Skip to main content
10. nóvember 2023

Vörustjóri - er það ekki bara verkefnastjóri?

Ásta Gísladóttir

Brynjar Arturo Soto ErwinssonÁ hádegisfundi Ský þann 8. október 2023 var haldinn fyrsti viðburður faghóps Ský um stafræna vörustýringu. Fjórir fyrirlesara stigu í stokk og salurinn var þéttsetinn. Fundarstjóri var Snædís Zanoria Kjartansdóttir frá Össuri.

 Fyrstur á svið var Ólafur Óskar Egilsson frá Stafrænni Reykjavík með fyrirlesturinn „Stafræn vörustýring - hvað í fjáranum er það?“ þar sem hann fór í sauma á hugtakinu og hvað felst í því – og þá sérstaklega hvernig hægt sé að ná sameiginlegum skilning á hugtakinu, hlutverkinu og ábyrgðarsviðinu. Hann stakk upp á nafninu vörustýri sem íslensku á enska heitinu product manager sem er gagnlegt því bókstaflega þýðingin, vörustjóri, hefur oft verið notuð yfir einhvern sem stjórnar lager.  Hlutverk vörustýris er að fylgja vörunni út líftíma hennar – og taka upplýstar ákvarðanir varðandi framþróun. Hann lýsti  vörustýrinu sem bílstjóra með stútfullan bíl af aftursætisbílstjórum. Vörustýring snýst um að hafa augað á sjóndeildarhringnum, með fætur á jörðu, halda jafn vægi í gengum alla ákvarðanatöku. Öll nálgun í vörudrifi og notandinn er alltaf í forgangi og árangur mældur út frá ávinningi fyrir notendur. Vörustýri eru leiðtogar, lausnmiðuð, auðveldarar og málamiðlarar. Gott verkstýri þarf að hafa gott auga fyrir hönnun, góða samskiptahæfni og vera fært um að hugsa strategískt.

Næstur kom Þórir Ólafsson frá Icelandair með fyrirlestur sem bar titilinn „Hér er þróunarteymi, um þróunarteymi, frá þróunarteymi, til vöruteymis“. Hann tíundaði hvernig Icelandair ákvað, árið 2022, að taka markviss skref í átt að „Vörunálgun“ (e. „Product Mindset“), m.t.t. þróunar stafrænna lausna. Hann  fór yfir tímalínu fyrirtækisins fram að þeim punkti sem samanstóð af nokkrum köflum,  þ.e. útvistunarkaflanum sem stóð til 2016, tilraunastofukaflanum 2016-2019, miðstýringarkaflanum 2019-2022 og svo vörustýringarkaflinn, hófst vorið 2022 eins áður sagðir. Það sem skipti hvað mestu í þessum kafla var vinnustofa á vegum Jeff Patton sem Icelandair veitti starfsmönnum sínum aðgang að. Í kjölfarið var stafræn vörustýring sett sem stefna og eftir fleiri vinnustofur og ýmsa ráðgjafa voru tvö fyrstu vörustýringarteymin sett á laggirnar. Árið 2023 hafa svo bæst við þrjú önnur teymi – það síðasta var í startholunum í kringum þennan fund. Líkt og Ólafur fór hann yfir skilgreiningar á vörustýringu og því ferli sem fór í gang en klykkti svo út með nokkrum lærdómspunktum sem hann hafði dregið af verkefninu, m.a. mikilvægi þess að tryggja grunnskilning hjá sem flestum hagsmunaaðilum, að virk ráðgjöf hraðar ferlinu mikið og bætir tólakistuna – t.d. að fara á flugvelli og gera notendaprófanir á ferðamönnum, sterkt þríeyki er grunnur að heilbrigðu vöruteymi og að gróskuhugarfar (e. „Growth Mindset“) er jafn mikilvægt fyrir stafræna vörustýringu og fyrir innleiðingu hennar.

Næst kom Anna Maria Hedman frá Origo sem fjallaði um „Snjallari leið í vörustjórnun“. Þ.e.  hvert er hlutverk vörustjórans þegar lífsferill vörunnar hefur náð hnignunar punkti? Hún tók dæmi um vörur sem höfðu einu sinni verið markaðsleiðandi, Maggi, Elizabeth Arden og Lotus Notes, og með meirihluta markaðshlutfall en tókst að glutra því niður og eru í dag að mestu horfin. Anna Maria sagaði mikilvægt vera ekki læst í upplýsingartækni  heldur skoða hvað aðrir eru að gera. Hún sagði svo frá vöru sem Origo hafði eignast en fáir voru að nota. Þau fór í greiningarvinnu og töluðu við þá sem voru ekki að nota lausnina. Þau spurðu sig hvað væri hægt að gera til koma til móts við þessa aðila. Þau fengu svo hugljómun þegar þau stigu út úr boxinu og skoðuð hvernig hægt væri að aðlaga lausnina að notandanum en ekki öfugt. Hlutverk vörustjórans er því að vera stanslaust á tánum og fylgjast með umverfinu Vera stöðugt að hugsa hvernig hægt er að gera betur í dag heldur en í gær. Í kjölfarið nefndi hún  ýmsar leiðir sem farið er í slíkri vinnu, t.d. vinnustofur, notendaprófanir og frumgerðir.  

Síðastur á svið var Þröstur Sigurðsson frá Stafrænni Reykjavík, með fyrirlesturinn „Á allra vörum“ sem gekk út á hvernig maður kynnir til leiks ný hugtök og hugmyndafræði í opinberri stjórnsýslu – og þá sérstaklega hugmyndafræði vöruþróunar sem varð allt í einu heitasti bitinn í borginni. Hann fór yfir hversu mikið hefur breyst á síðustu 20 árum og hversu stór krafa er gerð til hins opinbera að vera aðgengileg í hvívetna og bjóða alla þjónustu í gegnum snjalltæki.  Slíkar kröfur fæða af sér ný hugtök og ný hlutverk eins og vörustjóri, vörueigandi, verkefnastjóri, framleiðandi, þjónustuhönnuður, stafrænn leiðtogi, teymsstjóri og teymisþjálfi. En hvernig byrjar maður? Yfirstjórn kemur sér saman um hugmyndafræði og væntingar. Þessi yfirstjórn ræður inn aðila til að keyra áfram hugmyndafræði vöruþróunar. Því næst þarf að skilgreina hvað eru vörur og hvar á að byrja. Fólk sem hefur reynslu af vörustýringu er ráðið inn og það setur upp vörustýringarferla á bæði heimaþróaðri vörur og aðkeyptri. Teymi til að keyra upp þroska vörustýringa eru sett saman, vörustjóri setur saman þróunarpakka og leggur áherslu á að hlúa að mannauðinum.

Eftir að fyrirlestrunum lauk svöruðu fyrirlesararnir nokkrum spurningum úr sal svo var fundi slitið.

-> Sjá nánar - Upplýsingar og glærur

Skoðað: 447 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála