gefinn er upp fæðingardagur sem er undir 13 ára, þá má viðkomandi ekki stofna reikning (Connect Safely, 2017). En þetta býður upp á möguleikann að ljúga til um aldur.

Andleg vandamál hafa skekið þjóðina í auknum mæli. Stór hluti þessa vandamáls er sjálfsmynd fólks. Samfélagsmiðlanotkun ýtir undir samanburð sem er mikill skemmdarvargur sjálfsmyndar. Þetta er viðvarandi vandamál sem erfitt er að eiga við. Ég held að allir geti verið sammála að við viljum hlífa krökkunum okkar við þessu vandamáli eins lengi og við mögulega getum. Með því að koma í veg fyrir samfélagsmiðlanotkun á yngri árum getum við spornað gegn brotinni sjálfsmynd barnanna. Ég tel að hópþrýstingur geti jafnvel verið ein orsök mikillar samfélagsmiðlanotkunar. Ef allir hinir eru á samfélagsmiðlum þá getur öðru barni sem ekki er á samfélagsmiðlum þótt það leiðinlegt og fundist það skilið út undan. Þrátt fyrir ofangeind neikvæð áhrif samfélagsmiðla á litlar sálir reynist sífellt erfiðara fyrir foreldra að koma í veg fyrir annars vegar almenna skjánotkun og hins vegar samfélagsmiðlanotkun. Börn sækjast óhóflega mikið í tölvur og skjái, það er því miður orðið hluti af þróuninni.

Ég tel líklegast að samfélagsmiðlakeðjan hefjist hjá krökkum sem eiga eldri systkini og hún dreifist svo um árganginn. Þegar einn krakki er kominn með aðgang þá er auðveldara að leyfa hinum að fá sama aðgang. Það getur þó verið gegn uppeldisaðferðum einhverra foreldra. Þessi keðja er, vægast sagt, hættuleg þar sem börn eru mismunandi eins og þau eru mörg. Foreldrar þurfa auðvitað að taka ákvörðun um að leyfa börnunum sínum að nota samfélagsmiðla út frá þroska þeirra og ábyrgð. Þó svo að einhver börn séu ábyrg og þroskuð, og þar með mögulega tilbúnari til þess að nota samfélagsmiðla, þýðir það ekki að öll börn séu tilbúin. Það er svo auðvitað spurning hvað það hefur eitthvað upp á sig að svona ungir krakkar hafi að gera með samfélagsmiðla. Er ekki feyki nóg fyrir þau að hafa síma og geta þannig hringt og sent skilaboð?

Það er hagur barnanna að samfélagsmiðlanotkun sé seinkað um eins langan tíma og mögulegt er. Þegar börnin hefja notkun sína þarf að kenna barninu að nota samfélagsmiðlana rétt. Í því felst tvíþætt þjálfun. Í fyrsta lagi þarf að þjálfa barnið í gagnrýnni hugsun og svokölluðu samfélagslæsi. Það er þó ákveðinn þroski sem þarf að vera til staðar svo hægt sé að þjálfa það í barni. Að auki þarf að kenna barninu að samskiptavenjur séu í lagi, kurteisi og annað þvíumlíkt sem skiptir máli í samskiptum. Þetta er gríðarstórt verkefni og mikilvægt þar sem það getur verið enn þá auðveldara að særa einhvern á netinu en í persónu (Sterkari út í lífið, E.d.).

Sterkari út í lífið er frábær vefsíða sem hefur að geyma góð ráð fyrir foreldra og aðra forráðamenn barna. Ég hvet alla til að kynna sér vefinn. Þar er meðal annars komið inn á samfélagsmiðlanotkun barna. Þar kemur fram að það sé best að hefja samfélagsmiðlaferil barna á að þau fái fyrst um sinn síma, þá helst takkasíma, því best er að sleppa samskiptamiðlum og forritum til að byrja með. Með því að barnið fái síma sem einungis er hægt að hringja og senda skilaboð úr er auðveldara að þjálfa góða samskiptasiði. Hvernig hefst símtal, til að mynda? Hvað má segja og hvað má ekki? Hvað er kurteisi og hvernig særir maður aðila? Hvað má senda skilaboð eða hringja oft og klukkan hvað? Svo mætti lengi telja. Svörin við þessum spurningum þarf að þjálfa, því þau eru ekki eðlislæg til að byrja með. Frábær punktur sem einnig er komið inn á er að því betur sem fylgst er með samskiptum á yngri árunum, því minna þarf að spá í þeim á eldri árunum. Þá er búið að þróa með börnunum góða samskiptahæfni sem er betur hægt að treysta á en ella (Sterkari út í lífið, E.d.).

Höfundur: Sóldís Freyja Vignisdóttir, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir
Connect Safely. (2017). A Parent‘s Guide to Snapchat. https://www.connectsafely.org/wp-content/uploads/A-Parent%E2%80%99s-Guide-to-Snapchat.pdf
Sterkari út í lífið. (E.D.). Á ég að stoppa notkun samfélagsmiðla? https://sterkariutilifid.is/fjolskyldan/a-eg-ad-stoppa-notkun-samfelagsmidla/

Skoðað: 297 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála