Skip to main content
05. október 2023

Er „gervigreindarlist“ ritstuldur?

Helgi Hrafn Axelsson

Helgi Hrafn AxelssonGervigreind er kraftmikið tól sem hægt er að nota til að framleiða myndir, tónlist, texta og ýmist annað. Hægt er að biðja gervigreindartól á borð við Midjourney að búa til mynd í stíl ákveðins listamanns og út kemur mynd sem auðveldlega hægt væri að trúa að sé ekta listaverk. Það má auðvitað deila um hvað er og er ekki „ekta“ list, en listamenn eru margir hverjir ósáttir við að gervigreindartól séu þjálfuð á þeirra verkum og hafa sumir þeirra höfðað mál gegn framleiðendum tólanna.

Til er fjöldinn allur af gervigreindartólum, og mörg þeirra ókeypis til notkunar. Einföld Google-leit gefur upp lista yfir hundruðir tóla sem hægt er að nota á margskonar vegu. Til dæmis eru til tól sem skrifa heilu ritgerðirnar, fara yfir ritgerðir og leiðrétta þær, og tól sem skapa stórglæsileg myndlistaverk. Einnig eru til spjalltól sem hægt er að tala við ef maður er einmana og tól sem framleiða tónlist, jafnvel heilu hljómplöturnar. Hægt er að nota gervigreindartól til að herma eftir rödd rapparans Kanye West, en sungið lagið „Glaðasti Hundur í Heimi“ á íslensku, lag sem að hann þekkir líklegast ekki, á tungumáli sem hann talar ekki.

Lagið Heart On My Sleeve eftir vinsælu tónlistarmennina Drake og The Weeknd varð strax vinsælt þegar það var gefið út á streymisveitum í apríl. Sérstaklega varð það vinsælt á TikTok og fékk milljónir spilanna en var þar einn stór galli við lagið. Hvorki Drake né The Weeknd komu nálægt gerð lagsins. Lagið var búið til með því að láta gervigreindartól sem getur hermt eftir rödd og söngstíl söngvara herma eftir Drake og The Weeknd. Þannig skapaði „Ghostwriter977“ lag sem auðveldlega hefði verið hægt að trúa að Drake og The Weeknd hefðu samið og sungið sjálfir. Universal Music Group, umboðsfyrirtæki tónlistarmannanna var ekki lengi að láta taka lagið niður af streymisveitum og sögðu lagið brjóta höfundarréttarlög.

Höfundarréttur og gervigreind eiga skrýtið samband. Ef að einhver bæði gervigreind að semja ljóð í stíl Halldórs Laxness, hver væri þá raunverulegi höfundurinn? Gervigreindin? Notandinn? Er Halldór höfundurinn, þó að ljóðið hafi verið skrifað 25 árum eftir lát hans? Hægt er að færa rök fyrir því að gervigreindin sé höfundurinn. Hún hefur lært af Halldóri með því að lesa ljóðin hans og svo samið sitt eigið ljóð, innblásið af hans verkum. Flestir listamenn fá innblástur frá öðrum listamönnum, af hverju ekki gervilistamaðurinn? En kannski er notandinn höfundurinn. Gervigreindin hefði aldrei samið ljóðið án þess að notandinn hefði beðið hana um það en hvað ef notandinn er önnur gervigreind? Eða er Halldór Laxness raunverulegi höfundurinn? Það var jú hann sem skrifaði öll ljóðin sem nýja ljóðið er unnið úr. Það er endalaust hægt að rökræða þetta og verða þeir sem semja lögin víst að ákveða hvernig þetta á að vera en maður veltir kannski fyrir sér: Hvað ætli Halldóri þætti um þetta, væri hann á lífi?

Vissulega er gervigreind líka þjálfuð á verkum eftir listamenn sem eru á lífi og eru þeir margir ekki sáttir við það. Margir myndlistamenn taka þátt í hópmálsókn gegn Midjourney, Stable Diffusion og DreamUp, gervigreindartóla sem framleiða myndir. Listamennirnir telja gervigreindartólin hafa verið þjálfuð á þeirra verkum án leyfis og rukkað fyrir að framleiða myndir, án þess að borga upprunalegu myndlistamönnunum. Tólin hafa einnig dregið úr virði verka listamannana. Af hverju að borga listamanni fyrir listaverk, þegar þú getur fengið annað verk, innblásið af stíl listamannsins fyrir mikið lægra verð eða jafnvel ókeypis frá gervigreindartóli?

Dýraverndunarsamtökin PETA höfðuðu málsókn gegn ljósmyndaranum David Slater vegna ljósmyndar sem apinn Naruto tók af sjálfum sér. Samtökin héldu því fram að Naruto ætti höfundarréttinn að ljósmyndinni, en ekki Slater, sem rétti apanum myndavélina. Hins vegar var það seinna dæmt að hvorki Slater né Naruto ættu höfundarréttinn. Ef að ljósmyndarinn væri gervigreind en ekki api mætti velta fyrir sér hvort það sama mætti segja, að enginn ætti í raun höfundarréttinn.

Sköpun með gervigreindartólum er tvíeggjað sverð. Möguleikarnir eru endalausir og getur gervigreindin skapað myndir, tónlist og texta margfalt hraðar en manneskja getur málað, samið eða skrifað. En á sama tíma þurfa gervigreindartólin eins og þau eru til núna alltaf að notast við verk annara til að skapa sín verk og verður þá kannski ekki til nein sönn sköpun. Spennandi er að sjá hvernig gervigreindartól munu þróast á næstu árum og heimspekilegu spurningarnar sem myndast í kring um þau. Ef gervigreind getur sannarlega hugsað sjálfstætt og jafnvel fundið tilfinningar, mun listin sem hún skapar vera sönn list? Verður hún betri list? Hvar drögum við mörkin á hvenær gervigreind raunverulega hugsar?

Höfundur: Helgi Hrafn Axelsson, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir
Chayka, K. (10. febrúar, 2023). Is A.I. Art stealing from artists?. The New Yorker. https://www.newyorker.com/culture/infinite-scroll/is-ai-art-stealing-from-artists
Coscarelli, J. (19. apríl 2023). An A.I. hit of fake “drake” and “the Weeknd” rattles the Music World. The New York Times. https://www.nytimes.com/2023/04/19/arts/music/ai-drake-the-weeknd-fake.html
Kashdaran, A. (27. mars, 2023). Parallels between a macaque (monkey) and Generative AI systems!. LinkedIn. https://www.linkedin.com/pulse/parallels-between-macaque-monkey-generative-ai-amir-kashdaran

 

Skoðað: 552 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála