Skip to main content
6. júní 2024

„Við stöndum þegar í miðri á“

Viðtal við Hall Þór Sigurðarson lektor

Hallur Þór SigurðarsonHallur Þór Sigurðarson er lektor við viðskiptafræðideild í Háskólanum í Reykjavík og forstöðumaður með meistaranámi þeirrar deildar. Tölvumál ákváðu að heyra í honum og fá hans sýn á það aukna pláss sem gervigreind er að taka sér í námi og starfi.

Geturðu lýst í stuttu máli hvað felst í þínu starfi?
Ég er með nokkra hatta í mínu starfi. Ég er forstöðumaður meistaranáms og lektor við Viðskiptadeild HR. Í meistaranáminu bjóðum við upp á sjö aðal gráður, þar á meðal stjórnun upplýsingatækni. Ég sinni umsjón með náminu og reglulegri endurskoðun ásamt tveimur verkefnastjórum, þeim Sigrúnu og Laufeyju. Sem lektor sinni ég kennslu og rannsóknum. Hér eru mínar áherslur á frumkvöðlafræði, stjórnun og nýsköpun.

Hefurðu orðið var við aukna tengingu gervigreindar við háskólanám?
Ég held að flestum sé að verða ljóst að gervigreind á eftir að hafa mikil áhrif á menntun. Ef ég ætti að reyna að lýsa því sem er að eiga sér stað núna í háskólaumhverfinu þá er fólk að reyna að ná áttum – læra og fylgjast grannt með. Til dæmis þurfa allir háskólakennarar núna að endurskoða hvernig best er að standa að námsmati, vitandi að nemendur hafa aðgang að gervigreindarlausnum. Þetta er ekki alltaf einfalt, þegar við sjáum að stöðugt líta nýjar lausnir dagsins ljós. Að sama skapi geri ég fastlega ráð fyrir, og við sjáum þetta raunar nú þegar, að margir kennarar muni samþætta gervigreind inn í kennslu og námsmat. Svipaða sögu mætti segja um nemendur. Þeir eru auðvitað að reyna að átta sig á hvernig þeir geta nýtt sér gervigreind. Ég vil hins vegar taka fram að það getur verið varasamt að treysta á hana í blindni. Það er a.m.k. mín reynsla enn sem komið er. Gervigreindinni fylgja vissulega áskoranir fyrir háskóla, en í því samhengi held ég að við verðum að horfa á tækifærin sem skapast, fyrst og fremst. Kennarar og nemendur finna sig í nýju umhverfi og við erum öll að læra. Þetta er spennandi!

Hvernig hefur gervigreind nýst í háskólanámi hingað til? Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina?
Eins og ég nefndi þá held ég að við séum rétt að ná áttum. Það er ekki liðið ár síðan ChatGPT tókst að hrista verulega upp í hlutunum á þessu sviðið. Fram að því þótti mér umræða um gervigreind og háskólanám aðallega vísa í átt að tiltölulega óræðri framtíð. Núna held ég að upplifunin sé oftar sú að við stöndum þegar í miðri á.

Hefur orðið einhver breyting á kennslu í viðskiptafræði síðustu ár?
Viðskiptafræðikennsla er í stöðugri þróun, á síðustu árum hefur t.d. aukist notkun á mismunandi hermi-hugbúnaði (simulation) og Covid setti aukinn kraft í notkun á margskonar stafrænum lausnum í kennslu. Einnig hefur átt sér stað þróun í þá átt að því að gera nemendur enn virkari í tímum, þannig að þeir kynni sjálfir hugmyndir og verkefni og fái endurgjöf frá kennurum og öðrum nemendum.

Sérðu aukna tengingu við tölvunarfræði? Eru fleiri nemendur t.d. að taka tölvunarfræði sem aukafag á BSc stigi?
Viðskiptafræði með tölvunarfræði á BSc-stigi hefur verið vinsæl blanda hjá okkur undanfarin ár og það verður örugglega ekkert lát á því. Það er mín skoðun og mín eigin menntun endurspeglar það, að ákveðin gunnþekking í tölvunarfræði sé nánast orðin nauðsynleg þeim sem fást við viðskipti. Tökum frumkvöðlastarf sem dæmi og horfum á þann fjölda viðskiptatækifæra sem felast annað hvort í þróun nýrra stafrænna lausna eða skapandi nýtingu á hugbúnaði sem fyrir er. Af þessum sökum finn ég  t.a.m. fyrir aukinni eftirspurn eftir stafrænni þekkingu meðal þeirra sem stunda hjá okkur meistaranám í stjórnun nýsköpunar.

Nú er verið að kenna upplýsingastjórnun á mastersstigi þar sem markmiðið er að brúa bilið milli upplýsingatækni og viðskipta. Sérðu mikla þörf á slíkri þekkingu í íslensku viðskiptalífi?
Ég sé sannarlega þörf á upplýsingastjórnun í viðskiptaumhverfi eins og okkar, sem er að stærstum hluta þekkingardrifið. Ég nefndi frumkvöðlastarf hér að ofan, önnur dæmi um svið þar sem er þörf á samþættri þekkingu er gagnagreining og gervigreind og hvernig þetta tvennt getur stutt við rekstur og þróun í fyrirtækjum og stofnunum.

Hefur tekið eftir því að gervigreind sé að verða fyrirferðameiri í nýsköpun?
Ég tek eftir því að fyrirtæki, stofnanir og fjöldi einstaklinga er leita leiða til að nota gervigreind til að ná markmiðum sínum með skjótari og betri hætti en áður. Í þessu lærdómsferli verða til nýir möguleikar og ný markmið. Nýsköpun fellst meðal annars í þessu.

Skoðað: 74 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála