Skip to main content
5. september 2024

10x meiri hraði, er einhver þörf á því?

Kristinn Ingi Ásgeirsson

Kristinn Ingi ÁsgeirssonÍsland er í fararbroddi internetvæðingar á heimsvísu. Þannig eru hlutfallslega flest heimili á Íslandi, af löndum Evrópu, sem nýta sér ljósleiðaratengingar eða yfir 80% heimila samkvæmt tölum Fjarskiptastofu og um 97% fólks notar internetið daglega samkvæmt gögnum Hagstofunnar frá 2019.

Í dag býður Míla upp á 1Gb/s ljósleiðaratengingar um allt land og fyrir flest heimili dugar sá hraði vel. Þann 22. ágúst síðastliðinn kynnti Míla 10x vettvanginn sem felur í sér möguleika á tíföldun á internethraða til heimila, og verður innleiddur í skrefum á næstu árum. Margir telja að flest heimili hafi ekkert með meiri hraða en 1Gb/s að gera og hafa því efasemdir um þörfina á 10x þjónustunni sem Míla kynnti í ágúst. Allir sérfræðingar telja þó að þörf sé á að byggja netin upp fyrir meiri hraða því notkun heimila á bandvídd hefur aukist að jafnaði um 20-30% á hverju ári frá upphafi Internetsins.

Árið 1999 þegar Landssími Íslands hóf að bjóða heimilum og fyrirtækjum ADSL þjónustu var mesti mögulegi hraði á slíkri tengingu 8Mb/s sem var 62,5 földun í hraða frá eldri tækni sem gat aðeins boðið 128kb/s (2 línu ISDN upphringi tenging). ADSL var því gríðarleg tæknibylting og töldu sumir að 8Mb/s dygðu heimilum í mörg ár. Síðan þá hafa komið fram margir nýir tæknistaðlar fyrir nettengingar um koparheimtaugar sem allir juku bandbreidd til heimila í áföngum uns hraðinn var kominn yfir 100Mb/s árið 2015. Þróun í tækni slíkra tenginga hefur haldið áfram en Míla ákvað 2015 að ekki yrði haldið lengra á þeirri vegferð. Míla hafði frá 2007 lagt ljósleiðara til nýbygginga en hóf einnig að leggja ljósleiðara í eldri hverfum árið 2016. Fram að þeim tíma höfðu netrekendur á Íslandi boðið 100Mb/s þjónustu yfir ljósleiðaraheimtaugar en árið 2016 var 500Mb/s fyrst í boði og 1Gb/s 2017.

Á síðustu 2-3 árum hafa sífellt fleiri netrekendur í heiminum farið að bjóða meira en 1Gb/s hraða til heimila. Flestir bjóða 2 eða 2.5Gb/s enda er endabúnaður (búnaður hjá notenda) sem býður meiri hraða nokkuð dýr enn sem komið er. Búist er við að með aukinni framleiðslu á svo öflugum endabúnaði þá muni verð á honum falla hratt á næstunni eins og gerist með alla nýja tækni.

Sú tækni sem Míla notar kallast XGS-PON sem er spáð að muni verða langalgengasta nettækni á heimsvísu fyrir heimili og fyrirtæki eins og fyrirrennari þess GPON. GPON hefur í dag um 95% markaðshlut á heimsvísu samkvæmt tölum greiningafyrirtækisins Omdia.

Mynd 1

Mynd 1 sýnir búnaðarkaup fjarskiptafélaga eftir árum og tækni. OLT er heiti yfir búnað fjarskiptafélags í tækjahúsi en ONT/ONU er heiti yfir ljósbox á heimili. Eins og þar kemur fram eru kaup fjarskiptafélaga að langmestu, eða um 98% í PON búnaði sem er sama tækni og Míla notar. Meginástæða þess að PON tækni hefur rutt sér svo til rúms er að tæknin er sérhönnuð fyrir þjónustu til heimila og fyrirtækja og er mun „grænni“ tækni en svokölluð P2P nettækni.  Mynd 2 kemur frá tæknirisanum Nokia og sýnir muninn á rafmagnsnotkuninni eftir fjölda tenginga í sama tækjahúsi netrekanda.

3016 Power consumption mynd2
Mynd 2

Eins og sést er margfaldur munur á rafmagnsnotkun PON tækni og svokallaðrar P2P tækni. Míla er í dag eini stóri netrekandinn á Íslandi sem notast við PON tækni.

Þróunin í netum er þó langt frá því að vera lokið. Nú þegar er til svokölluð 25G-PON tækni en hún er mest notuð sem fyrirtækjaþjónusta. Einnig er staðlavinna í gangi með svokölluð 50G-PON og 100G-PON og má búast við að á næstu 5-10 árum fari að bjóðast netþjónusta yfir slík net. Líklegt er að með þessu sé þörfum heimila fullnægt næstu 10-20 árin þó tækniþróunin geti alltaf komið á óvart og þarfirnar og þróunin orðið hraðari en spáð er í dag.

Segja má að flest ljósleiðaratengd heimili finni ekki mikið fyrir vöntun á bandvídd í dag, en tækniþróun á næstunni sem og meiri afköst í þráðlausri tækni mun kalla fram þörf á enn hraðari internettengingum á næstu árum. Hér á eftir verður farið yfir hver sú tækniþróun er og hvernig íslensk heimili munu geta nýtt sér enn hraðari internettengingar.

Öflugari þráðlaus net-WiFi-7
Upplifun fólks á heimilistengingum hefur um langt skeið litast af gæðum þráðlausa netsins á heimilinu. Mikill meirihluti vandamála sem koma inn í þjónustuver fjarskiptafyrirtækja eru tengd gæðum á þráðlausa netinu eða réttara sagt vöntun á gæðum á því. Á síðustu árum hafa fjarskiptafélög og búnaðarframleiðendur tekið höndum saman til að leysa þessi mál. Þannig hafa mörg fjarskiptafyrirtæki komið sér upp hugbúnaðarlausnum til að fylgjast með og mæla gæði þráðlausra neta en einnig hafa búnaðarframleiðendur komið fram með sífellt öflugari og betri þráðlaus net. Núna er algengasta tegundin svokölluð WiFi-6 eða WiFi-6E sem eru af sjöttu kynslóð þráðlausra neta. Raunveruleg afköst þessarar tækni er um 1Gb/s en nýverið hefur komið fram endabúnaður sem hefur WiFi-7 sem afkastar um 10Gb/s hraða á hverju tæki og allt að 46Gb/s í heildina. Þessi sjöunda kynslóð þráðlausra neta er einnig hönnuð til að meðhöndla umferð frá mörgum tækjum í einu án þess að heildarbandvíddin koðni niður eins og algengt er með eldri tækni. Búast má við að þessi tækni verði komin í flestan nýjan búnað á næstu tveim árum og mun fjölgun tækja þýða lækkun á verði slíks endabúnaðar en hann er tiltölulega dýr í dag. Með þessari nýju þráðlausu tækni er núverandi internethraði ljósleiðaratenginga orðinn flöskuháls í upplifun notenda.

Aukinn fjöldi tengdra tækja á heimilum
Um allan heim er mikil aukning á fjölda tækja á heimilum sem tengjast við internetið og á það ekki síst við hér á landi og algengt að 20 eða fleiri nettengd tæki séu á heimili. Þannig er algengt að hver heimilismaður eigi tölvu, snjallsíma og snjallbretti en einnig eru þetta tæki sem oft eru hluti af því sem kallað er Internet hlutanna (e: Internet of Things eða IoT). Dæmi um IoT tæki eru ryksuguróbótar, hitastýringartæki eða nettengdar ljósastillingar að ógleymdum öryggiskerfum og myndavélum. Öll þessi tæki auka álag á nettengingar og þá er gott að hafa öflugustu heimatengingu sem völ er á.

Heimavinna og nám á netinu
Á síðustu árum hefur vægi fjarvinnu og fjarnáms aukist verulega og er það orðið alvanalegt í nútíma samfélagi. Fjarvinna gerði það t.d. að verkum að þjóðfélagið gekk án verulegra vandkvæða á tímum Covid. Þessi þróun hefur haft áhrif á þarfir heimila fyrir bestu mögulegu heimatengingu. Einnig hafa sífellt fleiri valið að gerast svokallaðir „Giggarar“ en það er fólk sem tekur að sé skammtíma verkefni sem oft tengjast fjölmiðlun eða myndvinnslu. Þessi fjölbreyttu verkefni, þar á meðal myndsamskipti og oft gífurlegur gagnaflutningur, krefjast sífellt hraðari internettenginga til að tryggja góðan árangur. Segja má að óþolinmæði mannfólksins sé það sem drífur áfram hraða þróun á betri og hraðvirkari internettengingum því enginn vill þurfa að bíða eftir að gögn birtist.

Tækni- og hugbúnaðarþróun
Þróunin hefur verið sú að netrekendur hafa með mikilli innviðauppbyggingu verið að byggja upp sífellt öflugri net til að mæta auknum þörfum markaðarins. Það að netin verða öflugri hefur þannig þýtt að nýjar og öflugri þjónustur verða til. Má þannig nefna IP sjónvarpsflutning sem árið 2004, á tímum 8Mb/s internettenginga, krafðist 2Mb/s sjónvarpsstraums en í dag þegar flestar tengingar ná allt að 1Gb/s eða meira, krefst 8k sjónvarpsstraumur um 100Mb/s. Áður fyrr var eitt eða tvö sjónvarpstæki á heimili en í dag er á mörgum heimilum hver fjölskyldumeðlimur með sitt tæki. Annað dæmi sem krefst sífellt meiri bandvíddar eru tölvuleikir og hafa menn spáð því að með 10Gb/s tækninni sé jafnvel komin grundvöllur fyrir þrívíddarleiki á netinu. Telja menn að slíkir leikir geti hæglega þurft margra Gb/s nethraða. Hugmyndir manna um heilmyndafjarskipti krefjast svo jafnvel enn hærri bandvíddar í framtíðinni þrátt fyrir mikla framþróun á myndþjöppun á síðustu árum. Hraðari internettengingar geta því verið nauðsynlegar til að upplifa þessar nýju þjónustur án truflana.

Framtíðaröryggi:
Hugtakið „framtíðaröryggi“ felst í því að átta sig á að tæki og þjónustur sem notaðar verða á heimilum verða alltaf öflugri og krefjast meiri bandvíddar. 10x þjónustan er hugsuð sem vettvangur fyrir fjarskiptafélög að búa til þjónustur sem geta vaxið með þörfum heimila svo tryggt sé að þau hafi næga bandvídd á hverjum tíma. Þetta er áhugaverð hugmynd fyrir þá sem vilja fjárfesta í bestu mögulegu tækni til að lágmarka líkur á netvandamálum í framtíðinni.

Hraðari internettengingar en 1Gb/s geta verið nú þegar nauðsynlegar í sumum tilfellum. Það eru margir þættir sem kunna að skapa þörf fyrir hraðari tengingar, þar á meðal mikil fjölgun tengdra tækja, nám og fjarvinna á netinu, tækni- og hugbúnaðarþróun, og hugtakið um framtíðaröryggi. Það verður spennandi að fylgjast með þróuninni í internettengingum á Íslandi á næstu árum.

Höfundur: Kristinn Ingi Ásgeirsson, deildarstjóri Netrekstur hjá Mílu

Skoðað: 82 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála