Skip to main content
23. maí 2024

Aldraðir, miðaldra, ungir …

Ásrún Matthíasdóttir

Ásrún MatthíasdóttirHröð þróun rafrænnar tækni hefur marvísleg áhrif á líf og störf okkar allra. Til að ræða það getur verið gagnlegt að byrja á að skýra muninn á gagnavæðingu (digitization, stafgerving) og stafrænni umbreyting eða innleiðingu (digitalization). Hið fyrra, gagnavæðing, felur í sér að umbreyta gögnum á stafrænt form, sem er grunnskrefið í stafrænni umbreytingu og hófst um 1960 og hefur haft mikil áhrif á líf okkar í hinum vestrænan heimi. Stafræn umbreyting eða innleiðing er flóknara ferli þar sem verið er að nota stafræna tækni, upplýsingar, gögn og fleira til þróunar á samfélaginu og má segja að þessi þróun hafi komist á skrið um 2000 en farið mishratt. Hröð þróun á gervigreind hefur komið stafrænni umbreytingu á flug undanfarinn áratug eða svo og í dag er jafnvel verið að tala um að færa það sem hefur verið manndrifið yfir í hugbúnaðardrifið eða gervigreindardrifið. Nærtækasta dæmið er líklega ChatGPT sem hægt er að lýsa sem spjallmenni með gervigreind sem virðist eiga svör við flestu og getur skrifað um allt og ekkert, stundum vel en stundum ekki.

Í þessari grein ætla ég aðeins að fjalla um áhrif þessarar þróunar á eldra fólk. Það er hægt að nýta stafræna umbreytingu með gervigreind á margan hátt til að bæta líf fólks þegar það eldist, s.s. með heilsuvöktun til að bæta heilsu og velferð og auðvelda sjálfstæða búsetu. Einnig til að auka félagslega þátttöku í gegnum samskiptabúnað eins og Teams og Zoom með því að hafa þannig samband við fjölskyldu og vini. Þá er sífellt auðveldar að fylgjast með ýmsum upplýsingum og ráðleggingum frá yfirvöldum og úr fréttamiðlum og af samfélagsmiðlum. Eftir því sem gervigreind heldur áfram að þróast munu möguleikar til að hafa jákvæð áhrif á líf aldraðra vaxa sem gerir þeim kleift að eldast með þokka, viðhalda reisn sinni og upplifa meiri lífsgæði.

En við þurfum líka að líta til þeirra sem eru ekki komnir í hóp aldraðra og eru enn á vinnumarkaði. Hér er ég að tala um fólk á aldrinum 50+ (fætt 1973 eða fyrr) sem er sístækkandi hluti vinnuafls í Evrópu. Hröð aukning á fjölþættum stafrænum möguleikum hefur haft áhrif á störf og stöðu þessa hóps. Breytingarnar sem stafræn innleiðing, með aukinni gervigreind, hefur í för með sér vaxandi eftirspurn eftir sértækri þekkingu og hæfni sem byggir á stafrænu læsi, en takmarkað stafrænt læsi getur haft neikvæð áhrif á stöðu þessa hóps, vinnuframlag þess og starfshæfni. Þessi hópur mun líklega hætta störfum seinna en fyrri árgangar vegna hækkandi lífaldurs í mörgum löndum samkvæmt gögnum OECD. Stafræn innleiðing hefur í för með sér bæði tækifæri og áskoranir þar sem vinnan og vinnuumhverfið getur orðið skilvirkara, heilbrigðara og meira skapandi, en einnig streituvaldandi og erfiðara á sama tíma. Skoða þarf hvort stafræn innleiðing skaði eða hjálpi eldri starfsmönnum og grípa til aðgerða ef þróunin virðist ekki vera í jákvæða átt.

Staðan er misjöfn milli landa. Stafræn innleiðing í Svíþjóð gengur tvöfalt hraðar en á Ítalíu og Eistland er í fyrsta sæti í stafrænni stjórnsýslu, en undir meðallagi í stafrænni innleiðingu. Evrópusambandið hefur sett sér það markmið að 80% af íbúunum hafi góðan grunn í stafrænni færni ári 2030. Aðeins einn af hverjum fjórum eldri Evrópubúum býr yfir grunnfærni í stafrænni tækni samanborið við tvo af hverjum þremur í aldurshópnum 35 til 44 ára, þrjá af hverjum fjórum meðal 25-34 ára og fjóra af hverjum fimm meðal ungmenna 16-24 ára. Við erum að sumu leyti vel stödd hér á landi þar sem segja má að stór hluti vinnandi fólks hafi orðið stafrænt læst á síðustu 20 árum því aðgengi að nettengingum hefur verið auðvelt og nokkuð gott á mörgum svæðum á landinu.

COVID-19 hraðaði mikið stafrænni innleiðingu í heiminum og um leið kom betur í ljós allskonar ójöfnuður þar sem margir eldri einstaklingar áttu í erfiðleikum með að fá aðgang að nauðsynjavörum og þjónustu, allt frá staðfestingu á bólusetningu á netinu, til netbanka, matar og lyfja, meðan á lokun stóð. Við urðum háðari stafrænni tækni í heimsfaraldrinum sem beindi athyglinni að mikilvægi stafrænnar þátttöku og að stafrænni gjá milli kynslóða.

Í framhaldinu hafa mörg verkefni verið sett af stað til að skoða og breyta stöðunni og ætla ég hér að segja frá einu þeirra, COST verkefninu DigiNet, sem hefur það að markmiði að skoða stöðu eldra fólks sem er á vinnumarkaðnum eða ca. 50+ þar sem lögð er áhersla á að skoða fimm atriði
sem ég reifa hér að neðan:

Félagslegt misrétti
Stafræn innleiðing getur leitt til nýs misréttis milli yngri og eldri starfsmanna
og einnig innan starfsmannahópa, t.d. vegna kyns, menntunnar,
atvinnugreina eða stafræns læsis og færni í miðlanotkun
en getur einnig
dregið úr núverandi ójöfnuði. Margskonar hjálpartæki þar sem gervigreindin
er vel nýtt hafa nýst þeim sem standa höllum fæti t.d. vegna fötlunar en
hér skipta fleiri atriði máli eins og atvinnuleysi, launakjör og vinnuaðstæður.

Aldursmenning, staðblær tengdur aldri
Vitað er að staðalímyndir og mismunandi skoðanir móta vinnustaðamenningu eða staðblæ og þar getur verið um að ræða aldursbundin áhrif á skipulag og ferla, þ.e. mismunandi aldurshópar geta haft ólíkar skoðanir á hvernig sé best að vinna verkin. Margar venjur myndast á vinnustöðum sem mótast af þeim sem þar vinna, þeir sem eldri eru og hafa verið lengur á vinnustaðnum hafa stýrt þeirri þróun. Síðan kemur yngra fólkið með nýja þekkingu og nýjar venjur, oft tengt tækninni og þá geta myndast árekstrar. Í ljósi staðalmynda um aldur og stafræna innleiðingu er eðlilegt að ætla að aldursmenning verði sífellt mikilvægari.

Stafræn innleiðing og heilsa eldri starfsmanna
Þetta er svið sem lítið hefur verið kannað og snýr að flóknu samspili milli áhrifa stafrænnar innleiðingar á störf eldra fólks og heilsu þeirra. Hér skiptir máli lenging starfsævinnar sem er mikið í umræðunni og hefur sums staðar komið til framkvæmda. Sjálfvirkni getur gert líkamlega vinnu léttari fyrir eldri starfsmenn en á sama tíma getur stafræn innleiðing haft áhrif á geðheilsu þeirra því aukin tækninotkun getur valdið óöryggi, spennu og álagi. Að þurfa sífellt að vera að læra eitthvað nýtt getur jafnvel valdið kvíða.

Þróun og framkvæmd stefnu og nýrrar starfsvenju
Til að takast á við stafræna innleiðingu þarf oftast að breyta starfsvenjum og þá þarf að tryggja að þekking á þróuninni og forsendum hennar komist til allra starfsmanna. Mótun stefnu og framkvæmda í tengslum við aðstæður á vinnumarkaði á tímum stafrænnar innleiðingar getur misst fókus og dregið úr möguleika eldra fólks á að hafa áhrif og ná viðeigandi niðurstöðu ef þessi hópur hefur ekki þá þekkingu og færni sem til þarf til að geta lagt sitt að mörkum í þróuninni.

Miðlar
Samfélags-, fyrirtækja- og fréttamiðla endurspegla og knýja áfram staðalímyndir eldri fólks og stafræna innleiðingu. Hér geta bæði verið góð og slæm áhrif því staðalímyndir eru ekki alltaf jákvæðar eða réttar. Það er einfaldlega ekki til staðalímynd sem allir passa inn í og sumar geta verið íþyngjandi eða beinlínis skaðað möguleika, t.d. kynjanna til árangurs í starfi. Hér hefur orðið aukning á aldurstengdum staðalímyndum sem geta heft eldra fólk á vinnumarkaðnum.

Í DigiNet verkefninu er talið mikilvægt að skoða vel þessa fimm þætti, skoða hver staðan er en einnig að leita lausna til að bæta stöðuna. Þekking og færni í upplýsinga- og samskiptatækni (UST), miðlamennt og miðlalæsi er orðið nauðsynlegt fyrir starfsferil einstaklinga í dag. Breytingarnar sem mikil stafræn innleiðing hefur í för með sér skapa vaxandi eftirspurn eftir sértækri þekkingu og hæfni á vinnumarkaði. Þetta getur haft neikvæð áhrif á stöðu eldra fólk á vinnumarkaðnum. Til að efla hóp eldri starfsmanna er þekkingaröflun og færniþjálfun byggð á rannsóknum öflugustu vopnin sem við höfum.

Nýjustu fréttir herma að IBM ætli að þróa aðgengileg námskeið um gervigreind í samstarfi við háskóla um allan heim með áherslu á fullorðna nemendur til að styðja við stöðu þeirra á vinnumarkaði.

Það skiptir máli að öðlast betri skilning og yfirlit yfir áhrif stafrænnar innleiðingar á misrétti vegna aldurs á vinnumarkaði og að þróa árangursríka stefnu til að draga úr staðalímyndum um eldri starfsmenn og koma með nýja ímynd af þessum öfluga hóp til að berjast gegn mismunun á vinnumarkaði.

Höfundur: Ásrún Matthíasdóttir lektor við HR

Heimildir
Stojanović, A., Milošević, I. og Arsic, S.(2003). The Influence of Digital Literacy on the Employment Rate of the Older Population. Conference: International May Conference on Strategic Management – IMCSM23At: Bor, Serbia. https://www.researchgate.net/publication/371125896_The_Influence_of_Digital_Literacy_on_the_Employment_Rate_of_the_Older_Population
What is digitization? https://www.techtarget.com/whatis/definition/digitization
Digitization, Digitalization, And Digital Transformation: Confuse Them At Your Peril https://www.forbes.com/sites/jasonbloomberg/2018/04/29/digitization-digitalization-and-digital-transformation-confuse-them-at-your-peril/
Ageing in the digital era – UNECE highlights key actions to ensure digital inclusion of older persons https://unece.org/digitalization/press/ageing-digital-era-unece-highlights-key-actions-ensure-digital-inclusion-older

Skoðað: 483 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála