Skip to main content
19. september 2024

Vörustýring í verki

Hádegisfundur

HádegisfundurHádegisfundur Ský, Vörustýring í verki, var haldinn í Hörpu, í salnum Kaldalón, þann 18. september 2024. Vel var mætt á fundinn en áður en hann hófst snæddu fundargestir hádegisverð fyrir utan salinn og styrktu tengslanetið. Fjórir fyrirlesarar fóru vítt og breitt um viðfangsefnið og þær helstu áskoranir sem vörustjórar landsins mæta. Fundarstjórn var í höndum Salvarar Gyðu Lúðvíksdóttur hjá Stafrænni Reykjavík og undirbúningsnefndin samanstóð af stjórn faghóps Ský um stafræna vörustýringu .

Siggeir Örn SteinþórssonSiggeir Örn Steinþórsson frá Vodafone reið á vaðið með fyrirlesturinn „Hvað skal varast?“  Þar fjallaði hann m.a. um stórar áskoranir í vörustýringu, sérstaklega í tengslum við stafræna vörustjórnun og daglegan rekstur. Í fyrirlestrinum lagði hann áherslu á mikilvægi þess að skilja þarfir markaðarins og hámarka virði vörunnar, þar sem mælingar skipta miklu máli. Fyrirtæki einblína gjarnan á þrjá þætti: Markaðslega, viðskiptalega og tæknilega. Áhersla fyrirtækja í vörustýringu sagði hann einnig þríþætta:

  1. Fyrst bæri að nefna stjórnskipulag og stefnu fyrirtækja. Tengslin á milli stefnumótunar fyrirtækja og þeirra sem sinna vörustýringu eru oft of lítil. Hlutverk vörustjórans felst í því sem er virðisaukandi, að halda samskiptum opnum og vera tengiseflandi. Þverfaglegt samstarf er oft ófullnægjandi og veldur áskorunum.
  2. Annað atriðið sem hann fjallaði um var vöruheilsa, sem snýst um að finna jafnvægi á milli arðsemi og upplifunar notenda. Hann benti á að vörustjórar eru stundum blindir fyrir upplifun notanda. Þótt fjárhagsþættirnir séu skýrir verður upplifunin notanda eftir. Hins vegar er bein fylgni milli góðrar upplifunar viðskiptavina og vaxtar, sérstaklega á litlum markaði eins og Íslandi, þar sem varðveisla viðskiptavina er lykilatriði, sem sýnir hversu mikilvæg hún er.
  3. Að lokum talaði Siggeir um vegvísinn fyrir vörustjórnun. Það er mikilvægt að skilja markaðinn og markhópana, og stöðugt aðlaga vöruframleiðslu og þjónustu að þörfum þeirra. Vörustjóri ber ábyrgð á því að uppfylla þau loforð sem fyrirtækið gefur viðskiptavinum með því að þróa vörur sem leysa vandamál þeirra.

Sævar GarðarssonNæsti fyrirlestur var „Hversu vel þekkir þú kúnnana þína?“ með Sævari Garðarssyni frá Sjöund vöruþróun og ráðgjöf og fjallaði hann um mikilvægi þess að vörustjórar skilji notendur sína vel.

Sævar ræddi um hugtakið „skipulagsleg fjarlægð“, sem vísar til þess þegar vörustjórar hafa ekki næg tengsl við endanlega notendur. Þetta gerist til dæmis þegar einn aðili kaupir vöruna en annar notar hana eða þegar deildir innan fyrirtækja vinna í sílóum og samskiptin eru takmörkuð. Hann benti á að þegar fulltrúi notanda þekkir ekki allar þarfir þeirra þá getur það leitt til þess að upplýsingarnar sem komast til vörustjóranna séu bjagaðar og ófullnægjandi.

Sævar tók nokkur raunveruleg dæmi til að undirstrika áskoranir í vörustýringu. Hann talaði meðal annars um áhættuna sem fylgir því að selja vöru áður en hún er hönnuð („fyrst selt, svo hannað“), sem getur leitt til mistaka ef varan er ekki þróuð með notandann í huga. Hann nefndi einnig reynslu sína af sumarvinnu hjá fjarskiptafyrirtæki þar sem vara var hönnuð í tómarúmi, án tengsla við notendur, og varð að algeru floppi.

Í lokin undirstrikaði Sævar að það væri engin töfralausn til. Mikilvægt væri að vörustjórar leituðu til raunverulegra notenda, fjarlægðu óþarfa milliliði og flöskuhálsa úr ferlinu og tryggðu opin samskipti og þverfaglegt samstarf.

Þarna var gert stutt kaffihlé áður en haldið var inn í seinni hlutann.

Þórdís ÞórsdóttirÞriðji fyrirlesturinn kallaðist „Innleiðing stafrænnar vörustýringar – áskoranir og sigrar“, fluttur af Þórdísi Þórsdóttur frá Íslandsbanka. Umfjöllunarefnið var innleiðing stafrænnar vörustýringar hjá bankanum frá árinu 2019. Þórdís byrjaði á því að segja frá breytingum sem voru gerðar á teymum í upplýsingatækni í upphafi, þar sem vörustjórar komu úr viðskiptaeiningum. Þetta reyndist ekki ákjósanleg lausn og eftir tvö ár komu upp vandamál. Vinnustofur voru haldnar og skoðanakannanir gerðar til að greina stöðuna, og þó að ákveðinn árangur hafi náðst var ljóst að laga þurfti ýmislegt. Eftir þessa greiningu var tekin ákvörðun um að fá starfsmenn úr viðskiptaeiningum í fullu starfi sem vörustjóra og jafnframt að þjálfa alla starfsmenn. Árið 2024 hættu nokkrir vörustjórar og í kjölfarið var starfið lagt niður.

Þórdís fór svo yfir hvers vegna vörumiðuð þróun  væri svona mikilvæg. Ástæður má finna m.a. í nýjum straumum og stefnum í fjármálageiranum sem og aukningu á sjálfsafgreiðslulausum. Hún ræddi einnig um rúlluverkefni þar sem viðskipta- og tæknifólk var sameinað í verkefnum til að finna lausnir saman. Þó að slík verkefni hafi haft sína kosti lentu þau oft í tækniskuld vegna skammra þróunartíma og urðu hálf munaðarlaus á milli ólíkra deilda. Þórdís fór einnig yfir fyrstu skrefin í  innleiðingu og  þær áskoranirnar sem koma upp. Þar mátti nefna óljós hlutverk sem ollu árekstrum um hver ætti að gera hvað, samskipti milli teyma tók tíma að þróast þar sem sum teymi gleymdust í ferlinu, lengri þróunartími sem með auknum kröfum til prófana og öryggis og breytingu á áherslum þar sem fókusinn færðist frá einstökum verkefnum yfir á viðskiptavininn.

Í stað vörustjóranna er Íslandsbanki núna með vörueiganda, forstöðumann vörulausna og þróunarteymi sem vinna saman. Þórdís sagði svo að helstu ávinningar slíks skipulags væri skýrari sýn, aukin gæði lausna, að þau væru að vinna réttu vegferðirnar og þegar uppi er staðið með betri samvinnu milli teyma.

Erlingur Fannar JónssonSíðastur var svo fyrirlesturinn „Vörustýring, þjónusta og föðurhlutverkið“ sem Erlingur Fannar Jónsson, sameindalíffræðingur og verkefnastjóri, flutti. Hann var á mun persónulegri nótum en hinir fyrirlesararnir þar sem hann tók eigin fjölskyldu sem dæmi til að útskýra mikilvægi þess að þekkja notendur og veita þeim góða þjónustu. Sem faðir væri hann eins og gangandi vara sem þjónustar börnin sín, til dæmis með því að gefa þeim ís. Á sama tíma veitir hann þeim þjónustu sem þau meta ekki jafn mikið, eins og að setja mörk og taka þátt í uppeldinu. Þessi þjónusta hafi svo áhrif á fjárhagslega heilsu fjölskyldunnar, þar sem ís er jú dýr. Hann útskýrði hvernig hann lærir að þekkja þarfir barnanna, til dæmis með því að spyrja spurninga og hafa samskipti.

Þá fjallaði Erlingur um erkitýpur og mikilvægi þess að safna gögnum og læra af notendum til að búa erkitýpurnar til. Hann taldi upp ýmsar aðferðir til að safna þessum gögnum, svo sem með viðtölum og vettvangsferðum. Hann lagði áherslu á að virkja sem fjölbreyttastan hóp fólks til að þróa erkitýpurnar, ekki aðeins fyrir notendur heldur einnig fyrir hagsmunaaðila. Því næst bjó Erlingur til erkitýpur fyrir börnin sín og útskýrði notendaferðalag þeirra. Með því sýndi hann hvernig hann nálgast þarfir þeirra og bregst við þeim á mismunandi hátt, eftir því hvaða þjónustu þau þurfa. Með því að notast við erkitýpurnar var hægt að sjá þetta ferðalag fyrir að einhverju leyti.

Í lokinn voru umræður og kallað eftir spurningum úr sal. Spurningu var beint til Þórdísar um hver væri í raun munurinn á vörueiganda og vörustjóra hjá Íslandsbanka. Hún svaraði því að hlutverk fyrrum vörustjóra skiptist núna milli vörueiganda og forstöðumanns vörulausna. Spurningu var svo beint til Erlings um hvort ekki væri sniðugt að búa til almennar erkitýpur til eiga á lager. Hann svaraði því að þegar skalinn væri orðinn stór væri sniðugt að koma sér upp slíkri tólakistu.

Ásta Gísladóttir tók saman

-> Nánar um viðburðinn

Skoðað: 142 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála