Skip to main content
23. nóvember 2023

Er framtíðin okkar?

Ásrún Matthíasdóttir

Ásrún MatthíasdóttirÞað er margt sem tæknin getur haft áhrif á bæði til góðs og ills, margir fletir sem hægt er að velta upp. Nýsköpun er nauðsynleg fyrir samfélags- og efnahagslega þróun en við þurfum líka að huga að mannlega þættinum og spyrja Hvaða áhrif mun tæknin hafa á líf einstaklinganna sem nota og njóta hennar? Ég hef gaman af að lesa framtíðarspár og hér ætla ég að ræða nokkur atriði sem eru mikið í umræðunni í dag.

Sú mikla aukning sem orðið hefur á netnotkun í heiminum mun hafa áhrif á starfsfólk sem hefur takmarkaða reynslu af netnotkun og ekki næga þekkingu á (samfélags-)miðlum. Sjálfvirkni og tækninotkun hefur breiðst út um allt, s.s. í verslun, flutningum, fjármálaþjónustu og margskonar mælingum. Gert er ráð fyrir að fljótlega muni Web3 tæknin, þriðju útgáfunni af World Wide Web, hafa bylt verslun í heiminum líkt að Web2 breytti aðgangi að upplýsingum . Við þurfum að tryggja að allir geti tekið þátt með því að mennta bæði unga og aldna í notkun vefmiðlun og efla stafrænt læsi.

2960 Picture1

En það eru ekki bara störf og starfsfólk sem verður fyrir áhrifum af tæknibreytingum. Vinnustaðir hafa breyst mikið og COVID átti mikinn þátt í því að flýta innleiðingu tækninnar þar. Skrifstofur hafa litið svipað út í áratugi, stundum hafa einkaskrifstofur verið vinsælar, stundum opin rými, en COVID umbylti þessu öllu, flestir urðu að fara heim og útbúa vinnuaðstöðu þar og jafnvel læra á nýjan hugbúnað. Sumum líkar vel að vera áfram að vinna heima á meðan aðrir eru glaðir með að komast aftur á vinnustaðinn. Fjarvinna hefur aukist, en um leið þarf að huga vel að líðan þeirra sem kjósa eða þurfa að vinna ein heima með, t.d. samskipti, þreytu og streitu í huga. Er hún meiri eða minni hjá þeim sem eru í fjarvinnu? Af spjalli mínu við fólk innan- og utanlands fæ ég á tilfinninguna að Íslendingar vilji frekar fara aftur á vinnustað eftir COVID en aðrir, hef engar rannsóknir séð sem styðja þessa tilfinningu en það væri gaman að skoða það nánar (ef það er ekki búið).

Þetta leiðir hugann að húsnæði og mengun, einhverstaðar las ég að við eyðum um 90% af lífinu innandyra og 50% af losun koltvíoxíðs stafi af húsnæði, ekki bara að byggja það heldur líftíma þess og síðan við niðurrif. Það virðist því vera mikilvægt að draga úr losun koltvíoxíðs í byggingariðnaði, s.s. í hönnun, aðferðum og efnum sem notuðuð eru. Það er ekki nóg að gera byggingar snjallari og sjálfvirkari með allskonar skynjurum og öppum það þarf líka að hugsa um heilsu jarðarinnar. Ef til vill getur gervigreindin komið þar til hjálpar með betri lausnir t.d. við að endurnýta byggingarefni.

Framleiðendur matvæla og  drykkja geta nú þegar notað tölvustýrðar einingar, ekki bara til að fylgjast með framleiðslunni og grípa inn í ef þarf, heldur til að vinna verkin. Og ekki má gleyma úrganginum, það eru stöðugar framfarir, ekki bara í endurvinnslu heldur einnig í að nýta hráefnið sem best með aðstoð tækninnar. Mikið af mælitækjum og aukin sjálfvirkni hefur verið þróuð og er í þróun í matvælaiðnaði. Vonandi verða tækniframfarir til að auka framleiðslu á nærandi og bragðgóðri fæðu fyrir alla þar sem bæði hagur náttúru og manna sé hafður í forgangi.

2960 Picture2

Menntakerfið eins og við þekkjum það má rekja allt til iðnbyltingarinnar um miðja 18. öldina þegar iðnaðinum vantaði betur menntað vinnuafl. Því miður hafa framfarir eða breytingar á skólakerfinu verið hægar þó að margt hafi breyst til hins betra. Ungt fólk í dag lifir ólíku lífi okkar sem eldir erum, þökk sé tækninni. Það hefur endalausan aðgang að upplýsingum og fjölbreyttari tækifæri til samskipta. Menntakerfið þarf að takast á við þessar breytingar, ekki útiloka þær. Það má sjá fyrir sér að tækniþróun sé tækifæri til að þróa færni og hæfni allra barna og ungmenna (og jafnvel þeirra sem eldri eru). Gervigreind (AI) gæti verið notuð til að skilja þarfir hvers og eins betur og aðstoðað við að efla námsleiðangur þeirra og auka gæði menntunar þar sem hver einstaklingur fær að njóta sín sem best.

Það er margt fleira sem hægt er að minnast á í tengslum við tækniframfarir, s.s. heilbrigðiskerfið, raforkuframleiðsla, offramleiðsla, sóun og vellíðan mannkyns. Listinn yfir þau verkefni sem tæknin gæti hjálpað að leysa er nær endalaus.  Einnig er hægt að fjalla um aragrúa af nýjum tækjum og tækni, s.s. skammtatölvur, lausnir í anda ChatGP, sýndarrými (metaverse) og fleira og fleira. Læt hér fylgja mynd sem sýnir dæmi um tækni sem er í deiglunni í dag.

2960 Picture3

Tækniframfarir vekja hjá mér bjartsýni á að okkur takist að draga úr offramleiðslu og ofneyslu og bæta líf jarðarbúa. Endalaus stríð nær og fjær draga þó úr bjartsýninni en vonandi verður ofan á að tæknin verði nýtt með haga bæði vinnuafls og neytanda í forgrunni og með áherslu á að vernda jörðina okkar.

Höfundur: Ásrún Matthíasdóttir, lektor HR

Heimildir sem ég gluggaði í: 
https://www.sciencefocus.com/future-technology/future-technology-22-ideas-about-to-change-our-world
https://www.weforum.org/agenda/2022/05/17-ways-technology-could-change-the-world-by-2027/
https://www.bing.com/videos/riverview/relatedvideo?q=what%20is%20metaverse&mid=9583EBDFA9E24B2B876A9583EBDFA9E24B2B876A&ajaxhist=0

Myndir fengnar af
https://www.weforum.org/agenda/2021/10/technology-trends-top-10-mckinsey/
https://www.weforum.org/agenda/2023/01/davos-2023-eight-ways-technology-will-impact-our-lives-in-the-future/
https://www.sciencefocus.com/future-technology/future-technology-22-ideas-about-to-change-our-world

Skoðað: 935 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála