Skip to main content
20. júní 2024

Gerfigrein

Eyður

Mynd1Í síðustu viku sat ég í heita pottinum og heyrði þrjá háskólanema ræða saman. Þeir voru stoltir tölvunarfræðinemar en þóttu heimaverkefnin strembin. Þeir viðurkenndu hvor fyrir öðrum að hafa notað ChatGPT til að leysa þau.

Háskóli Íslands er með vefsíðu um notkun gerfigreindar í náminu: https://gervigreind.hi.is/. Mér sýnist meginreglan vera að taka fram ef hún var notuð, rétt eins og að geta heimilda. Á síðunni er tekið fram að háskólinn getur ekki séð hvort gerfigreind var notuð.

Núna eru hveitibrauðsdagarnir. Einstaklingar spjalla við gerfigreindina og sjá möguleikana með eigin augum. Stórfyrirtækin ráða ráðum sínum.

Eftir tvo mánuði var ChatGPT komið með tvær milljónir notenda sem greiða 20 dollara á mánuði. Þar að auki eru tuttugu milljón manns sem borga ekkert. Hefur þú efni á áskrift? Hefur þú efni á að vera ekki með áskrift?

OpenAI er núna að auka hlutafé sitt um tólf þúsund milljarða króna. Nýjasta útgáfa Windows 11 verður með tengingar við gerfigreindina. Áskrift einstaklinga mun því ekki ráða úrslitum um stefnu fyrirtækisins.

Ég veit ekki með aðra, en ég er þegar farinn að líta á ChatGPT sem persónulegan ráðunaut og er farinn að spyrja hana persónulegri spurninga en ég gerði fyrst. Ég gúggla minna. Allt sem ég spyr um, hlýtur að bætast í safn upplýsinga um mig.

Það er erfitt að ímynda sér að heilræðin sem hún veitir séu bara leit í gömlum færslum á vefnum en þannig virkar hún víst. Endurvinnsla gamalla hugsana. Það virðist duga til að þóknast mér. Hún þarf ekki að vera leiftrandi original til að vera mjög gagnleg. Ef ég reyni að ögra henni með fíflalátum eða reyni að vera með húmor fer hún ekki beinlínis á flug.

Hún viðurkennir það líka sjálf, segist ekki hafa húmor, meðvitund eða sannfæringar, bara samantektir. Mínar hugsanir eru líka flestar endurtuggðar frá einhverjum öðrum svo ekki kasta ég steinum.

Það má ræða hvort gerfigreindin sé alvöru greind en ég held að flestum sé sama. Hún er þegar orðin ómetanlegur vinnuhestur fólks sem er að taka saman innihald skjala eða vinna þarfagreiningar. Ólíkt undanförnum tískubylgjum eins og sýndarveruleiki eða kryptó, hitti hún beint í mark og ég held ekki að hún sé á förum.

Hvað gerist næst?
Mynd2Hún er þolinmóður kennari. Hún veitir læknis og sálfræðiaðstoð. Hún er örugglega góð í að færa bókhald. Þýða bækur. Forrita.

Þegar ég skrifa þetta les ég að framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi vonast til þess að fleiri bækur verði íslenskum lesum aðgengilegar með hjálp gerfigreindar sem þeir ætla að taka í notkun. Ekki sé ætlunin að taka þýðendur út úr ferlinu. Yeah - about that.

Hún þarf ekki að vera ofboðslega klár til að geta gert fullt af fólki atvinnulaust. Einhver sagði að hún væri með 120 IQ. Gætum við þurft að taka upp borgarlaun?

Í næstu útgáfu Windows 11 verður „Copilot“ sem er eins og „Siri“ á sterum. Copilot er í stöðugu sambandi við ChatGPT og getur stjórnað Excel, Word og Windows stillingum. Windows 11 verður þá eins og tölvan í Star Trek sem hlýðir töluðum skipunum. „Clippy the paperclip“ fær uppreisn æru.

Þegar mótöldin komu á markað voru þau bönnuð af pósti og síma af því þau gátu hringt án þess að mannshöndin kæmi nærri. Erlendar bíómyndir mátti ekki sýna nema þær væru textaðar. Nú munu svona einfaldar reglusetningar ekki duga til. Ég vona að við fáum tíma til að koma okkur saman um gerfigreindina en fyrirtækin sem vinna að henni hafa sjálf beðið um að þær verði settar.

Mér vitanlega eru engin lög til á Íslandi sem sporna við Facebook eða Google. Við höfum ekki einu sinni reynt þótt umræðan hafi verið mikil um skaðleg áhrif samfélagsmiðla.

Þetta er sennilega ekkert sem við getum sett lög um á landsvísu, sennilega verður það Evrópusambandið eða alþjóðasamtök.

Ef hömlur verða settar á gerfigreind innan einhverra landssvæða mun þróunin færa sig á önnur svæði í heiminum. Herir allra landa munu nýta gerfigreind, til upplýsingaöflunar og skipulagningar. Ég get ekki byrjað að ímynda mér hvernig við fylgjumst með eða stjórnum þeirri þróun.

ChatGPT sem er opið féll víst á lögfræðiprófi en GPT-4 sem er í áskrift stóðst það víst með glans. Prófið reynir víst á talsvert meira en þurra upptalningu á staðreyndum.

ChatGPT er frá OpenAI og forstjórinn heitir Sam Altman. Hann er 38 ára. Þegar Mark Zuckerberg byrjaði með Facebook í Harvard var Altman í Stanford. Altman hætti í háskóla án þess að klára, rétt eins og Bill Gates, og Steve Jobs og Mark Zuckerberg. Altman markaðssetti fyrst keppinaut við Facebook sem hét Loopt, svo hann hefur verið lengi að og reynt ýmislegt.

Mynd3Í öðrum fyrirtækjum sem hann á er verið að reyna að hægja á öldrun og gera tveim mönnum kleift að eiga saman börn. Svo er hann sjálfur á biðlista hjá fyrirtækinu Nectome sem vinnur við að hlaða heilum fólks í skýið.

OpenAI átti að vera „non-profit“ og „open source“ og Elon Musk var með honum í þessu framan af en bæði breyttist árið 2018. Nú er fyrirtækið hagnaðardrifið og í meirihluta eigu Microsoft.

Altman er sjálfur farinn að biðja um lagalegt eftirlit með gerfigreind. Menn hafa líkt honum við Oppenheimer en hann vildi líka setja lög um kjarnorku sem hann meðhöndlaði. Þeir eiga líka sama afmælidag, 22. apríl. Altman sér fyrir sér stofnun eins og IAEA er fyrir kjarnorkuna.

Í viðtali við „The Atlantic“ segist hann hafa sett ChatGPT viljandi svolítið snemma á markað til að leyfa mannkyninu að bregðast við gerfigreind á meðan hún er enn þá svolítið veikluleg.

ChatGPT er ekki farið að tala með mannsröddu og það getur ekki búið til myndir eða lesið skjöl. Þetta verður væntanlega fljótt að breytast. Leikarar eru þegar farnir að lesa inn raddir fyrir hana. Ekki samt Scarlett Johanson mér vitanlega.

Það sem veldur mér áhyggjum er samfélagið sem gerfigreindin kemur inn í. Við höfum sett okkur á netið, það sem við erum og gerum og kaupum. Við vorum borgarar, svo urðum við neytendur og nú erum við eiginlega varan.

Kapítalisminn hefur aldrei haft það svona gott. Það er nánast eins og við viljum láta hann greina okkur og smætta í undirflokka til þess að geta þó tilheyrt einhverjum hópi. Umræðan á netinu er svo oft í skotgröfum milli manneskja sem skilgreina sig þröngt og samfélagsmiðlarnir ýta undir það. Við treystum hvort öðru minna, lýðræðið hefur ekki grætt á netvæðingunni þrátt fyrir góðar vonir um „arabíska vorið“.

Á meðan ég ræði við gerfigreindina um mín persónulegu mál, ræðir hún við eigendur sína um mig. Gagnasöfnunin um okkur mun halda áfram. Gerfigreindin mun verða minn persónulegi vinur sem segir mér hvað er í fréttum og hvaða flugmiða ég á að kaupa til útlanda. Ég og hún verðum sammála um flesta hluti.

Hvorki Google né Facebook ætluðu að gera neitt slæmt og OpenAI ætlar það ekki heldur, heyrist mér á Sam Altman.

Ef okkur tekst að beisla gerfigreindina mun það kosta okkur endurskoðun á samfélaginu og hvaða gildi við höfum. Vonandi tekst það.

Skoðað: 879 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála